Hannar hálsmen fyrir Dorrit

„Hún minntist eitthvað á þetta við mig, ég er alveg til í þetta,“ segir Eggert Pétursson, listamaður, en Dorrit Moussaieff forsetafrú bað Eggert um að hanna fyrir sig hálsmen. Eggert segir að Dorrit hafi nefnt þetta við sig þegar hún tók við Hjartaarfinum í síðustu viku sem Eggert hannaði, Dorrit hefur ákveðnar hugmyndir varðandi menið.

„Hún var með ákveðna tíu rauða steina í huga, ég þyrfti að fá að velta þessu fyrir mér og útfæra þetta,“ segir Eggert en Dorrit ætlaði að senda honum ljósmyndir af steinunum. Aðspurður um hvað forsetafrúin ætli að borga honum fyrir hönnunina á hálsmeninu segir hann að það sé óráðið. „Ég hef ekki hugmynd um það, það fer eftir því hvert málefnið er. Það kostar ekki neitt ef það er til styrktar einhverjum, ég veit ekki alveg hvað hún er að hugsa.“

Eggert hannaði hjartaarfinn sem er seldur til styrktar hjartveikum börnum en býst ekki við því að fara út í skartgripahönnun í komandi framtíð. „Það er gaman að hanna svona skartgripi þó ég hafi nú ekki gert það áður en ég hannaði Hjartaarfinn, ég ætla nú ekki að fara snúa við blaðinu og gera skartgripahönnuður,“ segir Eggert sem starfar sem listmálari. Dorrit hefur búið á Englandi drjúgan hluta ævi sinnar og er vel tengd þar í landi, bæði í samkvæmis- og viðskiptalífinu. Í viðtali við DV sagði hún að hún myndi reyna selja allt sem hún gæti fyrir Ísland.

bodi@dv.is

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.