Elliheimilið fer í hart

Mynd: Mynd: DV

Dvalar- og hjúkrunarheimilið Grund hefur kært til ríkissaksóknara ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að fella niður kæru á hendur blaðakonunni Ingibjörgu Dögg Kjartansdóttur. Ingibjörg réð sig í vinnu á Grund og skrifaði greinar um upplifun sína þar í tímaritið Ísafold. Ákvörðun Grundar kemur henni mjög á óvart og telur Ingibjörg sig engin lög hafa brotið.

„Það kom mér mjög á óvart að fá þessa tilkynningu um að Grund ætlaði að áfrýja til ríkissaksóknara. Ég taldi þessu máli lokið þegar lögreglan gaf það út að það væri ekki tilefni til að rannsaka það frekar, ég hefði ekki brotið lögin. Enda tel ég það afar langsótt að kæra mig fyrir húsbrot, þar sem ég starfaði á þessum vinnustað og skrifaði grein um þá reynslu,“ segir Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, ritstjóri Nýs lífs. Hún er nú í fæðingarorlofi og eyðir dögunum með rúmlega vikugömlum syni sínum.

Lá bjargarlaus á gólfinu

Ingibjörg Dögg réð sig til starfa á Grund árið 2006 og vann þar um hríð. Hún skrifaði síðan greinar í tímaritið Ísafold um upplifun sína á staðnum og aðbúnaði eldri borgara sem þar dvelja. Grund kærði Ingibjörgu til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í kjölfarið fyrir húsbrot.

Ingibjörgu var ekki gert að skrifa undir trúnaðarsamning við stofnunina. Greinarnar báru yfirskriftina „Endastöðin“ og voru þar meðal annars birtar frásagnir starfsmanna af eldri konu sem féll úr rúmi sínu í gólfið með þeim afleiðingum að hún beinbrotnaði. Konan lá bjargarlaus á gólfinu við rúmið klukutímum saman án þess að neinn kæmi henni til hjálpar, að því er kemur fram í greininni.

Enginn fótur fyrir sakargiftum

Grund kærði Ingibjörgu Dögg fyrir húsbrot á grundvelli 231. greinar hegningarlaga. Þar segir í fyrstu málsgrein: „Ef maður ryðst heimildarlaust inn í hús eða niður í skip annars manns, eða annan honum óheimilan stað, eða synjar að fara þaðan, þegar skorað er á hann að gera það, varðar það sektum eða fangelsi allt að 6 mánuðum.“

Í bréfi dagsettu 7. október var stjórn Grundar og Ingibjörgu Dögg tilkynnt að lögreglan myndi ekki aðhafast frekar í málinu þar sem ekki væru nægar líkur á því að það myndi leiða til sakfellingar.

Gunnar Ingi Jóhannsson, verjandi Ingibjargar Daggar, segir niðurstöðu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu ekki koma á óvart. „Þetta er eina skynsamlega niðurstaðan í málinu. Það var aldrei neinn fótur fyrir þessum sakargiftum. Ég er sannfærður um að sú ákvörðun að fella niður málið verður staðfest,“ segir hann.

Grund unir þeirri niðurstöðu hins vegar ekki og hefur kært úrskurðinn um að láta málið falla niður til ríkislögreglustjóra

Tvö ár í rannsókn

Ingibjörg er undrandi yfir ákvörðun Grundar. „Ég er þess fullviss að ég hef ekki brotið lögin og hlakka til að þessi máli ljúki, sem nú hefur verið í rannsókn undanfarin tvö ár. Reyndar tel ég að á þeim tíma hefði það átt að vera löngu ljóst ef ég hefði brotið á rétti einhvers. En að sjálfsögðu mun ég mæta því sem fyrir mig er lagt og svara fyrir þessa grein,“ segir hún.

Niðurstöðu ríkissaksóknara er nú beðið um hvort ákvörðun lögreglunnar um að fella málið niður verður staðfest eða hvort það verður tekið upp að nýju. Gunnar Ingi segist hins vegar ekki hafa nokkra trú á að það verði gert.

Þegar DV leitaði viðbragða hjá Grund fengust þau svör að hvorki forsvarsmenn né lögmaður myndi tjá sig um málið á meðan það væri enn í höndum lögreglu eða saksóknara.

Tekið skal fram að Nýtt líf og DV heyra bæði undir útgáfusamsteypuna Birtíng. Ísafold gerði það sömuleiðis.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.