Þú getur sparað milljón á ári

Mynd: DV-mynd Sigtryggur Ari

Þeir sem losa sig við tveggja milljón króna bíl, sem er á bílaláni, geta sparað sér 150 þúsund krónur á mánuði. Fyrir þann pening geturðu hæglega farið erlendis í hverjum mánuði, eða leigt þér aðra íbúð. Jafnvel þó engar skuldir hvíli á bílnum getur hann kostað milljón á ári. Því er hægt að spara mikið taki fólk strætisvagn fram yfir einkabílinn.

FÍB hefur tekið saman hvað það kostar að eiga nýjan bíl í dag. Kostnaðurinn hefur hækkað um 17 prósent að meðaltali frá því í janúar.

Í stað þess að eiga og reka nýjan og tiltölulega ódýran bíl gætir þú boðið maka þínum í bíó og pantað þér 16 tommu Wilsons pizzu með tveimur áleggstegundum og tvo lítra af Pepsi alla daga mánaðarins. Þú gætir leigt þér auka íbúð undir tómstundir eða önnur gæluverkefni, eða rúntað um höfuborgina í leigubíl á hverjum einasta degi. Kostnaðurinn nemur 100 þúsund krónum á mánuði að því gefnu að þú eigir bílinn skuldlaust.

Til útlanda í hverjum mánuði

Á hverjum degi greiðir þú að lágmarki 3.225 krónur fyrir það eitt að eiga bíl sem kostar rétt rúmar 2 milljónir króna og er ekið 30 þúsund kílómetra á ári. Rekstrarkostnaður við slíkt farartæki nemur 1,2 milljónum króna á ári, að því gefnu að þú eigir bílinn. Það gera 100 þúsund á mánuði. Akir þú 15 þúsund kílómetra á ári nemur kostnaðurinn 895 þúsund krónum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.