Ár síðan Jón Kristinn lagði flöskunni: „Vildi ekki vera valdur að vanlíðan annarra“

Blinda drap flugmannsdrauminn - Stýrði kosningum - Ræðismaður Seychelles-eyja - Íhlutun og meðferð

„Við áttum að fara í skólann en mamma vakti mig og sagði að pabbi hefði lent í slysi“
Flugmannssonur „Við áttum að fara í skólann en mamma vakti mig og sagði að pabbi hefði lent í slysi“
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Jón Kristinn Snæhólm er maður sem Íslendingar þekkja best úr þáttunum Heimastjórnin sem sýndir voru á sjónvarpsstöðinni ÍNN þar sem rætt var um þjóðfélagsmál. Hann hefur einnig verið tengdur Sjálfstæðisflokknum frá unglingsárum, tekið þátt í kosningastjórn og verið virkur í starfi bæði hérlendis og erlendis. Jón hefur komið víða við á sínum fimmtíu árum, bæði í einkalífi og starfsferli, og dúkkað upp á ólíklegustu stöðum. Kristinn hjá DV hitti hann að máli á skrifstofu Cordi, nýstofnuðu tæknifyrirtæki þar sem Jón starfar sem stjórnarformaður. Ræddu þeir saman um æskuna, flugdrauminn, stjórnmálin og áfengisvandann en Jón fagnar nú því að ár er liðið síðan hann lagði flöskuna á hilluna.

Sendur að leita að Geirfinni

Jón Kristinn fæddist árið 1967 og ólst upp á Kársnesinu í Kópavogi, eldri sonur hjónanna Harald Snæhólm flugmanns og Þórunnar Hafstein íslenskufræðings. Hann var mjög náinn föðurafa sínum, Nirði H. Snæhólm, yfirlögregluþjóni hjá Rannsóknarlögreglu ríkisins, og varði miklum tíma með honum sem barn. Njörður var einnig flugmaður og hafði meðal annars tekið þátt í að berjast með norska flughernum gegn Þýskalandi nasismans. „Hann var mikill ævintýramaður og sagði mér sögur bæði úr stríðinu og lögreglustörfunum. Hann kenndi mér líka að skrúfa skammbyssur og vélbyssur í sundur og saman, sýndi mér hvernig sprengjur virkuðu og fleira. Á þessum tíma var Geirfinnsmálið í hámæli og ég gekk um hraun með afa. Þar sem ég var lítill og liðugur var ég sendur ofan í gjótur og inn um sprungur til að leita að líkinu.“

Langaði þig að verða lögga?

„Nei, en ég hafði mikinn áhuga á fluginu. Það var alltaf talað um flug heima. Loftleiðavinirnir hans pabba komu í heimsókn og gömlu flugsveitarfélagarnir hans afa, þetta voru allt miklir töffarar.“ Harald hafði meðal annars flogið með vistir í borgarastyrjöldinni í Bíafra, undir leiðsögn Þorsteins Jónssonar stríðshetju. „Ég var vinamargur sem barn en mér leið alltaf best í kringum eldra fólk og í einhverju grúski.“

Jón segir að æska sín og jafnaldra sinna hafi verið eftirlitslausari en nú á tímum. „Við kveiktum í sinu, byggðum kofa, teikuðum, sprengdum kínverja og molotov-kokteila og sigldum út á Voginn á heimatilbúnum flekum. Í dag yrðu foreldrar sviptir forræði ef þeir létu svona viðgangast.“ Hann segist ekki hafa verið vandræðaunglingur en hafi vissulega tekið þátt í þeim prakkarastrikum sem jafnaldrar hans stunduðu. „Ég lifði mjög ævintýralegri og góðri æsku. Pabbi var flugstjóri hjá Loftleiðum og síðar Flugleiðum, sem þýddi að stundum var maður sóttur í skólann og var allt í einu kominn til Flórída sjö klukkustundum síðar. Það voru forréttindi að vera sonur flugstjóra og heimurinn var opinn fyrir mér.“

Í föðurættinni var fólk af vinstri vængnum en móðurættin var af borgaralegu tagi. Afabróðir hans í móðurætt var Jóhann Hafstein, formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra í viðreisnarstjórninni. „Æska mín var því nokkuð tvískipt. Á sunnudögum fórum við úr fjörugöllunum og í blazer-ana í heimsókn út á Ægisíðu.“

Harald í mannskæðu flugslysi á Sri Lanka

Þann 15. nóvember árið 1978 átti sér stað mesta flugslys í sögu Íslands þegar Loftleiðavél af gerðinni DC-8 hrapaði í aðflugi nálægt flugvellinum í Colombo í Sri Lanka. Vélin var að flytja íslamska pílagríma frá Indónesíu til Sádi-Arabíu og átti að millilenda í borginni. Um 180 manns af 260 fórust, þar af átta úr íslenskri áhöfn vélarinnar. Fimm úr áhöfninni lifðu af, þar af Harald, faðir Jóns.

„Þetta var í fyrsta skipti sem ég sá pabba, sem var hetjan mín, varnarlausan og liggjandi á sjúkrarúmi“

„Ég man þetta mög skýrt. Við áttum að fara í skólann en mamma vakti mig og sagði að pabbi hefði lent í slysi. Hann væri ekki dáinn en mjög mikið slasaður.“ Á þessum tíma var talsamband við útlönd frumstætt og allar upplýsingar af skornum skammti í marga daga á eftir. „Í hvert skipti sem pabbi flaug út sagði hann við mig að nú þyrfti ég að passa mömmu og litla bróður. Þegar slysið gerðist kom þessi ábyrgðartilfinning yfir mig þó að ég hafi bara verið ellefu ára gamall.“

Harald var fluttur heim með sjúkraflugvél en hann hafði slasast mjög illa, var beinbrotinn í baki og skorinn víða. „Þetta var í fyrsta skipti sem ég sá pabba, sem var hetjan mín, varnarlausan og liggjandi á sjúkrarúmi. Ég fékk að fara með honum í sjúkrabílnum í bæinn en við þurftum að stoppa í Hafnarfirði því að kafteinninn var svo svangur. Tvær pylsur með öllu og tvær litlar kók fóru ofan í hann.“

Eftir sex mánaða endurhæfingu var Harald kominn aftur í loftið. „Það var ekki til neitt sem hét áfallahjálp á þessum tíma. Við misstum góða vini í þessu slysi og minning þeirra er í hávegum höfð á mínu heimili. Þetta er alltaf þarna.“

Áfall að geta ekki orðið flugmaður

Jón segist hafa verið staðráðinn í að verða flugmaður eins og faðir sinn og afi. Ætlunin var að klára svifflugið sextán ára, síðan í menntaskóla, klára síðan einkaflugnámið og loks atvinnuflugnámið. „En svo kom höggið.“

Eftir að hafa tekið einkaflugmannsprófið í svifflugi árið 1983 fór Jón í læknisskoðun. Þar var honum sagt að hann gæti aldrei orðið flugmaður þar sem hann væri blindur á öðru auga. Sjóntaugin inn í augnbotninn hafði verið ónýt frá fæðingu en auk þess lenti hann í slysi sem barn þegar hann rak augað í stólfót. „Ég vissi ekki að ég þyrfti að hafa sjón á báðum augum til að fljúga. Mamma fór með mig til helsta augnsérfræðings landsins og hann staðfesti að ég myndi aldrei verða flugmaður.“

Jón fékk þó að halda svifflugmannsréttindum sínum þar sem enginn farþegi situr í slíkum vélum. „Ég náði að svala mínum flugáhuga með sviffluginu og að vera í flugstjórnarklefanum með pabba því hann átti alltaf vélar. Að fljúga farþegum frá A til B var ekki aðalatriðið í mínum huga. Heldur að fljúga, vera innan um flugvélar, tala og skrifa um flugvélar, fara á söfn og fleira.“

Varaformaður og verndari Ungra íhaldsmanna í Evrópu
Jón og Margaret Thatcher Varaformaður og verndari Ungra íhaldsmanna í Evrópu

Á bak við tjöldin

Í stað flugdraumsins tók við sagnfræði og stjórnmálafræðinám við Háskóla Íslands og Háskólann í Edinborg. En einnig virk þátttaka í stjórnmálum. Sem barn fékk hann áhuga á stjórnmálum eftir að hafa heyrt sögur frá föður sínum, afa og ömmu frá hernámi Þjóðverja í Noregi. Fimmtán ára gamall var hann dreginn á fund hjá Tý, félagi Sjálfstæðismanna í Kópavogi og svo á þing hjá SUS, sambandi ungra Sjálfstæðismanna. Hann tók að sér ýmis trúnaðarstörf og sat í bæjarstjórn Kópavogs um tíma. „Sjálfstæðismönnum úr Kópavogi var nú strítt á þessum tíma. Þá var Davíð borgarstjóri í Reykjavík en félagsmálaöflin höfðu verið í meirihluta í Kópavogi í tólf ár. Sagt var að þetta væri eins og munurinn á Austur- og Vestur-Berlín.“

Auk þess starfaði Jón mikið á erlendum vettvangi með Guðlaugi Þór Þórðarsyni, nú utanríkisráðherra. Um tíma var Jón varaformaður ungra íhaldsmanna í Evrópu og myndaði þá sterk tengsl við hægrimenn víða um álfuna, sérstaklega í Bretlandi.

Langaði þig aldrei á þing?

„Nei, eftir námið ákvað ég að fara ekki hina akademísku leið heldur fór beint í viðskipti. Ég starfaði í kosningastjórn og studdi mína menn en ég hafði ekki áhuga á að fara inn á þing. Ég taldi mig þekkja þingstarfið vel í gegnum vini mína og taldi þetta heftandi.“

Jón er þekktur sem maðurinn á bak við tjöldin og hefur verið í kosningastjórn hjá til að mynda Guðlaugi Þór, Vilhjálmi Vilhjálmssyni borgarstjóra, Ármanni Kr. Ólafssyni, bæjarstjóra í Kópavogi og Eyþóri Arnalds í bæjarstjórn Árborgar.

„Ég hef bæði unnið og tapað kosningum í mörg skipti“

Hvernig vinnur maður kosningar?

„Ég hef bæði unnið og tapað kosningum í mörg skipti. Það sem skiptir mestu máli er frambjóðandinn sjálfur, útgeislunin og þekkingin. Ef það er ekki til staðar skiptir skipulag kosningabaráttunnar litlu máli. Ég styð ekki fólk sem ég skynja að er ekki nálægt mér í lífsskoðunum og tel að eigi ekki erindi. Ég hef sagt fjölmörgum aðilum það og uppskorið litlar vinsældir fyrir vikið.“

Viðskipti og Umhyggja

Eftir námið fór Jón út í tryggingabransann hjá Ísvá og seldi söfnunarlíftryggingar að breskri fyrirmynd. Fyrirtækið stækkaði ört og tók yfir Allianz á Íslandi sem var þá næstum gjaldþrota. Jón var stjórnarformaður hjá Ísvá og Hreinn Loftsson hjá Allianz og var náið samstarf þar á milli. Jón var auk þess stjórnarformaður í verðbréfafyrirtækinu Fjárvernd. En laust eftir aldamótin fór að halla undan fæti.

„Árin eftir fyrri kreppuna árið 2001 fóru í að reyna að bjarga þessum fyrirtækjum, sem tókst nema með Ísvá. Það fór undir og þar á meðal ábyrgðir sem ég var í fyrir næstum því hundrað milljónir króna. Þetta lenti á mér og ég ætlaði ekkert í viðskipti aftur.“

Jón tók kúvendingu á sínum ferli og hóf störf fyrir Umhyggju, félag til styrktar langveikum börnum. Náinn samstarfsmaður hans og vinur hafði misst fjögurra ára dóttur sína úr sjaldgæfum sjúkdómi. „Hann bað mig um að koma inn í styrktarsjóðinn, sem var nú ekki burðugur. Ég starfaði þarna sem verkefnisstjóri og við náðum að gera hann nokkuð stöndugan. Þetta voru gefandi og góðir tímar.“

Hann hefur sinnt ýmsum ólíklegum verkefnum í gegnum tíðina. Til dæmis aðstoðaði hann Hjördísi Svan Aðalheiðardóttur, sem stóð í mikilli forræðisdeilu, að flýja með þrjár dætur sínar til Íslands frá Kristiansand í Noregi árið 2013. Notaði hann þar tengslanet sitt til að leigja flugvélina. Nú aðstoðar hann Sunnu Elviru Þorkelsdóttur, sem féll af svölum í Malaga, við að komast heim til Íslands.

„Vinkona mín liggur lömuð í Malaga á spítala sem er ekki að sinna henni. Hver einasta mínúta er dýrmæt en þjóðin brást við á tveimur sólarhringum og safnaði fyrir sjúkrafluginu heim. Nú erum við að bíða eftir leyfi frá spænskum yfirvöldum.“

Af hverju tekur þú að þér svona verkefni?

„Það er eitt orðatiltæki sem ég vil lifa eftir. Vondir hlutir gerast þegar góðir menn aðhafast ekkert. Í þessum tilfellum hef ég haft bæði getuna og viljann til að takast á við þetta. Það er mikið af fólki sem veit ekki hvert það á að leita í sínum vandamálum og ég er með gott tengslanet.“

Sjálfstæðisflokkurinn hefur tapað uppruna sínum

Eftir starfið í Umhyggju aðstoðaði Jón Vilhjálm Vilhjálmsson í borgarstjórnarkosningunum árið 2006. Sjálfstæðisflokkurinn komst í meirihluta og Vilhjálmur varð borgarstjóri í eitt og hálft ár. Þá starfaði Jón sem aðstoðarmaður hans. „Vilhjálmur dró mig á þann stað að hugsa um þá sem minna mega sín í samfélaginu, eldri borgara og öryrkja. Þetta voru málaflokkar sem voru ekkert í tísku á þessum árum. Hann kenndi mér jafnvel meira en ég hafði lært í stjórnmálafræðináminu í háskólanum.“

Á síðasta ári vakti Jón athygli fyrir að gagnrýna flokksforystu Sjálfstæðisflokksins í þætti sínum Heimastjórninni á sjónvarpsstöðinni ÍNN. Þar sagði hann að flokkurinn hefði í seinni tíð ekki haldið nógu vel utan um barnafjölskyldur, ellilífeyrisþega og öryrkja.

„Þá getur hann haft fylgi svipað og aðrir íhaldsflokkar í Skandinavíu, fimm til tíu prósent. Versegú“
Gagnrýninn á Sjálfstæðisflokkinn „Þá getur hann haft fylgi svipað og aðrir íhaldsflokkar í Skandinavíu, fimm til tíu prósent. Versegú“
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Hvernig hefur flokkurinn brugðist?

„Flokkurinn er búinn að tapa uppruna sínum. Flokkurinn hefði ekki verið svona stór og öflugur ef hann hefði ekki verið umbótaflokkur á þessum sviðum og byggt upp félagslega kerfið með mildri borgaralegri stefnu. Sjálfstæðisflokkurinn er ekki klassískur íhaldsflokkur og hefur aldrei verið það. Ef hann fer að reyna að vera það og hættir að horfa á þjóðfélagið eins og eina lífræna heild, stétt með stétt, og hættir að skilja að félagslega grunnnetið verður að vera traust þá á hann ekkert skilið að vera stærsti flokkur landsins. Þá getur hann haft fylgi svipað og aðrir íhaldsflokkar í Skandinavíu, fimm til tíu prósent. Versegú.“

Jón bendir á að flokkurinn hafi alla tíð haft mikið fylgi flestra stétta, ekki síst verkafólks. „Flokkurinn talar ekki lengur til verkafólks. Af hverju er Miðflokkurinn til? Eða Flokkur fólksins? Eða Viðreisn? Þingmennirnir sem eru þarna inni eru aldir upp í Sjálfstæðisflokknum.“

Hvernig gerðist þetta?

„Þetta hófst þegar farið var frá þeirri stefnu Davíðs Oddssonar að vera með dreift eignarhald á fjármálafyrirtækjum og klíkumyndun í bönkunum byrjaði. Þá myndaðist auðstétt sem taldi sig ekki þurfa að lifa í sama samfélagi og aðrir.“

Mun þessi þróun halda áfram í flokknum?

„Ég ber þá von að samstarfið við Vinstri græn muni draga okkur aftur að upprunanum. Ég var mikill talsmaður þessa samstarfs.“

Ræðismaður paradísar á Indlandshafi

Jón er fráskilinn, faðir tveggja uppkominna barna. Fyrir um tuttugu árum síðan, þegar þau hjónin áttu von á sínu seinna barni, ákváðu þau að ferðast á óákveðinn stað á jarðkringlunni. Þau sneru hnetti og fingurinn lenti á Seychelles-eyjum í Indlandshafi.

„Ég faxaði forsetanum bréf úr stofunni heima og lýsti því að þó að Ísland og Seychelles-eyjar væru hvor sínum megin á hnettinum þá væru þetta eyríki sem lifðu á fiskveiðum og þyrftu á aukinni umræðu um verndun hafsins og hafréttarmál að halda. Síðan fórum við út.“

Þegar fjölskyldan sneri til baka var rúllan á faxvélinni komin niður á gólf og Jóni boðin staða ræðismanns sem hann hefur gegnt síðan.

Er þetta mikið starf?

„Nei, alls ekki. Að vísu tóku einkaaðilar að sér að tölvuvæða grunnskólakerfi landsins árið 2007 og ég aðstoðaði við það. Reykjavíkurborg kostaði svo tvo tölvukennara til að kenna grunnskólakennurunum. Síðan hef ég leiðbeint þeim Íslendingum sem vilja fara þangað. Þetta er algjör paradís á jörð, með fallegustu ströndum heims og risaskjaldbökum sem hvæsa á mann.“

Börnin spurðu hvort hann væri að drekka

Um þessar mundir fagnar Jón því að ár sé liðið frá því að hann sagði skilið við Bakkus. Hann byrjaði að fikta við að drekka 15 eða 16 ára gamall en áfengisneysla varð ekki að vandamáli fyrr en seinna á lífsleiðinni. Jón lýsir því hvernig Bakkus færði sig sífellt framar í lífsrútunni þar til hann tók sjálfur um stýrið en Jón fór í farþegasætið.

„Þetta verður að vandamáli þegar þú ert farinn að lofa sjálfum þér á morgnana að drekka aldrei aftur því að þynnkuköstin eru svo mikil. Hjá mér ágerðist þetta sífellt en ég var ekki blindfullur alla daga eða að týnast eða að skandalísera. Vín gerði mig mjög hamingjusaman og rólegan mann.“

En Jón lýsir því að fólk var farið að koma til hans og segja að það hafi verið vínlykt af honum á hinum og þessum tímapunktum og hann vissi að það var rétt. Hann var farinn að skipuleggja daginn út frá neyslunni, hvaða vinir væru líklegir til að vera að fá sér, hvaða viðskipta- eða stjórnmálahóf væri í gangi. Þegar hann fór á Leifsstöð var farið beint á barinn, sama hvað klukkan var. Þegar farið var í ferðalög varð birgðastaðan á áfenginu alltaf að vera í lagi. Um tíma var þetta þó ómeðvituð hegðun.

Jón og eiginkona hans skildu árið 2010. Á því ári hætti hann að drekka í níu mánuði og sótti einn AA-fund. „Mér fannst þetta skrítið þá og gerði ekkert mikið úr þessu. Ég hélt að þetta væri eins og að hætta að drekka gos eða borða einhverja matartegund. Síðan byrjaði ég aftur að drekka.“

Jón gerði sér í sífellu betur grein fyrir vandanum. Börnin hans tvö, sem voru orðin stálpaðir unglingar, voru farin að hafa orð á þessu við hann. „Þau spurðu hvort ég væri að fá mér þegar þau voru að koma til mín. Ég lifði í blekkingum varðandi þetta og sagði við sjálfan mig að ég hefði kannski fengið mér of mikið síðast þegar börnin voru hjá mér ... en þá var það kannski búið að gerast tíu eða tuttugu sinnum. Þér finnst þetta allt í lagi og telur þér trú um að enginn sé að tala um þetta.“

Þegar Jón gerði sér grein fyrir að fólk væri farið að tala um þetta var viðbragðið að drekka einn eða í mjög þröngum hópi, hópi sem hann vildi ekki annars umgangast. Hann tók líka eftir því að hann var farinn að gera fólki ýmsa vinargreiða, svo sem að hjálpa til við flutninga, til þess eins að eiga inni „bónuspunkta“ og fyrirgefningu fyrir drykkjunni. „Fólk nýtir sér alkóhólista að þessu leyti og alkóhólistinn verður þræll eigin fíknar til að hjálpa öðrum. Það var stór partur af batanum að geta sagt nei.“

Undir það síðasta var drykkjan farin að koma niður á störfum og fjölskyldulífi Jóns. „Ég varð að fresta fundum og þol mitt fyrir skoðunum annarra var lítið. Síðan fólst í þessu mikil félagsleg einangrun. Samskipti við mína nánustu skiptu mig mestu máli og ég taldi mig vera góðan föður. Ég vildi ekki klúðra því. Líka við mína fyrrverandi, við erum vinir. Ég vildi ekki horfa upp á að vera valdur að vanlíðan annarra algjörlega að ósekju.“

„Ég gleymi því aldrei að Obsession-rakspírinn minn var tekinn því mér var sagt að fólk drykki rakspíra þarna inni“
Baráttan við Bakkus „Ég gleymi því aldrei að Obsession-rakspírinn minn var tekinn því mér var sagt að fólk drykki rakspíra þarna inni“
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Þung skref inn á Vog

Þann 25. janúar komu nokkrir góðir vinir Jóns til hans og gerðu það sem kallað er íhlutun. Þeir sögðu honum að áfengisneyslan háði honum, hann væri að verða ótrúverðugur, fólk væri að tala mikið um drykkjuna og þeir gætu ekki horft upp á þetta lengur. „Þá voru þeir búnir að fá inni á Vogi fyrir mig og ég átti að mæta daginn eftir. Það var þögn í tvær sekúndur en þá kom eitthvað yfir mig og ég sagðist ætla að fara í meðferðina. Ég vissi ekki einu sinni hvar Vogur var.“

Jón segir að það hafi verið þung skref að stíga inn á Vog, og ennþá þyngri þegar hann var látinn hátta og leitað í farangri hans. „Ég gleymi því aldrei að Obsession-rakspírinn minn var tekinn því mér var sagt að fólk drykki rakspíra þarna inni.“

Eitt vandamál sem Jón þurfti að takast á við var að vanmeta ekki sjúkdóminn. Þarna inni var fólk sem hafði farið í meðferð svo tugum skiptir. „Maður situr og hlustar á sögur sem eru langtum svæsnari en manns eigin og þá fer maður að hugsa með sér: Ég er ekki alkóhólisti, ekki miðað við þetta. En þarna er hætta sem maður verður að vara sig á.“

Eftir nokkra daga fór Jón í eftirmeðferð á Staðarfell á Fellsströnd. Þar lærði hann um sjúkdóminn og skömmin hvarf smám saman. „Þetta er banvænn heilasjúkdómur. Það er enginn heilbrigður maður sem drekkur sig til dauða og skaðar fólk í kringum sig í leiðinni. Þegar ég fékk þennan lærdóm varð ég ákaflega feginn.“

Hvernig hefur meðferðin breytt þér sem persónu?

„Alkóhólið var að breyta mér sem persónu. Ég er kominn til baka. Virknin, öryggið, húmorinn og góð samskipti við börnin mín er það sem skiptir mestu máli. Ég er líka orðinn mun slakari með hluti sem ég hef engin áhrif á. Hvort Trump sé asni, eða hvort Sjálfstæðisflokknum eða Íhaldsflokknum gangi illa.“

Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.