fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fókus

Stendur uppi sem sigurvegari eftir ofbeldisfulla æsku

Var 117 kíló og er nú einkaþjálfari – Flutti að heiman sextán ára – Missti tvær vinkonur í hræðilegu bílslysi

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Laugardaginn 27. janúar 2018 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sveindís Guðmundsdóttir er 25 ára einkaþjálfari. Hún átti mjög erfiða æsku en stendur uppi sterkari fyrir vikið. Sveindís lýsir æskuheimilinu sem ofbeldisfullu. Hún þurfti að horfa upp á móður sína beita föður sinn líkamlegu og andlegu ofbeldi. Móðir Sveindísar yfirfærði síðar ofbeldið á hana, að sögn Sveindísar. Sveindís var sextán ára þegar hún flutti að heiman.

Sveindís var alltaf í mikilli baráttu við þyngd sína þegar hún var yngri. Eftir að hafa misst tvær bestu vinkonur sínar í hræðilegu bílslysi þegar hún var átján ára missti Sveindís öll völd. Hún var 117 kíló þegar hún ákvað að breyta um lífsstíl. Í dag stendur Sveindís uppi sem sigurvegari. Hún er hamingjusöm, á heilbrigt samband við hreyfingu og mat, er útskrifuð sem einkaþjálfari og er stolt af manneskjunni sem hún er.

Ofbeldisfullt og spennuþrungið æskuheimili

Hvernig var æskuheimili þitt?

„Ég sofnaði oft með puttana í eyrunum vegna þess að mamma var að öskra á pabba minn og berja hann“

„Það var ekkert heimili, held það sé best að lýsa því þannig. Ekki allavega eins og þessi hefðbundnu fjölskylduheimili. Ég mátti ekki gera neitt sem barn, eins og fá vini heim. Ef mamma var heima var andrúmsloftið mjög þungt og spennuþrungið, eins og maður væri alltaf að gera eitthvað rangt af sér. Mamma beitti pabba andlegu og líkamlegu ofbeldi. Ég sofnaði oft með puttana í eyrunum vegna þess að mamma var að öskra á pabba minn og berja hann. Ég var mjög mikill kvíðasjúklingur út af þessu. Ég vaknaði stundum á næturnar og gat ekki andað,“ segir Sveindís.

Foreldrar Sveindísar skildu þegar hún var tíu ára gömul. „Mamma fékk forræði yfir mér en þetta var manneskja sem ég í raun þekkti ekki. Eina sem hún gerði var að ganga með mig, hún var ekki með neitt móðureðli gagnvart mér sem barni. Þegar mamma og pabbi skildu fór allt ofbeldið, sem hún var vön að beita pabba, yfir á mig. Það var alltaf eitthvað á hverjum degi. Hún lamdi mig mjög oft og reglulega en andlega ofbeldinu beitti hún mig á hverjum degi. Mér fannst eins og ég gæti ekki neitt. Hún var alltaf að líkja mér við föður minn og snúa mér gegn honum. Maðurinn sem var ljósið mitt í lífinu þegar ég var barn. Það er algjörlega honum og systrum mínum að þakka að ég átti einhverja æsku,“ segir Sveindís. Sveindís á tvær eldri systur sem voru báðar fluttar út þegar foreldrar hennar skildu.

„Ég hitti ekkert pabba frá því að foreldrar mínir skildu þangað til ég var sextán ára. Í þessi sex ár sem ég bjó með mömmu hugsaði ég um hana. Hún var mikill sjúklingur og lét mig sjá um að sprauta sig og gefa sér lyf. Fjórir innikettir bjuggu á heimilinu. Þeir voru allir inni í mínu herbergi og kattasandurinn þeirra einnig. Lyktin var óbærileg. Ég vaknaði oft á næturnar og grátbað mömmu um að leyfa mér að setja kettina út í skúr svo ég gæti sofið vel í eina nótt. En henni var alveg sama. Ég tel mig vera lungnasjúkling í dag út af þessu.“

Fékk nóg

„Ég fékk nóg á þessu augnabliki og ákvað að þetta yrði ekki líf mitt áfram, mitt líf væri mikilvægara en þetta,“ segir Sveindís um síðasta skiptið sem móðir hennar lagði hendur á hana.
Örlagaríkt kvöld „Ég fékk nóg á þessu augnabliki og ákvað að þetta yrði ekki líf mitt áfram, mitt líf væri mikilvægara en þetta,“ segir Sveindís um síðasta skiptið sem móðir hennar lagði hendur á hana.

Sveindís rifjar upp örlagaríkt kvöld þegar hún var sextán ára. Kvöldið sem hún flutti út frá móður sinni. Hún hefur ekki talað við móður sína síðan.

„Strengur á þvottagrind heima hafði bognað og mamma kenndi mér um. Hún lét mig laga grindina, sem var ekki hægt. Ég sat á gólfinu hágrátandi og sagði henni að ég gæti ekki lagað hana. Mamma lamdi mig í hnakkann með handarbakinu. Á þessu augnabliki fékk ég nóg. Ég hugsaði að ég væri sextán ára gömul, stærri en mamma mín og þetta væri samt enn þá að gerast. Ég vildi ekki að þetta væri líf mitt, mitt líf væri mikilvægara en þetta. Ég fór inn í herbergi mitt og læsti á eftir mér. Mamma barði á hurðina og reyndi að komast inn. Ég var stirð úr hræðslu og hreyfði hvorki legg né lið fyrr en ég var viss um að hún væri farin í sitt herbergi. Ég var símalaus því mamma hafði tekið símann minn, en á þessum tíma gat maður sent SMS frá ja.is. Ég sendi á elstu systur mína, Lindu Maríu, og bað hana um að koma og sækja mig. Ég pakkaði síðan fötum í bakpoka og setti allt skóladót í annan bakpoka. Ég læddist fram og klæddi mig í skóna og tók svo af stað. Þegar ég var að hlaupa götuna heima heyrði ég að mamma væri að kalla á eftir mér. Ég hljóp eins og fætur toguðu. Eina sem ég gat hugsað var að ég þyrfti að komast burt. Þegar ég var viss um að hún væri ekki að elta mig gat ég loksins náð andanum,“ segir Sveindís.

Flutti út og hefur aldrei litið til baka

Sveindís útskrifaðist sem einkaþjálfari frá ÍAK síðasta sumar. „Ég finn algjörlega að ég er að vinna á mínu sviði,“ segir Sveindís.
Menntaður og starfandi einkaþjálfari Sveindís útskrifaðist sem einkaþjálfari frá ÍAK síðasta sumar. „Ég finn algjörlega að ég er að vinna á mínu sviði,“ segir Sveindís.

Ekkert bólaði á systur Sveindísar og endaði hún með að banka upp hjá fólki sem hún þekkti í bæjarfélaginu. Þaðan hringdi hún í systur sína sem sótti sig og fór með hana aftur til móður sinnar, gegn vilja Sveindísar. „Linda María áttaði sig ekki á alvarleika málsins og fór með mig heim til mömmu. Þegar við komum þangað byrjaði mamma að drulla yfir hana og sagði að hún væri alveg eins og pabbi okkar. Ég mun aldrei gleyma hvað mamma sagði við Lindu, hún sagði: „Linda María, ég fæddi þig og ól þig upp en þú hefur aldrei verið dóttir mín.“ Þetta er eitt af því versta sem móðir getur sagt við barn sitt. Þarna fékk Linda alveg nóg. Hún vissi að ég gæti ekki búið þarna lengur og sagði mér að pakka. Ég flutti inn til hennar þetta kvöld. Ég hef ekki talað við móður mína síðan þá, það verða komin tíu ár í sumar.“

Sveindís segir að móðir sín hafi sent sér nokkur skilaboð yfir árin, en hún hafi engan áhuga á að svara þeim. „Það sem mér finnst verst af þessu öllu er að enn þann daginn í dag lætur mamma eins og ekkert af þessu hafi gerst. Hún heldur því fram að ég hafi búið þetta allt til. Ég hef þurft að „blokka“ hana á öllum samfélagsmiðlum því hún reynir alltaf að senda mér skilaboð þar sem hún gerir sig að rosalegu fórnarlambi en skilaboðin eru einnig hlaðin af neikvæðum tilfinningum í minn garð.“

Sveindís hefur ekki talað við föður sinn í þrjú ár. „Stundum er maður betur staddur án foreldra, eins og í mínu tilviki. Í raun á ég enga foreldra, en ég hef það betur þannig. Það var enginn vilji að vera foreldri, ég hef þurft að sjá um mig sjálfa allt mitt líf. Ég stend uppi sterkari fyrir vikið.“

Baráttan við þyngdina

Mynd af Sveindísi á djamminu frá 2012. Þessi mynd varð til þess að Sveindís gjörbreytti um lífsstíl.
117 kíló Mynd af Sveindísi á djamminu frá 2012. Þessi mynd varð til þess að Sveindís gjörbreytti um lífsstíl.

Sveindís glímdi lengi við þyngd sína. „Frá því ég var lítið barn var ég mjög þung. Þar sem mér var ekki sinnt heima fyrir borðaði ég mikið af óhollum mat þegar ég var barn. Ég var í körfubolta þegar ég var yngri en hætti, í kjölfarið hætti ég að hreyfa mig alveg. Ég fitnaði og fitnaði en skildi ekkert í því. Ég kunni ekki að borða rétt. Þegar ég var átján ára missti ég tvær bestu vinkonur mínar í bílslysi. Eftir það missti ég algjörlega stjórn,“ segir Sveindís.

Þegar Sveindís var 16 ára var hún um 80 til 90 kíló. Eftir að hafa misst vinkonur sínar þyngdist hún um 30 kíló. „Ég var 117 kíló þegar ég sá mynd af mér á djamminu. Myndin breytti öllu. Ég sá mig sjálfa í fyrsta sinn eins og ég var. Þetta var í kringum 2012. Í kjölfarið fór ég í átak og prófaði alls konar megrunarkúra. Næstu árin sveiflaðist ég upp og niður í þyngd. Ég fann aldrei neitt sem hentaði mér. Ég var alltaf að leita að einhverri töfralausn, en í raun var ekkert heilbrigt við það sem ég var að gera.“

Árið 2015 skráði Sveindís sig í hóptíma í Sporthúsinu. Síðan þá hefur líf hennar tekið miklum breytingum. „Þarna fann ég loksins eitthvað sem mér fannst ótrúlega gaman. Ég fór loksins að sjá árangur. Hugarfarið fór að breytast til hins betra og mataræðið fylgdi. Þetta leiddi svo til þess að ég fékk mikinn áhuga á hreyfingu og því sem við kemur henni. Ég fór í einkaþjálfaranám hjá ÍAK og er útskrifuð þaðan. Ég starfa nú sem einkaþjálfari og finn algjörlega að ég er að vinna á mínu sviði. Ég vil læra meira tengt hreyfingu og heilsu.“

Stolt

Vinkonumissirinn tók mikið á Sveindísi og fór hún í kjölfarið að djamma og drekka mikið. „Ég leiddist út í eitthvert rugl sem er skrifað fyrir krakka sem upplifa það sem ég hef upplifað. Út af minni æsku þá bjóst ég einhvern veginn alltaf við því að mín saga yrði þannig að ég myndi verða einhver dópisti og eiga enga framtíð. Það hefði verið svo auðvelt fyrir mig að fara þessa leið ef ég hefði ákveðið að vera fórnarlamb. En ég hafði móður mína sem fyrirmynd í því hvernig er að vera fórnarlamb og kenna öllum öðrum en sjálfum sér um. Eina sem ég tók frá þessu uppeldi var hvernig ég ætlaði ekki að vera,“ segir Sveindís.

„Eina sem ég tók frá þessu uppeldi var hvernig ég ætlaði ekki að vera“

„Það var ákveðinn vendipunktur í lífi mínu þegar ég tók mig sjálfa í gegn. Ég trúi að það sé ástæða fyrir öllu. Það er ástæða fyrir því að ég gekk í gegnum þetta allt og þetta hefur mótað mig í manneskjuna sem ég er í dag. Ég er mjög stolt af manneskjunni sem ég er í dag, því ég get sjálfri mér þakkað fyrir hver ég er í dag,“ segir Sveindís.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Tinna þráir að hitta fjölskyldu sína á Sri Lanka – Þú getur hjálpað henni – Fékk hörmulegar fréttir af blóðmóður sinni

Tinna þráir að hitta fjölskyldu sína á Sri Lanka – Þú getur hjálpað henni – Fékk hörmulegar fréttir af blóðmóður sinni
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sjáðu myndina: Katrín gerði það sama og Davíð – Er þetta gert að ráðum almannatengla?

Sjáðu myndina: Katrín gerði það sama og Davíð – Er þetta gert að ráðum almannatengla?
Fókus
Fyrir 3 dögum

Ofurskutlan sem enginn veit hvort sé á föstu eða ekki er með skilaboð til einhleypra kvenna

Ofurskutlan sem enginn veit hvort sé á föstu eða ekki er með skilaboð til einhleypra kvenna
Fókus
Fyrir 3 dögum

Hélt framhjá með tveimur yngri mönnum – Viðbrögð eiginmannsins komu á óvart

Hélt framhjá með tveimur yngri mönnum – Viðbrögð eiginmannsins komu á óvart