Viðar langar í kærustu

Einn vinsælasti snappari Íslands, Viðar Skjóldal, er þakklátur fyrir tækifærin sem felast í miðlinum -Erfið lífsreynsla breytti lífsýninni

Hefur gengið í gegnum ýmislegt á lífsleiðinni.
Viðar Skjóldal Hefur gengið í gegnum ýmislegt á lífsleiðinni.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Viðar Skjóldal er um þessar mundir einn umtalaðasti snappari Íslands. Viðar er með þúsundir fylgjenda á samfélagsmiðlinum þar sem hann ræðir aðallega um enska boltann. Blaðamaður DV heimsótti Viðar í Hafnarfjörðinn í vikunni þar sem spjallað var um fótbolta, daglegt amstur og systur hans, Sigrúnu Kristbjörgu, sem lést árið 2010.

Öryrki eftir slys

Viðar, sem er 32 ára, er fæddur og uppalinn á Akureyri. Sautján ára gamall flutti hann til Reykjavíkur og hefur meira og minna búið á höfuðborgarsvæðinu síðan. Í dag leigir hann íbúð á Völlunum þar sem honum líkar vel. Dóttir hans, Carmen Lind, sem er átta ára býr með móður sinni í Bretlandi. Viðar er öryrki, sem má rekja til bakmeiðsla eftir slys sem hann lenti í árið 2003, en hann hefur verið frá vinnu í tæpt ár. Alkóhólisminn hefur víða komið við sögu í fjölskyldu Viðars en systir hans lést eftir tíu ára baráttu við fíkniefnadjöfulinn. Veikindi hennar og andlát gáfu Viðari nýja sýn á lífið.

Hann tekur engu sem gefnu og er þakklátur fyrir lífið. Með húmorinn að vopni, sem og skemmtilega sýn á fótbolta, hefur Viðar náð til fjölda fólks á Snapchat. Þá hefur miðillinn hjálpað Viðari að yfirstíga ýmsar hindranir en á milli fjögur og fimm þúsund manns horfa á hvert einasta myndskeið sem hann setur á Snapchat. Viðar setur markið hátt en hann vill ná upp í tíu þúsund áhorf, á hvert myndskeið, áður en hann fer að leita leiða til að hagnast fjárhagslega á því að vera snappari.

Þá fór ég líka að leggja meiri kraft í þetta. Síðan varð algjör sprengja núna í ágúst. Núna er fólk farið að biðja mig um að vera aðeins persónulegri í bland við boltann.

Aðspurður hvernig það kom til að hann ákvað að reyna fyrir sér sem snappari svarar Viðar að hugmyndin hafi komið til hans uppi í rúmi. „Fyrrverandi kærastan mín lá öll kvöld uppi í rúmi, að horfa á hina og þessa snappara. Ég lá alltaf við hliðina á henni og var orðinn mátulega þreyttur á að hlusta á stelpur tala um snyrtivörur öll kvöld. Eitt kvöldið fékk ég þá hugmynd að ég gæti gert mitt eigið snapp, þar sem ég gæti talað um enska boltann, sem er mitt helsta áhugamál.“

Morguninn eftir hófst Viðar handa við að taka upp sitt fyrsta myndskeið. Hann viðurkennir fúslega að hann hafi alltaf verið mjög athyglissjúkur. Draumastarfið, þegar hann var yngri, var að verða leikari. Sá áhugi kom sér vel þegar hann byrjaði að stilla sér upp fyrir framan símann. Í fyrstu var snappið þó aðeins hugsað fyrir vini Viðars sem vita hvað hann er mikill viskubrunnur um enska boltanum. „Það gerðist ekki mikið fyrstu tvo mánuðina. Það voru kannski á milli 100 og 200 að horfa á hvert myndskeið. Í vor stækkaði þetta svo allt í einu. Þá var ég líka að gefa bíómiða og pítsur á snappinu til að fá fleiri til að adda mér. Ég þarf þess þó ekki lengur. Þetta er orðinn svo mikill snjóbolti,“ segir Viðar og tekur upp símann. Hann opnar Snapchat og rennir yfir vinabeiðnirnar sem hafa hrannast upp síðustu 20 mínúturnar, frá því að við settumst niður og byrjuðum að tala saman. „Þetta er alltaf svona. Núna er ég að fá um 200 nýja inn á snappið mitt á dag.“

Besta vinna í heimi