fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fókus

Ragnar Þór: Mun aldrei fyrirgefa forystu ASÍ

Kolbrún Bergþórsdóttir
Föstudaginn 29. september 2017 10:20

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kolbrún Bergþórsdóttir hitti hinn skelegga formann VR, Ragnar Þór Ingólfsson, og forvitnaðist um helstu baráttumálin. Plott innan VR komu einnig til tals, sem og pólitíkin og vitanlega kjör fólksins í landinu.

Fyrr á þessu ári, í mars, var Ragnar Þór Ingólfsson kjörinn formaður Verslunarmannafélags Reykjavíkur með tæplega 63 prósent atkvæða. Sigur hans var óvæntur en flestir höfðu átt von á að Ólafía Rafnsdóttir myndi halda formannssæti sínu. Ragnar hafði setið í stjórn VR í átta ár áður en hann bauð sig fram til formanns. Hann er í sambúð með Guðbjörgu Ingunni Magnúsdóttur grunnskólakennara og á fimm börn.

Ragnar Þór er fyrst spurður hvenær hann hafi fyrst fengið áhuga á verkalýðsmálum. „Það var árið 2007,“ segir hann. „Áður stóð mér nákvæmlega á sama um hver var í forsvari fyrir verkalýðsfélögin og mér gat ekki verið meira sama hver stjórnaði landinu. Ég hafði aldrei velt pólitík fyrir mér. Ég var bara strákur sem ólst upp í Breiðholtinu, var óendanlega stríðinn og hafði gaman af lífinu. Ég spilaði í hljómsveitum og átti sterkan og öflugan vinahóp. Svo fór ég inn í hið hefðbundna fjölskyldumynstur þar sem maður vinnur sína vinnu og hvílir sig um helgar með fjölskyldunni.

Sá örlagaríki atburður varð að ég missti vin árið 2007. Hann varð bráðkvaddur 35 ára með tvö börn. Ég var með honum þegar hann dó. Þetta var mikið áfall og ég fylgdist með því hvaða áhrif fráfall hans hafði á fjölskyldu hans sem þurfti að takast á við gríðarlegan missi. Í kjölfar þessa fór ég að skoða lífeyrissjóðakerfið okkar. Kannski var mín leið til að komast yfir áfallið að sökkva mér ofan í þau mál. Stundum þurfum við að lenda á vegg til að skilja að kerfið er ekki að virka og ég lenti á þessum vegg. Ég fór að skrifa gagnrýna pistla um lífeyrissjóðakerfið og sendi þeim sem ég var í tölvupóstsamskiptum við. Þessar pistlar fóru að vekja athygli.

Svo kom bankahrunið og ég tók þátt í búsáhaldabyltingunni og þjóðfélagsumræðunni. Í eftirmála hrunsins kom ýmislegt fram sem ég gat tengt við. Ég las doktorsritgerð eftir Herdísi Dröfn Baldvinsdóttur um tengsl verkalýðshreyfingarinnar og lífeyrissjóðanna við atvinnulífið og valdablokkirnar á Íslandi. Þegar ég las ritgerð hennar samhliða því sem ég var að skrifa þá fannst mér ég ná jarðsambandi. Upp frá því fór ég í vegferð sem ég vissi að yrði aldrei seld, kæmi bara frá hjartanu.

Ég fór að gagnrýna kanónur í íslensku viðskiptalífi og ríkjandi kerfi eins og lífeyrissjóðakerfið. Ég vissi að þetta gæti haft áhrif á möguleika mína á vinnumarkaði. Ég veit og hef séð hvernig kerfið tekur á þeim sem gagnrýna það. Margir þeirra sem fóru með mér í þessa vegferð misstu vinnuna og fóru úr landi. Það var komið virkilega illa fram við Herdísi Dröfn Baldvinsdóttur, sem skrifaði ritgerðina. Hún var nánast gerð brottræk úr okkar samfélagi og kölluð doktor í misskilningi.

Ég var svo heppinn að hafa mjög trausta atvinnurekendur en ég vann sem sölustjóri hjá Erninum. Ég reikna með að það hafi ekki verið létt að hafa mig í vinnu þótt ég hafi skilað góðu dagsverki.“

„Ég hef mínar skoðanir og mun reyna að hafa áhrif á pólitíkina með skrifum og hugmyndum.“
Baráttumaður „Ég hef mínar skoðanir og mun reyna að hafa áhrif á pólitíkina með skrifum og hugmyndum.“

Mynd: Brynja

Plott og slagsmál

Þú komst í stjórn VR og bauðst þig síðan fram til formanns fyrr á þessu ári. Af hverju?

„Ég var í stjórn VR vegna þess að ég vildi vera í innsta hring og fylgjast með því sem væri að gerast. Ég lærði heilmikið á þessum átta árum í stjórn VR og sá hvernig pólitíkin virkar inni í hreyfingunni. Ég fylgdist vel með plottunum og slagsmálunum um bitlingana og þar var margt athyglisvert.
Mínar skoðanir til dæmis á lífeyrissjóðskerfinu og verkalýðshreyfingunni náðu ekki framgangi innan VR, mér var ýtt út í horn. Ég sinnti stjórnarstarfinu með fullri vinnu og var með stóra fjölskyldu. Þetta tók á. Eftir átta ár fannst mér kominn tími til að annaðhvort hætta eða bjóða mig fram í formannskjöri. Það væri svo félagsmanna að ákveða hvort þeir kysu mig eða höfnuðu mér.“

Þú talar um pólitíkina sem var í VR, hvernig var sú pólitík?

„Þarna tókust hægri öflin og þau vinstri á. Þegar ég kom inn í stjórnina árið 2009 hafði Kristinn Örn Jóhannesson fellt Gunnar Pál Pálsson í formannskjöri. Mér fannst alltaf mjög líklegt að Kristinn Örn hefði komið frá Samfylkingararmi verkalýðshreyfingarinnar án þess að hafa beinar sannanir fyrir því. Mjög snemma á kjörtímabili Kristins var hópur innan stjórnarinnar búinn að stilla Stefáni Einari Stefánssyni upp sem eftirmanni hans, þannig að það var ljóst að það átti alltaf að fara á móti Kristni. Síðan varð formannskosning og Stefán marði kjörið. Síðan hófst sami leikurinn aftur og stuðningsmenn Ólafíu Rafnsdóttur, sem sátu inni í stjórninni og voru tengdir ASÍ og Samfylkingunni, fóru að plotta gegn Stefáni. Þar sem ég var á hliðarlínunni var mér stundum boðið að taka þátt í leiknum, eins og til dæmis að koma Stefáni frá, en ég tók ekki þátt í því.

Þegar ég bauð mig fram gegn Ólafíu vonaðist ég til að úrslitin yrðu tvísýn. Það var reyndar enginn sem reiknaði með að Ólafía, sem er þaulvanur kosningastjóri, myndi falla, menn töldu að hún væri það sterk. En ég held að hún hafi vanmetið aðstæður alveg gríðarlega. Hún vanmat ekki bara mig heldur vilja fólksins sem vildi breytingar. Það kom mér nokkuð á óvart að sigra, ekki síst með jafn miklum yfirburðum. Þessi úrslit sögðu mér að það væri eftirspurn eftir því sem ég væri að gera.“

Ekki á leið í framboð

Það vakti athygli að þú skyldir lækka laun þín um leið og þú varst orðinn formaður VR.

„Það fyrsta sem ég gerði áður en ég tók við var að fara á fund launanefndar sem sér um kaup og kjör og lækka laun mín um 300.000 krónur. Fyrir mér er mikið prinsippmál að skammta sér ekki meira en maður er tilbúinn að skammta öðrum. Ef maður getur ekki haft þau prinsipp í þessari stöðu þá á maður að finna sér eitthvað annað að gera.“

Ert þú ekki tengdur einhverjum stjórnmálaflokki eða hreyfingum?

„Nei.“

Þú hefur verið orðaður við Flokk fólksins og ert meðal ræðumanna á fundi þeirra um helgina.

„Ég hef talað á fundi Sjálfstæðismanna í Kópavogi, hef áður talað á fundi Flokks fólksins og hef talað á fundi sósíalista og hjá Alþýðufylkingunni. Ég mun tala á öllum fundum sem ég er beðinn um að koma á, sérlega ef þeir eru pólitískir. Ég vil að baráttumálin smitist inn í pólitíkina þannig að þau komist til framkvæmda.“

Ertu þá ekki á leið í framboð?

„Nei, það er alveg öruggt að ég er ekki á leið í framboð. Ég er í starfi þar sem verkefnin eru æði mörg. Mér fyndist ég vera að svíkja félagsmenn mína ef ég myndi allt í einu hætta.“

Réttarkerfi ríka fólksins

Hvaða breytingar viltu helst sjá?

„Mér misbýður spillingin í lífeyrissjóðakerfinu og samspil atvinnulífs og verkalýðshreyfingar. Verkalýðshreyfingin er peningalegt stórveldi. Þar eru hundruð manns í vinnu við að semja um kaup og kjör og það eru tugir milljarða í sjóðum sem búið er að stofna í kringum hreyfinguna. Miðað við það hvernig staða fólks er í dag þá finnst mér verkalýðshreyfingin hafa svikið fólkið með aðgerðaleysi sínu.

Það þarf að virkja slagkraft verkalýðshreyfingarinnar. Ég hef oft spurt: Af hverju dró verkalýðshreyfingin sængina upp fyrir haus þegar sótt var hart að almenningi út af gengis- og vaxtamálunum? Af hverju lagðist Gylfi Arnbjörnsson gegn því að vísitalan yrði tekin tímabundið úr sambandi eftir hrun til að hlífa heimilunum? Ég mun aldrei fyrirgefa forystu ASÍ og forseta ASÍ aðgerðaleysið gagnvart almenningi í landinu eftir hrunið.

Í eftirmála hrunsins hefur það gerst að Íbúðalánasjóður er að selja hundruð eða þúsundir íbúða inn í leigufélög sem síðan okra á fólki og henda því út ef það er ekki tilbúið til að skrifa undir hvað sem er. Þetta væri ekki hægt nema vegna þess að mótstaðan er engin. Þegar kemur að einum stærsta húsnæðisvanda Íslandssögunnar þá eru menn að karpa um pólitík á hraða snigilsins og enginn tekur ákvörðun um að gera eitthvað. Barnafjölskyldur flytja á milli hverfa þrisvar til fjórum sinnum á jafnmörgum árum. Fólk sem býr við húsnæðisóöryggi nær ekki endum saman. Það lifir í kvíða og það eykur enn á kvíðann þegar stjórnmálamenn stíga fram og segja að hér sé góðæri og fordæmalaus kaupmáttur. Þetta fólk á enga möguleika á að taka þátt í góðærinu og þekkir ekki þennan kaupmátt. Við vitum öll hvaða áhrif það hefur á börn að rífa upp rætur hvað eftir annað.

Þegar fólk lendir í niðursveiflum eða áföllum í lífinu þá hefur það ennþá minna úr að spila til að verja sig eða sækja rétt sinn. Sjúkrasjóður VR er kominn yfir þolmörk og miklir peningar fara í greiðslu sjúkradagpeninga vegna örorku, þunglyndis og kvíðatengdra mála. Hjá starfsendurhæfingarsjóði sem verkalýðshreyfingin rekur, er fordæmalaus fjölgun mála sem snúa að kvíða og þunglyndi. Af hverju?
Það er svo margt sem er að í okkar samfélagi. Mörg fyrirtæki standa illa og fólk býr við atvinnuóöryggi, veit ekki hvort vinnustaðnum verður lokað á morgun eða hinn. Það er ískaldur raunveruleiki að fólk verður veikt og hefur ekki efni á því.

Fólk er þremur afborgunum af lánum eða leigu frá því að missa húsnæði. Fólk er þremur launaseðlum frá fjárhagslegu þroti og alvarleg veikindi geta leitt til sárrar fátæktar. Þess vegna skiptir svo miklu máli að við sem erum í betri stöðu en þeir verst settu berjumst fyrir þéttara öryggisneti fyrir okkur öll. Við gerum okkur ekki grein fyrir því hversu stutt er á milli hláturs og gráts í þessum efnum fyrr en við lendum í því sjálf.

Ég fæ ótal símtöl frá fólki sem hefur verið að berjast við tryggingafélög og bankana árum saman. Alltaf er í boði að skrifa undir og semja um versta dílinn. Við erum með réttarkerfi sem er réttarkerfi ríka fólksins. Ef þú ert einstaklingur sem er ekki efnaður og þarft að sækja rétt þinn þá gengurðu ekki inn á lögfræðistofu og borgar 20–25 þúsund kall fyrir tímann. Þeir efnameiri hafa því betri aðgang að réttarkerfinu en þeir efnaminni.

Síðan erum við með þessi kerfi, eins og almannatryggingakerfið og lífeyrissjóðakerfið, sem beinlínis læsa fólk inni í sárri fátækt út af frítekjumörkum og skerðingum. Það er búið að svipta fólkið okkar sjálfsbjargarviðleitni, sem er ömurlegt. Við eigum ekki að sætta okkur við að vera með kerfi sem er ekki að vinna fyrir okkur. Ég tala ekki um að vera með kerfi sem við skiljum ekki því það eru mjög fáir sem skilja þetta kerfi.“

Hjarðir á þingi

Það hlýtur að vera á ábyrgð stjórnmálamanna að breyta hlutum til betri vegar.

„Ég hef stundum talað um það í gríni að það ætti að setja viðurlög við kosningasvikum, allt að sex ára fangelsi. Það er lítið sem gerist í íslenskum stjórnmálum. Á Alþingi er meirihluti og minnihluti sem eru hjarðir sem fylgja fyrirfram ákveðinni línu. Mér finnst Alþingi vera óvirkur vinnustaður. Þar festist allt og læsist inni í nefndum og þingmenn eru of fastir í einhverjum liðum. Góð mál eru oft þynnt út vegna þess að ekki er hægt að komast að samkomulagi, iðulega vegna þess að hagsmunaaðilar hafa allt of mikil ítök í íslenskum stjórnmálum.
Við erum að fara í kosningar og það er útlit fyrir að það komi ekkert úr út þeim. Það munu ekki verða raunverulegar kerfisbreytingar.“

Eigum við kannski ekki nægilega öfluga stjórnmálamenn?

„Ég þekki mjög hæfa og öfluga einstaklinga sem eiga virkilegt erindi á Alþingi. Þeir hafa einfaldlega ekki áhuga á að vinna á þeim vinnustað. Með fullri virðingu fyrir þeim sem þar vinna.“

„Ég veit að það verður farið gegn mér, en mér er alveg sama.“
Framtíðin „Ég veit að það verður farið gegn mér, en mér er alveg sama.“

Mynd: Brynja

Kaupmáttarreiknivél VR

Nú verða kjarasamningar lausir á næstu misserum. Sérðu stefna í harðar kjaradeilur?

„Það gæti allt farið á hliðina í kjarasamningum. Þarna hefur ákvörðun kjararáðs um allt að 45 prósenta hækkun handa embættismannaelítunni mjög mikið að segja. Á sama tíma er almennu launafólki sagt að sýna hófsemd og tilkynnt að svigrúm til launahækkana sé einungis um þrjú prósent. Þetta var eitt af því sem felldi forvera minn í starfi, hann hækkaði laun sín um 45 prósent en var síðan að krefja félagsmenn VR um hófsemi. Það er ekki nóg að tala fjálglega um stöðugleika, ef þeir sem þannig tala eru ekki tilbúnir til að leggja sitt af mörkum til að viðhalda honum. Það getur ekki gengið að þeir sem hafa minnst til skiptanna þurfi að taka á sig mestu byrðarnar. Það verður ekki lengur sátt um það.

Reikningsheilar stjórnmálanna og hagsmunaaðila kerfisins geta reiknað sig niður á hvaða vitleysu sem er. Alveg eins er með kaupmáttinn sem á að vera fordæmalaus. En við vitum að það eru ekki allir sem eru að fá aukinn kaupmátt í þessu landi. Fólk á leigumarkaði er í mínus og við í VR getum sýnt fram á það. Við höfum lagt gríðarlega vinnu í að búa til kaupmáttarreiknivél sem verður tilbúin eftir mánuð. Þar getur fólk sett inn launin sín, leiguna og fleira og reiknað útkomuna. Við vitum að dæmið er vonlaust hjá stórum hópi fólks.

Ég hef lagt til að persónuafsláttur yrði hækkaður þannig að lægstu laun séu skattfrjáls. Það eru bestu kjarabæturnar fyrir þá verst settu og sömuleiðis barnafjölskyldur. Sá sem er með tvær milljónir í laun hefur hins vegar ekkert með persónuafslátt að gera. Eins og staðan er í dag er útilokað að sá sem er á lægstu laununum nái endum saman. Um það má ekki tala. Það er tabú innan verkalýðshreyfingarinnar að tala um framfærsluviðmið.

Þetta eru tillögur okkar sem erum í forystu í VR. Við erum að kanna undirtektir hjá þeim félögum sem eru með lausa samninga og hvort hægt sé að ná víðtækri sátt innan hreyfingarinnar um þetta. Þetta mun ýta undir stöðugleika og stórauka ráðstöfunartekjur barnafjölskyldna og þeirra sem eru í lægri launastiganum. Þetta mun koma sér gríðarlega vel fyrir opinbera starfsmenn og draga úr spennu vegna launahækkana. Við vitum að ef við hækkum laun um 45 prósent mun það koma í bakið á okkur að einhverju leyti, fer út í vöruverð og skilar sér í hærri sköttum. Þetta er okkar útspil í að halda víðtækri sátt og koma með hugmyndir, ekki bara gagnrýna.“

Heldurðu í alvöru að þær breytingar sem þú vilt sjá og hefur talað um í þessu viðtali muni verða að veruleika?

„Það hafa orðið breytingar. Hér áður fyrr var tabú að ræða um lífeyrissjóðina, nema það væri verið að mæra þá. Það voru möntrur eins og: „Besta lífeyrissjóðskerfi í heimi“ og „Löndin í kringum okkur eru græn af öfund yfir þessu kerfi okkar.“ Fáir trúa þessu lengur.

Ef ekkert mun breytast í samfélagi okkar til hins betra þá get ég allavega sagt að ég hafi reynt. Það að reyna kemur mér fram úr á morgnana og heldur mér réttum megin við andlega strikið. En ég geri þetta ekki einn. Formaður VR gengur ekki inn og breytir lífeyrissjóðakerfinu en hann getur haft áhrif. Það að vera kominn í þessa stöðu hækkar röddina í mér um nokkur desíbel.“

Veit að það verður farið gegn mér

Þú ert alls ekki óumdeildur. Finnur þú fyrir andstöðu innan einhverra hópa innan VR?

„Ég er búinn að segja frá því í viðtalinu hvernig farið var kerfisbundið á móti Kristni Erni og síðan, einnig kerfisbundið, á móti Stefáni Einari. Ég væri kjáni ef ég héldi að það sama ætti ekki við um mig. Ég veit að það verður farið gegn mér, en mér er alveg sama.

Ég er með tveggja ára ráðningarsamning við félagsmenn mína. Það er draumastarf að fá að vinna við hugsjónir sínar. Ég lifi fyrir þetta. Ef það er eftirspurn eftir mér í þessari stöðu mun ég örugglega halda áfram ef ekki mun ég kveðja sáttur.

Sama hvaða formaður er við völd í VR þá geta félagsmenn andað rólega því starfsmenn félagsins halda daglegum rekstri áfram hvað sem á dynur í verkalýðspólitíkinni og það er mikill sómi að þeim mannauð.

Það er fólksins að ákveða hvaða áherslur það vill. Ef fólk er sátt við kerfið eins og það er og ánægt með verkalýðshreyfinguna og aðgerðaleysi hennar og þá pólitík sem hún stundar þá er það bara þannig. Ég mun taka því eins og maður.

Ég hef mínar skoðanir og mun reyna að hafa áhrif á pólitíkina með skrifum og hugmyndum. Á einhverjum tímapunkti mun eitthvað breytast. Ef ég hefði ekki trú á því þá gæti ég ekki staðið í þessu. Það sem skiptir mig mestu máli er að geta sagt við börnin mín: Ég gerði mitt allra besta.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki