„Ég ætla að verða fjalldrottning klár“

Hönter myndir kynda undir réttarstemningunni

Hanna fjalldrottning og féð.
Fjalldrottning Hanna fjalldrottning og féð.

Réttir fara fram í Þórkötlustaðarétt í Grindavík næstkomandi laugardag. Af því tilefni ákváðu vinkonurnar Hanna og Teresa að gera myndband til að kveikja undir réttarstemningunni og hvetja fólk til að mæta í réttirnar.

„Við ákváðum að gera lag og myndband til að hvetja fólk til að mæta í réttirnar,“ segir Teresa Birna Björnsdóttir, en hún og Hanna Sigurðardóttir eiga Hönter myndir og taka þær að sér að semja texta, skesta og myndbönd fyrir afmæli, brúðkaup, árshátíðir eða aðra viðburði.

Von er á öðru smala myndbandi á föstudaginn kemur, en réttir verða í Þórkötlustaðarétt í Grindavík á laugardaginn kl. 14.

Það er Hanna sem leikur aðalhlutverkið í myndbandinu og hún samdi einnig íslenskan texta við lagið Just Can´t Wait to be King úr teiknimyndinni Lion King og heitir það einfaldlega Drottning klár.

Hanna og Teresa búa í Grindavík og um sjómannahelgina gerðu þær texta við lagið Despacito og myndband sem sló rækilega í gegn í heimabænum og víðar. Lagið var gert fyrir Appelsínugula hverfið, en bærinn skiptist í fjögur litahverfi fyrir bæjarhátíðina Sjóarinn síkáti.

„Síðan þá erum við búnar að gera myndbönd fyrir afmæli, árshátíð og steggjun,“ segir Teresa. „Við vorum sem dæmi beðnar um að gera myndband fyrir afmæli og við vissum hvorugar hver afmælisbarnið er, fengum bara punkta um manninn, gerðum „sketsa“ og texta við íslenskt lag. Við heyrðum svo að þetta hefði slegið rækilega í gegn hjá afmælisbarninu, sem er frá Ólafsfirði, og gestum hans.“

Hafa má samband við Hönnu og Teresu hjá Hönter myndum í gegnum Facebooksíðu þeirra.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.