Hún kann nýja IKEA bæklinginn utan að

328 blaðsíður - 4818 hluti

Yanjaa Wintersoul kann nýja IKEA listann utan að.
Kann listann utan að Yanjaa Wintersoul kann nýja IKEA listann utan að.

Yanjaa Wintersoul fær líklega titilinn „Aðdáandi IKEA númer eitt,“ en hún er búin að læra nýja bæklinginn þeirra utan að. Og við erum ekki bara að tala um nöfn á húsgögnum og öðrum munum, eða hvað er nýtt frá síðasta ári, við erum að tala um að hún er búin að leggja bæklinginn á minnið frá A til Ö: listaverk hangandi á ísskápum, hver er með gleraugu, hvernig mynstur er á mottum og fleira í þeim dúr.

Minnistækni Wintersoul felst í því að hún ímyndar sér að hún sé á staðnum, að hún umgangist fólkið sem er á myndunum, borði matinn, dáist að innanstokksmununum. Svo talar hún sænsku reiprennandi, sem hjálpar örugglega til við að muna nöfnin á vörunum. Wintersoul segir að aðferðin sem hún notar, skapandi minni, virki best til að muna hlutina til frambúðar. Og af myndbandinu að dæma er það rétt hjá henni.

Wintersoul, sem er 23 ára gömul, fæddist í Mongólíu og ólst upp í Stokkhólmi, Kenía og Tokíó. Hún lærði viðskiptafræði við háskólann í Stokkhólmi og hafði hug á að klára hana á helmingi styttri tíma en námið gerir ráð fyrir. Hún rakst á bók um minnistækni og hugsaði með sér að ef „gaurinn“ sem skrifaði bókina gat tileinkað sér tæknina þá gæti hún gert það líka. Og þannig fór, hún kláraði viðskiptafræðina á styttri tíma og tók á sama tíma þátt í minniskeppni, World Memory, þar sem hún vann tvisvar gullverðlaun.

Fyrr á árinu heillaði hún bæði dómara og áhorfendur í Svíþjóð Got Talent, en hún vakti fyrst verulega athygli þegar IKEA fékk hana til að leika í auglýsingaherferð sem sýnd er í Singapore, Malasíu og Taílandi og er í dag þekkt sem „Mennski IKEA listinn.“ Fyrir auglýsingaherferðina þurfti hún að læra utan að 328 blaðsíður bæklingsins og þá 4818 hluti sem í honum eru, á einni viku!

Og með hverju mælir minnismethafinn fyrir aðra sem rembast við að læra og muna hlutina? Wintersoul mælir með göngutúrum. „Að fara í göngutúr nokkrum sinnum í viku hjálpar til við staðbundna vitund, svo ertu að anda og nota líkamann.“

Hún mælir líka með virku endurliti, sem felst í því að í stað þess að lesa sömu blaðsíðuna tvisvar, þá eigi einungis að lesa fyrstu málsgreinina og rifja síðan upp hvað viðkomandi var að hugsa meðan hann las blaðsíðuna. „Hugsaðu um það sem þú lærir.“

Hugarkort (mind map), svefn og hugleiðsla hjálpar Wintersoul líka við að læra og muna hlutina.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.