fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fókus

Viðar langar í kærustu

Einn vinsælasti snappari Íslands, Viðar Skjóldal, er þakklátur fyrir tækifærin sem felast í miðlinum -Erfið lífsreynsla breytti lífsýninni

Kristín Clausen
Föstudaginn 1. september 2017 16:37

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Viðar Skjóldal er um þessar mundir einn umtalaðasti snappari Íslands. Viðar er með þúsundir fylgjenda á samfélagsmiðlinum þar sem hann ræðir aðallega um enska boltann. Blaðamaður DV heimsótti Viðar í Hafnarfjörðinn í vikunni þar sem spjallað var um fótbolta, daglegt amstur og systur hans, Sigrúnu Kristbjörgu, sem lést árið 2010.

Öryrki eftir slys

Viðar, sem er 32 ára, er fæddur og uppalinn á Akureyri. Sautján ára gamall flutti hann til Reykjavíkur og hefur meira og minna búið á höfuðborgarsvæðinu síðan. Í dag leigir hann íbúð á Völlunum þar sem honum líkar vel. Dóttir hans, Carmen Lind, sem er átta ára býr með móður sinni í Bretlandi. Viðar er öryrki, sem má rekja til bakmeiðsla eftir slys sem hann lenti í árið 2003, en hann hefur verið frá vinnu í tæpt ár. Alkóhólisminn hefur víða komið við sögu í fjölskyldu Viðars en systir hans lést eftir tíu ára baráttu við fíkniefnadjöfulinn. Veikindi hennar og andlát gáfu Viðari nýja sýn á lífið.

Hann tekur engu sem gefnu og er þakklátur fyrir lífið. Með húmorinn að vopni, sem og skemmtilega sýn á fótbolta, hefur Viðar náð til fjölda fólks á Snapchat. Þá hefur miðillinn hjálpað Viðari að yfirstíga ýmsar hindranir en á milli fjögur og fimm þúsund manns horfa á hvert einasta myndskeið sem hann setur á Snapchat. Viðar setur markið hátt en hann vill ná upp í tíu þúsund áhorf, á hvert myndskeið, áður en hann fer að leita leiða til að hagnast fjárhagslega á því að vera snappari.

Aðspurður hvernig það kom til að hann ákvað að reyna fyrir sér sem snappari svarar Viðar að hugmyndin hafi komið til hans uppi í rúmi. „Fyrrverandi kærastan mín lá öll kvöld uppi í rúmi, að horfa á hina og þessa snappara. Ég lá alltaf við hliðina á henni og var orðinn mátulega þreyttur á að hlusta á stelpur tala um snyrtivörur öll kvöld. Eitt kvöldið fékk ég þá hugmynd að ég gæti gert mitt eigið snapp, þar sem ég gæti talað um enska boltann, sem er mitt helsta áhugamál.“

Morguninn eftir hófst Viðar handa við að taka upp sitt fyrsta myndskeið. Hann viðurkennir fúslega að hann hafi alltaf verið mjög athyglissjúkur. Draumastarfið, þegar hann var yngri, var að verða leikari. Sá áhugi kom sér vel þegar hann byrjaði að stilla sér upp fyrir framan símann. Í fyrstu var snappið þó aðeins hugsað fyrir vini Viðars sem vita hvað hann er mikill viskubrunnur um enska boltanum. „Það gerðist ekki mikið fyrstu tvo mánuðina. Það voru kannski á milli 100 og 200 að horfa á hvert myndskeið. Í vor stækkaði þetta svo allt í einu. Þá var ég líka að gefa bíómiða og pítsur á snappinu til að fá fleiri til að adda mér. Ég þarf þess þó ekki lengur. Þetta er orðinn svo mikill snjóbolti,“ segir Viðar og tekur upp símann. Hann opnar Snapchat og rennir yfir vinabeiðnirnar sem hafa hrannast upp síðustu 20 mínúturnar, frá því að við settumst niður og byrjuðum að tala saman. „Þetta er alltaf svona. Núna er ég að fá um 200 nýja inn á snappið mitt á dag.“

Besta vinna í heimi

Viðar segist fyrst í vor hafa gert sér grein fyrir því hvað Snapchat er öflugur miðill. „Þá fór ég líka að leggja meiri kraft í þetta. Síðan varð algjör sprengja núna í ágúst. Núna er fólk farið að biðja mig um að vera aðeins persónulegri í bland við boltann. Það er aldrei að vita nema ég láti verða af því. Svo ætla ég brydda upp á alls konar nýjungum á snappinu í vetur. Til dæmis að taka viðtöl og mögulega láta einhvern annan taka yfir snappið mitt í einhverja klukkutíma, af og til.“

Þrátt fyrir að vera kominn með mörg þúsund fylgjendur á Snapchat þá segist Viðar ekki vera farinn að hagnast á því fjárhagslega. „Ég er auðvitað búinn að fá hitt og þetta en mig langar að stækka meira áður en ég fer að reikna með tekjum. Ég er einfaldlega ekki kominn á þann stað að ég nenni því. Mér hefur staðið til boða að setja inn auglýsingar, og fá borgað fyrir að segja einhverja vitleysu, en maður segir ekki já við hverju sem er.“

Taplaus eftir átta heimaleiki

Í október fer Viðar með hóp Íslendinga á Anfield í helgarferð til Bretlands þar sem Liverpool-menn fá erkifjendurna í Manchester United í heimsókn. Viðar verður fararstjóri en til stendur að hann fari reglulega til Bretlands með hópa frá Íslandi. „Þetta er nýtt verkefni og tækifæri sem mér bauðst eftir að ég byrjaði að snappa. Fólk hefur gaman af mér. Það hefur áhuga á því sem ég er að gera og fyrir það er ég þakklátur.

Að vera snappari er skemmtilegasta vinna sem hægt er að vera í. Ég get unnið heima hjá mér, þegar ég nenni því og gert það sem mig langar.“ Hann segir mestu vinnuna fólgna í því að svara pósti frá fólki. „Ef ég lít ekki á símann í hálftíma þá bíða mín allavega 20 skilaboð. Fólk talar, meira að segja, stundum við mig eins og ég sé þjálfarinn í Liverpool en ég les auðvitað bara sömu fréttir og allir aðrir.“

Það fer ekki á milli mála að Viðar er grjótharður stuðningsmaður Liverpool. Liverpool-skrautmunir eru víða um íbúðina og hann sjálfur er klæddur Liverpool-peysu. Það er því ekki að undra að gleðin skíni úr andliti hans þegar hann segir blaðamanni að hann hafi átta sinnum gert sér ferð á Anfield til að sjá liðið sitt spila. Í öll skiptin hefur Liverpool sigrað andstæðinginn. „Það eru ekki margir aðdáendur sem hafa náð þeim árangri.“

Þá gagnrýnir Viðar, líkt og margir aðdáendur enska boltans, hátt miðaverð á leikina. „Það er ekki séns lengur að kaupa miða á leiki í gegnum félögin. Þetta er allt selt á svörtum markaði. Svona borga ársmiðahafarnir á vellinum upp sína miða. Þeir einfaldlega velja 4 til 5 leiki yfir tímabilið sem þeir sleppa og selja miðana á þá í gegnum milligönguliði á margföldu verði. Síðan fara miðarnir áfram í sölu til þriðja aðila sem vill líka fá sitt. Svo þú sérð hvað miðaverðið er fljótt að hækka. Ársmiðahafarnir fá með þessu móti frítt á völlinn, eða fá jafnvel borgað fyrir að mæta,“ segir hann og bætir við: „Þetta verður að stoppa. Maður skilur heldur ekki af hverju liðin leyfa þessu að gerast. Hinn venjulegi Breti kemst ekki lengur á völlinn vegna þess hvað miðaverðið er orðið hátt. Líkt og með svo margt annað þá snýst þetta fyrst og fremst um peninga. Það er ömurleg þróun.“

Viðar bendir á að miðarnir á leikina, sem annars hefðu farið til heimamanna, séu nú aðallega seldir til ferðamanna. „Það dregur líka niður stemninguna á vellinum. Túristarnir kunna til dæmis ekki söngvana. Þó svo að Íslendingar kunni þá flesta þá er þróunin mjög slæm. Ég fer á leiki til að fá stemninguna. Ég er adrenalínfíkill og langar helst hafa gæsahúð allan tímann. Þá er ég góður.“

Ónýtt bak eftir bílslys

Í tæp ár hefur Viðar verið á örorkubótum. Helsta ástæða þess er bílslys sem hann lenti í að kvöldi jóladags árið 2003. Þá var hann á leið til vinar síns sem bjó á Álftanesi. Mikill snjór var á götunum umrætt kvöld en hvorki var búið að skafa né salta þær. „Ég var á leiðinni í heimsókn til vinar míns sem bjó á Álftanesi. Bíllinn rann í hálku yfir á rangan vegarhelming og endaði á ljósastaur. Hann gjöreyðilagðist. Aftursætin voru komin upp í loft og farþegasætið nánast í fangið á mér. Í raun og veru var ekkert eftir nema sætið sem ég sat í. Mér var sagt að það væri kraftaverk hvað ég slapp vel. Kærastan mín þáverandi ætlaði að koma með mér í þessa heimsókn en hætti við að fara á síðustu stundu. Ef hún hefði farið með þá væri hún ekki á lífi í dag.“

Eftir slysið byrjaði Viðar að finna verki í mjóbakinu. Í mörg ár á eftir harkaði hann verkina af sér en að lokum gaf bakið undan. „Ég verð á örorku fram á haustið en veit ekki hvað gerist eftir þann tíma. Bakið á mér er ónýtt. Ég hef verið í sjúkraþjálfun og tek verkjalyf á hverjum degi. Það hjálpar en ég tel ekki miklar líkur á að það lagist mikið. Ég fer að minnsta kosti aldrei í líkamlega vinnu aftur. Svo mikið er víst.“

Beið eftir símtalinu örlagaríka

Viðar kveðst sömuleiðis hafa verið mikill kvíðasjúklingur en í dag hefur hann náð góðum tökum á kvíðanum. Kvíðinn byrjaði að gera vart við sig samhliða fjölskylduharmleik sem stóð yfir í tíu ár, og lauk með ógnvænlegum hætti þann 13. febrúar 2010. Á þeim degi fannst systir hans, Sigrún Kristbjörg Tryggvadóttir, látin. Sigrún hafði verið í mikilli óreglu en að sögn Viðars voru þau alla tíð mjög náin. „Sigrún var fimm árum eldri en ég, fædd 1980. Við áttum alltaf gott samband. Hún var stórkostleg manneskja og vildi öllum vel. Sigrún átti tvö börn sem hún elskaði út af lífinu en fíkniefnin náðu alltaf yfirhöndinni. Hún átti aldrei séns gegn dópinu.“

Viðar segir að systir hans hafi oft gert tilraunir til að vera edrú. Mest náði hún tveimur árum, 2006–2008. Hann segir það hafa verið góðan tíma fyrir fjölskylduna en því miður hafði sjúkdómurinn alltaf betur.

„Það getur enginn gert sér í hugarlund, nema þeir sem hafa lent í því, hvað svona ástand hefur hryllileg áhrif á fjölskyldur fíkla. Það var stríðsástand á heimilinu í tíu ár. Sigrún bjó meira og minna á götunni á meðan hún var í neyslu. Tilvera mömmu snerist um að leita hana uppi og vera í samskiptum við lögregluna á milli þess sem hún engdist um af kvíða og áhyggjum.“

Viðar segir að Sigrún hafi verið búin að fara í ótal meðferðir og verið lokuð inn á geðdeild. „Hún hoppaði tvisvar sinnum út um glugga á fjórðu hæð til að flýja út af Landspítalanum. Hún brotnaði en staulaðist samt niður í miðbæ til að leita uppi næsta skammt. Fráhvörfin voru svo mikil. Maður er sannarlega búinn að kynnast þessum sjúkdómi. Þegar staðan á einstaklingum er svona slæm þá er líka svo lítið gert. Auðvitað fékk hún mikla aðstoð en miðað við hvað Sigrún var veik hefði mátt gera miklu meira. Fólk eins og hún er í lífshættu á hverjum einasta degi.“

Morguninn örlagaríka, þegar Viðar fékk símtalið um að systir hans hefði fundist látin, bjó hann í Noregi. „Ég vissi strax að nú væri þetta búið. Við fjölskyldan vorum búin að bíða eftir þessu símtali lengi og það gat ekki verið nein önnur ástæða fyrir því að mamma væri að hringja í mig svo snemma morguns. Sigrún fannst látin í einhverju húsnæði þar sem hún hafðist við. Einhver hringdi á sjúkrabíl en þá var það, því miður, orðið of seint. Það hefði hugsanlega mátt bjarga henni en enginn gerði það. Sorgin sem kom í kjölfarið var yfirþyrmandi. Þó svo að við værum búin að hugsa um símtalið, og hvenær hún færi, í mörg ár þá er ekki hægt að undirbúa sig fyrir dauðann. Svona eftir á að hyggja var þetta kannski betra svona. Sigrún var fársjúk og kvaldist á hverjum einasta degi. Ég er alveg viss um að henni líður miklu betur núna.“

Langar í kærustu

Viðar segist aldrei hafa snert fíkniefni og að sama skapi hafi hann og áfengi aldrei átt vel saman. Viðar er nýlega kominn úr sambandi en hann hefur verið einhleypur síðustu sex mánuði. Það er í fyrsta skipti í tíu ár sem hann hefur verið einn svo lengi. „Það er spes að vera einhleypur. Ég hef verið í sambandi með þremur konum. Það leið aldrei langur tími á milli þeirra svo þetta er alveg nýtt fyrir mér. Ég hef ekki verið að leita mér að kærustu en ég viðurkenni að ég er orðið svolítið þreyttur á að vera einn. Ég er sambandsmaður. Mér þykir gott að kúra með einhverjum yfir góðum sjónvarpsþætti og langar í einhvern sem ég get deilt lífinu með,“ segir hann brosandi út í annað. Að lokum vill Viðar benda öllum þeim sem hafa brennandi áhuga á enska boltanum að adda honum á Snapchat undir nafninu enskiboltinn „Það er spennandi vetur fram undan og ég hlakka til að miðla boltanum áfram til þeirra sem nenna að horfa.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“
Fókus
Fyrir 2 dögum

„Hver verður næst?“

„Hver verður næst?“
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Maður þarf stundum að standa með sjálfum sér“

„Maður þarf stundum að standa með sjálfum sér“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sigríður lýsir lækningamætti Einars – „Gleymi aldrei svipnum á læknunum þegar þeir skoðuðu nýjar myndir af hnénu“

Sigríður lýsir lækningamætti Einars – „Gleymi aldrei svipnum á læknunum þegar þeir skoðuðu nýjar myndir af hnénu“