fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fókus

„Ég vil vinna þær allar“

Vissi alltaf að hún væri ennþá á meðal þeirra bestu – Stefnir næst á gullið – Myndi aldrei taka inn lyf

Indíana Ása Hreinsdóttir
Fimmtudaginn 24. ágúst 2017 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Annie Mist Þórisdóttir endaði í þriðja sæti á Heimsleikunum í crossfit sem fram fóru í byrjun mánaðarins. Þetta er í níunda skiptið sem Annie tekur þátt í leikunum og í fimmta skiptið sem hún endar á verðlaunapalli. Í einlægu viðtali ræðir Annie um íþróttina sem hún elskar, hvernig hún slökkti á efasemdaröddunum sem töldu hana búna, meiðslin og sálarlífið, umræðuna um steranotkun sem hún segir bæði sorglega og leiðinlega og ástina sem hún fann í crossfit.

„Ég er mjög ánægð með helgina en að sjálfsögðu fer ég alltaf inn í mót með stefnuna á fyrsta sætið. Sem keppnismanneskja vil ég vinna en geri mér líka grein fyrir því að frammistaða annarra er ekki í mínum höndum. Það er bara eigin frammistaða sem ég get stjórnað,“ segir crossfit-stjarnan Annie Mist Þórisdóttir sem tók þriðja sætið á heimsleikunum sem fram fóru í Madison í Bandaríkjunum um verslunarmannahelgina.

Fimmta skiptið á palli

Annie Mist er sá íþróttamaður sem kom crossfit á kortið á Íslandi. Hún varð fyrst kvenna til að verða tvöfaldur heimsmeistari, árin 2011 og 2012, lenti í öðru sæti 2010 og 2014 en keppti ekki vegna bakmeiðsla 2013. Árið 2015 fékk hún alvarlegt hitaslag sem hafði það mikil áhrif á líkama hennar að hún varð að draga sig úr keppni. Ári seinna mætti hún í toppformi líkamlega en þar sem hún hafði ekki unnið í andlegu hliðinni eftir hitaslagið gekk henni ekki sem skyldi og endaði í 13. sæti.

Notaði efasemdaraddirnar

Annie viðurkennir að frábært gengi hennar í ár hafi eflaust komið einhverjum á óvart. „Ég held að margir hafi afskrifað mig – einhverjir héldu jafnvel að ég væri orðin of gömul. Sjálf vissi ég að ég væri ekki búin og notaði efasemdaraddirnar til þess að hvetja mig áfram og sýna og sanna að ég væri enn á meðal þeirra bestu. Ég vissi það alltaf. Ég var í frábæru líkamlegu formi 2015, þegar ég fékk hitaslagið, og var bara alls ekki tilbúin í fyrra. Þá varð ég hrædd við sólina og hitann og slæmu minningarnar streymdu til mín.“

„Ég held að margir hafi afskrifað mig – einhverjir héldu jafnvel að ég væri orðin of gömul“

Andlega hliðin mikilvæg

Hún segir andlegu hliðina gífurlega mikilvæga í crossfit. „Ég hef alltaf trúað því að hausinn myndi gefast upp á undan líkamanum og með því hugarfari hef ég farið í gegnum æfingarnar. Árið 2015 var það öfugt; hausinn var tilbúinn en líkaminn brást mér. Ég hef aldrei upplifað það áður. Mér hefur aldrei liðið eins illa líkamlega, og tíu dögum eftir mótið gat ég enn ekki rétt úr höndunum. En svo jafnaði ég mig smám saman og hafði náð sama styrk tveimur, þremur mánuðum seinna. Ég vissi alltaf að þetta myndi lagast en var samt hrædd um að hafa skemmt eitthvað. Þetta tók óþægilega langan tíma,“ segir hún og bætir við að bakmeiðslin í kringum 2013 einnig hafa reynt á sálarlífið. „Þá hélt ég að ég væri búin – að ég gæti aldrei keppt í crossfit aftur. Ég held að ég hafi ekki gert mér grein fyrir því hvað ég naut þess svakalega að æfa fyrr en ég hélt að ég gæti það ekki lengur.“

Höfuðið brást

Annie segist hafa gert þau reginmistök að neita að ræða um hitaslagið sem hafði áhrif á frammistöðu hennar í fyrra. „Ég var ekki að standa mig líkt og ég hafði gert á æfingum og gat ekki sýnt hvað ég gat. Líkamlega var ég í mjög góðu formi en hausinn var einfaldlega ekki á réttum stað,“ segir hún og bætir við að í ár hafi hún lagt mikla áherslu á að vinna úr lífsreynslunni. „Ég var ákveðin í að ætla ekki að ganga frá leikunum með þá tilfinningu að ég hefði ekki gefið allt mitt. Auðvitað hefði hitt og þetta geta farið betur en það er líka margt sem hefði getað farið verr. Ég er ánægð að komast á pall aftur og er mótiveruð til að verða enn betri. Þetta er mitt fyrsta brons en þetta er í fimmta skiptið sem ég kemst á pall og það er met í kvennaflokknum og ég er ánægð með það.“

Annie tók þátt í sínum níundu heimsleikum þar sem hún tók þriðja sætið.
Komin aftur Annie tók þátt í sínum níundu heimsleikum þar sem hún tók þriðja sætið.

Mynd: Annie Mist

Gífurleg samkeppni

Hún viðurkennir að samkeppnin sé gríðarleg. Ekki aðeins á milli íslensku keppendanna heldur á meðal þeirra bestu í heimi. Samt sem áður sé mikil samkennd og virðing á milli keppenda á mótum sem sést best á því að þegar þær fyrstu koma í mark fara þær oft út á gólf aftur og hvetja hinar áfram. „Ég vil vinna þær allar en ég vil líka að hinar standi sig vel. Ég vil ekki vinna einhvern af því að hann stendur sig illa eða meiðist, ég vil vinna af því að ég er betri. Ég er svo ánægð með árangur Katrínar Tönju Davíðsdóttur og Ragnheiðar Söru Sigmundsdóttur síðustu árin og vil að þeim gangi sem allra best. Við erum vinkonur en á gólfinu vil ég vinna þær – rétt eins og þær vilja vinna mig.“

Íslenskar konur óhræddar

Hún segist endalaust fá spurningar um „#dæturnar“. „Það er erfitt að útskýra þetta góða gengi en við erum sterkt fólk hér á landi; fólk sem er tilbúið að leggja mikið á sig. Ég held að þetta tengist líka því hversu framarlega íslenskar konur eru í réttindum kynjanna. Við höfum lengi verið að berjast fyrir okkar réttindum og erum komnar lengra en í flestum öðrum löndum. Íslenskar konur eru óhræddar að takast á við nýjar áskoranir. Þær eru óhræddar að taka þátt, lyfta þungu og setja sér markmið. Einhverra hluta vegna er sú trú innbyggð í okkur að ef einhver getur eitthvað hljótum við að geta það líka. Það stoppar okkur ekkert. Keppnisskapið er svakalegt, eins og sést á crossfit-stöðvunum. Þar eru allir að gera sitt besta, vinna að sínum markmiðum og hafa tölurnar sínar á hreinu. Við Íslendingar erum svolítið gerðir fyrir þetta sport.“

„Fyrir mig er sársauki á erfiðum æfingum mun minni en sársauki sem ég finn fyrir ef ég geng af vellinum og finnst ég ekki hafa gert mitt besta“

Vön sársaukanum

Hún segir sársaukann sem fylgi átökunum ekki trufla sig. „Maður er orðinn svo vanur þessu. Erfiðasta vinnan fer fram utan keppnistímabils þegar maður er að gera sig betri. Á mótum uppsker maður eins og maður hefur sáð til. Fyrir mig er sársauki á erfiðum æfingum mun minni en sársauki sem ég finn fyrir ef ég geng af vellinum og finnst ég ekki hafa gert mitt besta. Mér finnst miklu erfiðara að vinna mig í gegnum slíkt. Hins vegar eru tilfinningarnar og stoltið sem fylgir því að klára erfitt verkefni 100 prósent virði sársaukans. Það er erfitt að útskýra þetta en ég finn fyrir gleði við það eitt að tala um þetta,“ segir Annie og skellir upp úr.

Kærastinn líka í crossfit

Kærasti Annie, Daninn Frederik Ægidus, er einnig atvinnumaður í crossfit og því ljóst að líf þeirra snýst að mestu um íþróttina. Þrátt fyrir það segist hún ekki upplifa að hún sé að fórna einhverju fyrir crossfit. „Ég get farið út á lífið með vinkonunum en sleppi því að fá mér í glas. Eins get kannski ekki stokkið af stað í útilegu eða í sumarbústað, eins og vinir okkar, því ég verð alltaf að komast á æfingar. Ég kemst kannski af stað eftir æfingu en verð líka að fara heim snemma til að ná þeirri næstu. Þetta er vinnan mín og ég get ekki bara sleppt því að æfa – enda hef ég engan áhuga á því,“ segir hún og bætir við að stundum mæti hún skilningsleysi fólks. „Ég er alltaf að hugsa um æfingarnar og hvernig ég geti staðið mig sem best á þeirri næstu. Stundum skilur fólk mann ekki eins og þegar maður neitar sér um eftirrétt þegar maður fer út að borða. Þótt ég sé með tiltölulega frjálsan vinnutíma er ég á rauninni á vakt allan sólarhringinn en mér finnst ég ekki vera að fórna neinu. Ég er að gera það sem ég elska. Þetta getur verið hrikalega erfitt en ég veit hvað ég er heppin. Ég nýt hvers einasta dags; þetta er bæði vinnan mín og áhugamálið og ég vildi ekki skipta þessu út fyrir neitt.“

Æfa saman, vinna saman, búa saman

Frederik, sem er þrítugur, endaði í 25. sæti á heimsleikunum í ár en hans besti árangur er 13. sætið. Þau Annie kynntust á Evrópuleikunum árið 2010 og undir lok sama árs voru þau orðin par. „Við vorum bara vinir til að byrja með en svo byrjuðu ferðalögin milli Íslands og Danmerkur,“ segir hún brosandi og bætir aðspurð við að það hvað hann var skemmtilegur hafi heillað hana. „Mér fannst gaman að tala við hann og svo lítur hann mjög vel út líkamlega. Við náum einfaldlega svakalega vel saman.“ Aðspurð hvort það ríki samkeppni þeirra á milli segist hún oft fá þá spurningu frá erlendum blaðamönnum. „Það er samkeppni á milli okkar en það er góð samkeppni. Hann gerir mig betri og ég geri hann betri. Ég verð alltaf ánægð þegar hann sigrar mig því þá er hann að standa sig vel og svo öfugt. Við nýtum hvort annað til að ýta hvort öðru áfram. Við æfum saman og erum eiginlega alltaf saman. Það gengur upp hjá okkur af því að við tölum mikið saman, tjáum okkur og látum vita ef það er eitthvað sem við erum ekki ánægð með. Það er svo mikilvægt að bera virðingu fyrir hvort öðru.“

Annie verður 28 ára í september en hefur aldrei verið í betra formi.
Öflug Annie verður 28 ára í september en hefur aldrei verið í betra formi.

Mynd: Annie Mist

Kærastinn þjálfar hana

Hún segir fleiri kosti en galla fylgja því að vera í sambandi með öðrum crossfit-iðkanda. „Ég held að það væri erfitt að vera með einhverjum sem skildi þetta ekki. Við vitum alltaf hvað hitt er að ganga í gegnum, styðjum og hvetjum hvort annað. Ég held að það sé svakalegur kostur. Sem betur fer höfum við líka margt annað að ræða um, en crossfit er án efa stærsta áhugamál okkar og helsta umræðuefnið. Frederik hefur líka mikinn áhuga á öllu sem viðkemur líkamanum og er oft í hlutverki þjálfara gagnvart mér,“ segir hún en neitar því að það sé erfitt að fá leiðbeiningar frá kærastanum. „Alls ekki. Hann er mjög góður þjálfari og aðstoðar mig mikið. Hann þekkir mig líka það vel og veit hvernig hann á að tala við mig og hvenær best er að stíga til hliðar og leyfa mér að vinna í friði. Það er því aldrei vesen – nema kannski þegar ég er svöng en við pössum bara að það gerist aldrei.“

Barneignir bíða

Átökin sem fylgja því að vera á meðal þeirra bestu í jafn harðri keppni gerir að verkum að það verður ekki sjálfgefið að snúa til baka eftir barnsburð þótt vissulega séu þess dæmi. Aðspurð segir Annie að barneignir þeirra Frederiks verði að bíða betri tíma. „Það mun gerast, en ekki strax. Það er allavega ekki planið að það gerist á næstunni,“ segir hún en segist ekki líta á það sem fórn. „Ég veit að við munum eignast börn í framtíðinni þannig að ég lít ekki á það sem fórn. Það mun gerast en ekki strax,“ segir Annie sem verður 28 ára í september.

Enn pláss fyrir bætingu

Hún segir enn möguleika á að verða betri. „Mér líður eins og ég geti haldið áfram að bæta mig en veit að það verður alltaf erfiðara. Með hækkandi aldri hef ég þurft að haga æfingunum öðruvísi. Ég er ekki að „peak-a“ allt árið og þarf að passa mig meira. Sem betur fer er ég með góðan þjálfara sem hjálpar mér að æfa gáfulega því það mikilvægasta er að halda sér heilbrigðum og meiðslalausum. Ég nota púlsmæla svo ég geti fylgst vel með í hvaða kerfi sem ég er að vinna hverju sinni og fái sem mest út úr æfingunum. Það er bara hægt að æfa upp að ákveðnu marki og ég hef lært að hlusta á líkamann. Það eru miklar og vísindalegar pælingar á bak við hverja æfingu og þetta er mikil vinna. Maður er alltaf að æfa, að passa sig að borða rétt, „recover-a“, fara í nudd eða að teygja. Þetta er meiri vinna en margir halda.“

Útlitið skiptir engu

Sú umræða hefur stundum komið upp að sumar konur óttist lyftingar því þær vilji ekki vera of vöðvastæltar. Annie segist ekki finna fyrir neinum fordómum vegna vöðvanna. „Hugsanlega er það vegna þess að flestir sem ég umgengst eru vinir mínir, þykir vænt um mig eða eru líka í mjög góðu formi. Mér finnst ekki mikið um útlitsdýrkun í crossfit. Fólk í crossfit hugsar meira um að verða besta útgáfan af sjálfu sér, hraust og sterkt, enda eru aldrei speglar í crossfit-stöðvum. Sjálf er ég ekki mikið upptekin af útliti mínu þar sem það er engan veginn hluti af íþrótt minni. Crossfit snýst einungis um það sem þú getur og ekki bara þegar kemur að styrk heldur úthaldi, fimi og hæfni líka.“

„Ef ég myndi trúa því að keppinautar mínir væru að nota lyf myndi ég gefast upp og hætta að keppa“

Fagnar lyfjaprófum

Hvað með ólöglega lyfjanotkun, er slíkt vandamál innan crossfit?
„Að sjálfsögðu get ég ekki sagt að það séu engin skemmd epli innan crossfit frekar en í öðrum íþróttagreinum en ég get með hreinni samvisku sagt að ég trúi því ekki að það sé mikið um ólögleg efni þegar kemur að crossfit. Utanumhaldið er strangt og mörg lyfjapróf framkvæmd á hverju ári. Til dæmis þarf ég að alltaf að láta vita hvar ég er stödd því lyfjaprófin eru einnig gerð utan keppnistímabilsins. Ég hef stundað margar aðrar íþróttir en aldrei verið undir eins miklu eftirliti og síðan ég byrjaði að keppa í crossfit. Ég fagna þessum lyfjaprófum því þar hef ég, sem og aðrir keppendur, tækifæri til að sýna fram á hreinan líkama.“

Sorgleg og leiðinleg umræða

Annie vill í þessu sambandi benda á muninn á þeim sem stunda crossfit og aðrar íþróttir. „Ef horft er á tölur þá erum við ekki nærri því eins sterk og þeir sem keppa í ólympskum lyftingum og kraftlyftingum og að sama skapi erum við langt frá hlaupatímum frjálsíþróttamanna sem er eðlilegt því við erum að æfa alla þessa þætti, styrk, úthald og fimi,“ segir hún og bætir við að umræðan um ólögleg lyf sé bæði leiðinleg og sorgleg. „Ef ég myndi trúa því að keppinautar mínir væru að nota lyf myndi ég gefast upp og hætta að keppa. Það eru ákveðnir hlutir sem ég er tilbúin að leggja á mig fyrir íþróttina, eins og gríðarlegt álag á líkama og sál og mikill tími í viðhald og viðgerðarvinnu á líkamanum því svona mikið álag veldur meiðslum ef ekki er að því hugað. Mér þykir líka það vænt um líkama minn að ég myndi aldrei snerta á neinum lyfjum, ég á aðeins einn líkama og þarf á honum að halda í ansi mörg ár í viðbót. Það sem er sorglegt við þessa umræðu er að hún gerir lítið úr allri vinnunni, æfingunum og aganum sem við höfum lagt á okkur til að ná þessum árangri.“

Þær gerast ekki stærri stjörnurnar í crossfit-heiminum eins og heyrist frá áhorfendum þegar Annie gengur inn á völlinn.
Stór stjarna Þær gerast ekki stærri stjörnurnar í crossfit-heiminum eins og heyrist frá áhorfendum þegar Annie gengur inn á völlinn.

Mynd: Annie Mist

Stefnir á gullið

En hvað með heimsleikana 2018?
„Síðustu árin hef ég oft hugsað að þetta væri síðasta árið sem ég keppi í einstaklingskeppni en þetta er bara svo gaman. Það eina sem ég veit er að ég mun áfram gera mitt besta. Ef ég keppi aftur í einstaklingsflokki mun ég klárlega stefna á gullið, það er bara þarna rétt fyrir framan mig. Ég er svakalega mótiveruð og er núna að skoða hvernig ég geti haldið áfram að bæta mig og haldið áfram að vera besta útgáfan af sjálfri mér. Ég vil sjá hversu mikið betri ég get orðið og tilhugsunin um að ég geti verið jákvæð fyrirmynd fyrir aðra er stór bónus sem drífur mig enn lengra áfram.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

8 ára drengur með heilaæxli steig á svið – Sjáðu atriðið sem hreyfði við Simon Cowell

8 ára drengur með heilaæxli steig á svið – Sjáðu atriðið sem hreyfði við Simon Cowell
Fókus
Í gær

J. Lo loksins laus við slottið – 7 ár í sölu og verðmiðinn lækkaður um milljónir

J. Lo loksins laus við slottið – 7 ár í sölu og verðmiðinn lækkaður um milljónir
Fókus
Fyrir 2 dögum

„Ég er í dag ekki vitund hrædd við dauðann. Það kom eftir þessa lífsreynslu.“

„Ég er í dag ekki vitund hrædd við dauðann. Það kom eftir þessa lífsreynslu.“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Þetta var uppáhalds skyndibiti Elísabetar drottningar

Þetta var uppáhalds skyndibiti Elísabetar drottningar