fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Fókus

„Breytingar eru tækifæri til að gera eitthvað skemmtilegt“

Stefán Örn safnar bifreiðum til varðveislu

Ragna Gestsdóttir
Sunnudaginn 20. ágúst 2017 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stefán Örn Stefánsson er meistari í bifreiðasmíði, hann heillast af eldri bílum og hefur aldrei langað að eiga nýja bíla. Fornbílaflotinn sem hann safnar til varðveislu er í geymslu í Bolungarvík, meðan eigandinn vinnur við smíðar í Grindavík. Hann er óhræddur við að breyta til þegar tækifærin banka upp á og prófa eitthvað nýtt, hvort sem það er starf eða búseta.

„Þegar ég var þriggja ára þá var ég lokkaður yfir götuna í bílskúr nágrannans,“ segir Stefán Örn, sem hékk sem krakki og lék sér í þremur bílskúrum í götunni sem hann bjó við ásamt foreldrum sínum í Kópavogi. Þar fylgdist hann með körlunum gera við og dytta að bílum og áhuginn á bílum og bílaviðgerðum kviknaði.

Á unglingsárunum rúntaði hann með vinunum um iðnaðar- og íbúðahverfi og skoðaði bilaða bíla og þegar bilaðir bílar í innkeyrslum íbúðarhúsa vöktu áhuga þeirra, var bankað upp á og falast eftir bílnum. „Iðulega fékkst svarið frá eigandanum að hann væri nú alveg að fara að gera við bílinn, mörgum árum seinna var bíllinn enn á sama stað, óuppgerður og orðinn ónýtur.“

Flestir bekkjarbræðra hans fóru í Menntaskólann í Kópavogi, en hann fór í grunndeild málmiðna í Iðnskólanum. Þegar námi þar lauk valdi hann bifreiðasmíðina, „einfaldlega vegna þess að mig langaði að kunna hana fagmannlega, ekki af því ég ætlaði að vinna við hana.“

Samningur var hluti af náminu og eftir tveggja ára vinnu á verkstæði eftir sveinsnámið þá var Stefán Örn orðinn hundleiður á vinnunni og vildi breyta til. „Ég var kominn með vinnu í Noregi árið 2004, en bauðst þá vinna á verkstæði á Ísafirði og ég hugsaði að þetta gæti verið það sem mig vantaði: tilbreyting, annað umhverfi. Ég þurfti samt að byrja á að fletta upp hvar Ísafjörður er,“ segir Stefán Örn, sem ákvað síðan að taka eitt ár á þetta og flytja til Ísafjarðar. Hann fór þangað einn og óstuddur, og þekkti engan fyrir vestan. Eftir árið var hann búinn að kynnast konu, eignaðist síðan dótturina Þórunni Hafdísi þremur árum seinna, árið 2008, og gekk í hjónaband árið 2010.

Stefán Örn leggur sig fram við að varðveita fornbíla.
Með brennandi bíladellu Stefán Örn leggur sig fram við að varðveita fornbíla.

Þegar réttingarverkstæðið á Ísafirði fór á hausinn ákvað Stefán Örn aftur að breyta til og fékk vinnu í stálsmíði. „Þar fór ég að vinna við eitthvað sem skildi eitthvað eftir sig og var gefandi,“ segir Stefán Örn. „Til dæmis í hvert skipti sem ég geng inn í Edinborgarhúsið á Ísafirði, þá sé ég fyrsta handverkið sem ég sauð í ryðfrítt stál, aðalhandriðið þar, það er fyrsti hluturinn sem ég smíðaði.“

Aftur stóð Stefán Örn á tímamótum þegar samdráttur leiddi til uppsagnar í stálsmíðinni. Þá ákvað hann að prófa að vera eigin herra og opnaði verkstæði á Ísafirði árið 2010, sem þróaðist í að verða almennt bílaverkstæði.

„Svo fékk ég algjörlega leiða á því, bílar hafa alltaf verið áhugamál, en að vinna við þá frá morgni til kvölds og ætla svo að fara í skúrinn og vinna við mína eigin bíla á kvöldin, það einfaldlega virkaði ekki. Ég vildi fara að vinna við eitthvað allt annað, svo þurfti maður bara að ákveða hvað þetta „allt annað“ ætti að vera.“

Slæptist um í fyrsta sumarfríinu í sjö ár

Í byrjun sumars 2017 lokaði Stefán Örn verkstæðinu, fór á puttanum til Akureyrar og sótti gamlan Buick, fór á rúntinn um Norðurlandið og hluta af Austfjörðum, heimsótti bílakirkjugarða og tók fyrsta sumarfríið í sjö ár. Hann var duglegur að deila ferðalaginu á Snapchat, en þar er hann undir notandanafninu Ztebbi og er duglegur að deila daglega lífinu þar, hvort sem það felst í smíðunum, bílabröltinu eða öðru.

Einn af mörgum bílum Stefáns Arnar, Buick Century árgerð 1984
Buick í besta standi Einn af mörgum bílum Stefáns Arnar, Buick Century árgerð 1984

„Vinur minn vinnur við smíðar í Grindavík og bauð mér íbúð þar og mér bauðst vinna með honum, þannig að ég ákvað bara að slá til. Búinn að vera í mánuð og bara mjög gaman,“ segir Stefán Örn. „Smíðavinnan er svo fjölbreytt, einn dag er ég að hengja upp spegil, næsta dag er ég að gera við leka í húsi, þann þriðja að setja klæðningu á hús. Það er enginn dagur eins, við gerum við allt sem þarf að gera við. Vinnan er svo fjölbreytt og miðað við fyrri reynslu ætla ég að vera í eitt ár,“ segir Stefán Örn og hlær. Þegar vinnudeginum lýkur bregður hann sér í kjallarann hjá vini sínum, þar sem hann er að útbúa íbúð handa sér. Þannig að líkur eru á að búsetan í Grindavík verði lengur en eitt ár.

Keyrir um á Oldsmobile F85 árgerð 1962

„Bíllinn sem ég keyri á í dag var búinn að vera í mörg ár í Hrísey, en hann endaði þar af því að einhver ætlaði að gera við hann,“ segir Stefán Örn. „Bíllinn var fluttur inn fyrir einhverjum árum og um leið og gámurinn var opnaður sá þáverandi eigandi að bíllinn var flagð undir fölsku skinni. Ég var búinn að vita af þessum bíl í mörg ár. Bíllinn stóð í Hrísey með opna glugga, það rigndi inn í hann og vinur minn eignaðist hann í einhverju braski og vissi að ég var spenntur fyrir honum, af því að það væri nú gott að eiga varahluti í annan sem ég átti fyrir.“

Stefán Örn fór á Benz árgerð 1977 til Akureyrar að sækja bíllinn og dró hann til Ísafjarðar. Síðan ákvað hann í stað þess að rífa Oldsmobile-inn í varahluti, að keyra hann bara út og nota eftir að hafa skreytt hann aðeins upp og komið í gegnum skoðun.

Oldsmobile F85 árgerð 1962 sem Stefán Örn keyrir um á í dag.
Núverandi fararskjóti Oldsmobile F85 árgerð 1962 sem Stefán Örn keyrir um á í dag.
Stefán Örn undir stýri á Mercury Monterey árgerð 1965.
Bónuð glæsibifreið Stefán Örn undir stýri á Mercury Monterey árgerð 1965.

Framendi varð að sjónvarpsskenk

Stefán Örn er ekki bara handlaginn við bílana, heldur notar parta af þeim í eitthvað annað, eins og til dæmis í sjónvarpsskáp í stofunni á Ísafirði.

„Ég sá Mercury Marquis árgerð 1970 auglýstan til sölu í Þorlákshöfn, haugryðgaðan og handónýtan. Bíl sem var keyptur í Sölu varnarliðseigna fyrir fjölda ára, svo stóð hann bara úti og maður sér á boddíinu hvernig ríkjandi vindátt var. En með framendanum á bílnum gat ég gert eitt sem mig langaði alltaf til að gera: sjónvarpsskenk. Ég fór því sérstaklega frá Ísafirði til Þorlákshafnar með sverðsög og slípirokk, skar framendann af bílnum og keyrði með vestur. Inni í þessu er ég með heimabíóið, afruglarann, Playstation-tölvuna og svo framvegis.“

Bíll breytist í sjónvarpsskenk.
Sjónvarpsskenkur Bíll breytist í sjónvarpsskenk.

Heillast ekki af nýjum bílum

Stefán Örn á 15 bíla og geymir þá alla, nema einn, í geymslu sem hann á í Bolungarvík, en hana keypti hann fyrir þremur árum, með það fyrir augum að varðveita bílana þar. Allir eru fornbílar, nema einn, og meðalaldurinn 51–52 ár. Fimm af bílunum eru einstakir, þeir einu sinnar tegundar hér á landi. „Mig hefur aldrei langað til að eiga nýjan bíl, þeir bara heilla mig ekki. Líklega vegna þess að það getur hver sem er keypt sér og keyrt um á nýjum bíl. Allir bílarnir sem ég á skera sig úr í umferðinni. Þegar ég keyri um þá er veifað til mín: „Hei, þarna er Stebbi.“ Mér líður bara illa að keyra um á venjulegum bíl.“

De Lorean, sá eini sinnar tegundar á landinu. Sams konar bíll og Marty Mcfly ferðaðist á um tímann í myndunum Back to the Future.
Aftur til fortíðar De Lorean, sá eini sinnar tegundar á landinu. Sams konar bíll og Marty Mcfly ferðaðist á um tímann í myndunum Back to the Future.

Margir bílanna eru óuppgerðir og segir Stefán Örn að hann safni að sér bílum til að varðveita þá. Hann hvorki segir né lofar að hann muni einhvern tíma gera þá alla upp. „Mig langar að gera það, en maður þarf að hafa tíma til þess. Vonandi fæ ég núna löngun til að dútla aftur við bíla á kvöldin. En á meðan ég bíð eftir tíma, þá bíða bílarnir í geymslunni í Bolungarvík. Ásamt varahlutum sem ég hef líka sankað að mér.“

Líkt og með áhugamenn um fótbolta sem muna öll fótboltaúrslit, þá man Stefán Örn allt hvað varðar bílana, sem verða á vegi hans. „Ég er hrikalega lélegur með nöfn á fólki, en ég veit miklu frekar hvernig bíl það keyrir um á.

Það er nauðsynlegt að hafa tilbreytingu í lífinu, ekki festa sig bara við að gera eitthvað eitt. Ég á 30 ár eftir á vinnumarkaðinum hið minnsta, þannig; af hverju ekki? Allar breytingar eru tækifæri til að gera eitthvað skemmtilegt og bæta í gagnabankann. Allt sem maður gerir og hefur gert, gerir mann að þeirri manneskju sem maður er í dag og maður á aldrei að sjá eftir neinu,“ segir Stefán Örn.

Stefán Örn var skiptinemi í Bandaríkjunum í eitt ár eftir grunnskóla. Bílaáhuginn minnkaði ekkert vestanhafs. „Þegar ég var 17 ára skiptinemi í Bandaríkjunum þá gerði ég upp þennan Chevrolet árgerð 1957.“
Skiptinemi í Bandaríkjunum Stefán Örn var skiptinemi í Bandaríkjunum í eitt ár eftir grunnskóla. Bílaáhuginn minnkaði ekkert vestanhafs. „Þegar ég var 17 ára skiptinemi í Bandaríkjunum þá gerði ég upp þennan Chevrolet árgerð 1957.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 4 dögum

Margrét Ýr og Reynir Grétarsson slá sér upp saman

Margrét Ýr og Reynir Grétarsson slá sér upp saman
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Það er eiginlega mannréttindabrot að neita sjúklingum á Íslandi um þetta“

„Það er eiginlega mannréttindabrot að neita sjúklingum á Íslandi um þetta“