fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fókus

„Mig langaði að gefa þeim til baka það sem þau hafa gert fyrir mig“

Elenóra Rós gefur til baka til Barnaspítalans – Fæddist með líffæri utan líkamans

Ragna Gestsdóttir
Mánudaginn 14. ágúst 2017 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Elenóra Rós Georgesdóttir er 16 ára gömul og fæddist með líffæri utan líkamans, það er fæðingargalli sem ber nafnið Omphalocele. Hún hefur farið í fjölda aðgerða og skoðana hjá Barnaspítala Hringsins frá fæðingu og á starfsfólki þar mikið að þakka. Því ákvað hún að gefa af sér til baka og heldur bollakökubasar og hleypur í maraþoninu fyrir Barnaspítalann.

„Mig langaði að gefa þeim til baka það sem þau hafa gert fyrir mig,“ segir Elenóra. „Ég hef fengið mikla þjónustu frá Barnaspítalanum og það er alveg sama þó að ég hafi verið erfið, til dæmis þegar lyfin hafa farið illa í mig, starfsfólkið er alltaf með bros á vör og kemur fram við mig eins og ég sé frábær einstaklingur.“

Elenóra hefur frá unga aldri haft mikinn áhuga á kökum og bakstri og hefur bakað með móður sinni. „Mamma mín er svo klár að baka og skreyta kökur og það er eitthvað sem við gerðum oft saman og ég hef haft mikinn áhuga á síðan ég var krakki,“ segir Elenóra. „Það er alltaf til eitthvert bakkelsi heima, kanelsnúðar, kleinur eða annað. Síðan þegar ég varð eldri fór ég að skoða uppskriftir á netinu og svona 11–12 ára gömul þá var ég farin að baka alveg sjálf.“

Það má því segja að baksturinn og áhugi á honum sé Elenóru í blóð borinn og hún ákvað að nýta áhugann alla leið og að loknum tíunda bekk skráði hún sig í nám í bakaraiðn í Menntaskólanum í Kópavogi og er búin með eitt ár í bóklegu námi og fær að vita í september næstkomandi hvar hún kemst á samning til næstu þriggja ára. „Baksturinn er eitthvað sem ég hef alltaf haft mikinn áhuga á.“

Fæddist með fæðingargalla

„Ég er fædd með nokkur líffæri utan líkamans og þurfti að fara í bráðaaðgerð strax eftir fæðingu,“ segir Elenóra. „Ég hef þurft að leggjast oft inn á spítala síðan og farið í þónokkrar aðgerðir, og síðan 2012 hef ég farið í 2–3 aðgerðir á ári.“

Sjúkdómurinn sem Elenóra er með heitir Omphalocele og er Elenóra á lyfjum sem hún mun alltaf þurfa að vera á. „Lyfin sem ég er á núna fara vel í mig. Ég er hluti af magalæknateyminu og þar sem þau hafa gert svo mikið fyrir mig á Barnaspítalanum þá vil ég gefa til baka.“

Elenóra er þakklát starfsfólki Barnaspítalans og segir það alltaf vera með bros á vör.
Þakklát starfsfólkinu Elenóra er þakklát starfsfólki Barnaspítalans og segir það alltaf vera með bros á vör.
Elenóra hefur farið í fjölda aðgerða og skoðana á Barnaspítalanum frá fæðingu.
Hress þrátt fyrir sjúkdóm Elenóra hefur farið í fjölda aðgerða og skoðana á Barnaspítalanum frá fæðingu.

Bakar og hleypur fyrir Barnaspítalann

Þegar Elenóra ákvað að gefa til baka til Barnaspítalans þá lá beint við að baka og safna þannig fé handa Barnaspítalanum. „Ég byrjaði að baka í desember í fyrra og er með síðuna Le‘ Nores Cakes á Facebook: lenorescakess. Í maí skráði ég mig í Reykjavíkurmaraþonið og ætla að hlaupa 10 kílómetra,“ segir Elenóra.

Árið 2015 var Elenóra á Írlandi og sá þar mann á götumarkaði að selja bollabökur. „Ég var heltekin af þessari hugmynd og datt þess vegna í hug að hafa svona basar hér heima, þannig gæti fólk sem hefur keypt af mér áður komið og hitt mig og jafnvel keypt kökur og þannig lagt sitt af mörkum.“ Elenóra er búin að vera á fullu í bakstri í vikunni og voru móðir hennar og vinkonur að aðstoða við baksturinn. „Við erum með fjórar hrærivélar í gangi og ég á von á að um 80 manns mæti, fjöldi nánustu vina og ættingja hefur sagt mér að þeir muni mæta.“

Basarinn var í gær á Lækjartorgi og gekk salan mjög vel þar eins og á Facebook-síðunni. „Áheitin í hlaupinu hafa gengið aðeins verr, en í heildina er ég búin að safna um 300 þúsund krónum,“ segir Elenóra. Hún ætlar að halda Facebook-síðunni áfram að loknu hlaupi. „Ef pantanir koma þar í gegn þá mun ég baka. Síðan langar mig að gera meira fyrir Barnaspítalann, jafnvel gefa þeim köku til dæmis einu sinni í mánuði.“

Það var nóg að gera í bollakökubakstri fyrir markaðinn.
Undirbýr bollakökumarkað Það var nóg að gera í bollakökubakstri fyrir markaðinn.

Heita má á Elenóru í maraþoninu með því að heimsækja síðuna hennar hér

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Samfélagsmiðlastjarna látin aðeins 36 ára – „Ég botna ekki í neinu lengur en við munum fá meiri upplýsingar á næstu dögum“

Samfélagsmiðlastjarna látin aðeins 36 ára – „Ég botna ekki í neinu lengur en við munum fá meiri upplýsingar á næstu dögum“
Fókus
Í gær

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sjáðu senuna sem er sögð sú fyndnasta í Saturday Night Live frá upphafi – Enginn náði að halda andliti

Sjáðu senuna sem er sögð sú fyndnasta í Saturday Night Live frá upphafi – Enginn náði að halda andliti
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs
Fókus
Fyrir 4 dögum

Tinna er líklega búin að finna móður sína – „Ég þarf að vera tilbúin til að fara út til þegar kallið kemur“

Tinna er líklega búin að finna móður sína – „Ég þarf að vera tilbúin til að fara út til þegar kallið kemur“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Einn dáðasti leikarinn á leið í hnapphelduna eftir að unnustan fór á skeljarnar

Einn dáðasti leikarinn á leið í hnapphelduna eftir að unnustan fór á skeljarnar