Migos mætir í Laugardalshöllina

Rappa sig upp vinsældalistana

Migos, ein heitasta rapphljómsveit heims, mætir í Laugardalshöllina í næstu viku, þann 16. ágúst og skemmtir Íslendingum. XXX Rottweiler, Cyber og Joey Christ sjá um að hita og DJ Sura mun þeyta skífum.

Hljómsveitin, sem hét upphaflega Polo Club, var stofnuð í Georgíu-fylki í Bandaríkjunum árið 2009 af frændunum Quavo, Takeoff og Offset. Migos gaf út fyrsta „mix-teipið“, Juug Season, árið 2011. „Mix-teipið“ Y.R.N. (Yung Rich Niggas) kom út árið 2013 og lagið Versace sló rækilega í gegn og birtist á fjölda topplista, þar á meðal hjá Rolling Stone. Rapparinn Drake gaf út „remix“ af laginu og það vakti athygli þegar kanadíska poppstjarnan Justin Bieber birti stutt myndband af sér á samfélagsmiðlum þar sem hann rappar með laginu.

Framinn var vís, aðdáendur og gagnrýnendur voru heillaðir og Migos vann með listamönnum á borð við Post Malone (sem er nýlega búinn að halda tónleika í Hörpu), Katy Perry, Drake og 2 Chainz.

Í október 2016 fór lag Migos og Lil Uzi Vert, Bad and Boujee, á toppinn á vinsældalistum í Bandaríkjunum og víðar, og fékk mikla útbreiðslu á samfélagsmiðlum, meðal annars með „meme“. Lagið var tilnefnt til Billboard-tónlistarverðlaunanna í maí síðastliðnum, sem besta rapplagið og besta rappsamstarfið. Lagið er fyrsta lag plötunnar Culture, sem kom út í janúar og hefur hún fallið vel í kramið hjá rappaðdáendum.

Erpur spenntur fyrir tónleikunum

Erpur Eyvindarson, meðlimur XXX Rottweiler, er einn af þeim sem munu kynda upp húsið fyrir bandarísku nýstirnin. Hann hefur marga fjöruna sopið þegar kemur að hipphoppi og hefur lifað tímana tvenna. „Mér finnst Migos mjög skemmtilegir“ segir Erpur þegar blaðamaður náði af honum tali. „Ég hef fylgst með rappi svo lengi. Þetta er með því betra sem er í gangi í þessari nýju bylgju. Þetta eru ungkettir.“

Meðlimur XXX Rottweiler.
Erpur Eyvindarson Meðlimur XXX Rottweiler.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.