„Annaðhvort bugast maður eða rís upp“

Inga Sæland rifjar upp æskuna og segir frá hugsjónum Flokks fólksins

Inga úti í dagsbirtunni þar sem hún sér hvað verst.
Sér best í rökkri Inga úti í dagsbirtunni þar sem hún sér hvað verst.
Mynd: Brynja

Ýmislegt hefur drifið á daga Ingu Sæland sem ekki hefur farið hátt í fjölmiðlum. Til dæmis er hún fyrsta lögblinda konan sem útskrifast með BA-gráðu í lögfræði frá lagadeild HÍ en Inga er einungis með tæplega 10 prósent sjón vegna veikinda snemma í æsku. Í fyrra stofnaði hún Flokk fólksins sem hefur verið mikið í fréttum undanfarið vegna góðrar útkomu í skoðanakönnunum. Nýjasta könnun sýnir að flokkurinn fengi fimm menn kjörna ef kosið yrði til Alþingis nú. Enn fremur hefur Inga verið gagnrýnd fyrir að etja saman hælisleitendum og öryrkjum, nokkuð sem hún frábýður sér og telur vera grófar rangfærslur. Flokkur fólksins hefur verið kallaður popúlistaflokkur, en þá nafngift lætur Inga sér í léttu rúmi liggja.

Viðtalið fór fram á skrifstofu Flokks fólksins að Hamraborg 10. Látlaus og snyrtileg húsakynni, en úr norðurgluggum er frábært útsýni yfir Fossvoginn. Skrifstofan er sprungin utan af flokknum; hér er vandræðalaust hægt að halda fundi með um 60 manns en þörf er á mun stærri fundaraðstöðu. Flutningur bíður betri tíma og raunar bíður öll pólitík dálitla stund í þessu viðtali því fyrst viljum við fræðast um bakgrunn og ævi Ingu áður en hjólin fóru að snúast í pólitíkinni með stofnun flokksins í fyrra.

Nánast blind frá fimm mánaða aldri – einelti á Ólafsfirði

Inga er fædd á Ólafsfirði árið 1959 og bjó þar allar götur til ársins 1994 er hún flutti til Reykjavíkur, þá orðin 35 ára gömul.

„Faðir minn var verkamaður og sjómaður, átti litla trillu, dagróðrabát, og hann vann fyrir heimilinu eins og þá tíðkaðist. Mamma var heima með okkur fjögur börnin. Jólagjafirnar hjá mér voru nytsamar; ullarsokkar, vettlingar og kannski smá nammi með, það voru ekki Barbie-dúkkur, skautar eða hjól eins og hjá sumum öðrum börnum. Það var aðallega þannig sem ég fann að við höfðum ekki mikið á milli handanna. Hins vegar var alltaf nægur matur, mamma gaf okkur hafragraut og lifrarpylsu á morgnana og það var heitur matur í hádeginu og á kvöldin. En ávextir voru þá meiri lúxus en nú er og sáust bara á jólunum. Ég saknaði þess stundum að fá oftar ávexti þegar ég fann til dæmis appelsínulykt í skólanum. Við fengum líka sjaldan ný föt og vorum ekkert sérstaklega að tolla í tískunni, allt var nýtt sem hægt var að nýta,“ segir Inga og bætir við hlæjandi dálitlu dæmi um umhyggjusemi móður sinnar: „Hún gaf okkur alltaf meðal gegn njálg á haustin þó að ekkert okkar hafi nokkurn tíma fengið njálg. Hún var mikið í forvörnunum, hún mamma.“

Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.