fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fókus

Fimm óupplýst mannshvörf á Íslandi

Bjarki Hall hefur sankað að sér upplýsingum um horfið fólk -Heldur úti síðu á Facebook

Kristín Clausen
Þriðjudaginn 25. júlí 2017 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég er ekki bara undarlegur kall með mannshvarfsblæti,“ segir tónlistar- og gröfumaðurinn Bjarki Hall sem ákvað í byrjun þessa árs að sökkva sér ofan í áhugamál sitt sem eru íslensk mannshvörf. Bjarki hóf rannsóknarvinnu í tengslum við fjölmörg óupplýst mál eftir að hann varð tímabundið óvinnufær eftir vinnuslys. Bjarki hefur tekið saman gögn úr gömlum blaðagreinum og rannsóknarskýrslum með því markmiði að finna nýjar vísbendingar í þeim fjölmörgu málum sem engin svör liggja fyrir í.

Bjarki heldur úti síðunni Íslensk mannshvörf á Facebook. Þar hefur hann birt samantektir í bland við nýjar vísbendingar sem honum hafa borist eftir að síðan opnaði. Bjarki tengist sjálfur einum Íslendingi sem hvarf sporlaust árið 1945. Það er Hannes Pálsson en ekkert spurðist til hans eftir 4. janúar það ár. Móðir Hannesar og langamma Bjarka voru systur. Dularfullt hvarf Hannesar var rætt í fjölskylduboðum, í bland við önnur mál, og gæti það, að sögn Bjarka, verið ein af ástæðum mikils áhuga hans á mannshvörfum.

Hefur birt umfjallanir um mörg óupplýst mannshvörf
Hefur óslökkvandi áhuga á íslenskum mannshvörfum Hefur birt umfjallanir um mörg óupplýst mannshvörf

Mynd: Berglind Amy Guðnadóttir

Þrátt fyrir að Bjarki sé nú orðinn heill heilsu og byrjaður að vinna fulla vinnu þá hefur áhugi fólks á síðunni í bland við nýjar ábendingar og öfluga heimildarleit gefið Bjarka byr undir báða vængi. Hann ætlar sér að gera síðuna enn efnismeiri og vonast að vinnan skili sér í því að eitthvert þessara fjölmörgu dularfullu mála upplýsist í náinni framtíð.

Bjarki gaf DV góðfúslegt leyfi til að endurbirta efni af síðunni, Íslensk mannshvörf. Blaðamaður bætti lítillega við textana með aðstoð Bjarka sem biðlar til þeirra sem hafa einhverjar vísbendingar um neðangreind mál að hafa samband við sig með tölvupósti. Hann segir mikilvægt að málin fái reglulega umfjöllun því án efa sé fólk þarna úti sem búi yfir upplýsingum sem gætu leitt til þess að þau upplýsist. Póstfang Bjarka er mannshvarf@gmail.com.

Bjarni Matthías Sigurðsson- 25. ágúst 1974

Hvarf sporlaust á Snæfellsnesi.
Bjarni Matthías Sigurðsson Hvarf sporlaust á Snæfellsnesi.
Umfangsmikil leit var gerð að Bjarna.
Var í berjamó þegar hann hvarf Umfangsmikil leit var gerð að Bjarna.

Bjarni Matthías Sigurðsson var fæddur 29. nóvember 1894 og var búsettur í Ólafsvík. Bjarni var giftur Vigdísi Lydíu Sigurgeirsdóttur og áttu þau sex börn. Vigdís lést árið 1975. Bjarni var trésmiður, járnsmiður og var vinsæll meðal þeirra sem hann þekktu. Hann rak meðal annars vélsmiðju í Ólafsvík. Bjarni var mikill útivistarmaður og var heilshraustur þrátt fyrir að vera orðinn 79 ára gamall. Hann var þó farinn að tapa minni og grunar ættingja að hann hafi verið kominn með alzheimer á byrjunarstigi þegar hann hvarf.

Hvarf í berjamó

Þann 25. ágúst 1974 fór Bjarni til berjatínslu ásamt dóttur sinni og tengdasyni skammt frá Hólahólum á Snæfellsnesi. Bílnum var ekið spölkorn upp vegslóða frá aðalveginum þar sem honum var lagt og í framhaldinu höfðust þau handa við berjatínslu. Bjarni var klæddur í blá nankinsföt, með köflótta húfu eða svo kallaðan sixpensara. Hann var með rauða fötu undir berin og berjatínu sem hann hafði smíðað sjálfur. Þegar fólkið hafði tínt ber í góða stund ákvað Bjarni að fara aftur til bifreiðarinnar og fá sér kaffisopa. Samferðafólk hans fór svo um fimmtán mínútum seinna til sömu erindagjörða en þá var Bjarni hvergi sjáanlegur.

Þau svipuðust um eftir honum í nokkra stund. Þegar það skilaði engum árangri tilkynntu þau hvarfið og hófst þá umfangsmikil leit. Það sýnir vel þann samhug sem býr í fólki að bátar fóru ekki á sjó daginn eftir hvarf Bjarna og mest allt atvinnulíf lamaðist í Ólafsvík sem og víðar á Snæfellsnesi því fólk vildi aðstoða við leitina. Þegar leitin stóð sem hæst tóku hátt í 3000 manns þátt í henni. Einnig var notast við þyrlu við leitina. Segja má að hver einasti sentímetri hafi verið kannaður oftar en einu sinni, og oftar en tvisvar, á þeim slóðum sem Bjarni hvarf.

Sporhundur var kallaður til. Hann rakti slóð Bjarna frá þeim stað er þau höfðu lagt bifreið sinni og upp á aðalveginn. Þar endaði slóðin. Það vakti ákveðnar grunsemdir og eru ættingjar hans, sumir hverjir, þess full vissir að þar hafi einhverskonar slys átt sér stað sem hafi endað með saknæmu athæfi. Þá segir Bjarki að maður sem tók þátt í leitinni að Bjarna á sínum tíma hafi sagt sér að hrúga af berjum hafi fundist við vegarkant skömmu frá þeim stað þar sem Bjarni sást síðast. „Maðurinn sagði mér að hrúgan hefði litið út eins og það hefði verið hvolft úr fötu. Lögreglan fór hljótt með þetta.“

Dulrænn sjáandi kvaðst vita um Bjarna

Sonur Bjarna segir í þáttunum Óupplýst mannshvörf sem voru sýndir á Stöð 2. „Það var leitað það vel á svæðinu að hann hefði fundist ef hann væri þarna.“ Í þættinum kom einnig fram að dulrænn sjáandi hefði gefið sig fram við lögreglu og sagt að hann sæi hvernig atburðarásin var eftir að Bjarni hvarf. „Hann sagði að þessi gamli maður hefði verið að koma úr berjamó og gengur upp á veginn. Þar kemur bíll aðvífandi og hann verður fyrir bílnum. Bíllinn stoppar og út úr bílnum koma tveir menn. Þeir taka manninn og setja hann inn í bílinn og keyra áfram. Síðan segir hann að þeir hafi urðað manninn í grjótvegg við eyðibýli og eyðibýlið sé 60 kílómetra frá þeim stað þar sem hann varð fyrir bílnum.“ Þetta sagði Eðvarð Árnason, fyrrverandi lögreglumaður, í Óupplýstum mannshvörfum. Eðvarð og félagi hans fundu eyðibýli sem svipaði til þess sem sjáandinn lýsti. Þar fundu þeir þó ekkert.

Aldrei fannst neitt sem útskýrt gat hvarf Bjarna. Hvorki rauða fatan, berjatínan eða nokkuð sem var hægt að tengja beint við Bjarna. Gott veður var daginn sem Bjarni hvarf og næstu daga á eftir. Auglýst var eftir honum í fjölmiðlum bæði á íslensku og ensku. Leitað var aftur vorið 1975 þegar snjóa létti eftir veturinn en, sem fyrr, án árangurs. Minningarathöfn um Bjarna Matthías Sigurðsson fór fram frá Ólafsvíkurkirkju 30. nóvember 1974.

Sverrir Kristinsson -26. mars 1972

Fjölskyldan gagnrýndi aðgerðarleysi lögreglunnar.
Sverrir Kristinsson Fjölskyldan gagnrýndi aðgerðarleysi lögreglunnar.

Sverrir Kristinsson var fæddur 4. desember 1949. Hann var uppalinn í stórum systkinahópi í Höfnum á Reykjanesi. Sverrir var annálað snyrtimenni, stundaði nám við raunvísindadeild Háskóla Íslands og bjó á Nýja Garði í Reykjavík sem var heimavist fyrir háskólanema. Sverrir var gítarleikari og hafði meðal annars spilað með hljómsveitunum „Blóm Afþökkuð“ og „Yoga“ Hann var ókvæntur og barnlaus.

Vitnum bar ekki saman

Páskarnir árið 1972 voru snemma það ár. Sverrir ætlaði að dvelja hluta pásakfrísins í Reykjavík og læra undir próf. Hann ætlaði svo að fara heim í faðm fjölskyldunnar á þriðjudegi og njóta frísins með þeim suður í Höfnum.

Að kvöldi Pálmasunnudags 26. mars 1972 fór hann ásamt fleirum að skemmta sér í Klúbbnum sem var staðsettur við Borgartún í Reykjavík. Þegar liðið var á kvöldið tjáði Sverrir félaga sínum, Birni Bergssyni, að hann ætlaði að fara heim. Í framhaldinu tók hann leigubíl upp á heimavist. Leigubílstjórinn sem ók honum sagði að Sverrir hafi verið það ölvaður að hann hafi verið í vandræðum með að skrifa ávísun og hafi þeir sammælst um það að Sverrir kæmi niður á leigubílastöðina daginn eftir og greiddi farið. Þá sagðist hann hafa fylgst með því að Sverrir kæmist örugglega inn á vistina áður en hann ók á brott.

Inn á vistinni mætti Sverrir stúlku sem þar bjó og var málkunnugur. Þau skiptust á nokkrum orðum og héldu svo hvort í sitt herbergið. Athygli vekur að stúlka þessi, sem nú er látin, sagði að Sverrir hefði ekki verið neitt áberandi ölvaður og gefur því augaleið að þarna er hrópandi misræmi í framburði hennar og leigubílstjórans sem ók Sverri skömmu áður. Stúlka þessi býr sig svo til svefns en verður þá vör við að menn koma inn ganginn og banka á hurð Sverris sem opnar fyrir þeim. Hún segist heyra á spjall þeirra um stund án þess þó að greina orðaskil en stuttu seinna fari þeir og Sverrir með þeim. Þetta er í síðasta skipti sem vitað er með einhverri vissu um ferðir Sverris Kristinssonar.

Keyrði bróður Sverris á ruslahaugana

Þegar Sverrir kom svo ekki heim á þriðjudeginum var farið að óttast um hann. Fór fjölskylda Sverris þá til lögreglu og fljótlega upp úr því hófst eftirgrennslan og umfangsmikil leit sem aldrei skilaði árangri. Bróðir Sverris fór til lögreglu skömmu eftir hvarfið til að athuga gang mála. Lögreglumaðurinn sagði honum að það væri vel vitað hvar hann væri og sagðist geta sýnt honum það.

Keyrði lögreglumaðurinn með bróður Sverris upp á ruslahauga í Gufunesi og sagði honum að hér gæti hann fundið bróður sinn, hingað færu þeir nefnilega allir sem dræpu sig. Bróðir Sverris spurði þá hvort þeir ættu þá ekki að ná í hann og gengu svo að skúr sem var á svæðinu. „Hann er ekkert hér,“ sagði bróðir Sverris við lögreglumanninn. „Nei þá getum við ekkert gert,“

Átti þrjá unga drengi.
Elisabet var í fyrstu ekki nafngreind í fjölmiðlum Átti þrjá unga drengi.

sagði lögreglumaðurinn og við svo búið fóru þeir aftur til baka.

Þegar herbergi Sverris var skoðað var það snyrtilega frágengið eins og Sverris var von og vísa. Á skrifborði hans var þó vínflaska sem drukkin var niður fyrir axlir og fjögur staup sem drukkið hafði verið úr og þar af lá eitt þeirra á hliðinni. Fjölskylda Sverris fór fram á það að fingraför yrðu tekin af flöskunni og staupglösunum. Af einhverjum ástæðum var það ekki gert. Fjölskylda Sverris kallaði sjálf til leitarhund sem rakti ferð Sverris út úr vistinni og að götu í grenndinni. Þar týndi hundurinn slóðinni.

Orðrómur um að líkið væri í Norræna húsinu

Nokkrum vikum eftir hvarf Sverris hafði lögreglan samband við fjölskyldu hans og henni gert það orð láta konuna í Norræna húsinu í friði, sú kona væri nefnilega búin að þola nóg. Þau vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið vegna þessarar orðsendingar og kannaðist ekkert þeirra við að hafa verið í neinum samskiptum við neinn hjá þeirri stofnun. Þegar farið var að athuga málið kom í ljós að forstöðumaður Norræna hússins hafði svipt sig lífi þremur vikum eftir hvarf Sverris. Komst sá orðrómur af stað í kjölfarið að ástæðan væri að hann hefði ekið á Sverrir og komið líki hans fyrir í rotþró undir kjallara hússins.

Varð orðrómurinn svo sterkur að lögregla fann sig tilknúna til að athuga það nánar og var leitað hátt og lágt í Norræna húsinu. Þar á meðal í áðurnefndri rotþró. Ekkert fannst við leitina sem renndi stoðum undir sögusagnirnar.
Fjölskylda Sverris var afar ósátt við rannsókn lögreglunnar á hvarfi Sverris. Aldrei fannst neitt sem gat skýrt hvarf Sverris. Eins kom aldrei í ljós hverjir það voru sem heimsóttu Sverrir kvöldið örlagaríka, enda var það eitthvað sem lögreglan athugaði aldrei eða reyndi að komast á snoðir um. Garðar Kristinsson, bróðir Sverris, fórst með vélbát ári áður aðeins 16 ára gamall. Hvarf Sverris var því annað stóra höggið sem fjölskyldan varð fyrir á skömmum tíma.

Elisabet Bahr Ingólfsson -14. desember 1965

Umfangsmikil leit hófst sama kvöld.
Elisabet hvarf skömmu fyrir jól árið 1965 Umfangsmikil leit hófst sama kvöld.

Elisabet Bahr Ingólfsson handavinnukennari var fædd 1. júní 1926 í Pommeren í Þýskalandi. Hún giftist Baldri Ingólfssyni 1951 og saman eignuðust þau þrjá drengi. Þeir heita Baldur Jóakim, Hans Eiríkur og Magnús Diðrik. Elisabet fór heiman frá sér 14. desember 1965 um klukkan 14:30. Fljótlega hófst eftirgrennslan eftir henni og svo umfangsmikil leit þá um kvöldið. Talið var að hún hafi tekið sér far með leigubíl út á Seltjarnarnes.

Hrædd og hrufluð á fótum

Fram kemur í blaðagreinum frá þessum tíma að Elisabet hafi talað lýtalausa íslensku, verið 166 sentímetrar á hæð og ljóshærð. Elisabet var klædd dökkblárri, hnepptri ullarkápu með stórum tölum, svartri húfu og svörtum uppháum leðurstígvélum, þegar hún hvarf.

Skömmu eftir hvarfið gaf sig fram sjónarvottur sem taldi sig hafa séð Elisabetu á gangi við Hafnafjarðarveg neðan Öskjuhlíðar um klukkan 4 aðfaranótt 15. desember. Samkvæmt honum var hún hrædd, hrufluð á fótum og sagði að einhver væri að elta sig. Sjónarvotturinn kveðst hafa boðið Elisabetu far, sem hún afþakkaði.

Fyrst þegar lýst var eftir Elisabetu var ekki greint frá nafni hennar. Ekkert virðist hafa fundist sem gat útskýrt hvarf hennar eða neitt sem gat með fullri vissu útskýrt hvert ferð hennar var heitið þennan örlagaríka dag. Bjarki segir að Elisabet sé önnur af tveim konum sem horfið hafa á Íslandi frá árinu 1930. Reistur hefur verið minningarsteinn um Elisabetu í Gufuneskirkjugarði.

Valgeir Víðisson – 19. júní 1994

Málið er enn óupplýst.
Valgeir Víðisson Málið er enn óupplýst.
Talið er að hann hafi verið myrtur.
Tengdist undirheimum Reykjavíkur Talið er að hann hafi verið myrtur.

Valgeir Víðisson var fæddur 11. júlí 1964. Hann var uppalinn í Vestmannaeyjum en flutti til Reykjavíkur eftir grunnskólaárin. Hann var ókvæntur og átti einn son. Valgeir leigði herbergi á Laugavegi 143 í Reykjavík. Hann var búinn að vera í basli með fíkniefni í nokkur ár og tengdist undirheimum Reykjavíkur. Kvöldið 19. júní 1994 sagði hann vinkonu sinni að hann væri að bíða eftir mikilvægu símtali en útlistaði þó ekki nánar um hvað málið snerist.

Telja að Valgeir hafi verið myrtur

Síðar þetta kvöld fór Valgeir frá heimili sínu á dökkleitu reiðhjóli sem hann átti. Hann var klæddur í ljósbláar gallabuxur, brúnan leðurjakka og brún reimuð stígvél. Hann var grannur, lágvaxinn með skollitað hár. Svo virtist sem hann hefði bara rétt ætlað að skreppa út. Sjónvarpið var í gangi, ljósin voru kveikt og mynd sem hann var að mála stóð á trönum í stofunni. Ekkert hefur spurst til Valgeirs frá þessu kvöldi þrátt fyrir umfangsmikla leit sem hófst rúmri viku síðar. Aldrei fundust neinar handbærar vísbendingar í málinu. Eins hefur reiðhjól Valgeirs aldrei fundist.

Vegna tengsla hans við fíkniefni og undirheima Reykjavíkur beindist fljótlega grunur að því að Valgeir hefði horfið af mannavöldum. Enn þann dag í dag teja bæði lögregla og fjölskylda hans að um saknæmt athæfi sé að ræða. Það er að segja að Valgeir hafi verið myrtur. Það má í raun segja að mál hans hafi verið rannsakað í þrígang. Lögregla hefur þó líka verið gagnrýnd fyrir að rannsókn, fyrst eftir að Valgeir hvarf, hafi gengið of hægt. Faðir Valgeirs fullyrti í sjónvarpsviðtali að hann viti til þess að sonur sinn hafi fengi hótanir fyrir hvarfið.

Eftir hvarfið fór kunningi Valgeirs inn í vistarverur hans og tók þar svo kallað fílofax sem er nokkurskonar dagbók. Skömmu síðar skilaði hann því til lögreglu en þá vantaði allar blaðsíður sem höfðu að geyma upplýsingar frá deginum sem hann hvarf og dagana þar á undan. Lögreglan telur að þarna hafi getað leynst mikilvægar upplýsingar. Ekki var talið að kunningi Valgeirs tengdist hvarfi hans.

Tveir menn handteknir

Valgeir var úrskurðaður látinn árið 2000 og var þá haldin minningar athöfn um hann. Árið 2001 varð svo vending á málinu. Þá voru tveir menn handteknir í tengslum við hvarf Valgeirs eftir að trúverðugar ábendingar um aðkomu þeirra að hvarfi hans bárust lögreglu.

Heimildarmaður lögreglu fullyrti að mennirnir, sem aldrei voru nafngreindir, hefðu komið að hvarfinu á Valgeiri. Valgeir hefði hitt mennina við bílakjallara í miðborg Reykjavíkur nóttina sem hann hvarf vegna skuldar sem Valgeir var að innheimta. Í bílageymslunni átti annar mannanna að hafa stungið Valgeir með hnífi og drepið hann þannig. Í þættinum Mannshvörf kom fram að mennirnir hefðu því næst átt að hafa sett líkið í skott bifreiðar sinnar og ekið með það austur fyrir fjall.

Þegar ábendingin barst var annar mannanna í fangelsi í Hollandi. Hann var framseldur að beiðni Íslenskra yfirvalda. Þeir voru látnir sæta gæsluvarðhald um tíma. Ekkert kom þó út úr yfirheyrslum. Báðir neituðu aðild að hvarfi Valgeirs.

Eitt af því sem þótti grunsamlegt við atferli mannanna er að í júlí 1994 fóru þeir með með bifreið sína. sem var svartur Chevrolet Capris árgerð 1978, á bifreiðaverkstæði og vildu selja hana til niðurrifs sem þeir og gerðu. Til eru myndir af bifreiðinni í gögnum lögreglu vegna rannsóknar á umfangsmiklu fíkniefnamáli árið 1994. Það sem þótti sérstakt við bifreiðina var að búið var að fjarlægja alla klæðningu úr farangursrými hennar svo einungis var þar bert stálið. Bíllinn stóð í nokkra daga fyrir utan verkstæðið en þá kom þar maður og ýtti á eftir því að bifreiðin færi í brotajárn. Bíllinn var notaður í rallýkross og svo hent um haustið 1994.

Enn hefur ekkert orðið til þess að málið megi heita upplýst. Bæði lögregla og fjölskylda Valgeirs eru enn á þeirri skoðun að hann hafi verið myrtur. Út frá því má áætla að morðingi hans gangi laus.

Í samtali við DV árið 2016 sagði Friðrik Smári Björgvinsson yfirlögregluþjónn að ekkert nýtt hafi komið fram í málinu á síðustu árum. Málið sé því enn opið þó engin formleg rannsókn sé í gangi. Ef lögregla fái nýjar upplýsingar sé hægt að taka rannsóknina upp.

Magnús Teitsson -30. nóvember 1968

Magnús hvarf sporlaust fyrir framan heimili sitt
Málið þótti mjög dularfullt Magnús hvarf sporlaust fyrir framan heimili sitt
Tók upp nafnið Magnús Teitsson
Max Robert Heinrich Keil Tók upp nafnið Magnús Teitsson

Max Robert Heinrich Keil var fæddur í Luckau í Þýskalandi 14. janúar 1908. Eftir að hann fluttist til Íslands 1930 og fékk íslenskt ríkisfang tók hann upp nafnið Magnús Teitsson. Að mati Bjarka er hvarf Magnúsar eitt það dularfyllsta sem hann hefur lesið sér til um. Þegar Ísland var hernumið af Bretum fór Magnús ekki varhluta af því frekar en aðrir samlandar hans sem búsettir voru á Íslandi, að margt var heppilegra en að vera ættaður frá Þýskalandi á þeim tíma. Hann var einn af mörgum Þjóðverjum sem teknir voru til fanga og fluttir til Englands í stríðinu.

Lyklarnir í læsingunni

Eftir stríðslok er hann kom heim til Íslands aftur fór hann að vinna fyrir Málningu h/f. Hann vann svo í framhaldinu hjá Hörpu sem var þá að hluta til í eigu Málningar h/f en var síðar gerður að stjórnarmanni hjá því fyrirtæki. Eftir það stofnaði hann fyrirtækið Stálborg og var framkvæmdarstjóri þar. Magnús var talinn góður stjórnandi af þeim sem til þekktu, reglusamur og stundvís.

Kona Magnúsar var Helga Þorsteins. Börn þeirra eru Elísabet, Þorsteinn, Ásdís og Sigríður. Helga lést 1994. Magnús fór frá heimili sínu, Þingholtsbraut 63 í Kópavogi, laugardaginn 30. nóvember 1968 á VW bjöllu bifreið sinni og hugðist ætla að hjálpa kunningja sínum sem bjó í húsi sem hét Strönd og var í landi Sæbóls við Fossvog í Reykjavík. Hann kvaðst ætla að koma heim aftur um kvöldmatarleytið. Þegar klukkan nálgaðist 20:00 fór fjölskyldan að ókyrrast og kom þá í ljós að bifreið hans var komin fyrir utan heimili þeirra en ekkert bólaði á honum. Við nánari skoðun kom í ljós að lyklar bifreiðarinnar voru í læsingu bílstjórahurðarinnar.

Umfangsmikil leit

Samkvæmt áðurnefndum kunningja Magnúsar fór hann frá honum úr Fossvoginum um kl 19:00 og hugðist halda heim á leið. Hann sagðist ekki hafa séð neitt óvenjulegt í fari hans. Klukkan 22:00 var tilkynnt um hvarf Magnúsar og hófst eftirgrennslan eftir honum. Um kvöldið hófst svo umfangsmikil leit. Í auglýsingum blaðanna þar sem lýst er eftir Magnúsi er hann sagður hafa verið klæddur í ljósa úlpu með dökkum ullarkraga, dökkum buxum og skóhlífum. Magnús notaði gleraugu og var meðalmaður í vexti. Aldrei hefur fengist nein skýring á hvarfi Magnúsar og ekkert hefur spurst til hans. Umfangsmikil leit var gerð að Magnúsi en aldrei fannst neitt sem hægt að var að tengja við hann eða hvarfið dularfulla.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki