Bekkjarsystkini safna fyrir Darra Magnússon með dyggri aðstoð Gylfa Sigurðssonar

Árituð keppnistreyja Gylfa Sigurðssonar, sem landsliðsmaðurinn notaði í leik með Swansea í ensku úrvalsdeildinni á síðasta keppnistímabili, verður á uppboði á styrktarkvöldi fyrir Darra Magnússon og fjölskyldu hans.

Darri, sem er aðeins 18 mánaða gamall, glímir við bráðahvítblæði í mergfrumum (AML hvítblæði). Afar sjaldgæft er að börn greinist með þessa tegund hvítblæðis en meðal einkenna eru æxli sem myndast á höfði og í andliti. Sjúkdómurinn hefur reynt mikið á Darra en hann hefur varið meirihluta þessa árs í einangrun á spítala. Fjölskylda hans skiptir tíma sínum milli sín á spítalanum, sem hefur haft í för með sér tilheyrandi tekjutap sem kemur sér illa þegar svo illvígur sjúkdómur á í hlut.

Faðir Darra, Magnús Reynisson, fagnar 20 ára útskriftarafmæli úr Foldaskóla á þessu ári. Gamlir skólafélagar hans ákváðu því að nýta tækifærið, í stað þess að halda hefðbundna skemmtun fyrir árganginn - var ákveðið að halda skemmtikvöld í Grafarvogi þar sem öll eru velkomin. Haldið verður happdrætti með glæsilegum vinningum en auk þess verða veitingar á sérstaklega hagstæðu verði. Allur ágóði happdrættisins og veitingasölunnar rennur óskiptur til Darra og fjölskyldu hans.

Rúsínan í pylsuendanum eru síðan tvær áritaðar keppnistreyjur Swansea City sem Gylfi Sigurðsson, leikmaður íslenska landsliðsins, gaf til styrktar málefninu. Önnur þeirra verður boðin upp á opnu uppboði á facebook en hin verður meðal vinninga í happdrættinu sem fram fer á styrktarkvöldinu.

Meðal annarra vinninga má nefna gjafabréf í þriggja rétta veislu fyrir tvo á Kol Restaurant, gjafabréf fyrir tvo í brunch á Vegamótum, Enski barinn gefur 20 þúsund króna gjafabréf auk þess sem Lebowski-bar leggur til gjafabréf fyrir hamborgaramáltíðir. Fjöldi annarra vinninga verða dregnir út.

Bekkjarfélagar Magnúsar ætla að halda uppi stuðinu á styrktarkvöldinu með skífuþeytingum fram eftir kvöldi en viðburðurinn fer að sjálfsögðu fram í hjarta Grafarvogs, á sjálfri Gullöldinni, föstudaginn 28. júlí kl. 20. Allir eru hjartanlega velkomnir.

Fyrir þau sem vilja styðja við Darra og fjölskyldu hans, en eiga ekki heimangengt á föstudag, er rétt að minna á styrktarreikning:

0536-26-8389, kt. 130384-8389.

Öll framlög, stór sem smá, eru vel þegin.

Uppboðið fer fram á facebook-síðu styrktarkvöldsins, smelltu hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.