fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fókus

Björn Óli: Ætlaði að bjarga Íslandi

Björn Óli stýrir Isavia á gríðarlegum uppgangstímum – Mesta áskorunin að taka ábyrgð á 800 vannærðum börnum – Byggði upp stjórnsýslu í Kósóvó

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 6. júní 2017 23:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Enginn veit sína ævina fyrr en öll er. Það má sannarlega segja um Björn Óla Hauksson, rekstrarverkfræðinginn sem hugðist færa Ísland inn í nútímann í upphafi tíunda áratugarins með tölvuvæðingu framleiðslu í landinu. En örlögin gripu í taumana og stutt námskeið uppi í Borgarfirði árið 1991 leiddi Björn Óla til mannúðarstarfa í Austurlöndum nær og síðar í Afríku. Að því loknu stýrði hann einu af minnstu sveitarfélögum Íslands og fór svo þaðan beint í að byggja upp heilt þjóðfélag sem átti sér enga stjórnsýslulega innviði, Kósóvó. Í dag stýrir þessi maður margra verka flugmálum á Íslandi á tímum þar sem vöxtur er slíkur að vart er nokkru saman að jafna.

Ætlaði að bjarga Íslandi

Björn Óli segir að uppvöxtur sinn hafi verið ósköp venjulegur fyrir strák úr miðbænum á þessum árum. Hann gekk í Menntaskólann í Reykjavík og fór síðan til náms í Kaupmannahöfn og útskrifaðist sem verkfræðingur þaðan árið 1989. „Ég kom svo heim og taldi mig nokkuð góðan; rekstrarverkfræðingur með sérþekkingu í tölvustýrðri framleiðslu. Ég ætlaði að verða einn af bjargvættum Íslands, kynna flæðisgreiningar og hvernig tölvutæknin virkaði og svo framvegis. Ég hélt sannarlega að þetta væri eitthvað sem Íslendingar þyrftu á að halda en þetta var árið 1990 og þá skall á litla kreppan. Ég fékk því ekkert að gera en hoppaði þess í stað inn í fyrirtæki föður míns, verkfræðistofuna Forverk, og vann þar. Það er skemmtilegt að segja frá því að þarna var unnið við kortagerð og Forverk var fyrsta fyrirtækið til að vinna slík kort út frá loftmyndum. Enn kemur flugið sem sagt inn. Við erum stundum að fletta gömlum kortum af flugvöllum og þá dúkkar nafn föður míns iðulega upp á þeim. Þá dregur maður svona smá fram vasaklútinn,“ segir Björn Óli brosandi.

„Við lentum þar og keyrðum að segja má beint á fótboltaleikvang þar sem voru fyrir átta hundruð vannærð börn, sem verið var að hjálpa. Þar var eiginlega tekið í öxlina á mér og sagt: Heyrðu, þetta er núna á þína ábyrgð, þessi átta hundruð vannærðu börn. Gaman að sjá þig!“

Vikunámskeið sem dró dilk á eftir sér

Björn Óli starfaði hjá Forverki í um það bil ár en skimaði hins vegar alltaf eftir öðrum verkefnum. Þá rak hann, eða öllu heldur móðir hans, augun í auglýsingu í dagblaði þar sem verið var að auglýsa eftir sendifulltrúum hjá Rauða krossinum. Björn Óli gaf ekki mikið fyrir það fyrsta kastið þegar móðir hans sagði honum að þetta væri nú eitthvað fyrir hann en engu að síður sótti hugmyndin á hann. Hann fór því á vikunámskeið í Munaðarnesi í Borgarfirði þar sem hann fékk þjálfum í hlutverki sendifulltrúa. Þetta var í ársbyrjun árið 1991 en einmitt þá hófst Flóabardaginn, hernaðaraðgerðir bandalagsþjóða Sameinuðu þjóðanna gegn Íraksher sem hafði ráðist inn í Kúveit í ágúst árið áður. Hernaðurinn stóð frá því í janúar og lauk að segja má í lok febrúar með fullnaðarsigri bandalagsþjóða. „Það leið örstuttur tími frá námskeiðinu sem ég tók, einhverjar örfáar vikur, þar til ég fékk símhringingu þar sem ég var spurður hvort ég gæti hugsað mér að fara til Íraks í hjálparstarf, að vinna að því að dreifa vatni og bjarga börnum. Ég kunni nú ekki við annað en að bregðast við því, ég var ókvæntur, barnlaus og skuldaði engum neitt og ekkert sem aftraði mér. Ég fór því með góðum hópi Íslendinga til Íraks í apríl.“

Björn Óli sinnti hjálparstarfi um árabil og segir að það sé góð tilfinning. „Maður er að láta eitthvað gott af sér leiða og það lætur manni líða vel.“
Góð verk láta manni líða vel Björn Óli sinnti hjálparstarfi um árabil og segir að það sé góð tilfinning. „Maður er að láta eitthvað gott af sér leiða og það lætur manni líða vel.“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Líður vel þegar maður lætur gott af sér leiða

Björn Óli vann í Írak að því að setja upp vatnsdreifikerfi, með tankbílum fyrst á meðan unnið var að því að byggja upp vatnsveitukerfi í nýjan leik, og fór hann um allt Írak í því skyni. „Það var mjög spennandi og skemmtilegt að vera þarna og takast á við þessi verkefni, en það var líka dramatískt að sjá þarna eyðilegginguna eftir stríðið. Þótt að það hefði staðið þarna stríð sem leitt var áfram af vestrænum þjóðum þá voru Írakar mjög jákvæðir gagnvart útlendingum, það var mín upplifun. Það sem maður sá síðan eftir seinna Íraksstríðið var allt annað en ég þekkti þarna. En þetta var ákaflega skemmtileg reynsla og góður tími. Það er líka þannig þegar maður sinnir svona störfum, þá verður maður svo ánægður með sjálfan sig. Maður er að láta eitthvað gott af sér leiða og það lætur manni líða vel.“

Fyrsti dagurinn í Eþíópíu áfall

Björn Óli starfaði í Írak þar til um áramótin 1991/1992 en kom síðan heim til Íslands. Árið 1992 fór hann hins vegar aftur út á vegum Rauða krossins, í þetta skiptið til Eþíópíu og raunar einnig til Sómalíu. Þar sinnti hann mannúðarstarfi sem laut meðal annars að aðstoð við innri flóttamenn í Eþíópíu og aðstoð við flóttamenn frá Sómalíu. En verkefnin voru flókin og starfið víðfeðmt og margt sem þurfti að glíma við. „Ég var þarna tengiliður milli margra aðila, kom að útdeilingu matvæla og styrkja og uppbyggingu á svæðunum.“

Björn Óli segir að starfið hafi verið gefandi en vissulega hafi það verið erfitt og tekið á líka. „Ég held að ég hafi ekki upplifað neitt verra en fyrsta daginn minn í Eþíópíu. Við lentum þar og keyrðum að segja má beint á fótboltaleikvang þar sem voru fyrir átta hundruð vannærð börn, sem verið var að hjálpa. Þar var eiginlega tekið í öxlina á mér og sagt: Heyrðu, þetta er núna á þína ábyrgð, þessi átta hundruð vannærðu börn. Gaman að sjá þig! Og svo fóru menn bara daginn eftir en ég sat eftir og klóraði mér í kollinum og velti fyrir mér hvernig ég ætti að komast fram úr þessu. Allt eftir það, hvort sem það tengist flugmálum eða öðru, hefur verið minna áfall en þetta.“

„Björn Óli, við erum gjaldþrota!“

Það er augljóst að til þess að takast á við verkefni af þessu tagi þarf sterk bein og jákvæða lífssýn. Það virðist Björn Óli hvort tveggja hafa í miklum mæli. „Kannski er það vegna þess að ég hef upplifað svo margt af svona hlutum að ég get sagt að ég hef aldrei upplifað neitt slæmt sem endar samt ekki á einhvern jákvæðan hátt. Ergo, ég er svona frekar jákvæður náungi. Kannski má segja að það hafi líka birst, svo við stökkvum nokkur ár fram í tímann, á fyrsta vinnudeginum mínum sem forstjóri sameinaðs Keflavíkurflugvallar. Það var 6. október árið 2008. Þá kom ég inn á skrifstofu sem átti að verða skrifstofan mín og þar sat fyrir Elín Árnadóttir, sem þá var framkvæmdastjóri Flugstöðvarinnar en er nú aðstoðarframkvæmdastjóri Isavia. Ég heilsaði henni hátíðlega en hún var nú ekkert að heilsa mér. Ég skildi þetta ekki alveg, velti fyrir mér hvort henni þætti svona óþægilegt að þarna væri kominn þessi nýi forstjóri á fyrsta degi í starfi. En eftir svolitla stund leit hún upp á mig og sagði: Björn Óli, við erum gjaldþrota! Þetta voru fyrstu orðin sem ég heyrði í nýju starfi. Okkur tókst nú hins vegar, með miklu átaki og vinnu góðs fólks, að snúa stöðunni við. Þannig að ég er alltaf að lenda í einhverju svona en ég er bjartsýnn að eðlisfari og ef maður vinnur hlutina vel þá kemur alltaf eitthvað jákvætt út úr því.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu
Fókus
Í gær

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við
Fókus
Fyrir 3 dögum

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Hver verður næst?“

„Hver verður næst?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“