Bette Midler vinnur Tony-verðlaun

Alsæl með Tony-verðlaun sín.
Bette Midler Alsæl með Tony-verðlaun sín.

Tony-verðlaunin, hin virtu bandarísku leiklistarverðlaun, voru nýlega veitt. Bette Midler vann til þeirra sem besta leikkona í söngleik fyrir frammistöðu sína í Hello Dolly. Í þakkarræðu sinni sagði hún: „Ég vil þakka öllum þeim sem kusu mig, ég hef reyndar farið á stefnumót með fjölmörgum þeirra.“ Mótleikari hennar, Gavin Creel, hreppti einnig verðlaunin fyrir besta karlleik í söngleik.

Hinn stórgóði Kevin Kline var valinn besti leikarinn fyrir leik sinn í Present Laughter, leikriti Noels Cowards. Þetta eru þriðju Tony-verðlaun hans. Cynthia Nixon var valin besta leikkonan fyrir leik í The Little Foxes, margfrægu leikriti Lillian Hellman. Þetta eru önnur Tony-verðlaun hennar. Nixon er þekkt fyrir leik sinn í sjónvarpsþáttunum Sex and the City en hefur síðan þá fengið hvert stórhlutverkið á fætur öðru og yfirleitt brillerað.

Ekki kom á óvart að Oslo var valið besta leikritið en það hefur sankað að sér verðlaunum á hinum ýmsu verðlaunaathöfnum í leiklistarheiminum. Þar er fjallað um tilraunir Monu Juul og eiginmanns hennar, Terje Rød-Larsen, til að koma á samningaviðræðum milli ísraelska forsætisráðherrans, Yitzhaks Rabins, og Yassers Arafats, leiðtoga Palestínumanna árið 1993.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.