Rödd Díönu ekki þögnuð

Nákvæm útskrift af orðum hennar er í afmælisútgáfu á ævisögu hennar.
Díana Nákvæm útskrift af orðum hennar er í afmælisútgáfu á ævisögu hennar.

Fyrir 25 árum talaði Díana prinsessa inn á spólur sem blaðamaðurinn Andrew Morton nýtti sér að hluta við vinnslu á ævisögu hennar Diana: Her True Story. Í bókinni var meðal annars fjallað um framhjáhald Karls Bretaprins og sjálfsmorðstilraunir prinsessunnar. Bókin vakti heimsathygli. Nú er komin út afmælisútgáfa þessarar ævisögu með nákvæmri útskrift af orðum Díönu á spólunum sem Morton hafði aðgang að. Víst er að ýmislegt sem Díana segir á spólunum er ekki þægilegt fyrir fyrrverandi eiginmann hennar Karl prins og konu hans Camillu

Á spólunum verður Díönu tíðrætt um samband Karls og Camillu Bowles. Tveimur vikum áður en Díana og Karl gengu í hjónaband sendi hann Camillu armband með áletruðum gælunöfnum sem þau kölluðu hvort annað, sem voru Fred og Gladys. Á spólunum segist Díana líka hafa heyrt Karl tala í síma við Camillu og segja: „Hvað sem verður þá mun ég alltaf elska þig.“ Díana sagði Karli að hún hefði heyrt það sem hann sagði og í kjölfarið rifust þau heiftarlega.

Díana segist fyrst hafa reynt að fyrirfara sér tveimur vikum eftir brúðkaupið þegar hún skar sig á púls. Hún segist hafa verið mjög þunglynd á þeim tíma en leitað sér hjálpar.

Rödd Díönu er sannarlega ekki þögnuð.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.