fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fókus

„Við erum ekki jafn heppnar og strákarnir“

Guðbjörg Gunnarsdóttir segir karlrembu enn loða við knattspyrnu -Kynnist kærustunni sinni í Stokkhólmi þar sem þær hafa komið sér upp framtíðarheimili

Kristín Clausen
Laugardaginn 17. júní 2017 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Margir ættu að kannast við Guðbjörgu Gunnarsdóttur en hún er markmaður íslenska A-landsliðsins í fótbolta. Guðbjörg, sem er fædd árið 1985, byrjaði ung í fótbolta, og er nú á hátindi ferilsins. Það er kannski engin furða hvað hún hefur náð langt. Guðbjörg er mjög metnaðargjörn og leggur mikið á sig til að halda sér í toppformi. Á milli þess sem Guðbjörg spilar fótbolta nýtur hún þess að eyða verja tímanum með kærustunni sinni, Miu Jalkerud, elda góðan mat og ferðast um heiminn. Þá er Guðbjörg, sem er búsett í Stokkhólmi, farin að leggja drög að lífinu „eftir boltann.“

Guðbjörg hitti blaðamann DV í morgunkaffi í vikunni. Ólíkt mörgum viðmælendum var Guðbjörg mætt á slaginu enda þéttbókuð þegar hún hefur aðeins nokkra daga til umráða með fjölskyldu og vinum á Íslandi. Tilefni Íslandsferðarinnar að þessu sinni var æfingarleikur íslenska A–landsliðsins í fótbolta gegn Brasilíu sem fram fór á Laugardalsvelli þann 13. júní síðastliðinn. Þó svo að úrslitin hafi ekki verið eins og landsliðskonurnar lögðu upp með var bjart yfir Guðbjörgu sem er orðin gríðarlega spennt fyrir lokakeppni EM kvenna í fótbolta. Keppnin fer fram í Hollandi í júlí. Þá er Guðbjörg einstaklega þakklát fyrir þær móttökur og meðbyr sem íslenska kvennalandsliðið hefur fengið frá þjóðinni síðustu ár. „Ekkert toppar það að spila á Laugardalsvelli frammi fyrir þúsundum Íslendinga. Stemningin er svo stórkostleg að ég get eiginlega ekki lýst því með orðum.“

Fylgdi vinkonunum í boltann

Knattspyrnuferill Guðbjargar hófst þegar hún byrjaði að æfa knattspyrnu með FH árið 1993, þá átta ára gömul. „Allar stelpurnar fóru í fótbolta hjá FH og strákarnir æfðu flestir handbolta með Haukum. Ég fylgdi mínum vinkonum. Þannig byrjaði þetta.“

Guðbjörg kveðst hafa verið með mjög góðan þjálfara hjá FH. Á milli æfinga kallaði hann oft í Guðbjörgu og bað hana um að hitta sig í íþróttasal í skólanum þar sem hann starfaði einnig, svo hann gæti skotið á hana. „Án þess að átta mig á því þá voru þetta dýrmætar aukaæfingar. Þarna hef ég verið svona 9–10 ára.“ Flestum kvöldum eyddi Guðbjörg svo í Kaplakrika í fótbolta með krökkunum í hverfinu. „Maður var öll kvöld uppi á Kaplakrika að spila fótbolta bæði með stelpum og strákum.“

Á þessum tíma var Guðbjörg farin að finna að hún væri orðin mjög góð í marki. „Þegar fólk áttar sig á því að maður skarar fram úr þá fær maður svo mikla hvatningu. Ég byrjaði snemma að spila með eldri stelpum og komst fyrst í meistaraflokk þegar ég var 14 ára. Sama ár var ég líka fyrst valin í U-17 landsliðið. Um þetta leyti byrjaði ég líka að hafa alvöru metnað. Fótboltinn hætti að vera leikur í mínum huga og ég fór bæði meðvitað og ómeðvitað setja mér markmið.“

Árið 2003 hætti Guðbjörg í FH og gekk til liðs við Val. „Við unnum marga titla og þar komst ég fyrst almennilega á kortið.“ Boltinn var farinn að rúlla hratt hjá Guðbjörgu sem íhugaði einnig um tíma að fara í nám í Bandaríkjunum. „Ég var búin að skoða alls konar skóla og var lengi að ákveða mig.“ Að lokum stoppuðu þjálfarar Guðbjargar hana þó af. „Sumir skólar eru alveg geggjaðir og ég skil vel krakka sem fara til Bandaríkjanna. Að fá frítt nám fyrir það eitt að spila fótbolta. En ég setti boltann í fyrsta sæti. Ég fékk miklu meiri þjálfun og tækifæri hérna heima en ég hefði fengið úti. Að minnsta kosti í þeim skólum sem ég hafði augastað á. Sem betur fer töluðu þjálfararnir mínir mig inn á að hætta við.“

Ekki jafn heppnar og strákarnir

Svo fór að Guðbjörg útskrifaðist með stúdentspróf frá Verzlunarskóla Íslands. Í framhaldinu lærði hún hagfræði í HÍ. Þaðan útskrifaðist hún með BS-gráðu haustið 2008. Nokkrum mánuðum síðar flutti Guðbjörg til Stokkhólms þar sem sænska úrvalsdeildarliðið Djurgården bauð henni samning. Liðið, sem hún er aftur farin að spila fyrir í dag, kom einnig að máli við hana árið 2005 eftir að Valur mætti liðinu í Evrópukeppni, og bauð henni til Stokkhólms Það hefði ekki gerst ef hún hefði farið í nám til Bandaríkjanna. Þá fannst Guðbjörgu hún sjálf þó enn of ung en þegar Djurgården hafði aftur samband árið 2009 sló hún strax til og hefur verið búsett erlendis síðan, mest í Svíþjóð en um tíma bjó hún einnig í Noregi og Þýskalandi.

Guðbjörg lagði mikla áherslu á að mennta sig svo hún hefði eitthvað að grípa til þegar ferlinum lyki: „Við erum ekki jafn heppnar og strákarnir. Ég hef lagt eitthvað fyrir og er búin að kaupa mér íbúð. Þetta er þó alls ólíkt því sem tíðkast hjá þeim strákum sem hafa verið atvinnumenn í góðum liðum. Þeir geta auðveldlega lifað góðu lífi það sem eftir er. Það er ekki alveg svoleiðis í kvennaboltanum. Við þénum auðvitað eitthvað en þetta eru bara venjuleg laun.“

Í gegnum fótboltann hefur Guðbjörg kynnst öllum sínum bestu vinkonum. „Stelpurnar í landsliðinu eru eins og önnur fjölskyldan manns. Við hittumst í öðrum löndum, drekkum kaffi saman og styðjum við bakið á hver annarri, þegar þess þarf.“ Hún segir engan meting vera í landsliðinu en að sjálfsögðu ríki samkeppni um hvert pláss.

„Landsliðsæfingar eru ekki vettvangur til að æfa eins og vitleysingur. Maður gerir það með félagsliðinu sínu. Þar er gríðarleg samkeppni. Til dæmis um komast í byrjunarliðið. Þar mótast maður sem leikmaður. Síðan hittir maður landsliðið tveimur dögum fyrir leik. Þá snúast æfingarnar mest um skotkeppni og spil.“

Staðan í landsliðinu gjörbreytt

Guðbjörg segir að allir geri sitt besta til að vinna stöðuna sína í liðinu á landsliðsæfingu þó að flestir séu meðvitaðir um að mestu vinnuna vinni maður sjálfur með félagsliði sínu. „Þjálfarinn fylgist vel með því hvað maður er að gera með sínu félagsliði. Ég skil hann vel að vera búinn að ákveða nokkrum dögum fyrir leik hvernig hann ætlar að spila hann.“

Í undankeppninni fyrir EM spilaði sama byrjunarliðið alla leikina. „Það gekk vonum framar. Auðvitað hefði maður verið í sjokki ef þjálfarinn hefði breytt miklu. Nú er staðan hins vegar allt önnur. Mjög margir lykilmenn í liðinu glíma við alvarleg meiðsli. Það eru allir að hrynja niður. Gamla gengið mitt er allt í einu horfið. Þetta kallar á breytingar en þær sem hafa komið nýjar inn á hafa staðið sig mjög vel.“

Guðbjörg er virkilega stolt af því að tilheyra íslenska A-landsliðinu. „Við finnum svo vel hvað allir vilja okkur vel. Það eru ekki bara við sem hlökkum til að fara til Hollands heldur ætla ótrúlega margir að gera sér ferð til að styðja okkur. Það er eins og þeir sem komust ekki til Frakklands í fyrra ætli í staðinn að mæta og fylgjast með okkur. Knattspyrna á Íslandi er í mjög mikilli uppsveiflu. Það er ótrúlega gaman að vera á hátindi ferilsins og fá að taka þátt í því. Ég er mjög heppin.“

Þá rifjar Guðbjörg upp að sem barn átti hún enga kvenfyrirmynd í fótbolta. „Þessar fyrirmyndir voru ekki til. Þá mættu í mesta lagi 1.000 manns á kvennalandsleiki. Ég er svo ánægð með hvernig samfélagið er að taka við sér og viðurkenna að konur geti verið afreksmenn í íþróttum.“

Twitter tekur á taugarnar

Ýmislegt hefur breyst síðan Guðbjörg tók þátt á sínu fyrsta stórmóti. Þá sérstaklega með tilkomu samfélagsmiðla. „Ég veit alveg hvenær ég á skilið að fá drullu. Það fylgir því að vera atvinnumaður en á sama tíma tekur það á taugarnar að kíkja á Twitter eftir tapleik,“ segir Guðbjörg og bendir á að samfélagsmiðlar hafi breytt ýmsu þegar kemur að því að gera upp frammistöðu liðs og leikmanna á vellinum. Hún reynir að halda sig frá símanum á leikdegi, en forvitnin eftir leik verður oft æði sterk. Þá sé mikilvægt að brynja sig gegn mótlætinu og taka gagnrýnina ekki of mikið inn á sig, því það sé alveg jafn mikilvægt að vera vel stemmdur andlega eins og líkamlega fyrir leiki.

Þá viðurkennir Guðbjörg fúslega að enn sé töluverð karlremba viðloðandi knattspyrnuíþróttina. Það eigi þó ekki við um Íslendinga sem séu mjög framarlega í kvennaboltanum miðað við margar þjóðir. „Strákarnir fengu sjúklega bónusa frá UEFA í fyrra. Ég skil mjög vel að þeir hafi fengið góða summu í vasann þar sem þeir stóðu sig stórkostlega. En að sama skapi er ég sár fyrir hönd kvenna í fótbolta. Við erum að gera nákvæmlega sama hlut en fáum kannski eitt prósent af því sem þeir fengu í bónusa. Það er þó ekki KSÍ að kenna. Þeir styðja ótrúlega vel við bakið á okkur og eiga hrós skilið. Þessir peningar komu frá UEFA. Það eru þeir sem þurfa að taka sig á.“

Guðbjörg segir það að sama skapi algjört bull að kvennaboltinn sé ekki vinsæll eins og karlaboltinn. Að minnsta kosti er það ekki í svo í sænsku úrvalsdeildinni þar sem hún spilar. „Það er hægt að fylgjast með öllum leikjum í úrvalsdeildinni í rauntíma á netinu. Mjög oft eru gerðar mælingar á því hversu margir fylgjast með leikjunum. Tölurnar eru miklu hærri en styrktaraðilar og aðrir sem eiga það til að gagnrýna gera sér grein fyrir. Þannig að það er kjaftæði að fáir hafi áhuga á kvennaknattspyrnu. Þess vegna ætti að gera henni töluvert betri skil.“

Guðbjörg telur að á komandi árum muni gríðarlega mörg kvennalið í fótbolta blómstra. „Við Íslendingar þurfum að halda okkur á tánum þar sem Evrópuþjóðirnar, sem voru bara miðlungs keppinautar fyrir nokkrum árum, eru orðnar miklu betri. Við Íslendingar vorum snemma með gott lið miðað við margar þjóðir. Ég held að það sé vegna þess að á Íslandi er meira jafnrétti en þekkist annars staðar. En núna eru mörg landslið komin vel af stað og gætu verið að komast fram úr okkur. Við þurfum að íhuga vandlega hvernig við ætlum að spila úr þessu ef við ætlum áfram að vera ofarlega á heimslista FIFA.“ Þegar þetta er skrifað er Ísland með 18. besta kvennalandslið í heimi.

Kynntist ástinni í Svíþjóð

Þegar Guðbjörg flutti til til Stokkhólms árið 2009 var hún í sambandi með strák. Þau hættu saman og í framhaldinu var hún einhleyp til ársins 2012, en þá kom Mia inn í líf hennar. Mia er atvinnumaður í fótbolta en þær kynntust þegar Mia var keypt til Djurgården, sama liðs og Guðbjörg spilar með.

„Hún átti líka kærasta og við höfðum hvorugar verið með stelpu áður. Þetta gerðist bara. Fyrst urðum við ótrúlega góðar vinkonur. Síðan fann ég að ég var orðin skotin í henni. Það var ótrúlega skrítið. Ég hafði ekki hugmynd um að ég gæti orðið skotin í stelpu. En ég var kolfallin fyrir persónuleika hennar og þá skiptir minnstu hvort viðkomandi er stelpa eða strákur. Þannig sé ég það að minnsta kosti núna.“

Nokkrum vikum síðar, í partíi hjá sameiginlegum vinum, játuðu þær fyrst tilfinningar sínar fyrir hvor annarri. „Mér fannst þetta auðvitað skrítið en á sama tíma svo eðlilegt. Ég var orðin ástfangin af stelpu. Ég vil taka það skýrt fram að ég skammaðist mín ekkert. Ég hafði einfaldlega aldrei séð mig fyrir mér í þessum sporum. Ég hafði verið hrifin af þeim strákum sem ég hafði verið í sambandi með. Það tók smá tíma að átta sig á þessu.“

Guðbjörg og Mia földu sambandið fyrir öðrum fyrstu mánuðina eftir að þær byrjuðu saman. „Við vorum að átta okkur á öllum þessum tilfinningum og vildum ekki segja neitt fyrr en við værum 100 prósent vissar um þetta. Það kom aldrei til greina að fela neitt. Við vorum einfaldlega óvissar í byrjun hvað í ósköpunum var í gangi.“
Þegar komið var að því að opinbera sambandið viðurkennir Guðbjörg að hún hafi verið mjög stressuð. Fyrsta manneskjan sem hún sagði frá sambandinu var Dóra María, æskuvinkona hennar og samherji í íslenska landsliðinu.

„Hún þekkti alla kærastana mína í Verzló og vissi allt um mig. Þess vegna var ég alveg að tryllast úr stressi þegar ég loksins kom þessu frá mér. Ég sagði Dóru að ég væri hrifin af stelpu og ég vissi ekkert hvað ég ætti að gera. Auðvitað var hún sultuslök yfir þessu og hló að mér.“

Neyðarlegt símtal

Guðbjörg á gott samband við foreldra sína og systkini. Þó svo að þau búi ekki í sama landinu hefur hún vanið sig á að tala við foreldra sína á Facetime á hverju kvöldi. „Ég var klárlega ekki að fara að segja þeim þetta í svoleiðis spjalli svo ég hringdi þegar ég vissi að mamma væri ein heima. Símtalið, sem tók í mesta lagi 30 til 40 sekúndur, er það skrítnasta sem ég hef hringt,“ segir Guðbjörg hlæjandi og biður blaðamann um að taka tillit til þess, þegar hún segir frá „hrikalegasta símtali sem hún hefur hringt.“

„Ég sagði einfaldlega: „Hæ mamma. Þú veist, Mia, sem ég er alltaf með. Við erum ekki bara vinkonur. Við erum saman og ég er mjög hrifin af henni.“

„Svo lauk ég samtalinu með því að segja, og ég veit enn þann dag í dag ekkert hvaðan það kom: „Það er ekki eins og þú fáir ekki barnabörn. Sénsinn er tvöfaldur núna.“ Svo sagði ég bara bless.“

Um kvöldið hringdi móðir Guðbjargar í hana og sagði að það skipti hana engu máli hvort hún væri í sambandi með stelpu eða strák. Það eina sem skipti máli væri að hún væri hamingjusöm.

„Auðvitað vissi ég að mamma myndi bregðast vel við þessu, hún er svo frábær. En að sama skapi skil ég ekki hvernig mér tókst troða barnabörnum inn í samtalið á þessum tímapunkti. Þetta var algjör skelfing.“

Nú eru liðin rúm sex ár síðan Guðbjörg og Mia opinberuðu samband sitt. Miðað við hvernig Guðbjörg ljómar þegar hún talar um kærustuna sína er augljóst að þær hafa fundið sálufélaga í hvor annarri. Fyrstu tvö árin í sambandinu spiluðu þær báðar fyrir Djurgården í Stokkhólmi. En þar sem þær eru báðar atvinnumenn, og þurfa þar af leiðandi að elta sín tækifæri, voru þær næstu tvö ár á eftir í fjarbúð. Guðbjörg segir það hafa tekið mikið á. „Við söknuðum hvor annarrar svo mikið að þegar Djurgården bauð okkur að koma aftur í liðið gerðum við það. Við vorum líka búnar að kaupa okkur íbúð í Stokkhólmi sem við höfðum aldrei búið í. Þess vegna hentaði þetta fullkomlega.“

Langar í fjölskyldu

Í dag eru Guðbjörg og Mia búnar að koma sér upp framtíðarheimili á besta stað í Stokkhólmi. Guðbjörg segir það einnig henta þeim vel að vinna saman. „Það sér enginn að við séum par. Eini munurinn er að við förum heim saman. Við komum ekki einu sinni alltaf á æfingar saman. Ég get alveg öskrað á hana á æfingum og hún á mig. En svo förum við heim og gerum okkar hluti þar. Við höldum þessu mjög aðskildu.“

Guðbjörg, sem er 32 ára, er sömuleiðis farin að huga að framtíðinni og hvað hana langi að gera eftir að ferlinum lýkur. „Ég fékk smá kvíðakast þegar ég varð þrítug og áttaði mig á því að ég hafði aldrei unnið neitt. Ég er auðvitað með hagfræðigráðu og fór því og fékk mér vinnu. Þetta er reyndar bara hlutastarf en ég er komin með smá sýn á hvernig lífið verður eftir fótboltann. Ég er því orðin aðeins rólegri núna.“

Hún segir það heldur ekkert leyndarmál að þær Miu langi til að eignast barn. „Það er samt svo erfitt að skipuleggja barneignir þegar maður er í atvinnumennsku. Ég er ekkert að stressa mig, en mig langar að eignast fjölskyldu. Á meðan það er svona mikið að gerast í fótboltanum þá er það samt í biðstöðu.“

Þó svo að stærstur hluti ársins hjá Guðbjörgu fari í að æfa og spila fótbolta þá hefur hún mikinn áhuga á matargerð og ferðalögum. „Við fáum ekki frí á sumrin en tökum í staðinn frí í desember. Þá förum við eitthvert langt út í heim og slökum vel á. Í fyrra fórum við til Kambódíu og árið á undan til Mexíkó. Á þessu ári langar okkur til Jamaíku, Balí eða Máritíus. Það er svo stórkostlegt að uppgötva nýja staði og fá aðra sýn á heiminn.“

Guðbjörg heldur úti Instagram -síðunni lanslidsrettirguggu. Þar setur hún mjög reglulega inn girnilegar uppskriftir þar sem hollustan er í fyrirrúmi. „Það sem skiptir mestu máli þegar maður er kominn svona langt í atvinnumennsku, og hvað þá þegar maður er orðinn 32 ára, er að halda líkamanum í samkeppnishæfu standi. Ég hugsa rosalega vel um sjálfa mig. Bæði hvað varðar mataræði, hvíld og svefn. Auðvitað vona ég að ég geti spilað, á þessu stigi, sem lengst, en að sama skapi er ég gríðarlega sátt og stolt af því sem ég hef afrekað.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við
Fókus
Fyrir 4 dögum

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Hver verður næst?“

„Hver verður næst?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“