fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fókus

Gunnar og Svava stofnuðu eigin kirkju

Létu drauminn rætast – Eru í samstarfi við erlendar kirkjur

Kolbrún Bergþórsdóttir
Fimmtudaginn 11. maí 2017 11:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árið 2013 stofnuðu þau Gunnar Ingi Gunnarsson og Svava María Ómarsdóttir Loftstofuna Baptistakirkju þar sem haldnar eru fjölbreyttar messur hvern sunnudag. Þar að auki standa þau fyrir vikulegum heimahópum og halda úti YouTube-rásinni Apologia, þar sem þau tala um trúna og leitast eftir að svara hinum ýmsu spurningum varðandi hana.

Hvað varð til þess að þið settuð á stofn eigin kirkju?

„Þetta byrjaði í rauninni með litlum heimahópum. Fyrst voru safnaðarmeðlimir aðeins fjórir, við og eitt annað par sem hittumst reglulega og lásum saman úr Biblíunni. Báðum saman og töluðum um trúna. Upp frá því hefur snjóboltinn rúllað hægt og rólega. Á þessum fjórum árum hefur bæst í hópinn. Við fáum að leigja Aðventkirkjuna niðri í bæ til afnota og á dæmigerðum sunnudegi mæta um 35 fullorðnir og 15 börn til messu.“

Hvað einkennir kirkjuna ykkar?

„Þegar maður les um upphaf kirkjunnar í Biblíunni sér maður hvað hún átti stóran þátt í að bæta samfélagið. Kirkjurnar gáfu hver annarri pening og studdu við bak fátækra. Þær héldu úti skóla- og heilbrigðiskerfinu. Í dag, 2000 árum síðar, höfum við mikið til skellt ábyrgð á ríkið og þegið pening frá því í staðinn. Í stað þess að vera byrði á ríkinu reynum við að aðskilja okkur frá því. Við reynum að vera blessun fyrir fólkið í kringum okkur.“

Loftstofan er eina baptistakirkjan hér á landi þar sem predikun fer fram á íslensku. Kenningar baptista eru frábrugðnar þeim lúthersku að ýmsu leyti. Mesti munurinn felst í því að baptistar láta ekki skíra börn. „Við skírum fólk þegar það tekur trú, ef það ákveður allt í einu að gerast kristið,“ segir Gunnar, en lögð er áhersla á að ákvörðunin sé tekin á eigin forsendum og sé meðvituð.

Varð kristinn við að hlusta á hlaðvarp

Gunnar ólst upp í kristnu umhverfi en trúin greip hann fyrst heljartökum þegar hann var 21 árs. „Ég var að vinna í Kosti á þessum tíma. Einn vinnudaginn hlustaði ég fyrir tilviljun á hlaðvarp um kristna trú sem fékk mig til að líta trúna allt öðrum augum,“ segir Gunnar. „Næstu tvö árin fórum við Svava að gæla við tilhugsunina um að stofna eigin kirkju. Í fyrstu virtist það vera ein heimskulegasta hugdetta sem við höfðum fengið, en fljótt sáum við ekki fyrir okkur að gera neitt annað.“

Sjá frétt: Gunnar Ingi vill ekki vera þessi dæmigerði Íslendingur og segja: „Þetta reddast!“

Fyrst stóðu þau aðeins fyrir heimahópum og unnu að uppbyggingu kirkjunnar samhliða hefðbundinni dagvinnu. „Ég hætti í Kosti og byrjaði að vinna við markaðssetningu. Ég hélt að það yrði ekkert mál að sinna hvoru tveggja. En síðan varð vinnudagurinn tólf tímar, því ég vann fjóra tíma á dag í kirkjunni og átta í hinni vinnunni. Það gengur svo sem á tímabili, en ekki til lengdar.“

Samstarf við bandaríska kirkju

Þegar Gunnar og Svava voru örmagna að reyna að koma á fót eigin kirkju samhliða hefðbundinni dagvinnu varð þeim hugsað til hlaðvarpsins. Það hafði verið Gunnari hugleikið frá því hann hlustaði á það fyrst. Í því talaði maður frá Bandaríkjunum um litla kirkju í Virginíu-ríki sem hafði sent fólk til Íslands í leit að samstarfsaðilum. Gunnar og Svava grófu upp hlaðvarpið tveimur árum síðar og ákváðu að setja sig í samband við fyrirlesarann. Hann svaraði um hæl og gaf þeim samband við annað fólk á vegum kirkjunnar sem var einmitt statt hérlendis á þeim tíma. „Þetta var ótrúleg tilviljun. Okkur langaði að stofna litla kirkju og þarna voru komnir aðilar sem voru einmitt að leita að fólki til þess,“ segir Svava. „Þau sögðu að við værum fólkið sem þau hefðu beðið eftir í átta ár!“

Í fyrstu virtist þetta vera ein heimskulegasta hugdetta sem við höfðum fengið en fljótt sáum við ekki fyrir okkur að gera neitt annað

Baptistakirkjan úti í Virginíu heitir Pillar Church of Dumfries. Hún hefur skapað stórt tengslanet í kringum sig og rekur nú um 25 kirkjur í Bandaríkjunum. Hún styður fólk til að stofna kirkjur um allan heim, meðal annars á Íslandi og í Japan. „Þessi menning er skemmtilega öðruvísi. Flestallar kirkjurnar eru litlar og gefa ágóðann af starfi sínu til annarra kirkna. Þessi starfsemi hefur lagt fordæmi að kirkjunni okkar,“ segir Gunnar. „Mér finnst kirkjur og kristin menning því miður oft snúast um einhvern einn einstakling sem á stórt hús og fullt af fínum bílum. Það getur verið svo mikill peningur falinn í kirkjurekstri. Kirkjurnar geta orðið að gríðarstóru fyrirtæki sem gætir aðeins eigin hagsmuna, en það er ekki raunin hjá Pillar Church of Dumfries,“ bætir hann við.

Kirkjan í Virginíu er á höttunum eftir áhugasömu fólki um allan heim til að slást í lið með sér. Forstöðumenn hennar voru því reiðubúnir að styðja Gunnar og Svövu fjárhagslega svo þau gætu komið á fót almennilegri kirkju. „Við bjuggumst alls ekki við því að geta unnið svona fljótt við þetta í fullu starfi. En samstarfið gekk vonum framar. Kirkjan úti sendir öðru hverju fólk til Íslands og við förum líka oft út og fáum að tala í kirkjunum þar,“ segir Svava.

Stuðningur á erfiðum tímum

Gunnar og Svava birtu myndband á YouTube-rás sinni skömmu eftir að Salómon kom í heiminn, þar sem þau útskýrðu aðstæður sínar og gerðu erfiðleikunum skil sem dunið höfðu á. Myndbandið hlaut geysimikla athygli, eða um 26.000 áhorf.

Það er ótrúlegt að fylgjast með því hversu margir hugsa hlýtt til okkar – Í kirkjum úti um allan heim er beðið fyrir Salómon og Mikael

Það hefur verið stutt við bakið á okkur á svo margvíslegan hátt. Þegar Salómon fæddist bauðst ein kona í kirkjunni til að taka Sigurrós að sér í nokkra daga. Þetta var í kringum páskana og mikið af frídögum í leikskólanum svo þetta létti mjög á okkur. Fólkið í kirkjunni er líka búið að koma með mat til okkar á kvöldin, vegna þess að við erum uppi á spítala til skiptis allan daginn og þá gefst enginn tími til að elda,“ segir Gunnar.

Sjá frétt: Mikael Máni glímir við dæmigerða einhverfu og hvítblæði: „Hjúkrunarfræðingarnir komu skríðandi inn á stofuna“

„Síðan höfum við notið afar mikils andlegs stuðnings. Það er ótrúlegt að fylgjast með því hversu margir hugsa hlýtt til okkar. Í kirkjum úti um allan heim er beðið fyrir Salómon og Mikael,“ segir Svava.

Styrktarsjóður Salómons

Kirkjan í Virginíu er á höttunum eftir áhugasömu fólki um allan heim til að slást í lið með sér.
Stofnuðu eigin kirkju Kirkjan í Virginíu er á höttunum eftir áhugasömu fólki um allan heim til að slást í lið með sér.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Búið er að opna styrktarreikning fyrir ungu hjónin og börn þeirra, til að sjá til þess að þau þurfi ekki að hafa fjárhagsáhyggjur ofan á allt annað. „Það var systir mín sem fékk hugmyndina fyrst þegar Mikael greindist með hvítblæðið, síðan notuðum við sama reikning fyrir Salómon,“ segir Gunnar og bætir við að sér hafi fundist lygilegt að fylgjast með viðbrögðum fólks. „Við erum ótrúlega þakklát fyrir allan stuðninginn.“

Hægt er að styðja við bakið á Salómon Leví og Mikael Mána með því að greiða inn á styrktarsjóðinn.

Reikningsnúmer: 0115-15-630309
Kennitala: 230189-2939

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

„Ég var kominn á stað þar sem ég vissi að ég myndi valda mér miklum skaða ef ég myndi ekki taka í taumana“

„Ég var kominn á stað þar sem ég vissi að ég myndi valda mér miklum skaða ef ég myndi ekki taka í taumana“
Fókus
Í gær

Jón og Hafdís selja Seltjarnarnesvilluna

Jón og Hafdís selja Seltjarnarnesvilluna
Fókus
Fyrir 2 dögum

Keppandi Írlands í Eurovision í ár er kvár

Keppandi Írlands í Eurovision í ár er kvár
Fókus
Fyrir 2 dögum

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall
Fókus
Fyrir 3 dögum

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sviplegt fráfall samfélagsmiðlastjörnu skekur netheima – „Ég skil þetta ekki, ég var með henni á föstudaginn“

Sviplegt fráfall samfélagsmiðlastjörnu skekur netheima – „Ég skil þetta ekki, ég var með henni á föstudaginn“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Einkaþjálfari Taylor Swift varpar ljósi á það sem hún gerir til að halda sér í formi

Einkaþjálfari Taylor Swift varpar ljósi á það sem hún gerir til að halda sér í formi