fbpx
Þriðjudagur 16.apríl 2024
Fókus

Benedikt: „Það er ekkert verra en að missa barnið sitt.”

21 árs gamall sonur Benedikts Þórs Guðmundssonar svipti sig lífi árið 2006

Kristín Clausen
Mánudaginn 1. maí 2017 23:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Þetta var eins og raflost, rafmagnstafla sem brennur yfir.“ Með þessum orðum lýsir Benedikt Þór Guðmundsson tilfinningunni sem helltist yfir hann þegar honum var tilkynnt að sonur hans, Pétur Benediktsson, væri látinn. Pétur svipti sig lífi þann 26. mars 2006, 22 ára að aldri. Þrátt fyrir að ellefu ár séu liðin frá þessum örlagaríka degi er auðséð að andlát Péturs hefur markað djúp spor í tilveru hans nánustu. Samhliða því að vinna úr sorginni hefur Benedikt varið drjúgum tíma í félagsstörf sem tengjast samtökum aðstandenda einstaklinga sem svipt sig hafa lífi. Nú síðast Pietasamtökunum á Íslandi, sem vinna að stofnun nýs úrræðis á Íslandi fyrir einstaklinga með sjálfsvígshugsanir. Þann 6. maí næstkomandi verður ganga á vegum samtakanna, Úr myrkrinu í ljósið,  gengin í annað skipti á Íslandi.

Neyðin er mikil

Ljósagangan er ástæða þess að blaðamaður DV mælti sér mót við Benedikt. Eftir að við höfum tyllt okkur niður á kaffihúsi í Kringlunni með kaffibolla segir Benedikt frá starfi  Pietasamtakanna og húsinu sem fyrirhugað er að kaupa á árinu. Þar munu sérfræðingar starfa og taka á móti fólki sem glímir við sjálfsvígshugsanir. Málefnið er Benedikt mikið hjartans mál. Þess vegna hefur hann tekið erfiða ákvörðun – að fjalla opinskátt um dauða Péturs og deila þeirri átakanlegu reynslu með almenningi í von um að fólk átti sig á því hve neyðin er mikil.

Engan óraði fyrir því að hann myndi svipta sig lífi.
Pétur var fæddur árið 1984 Engan óraði fyrir því að hann myndi svipta sig lífi.

Mynd: Úr einkasafni

„Það er ekkert verra en að missa barnið sitt. Hvað þá ef það sviptir sig lífi. Það er ég alveg viss um,“ segir Benedikt, en sonur, sem var fæddur árið 1984, var elstur í hópi fjögurra systkina. „Hann var glaðvær krakki, vinmargur, foringi í sínum hópi og hafði mikinn fótboltaáhuga.“
Sem barn æfði Pétur fótbolta með Breiðabliki. Eftir að hann komst á unglingsárin byrjaði hann að þjálfa yngri flokkana og að sögn Benedikts stóð Pétur sig vel í því hlutverki. Árið sem Pétur lést var hann nýlega búinn að festa kaup á íbúð með kærustunni sinni. Þá var hann í sagnfræði í Háskóla Íslands.

Óttuðust um Pétur

„Pétur átti yndislega kærustu og lífið virtist leika við þau. Auðvitað var hann mislyndur. Allir eiga sína slæmu og góðu daga. Hann hafði, samkvæmt okkar bestu vitund, aldrei glímt við þunglyndi eða kvíða. Þess vegna óraði okkur ekki fyrir því að hann myndi enda líf sitt með þessum hætti.“
Að morgni 5. apríl 2006, daginn sem Pétur svipti sig lífi, var hann í samskiptum við foreldra sína, líkt og hann var vanur að gera á hverjum einasta degi. Um miðjan dag fóru þau hins vegar að undrast um hann þar sem hann átti að vera mættur á ákveðinn stað en mætti ekki. „Við náðum ekki í hann. Það var slökkt á símanum hans og við vorum orðin mjög hrædd um hann,“ segir Benedikt og um kvöldið var skipulögð leit sett af stað.
„Þetta var mjög ólíkt honum. Hann var ekki í neinu rugli og var þessi ábyrga týpa. Innst inni hélt ég að hann hefði bara slökkt á símanum.“ Daginn eftir kom reiðarslagið. „Eftir sólarhringsleit fundu björgunarsveitarmenn bíl Péturs fyrir austan. Hann hafði svipt sig lífi í bílnum.“

Sennilega byrjaður að undirbúa sig

Aðspurður hvort hann hefði eftir á greint einhver merki í fari Péturs um að hann væri að íhuga að svipta sig lífi svarar Benedikt hugsandi: „Viku áður en hann svipti sig lífi kom Pétur til mín og gaf mér poka með bílabóninu sínu. Mér fannst það svolítið undarlegt. Þarna var hann sennilega byrjaður að undirbúa þetta.“
Benedikt rifjar upp að á þessum tíma, árið 2006, var fræðsla um sjálfsvíg og sjálfsvígshugsanir mjög lítil. Hann segir okkur Íslendinga enn vera tíu árum á eftir hinum Norðurlandaþjóðunum í umfjöllun um sjálfsvígsforvarnir. „Ég hef oft hugsað: „Hvað ef Pétur hefði munað eitthvert símanúmer þar sem hann hefði fengið viðeigandi aðstoð? Þá hefði kannski eitthvað breyst.“ En þetta gerði hann. Pétur virðist hafa tekið ákvörðunina snögglega.  Við vitum samt í raun og veru lítið um það. Kannski veit einhver eitthvað en vill ekki tala um það. Það er bara þannig.“

Hvað ef?

Benedikt segir alla þá sem missa náinn ástvin í sjálfsvígi fara í gegnum tímabil þar sem viðkomandi finnur til sektarkenndar og vanmáttar. „Maður veltir stöðugt fyrir sér. Hvað ef? Af hverju vissi ég þetta ekki? Var eitthvað að hjá mér? Þessum tilfinningum, þessari sektarkennd er erfiðast að vinna úr í sorgarferlinu eftir sjálfsvíg. Fólk missir svo svo margt. Til dæmis sjálfstraustið.“
Líkt og segir í upphafi viðtalsins segir Benedikt að augnablikið þegar hann áttaði sig á því að Pétur væri látinn ólýsanlega sárt. „Maður man ekki eftir þessu. Maður fer bara í trylling og örvilnun. Þetta er svo óraunverulegt. Veröldin, allt sem maður hefur byggt upp í lífinu, hrynur eins og spilaborg á einu augabragði.“
Eftir að Pétur lést kom í ljós að hann hafði tapað peningum í fjárhættuspili, póker á netinu. Fjölskyldan hélt þessum upplýsingum aldrei leyndum heldur talaði presturinn sem jarðsöng Pétur um það í jarðarförinni.

Benedikt tekur þátt í göngunni Úr myrkrinu í ljósið aðfaranótt laugardagsins 6. maí.
„Það er ekkert í heiminum verra en að missa barnið sitt“ Benedikt tekur þátt í göngunni Úr myrkrinu í ljósið aðfaranótt laugardagsins 6. maí.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Skuldin, og skömmin við að hafa tapað fjármunum með þessum hætti, væri líklegasta ástæða þess að hann svipti sig lífi.

„Þetta voru ekki stórar skuldir. Það hefði ekki verið mikið mál að bjarga þessu. En í augum Péturs var þetta mikið. Þegar þú ert ungur maður og hefur alltaf verið með þitt á hreinu þá hefur höggið verið mikið. Hann virðist hafa tapað peningunum sínum á mjög stuttum tíma í póker á netinu. Það er ástæðan fyrir því að hann svipti sig lífi. Hann bar þessa skuld sína í hljóði. Pétur var mjög ábyrgur. Þetta var hans leið til að bera ábyrgð á þessu. Honum fannst þetta rétta leiðin.“

Mikið jákvætt að gerast

Benedikt harmar þá þöggun sem enn virðist ríkja um sjálfsvíg. Hans upplifun er sú að fyrir ellefu árum hafi varla mátt minnast orði á sjálfsvíg. Í dag hafi þó blessunarlega orðið meiri vakning. Benedikt vill þó fá miklu meiri umræðu upp á yfirborðið. Þá sérstaklega varðandi sjálfsvíg ungra karlmanna. Þeir eru enn í miklum meirihluta þeirra sem svipta sig lífi. „Það hefur líka margt jákvætt gerst síðustu ár. Við erum með frábært starfsfólk á geðdeildum og í heilsugæslunni. Fólk er orðið meðvitaðra um sjálfsvíg og þau áhrif sem þau hafa á nánustu aðstandendur.“
Benedikt, sem hefur síðastliðinn áratug unnið úr þessari miklu sorg, segir frasana yfir sorg og sorgarviðbrögð jafnmarga og þeir eru vitlausir. Hver þarf að finna sína leið út úr sorginni og fólk geri það mjög misjafnlega. „Sumir demba sér í vinnu. Aðrir taka því rólega. En ef þú afgreiðir ekki sorgina þá kemur hún alltaf aftur. Þess vegna er mikilvægast af öllu að vinna í sorginni.“

Bataferlið hófst fyrir alvöru

Benedikt segir að það sem hjálpaði honum mest í sorginni var að finna samtök þar aðstandendur fólks sem hafði svipt sig lífi hittist reglulega og ræddi ógnvænlega lífsreynslu sína. „Við bjuggum til stuðningshópa. Það var ekki fyrr en ég fór að umgangast fólk sem hafði misst einhvern í sjálfsvígi að ég fór að skilja þetta. Þá fyrst fór lífið að ganga aftur og bataferlið hófst fyrir alvöru.“

Var kominn í skuld vegna fjárhættuspila á netinu.
Pétur var vinmargur Var kominn í skuld vegna fjárhættuspila á netinu.

Mynd: Úr einkasafni

Hluti af því sem fólk getur gert í sorgarferlinu er einfaldlega að gera sorgina skemmtilega. „Þegar maður lendir í svona mikilli sorg þarf að taka ákvörðun um að gera lífið skemmtilegt á nýjan leik. Þegar maður er sorgmæddur þá á maður bara að vera sorgmæddur. Síðan þarf maður líka að geta verið glaður og notið þess að vera til.“
Benedikt segir að það taki gríðarlega mikið á að komast á þennan stað, þar sem „sorgin getur verið skemmtileg.“ Fyrst þegar hann byrjaði að brosa, hlæja og gleyma sér í hrollköldum veruleikanum, skammaðist hann sín og hugsaði að hann ætti ekki skilið að líða vel. En með tímanum lærði hann að ef hann ætlaði að lifa þá þyrfti hann að finna gleðina í sorginni.

„Svo koma dagar eins og afmæli, dánardagur og jólin. Þá leyfi ég mér að vera sorgmæddur. Ég geri mér samt grein fyrir því að ég get ekki leyft sorginni að taka völdin. Ég þarf að mæta í vinnuna daginn eftir afmælisdaginn hans. Ég þarf að halda áfram með lífið.“

Með þessu móti nýtir Benedikt sér sorgina til að vera sterkari. „Þetta er auðvitað ekki svona auðvelt en maður þarf að geta skilgreint sig úr sorginni og í skemmtilegt líf. Því sorgin getur verið skemmtileg.“

Mikilvægt að minnast

Það dýrmætasta sem Benedikt á eru minningarnar um Pétur. „Það er svo mikið af minningum. Allt það sem við gerðum. Það er svo gríðarlega mikilvægt að minnast. Þess vegna tölum við mikið um Pétur og hvernig hann var.“  Hann segir að það mikilvægasta í öllu ferlinu sem tengist áfallinu sé vonin. „Vonin um að lífið verði einhvern tímann betra. Stundum finnst manni sem maður eigi það ekki skilið. Þess vegna er mikilvægt að taka ákvörðun og vona að lífið verði betra.“
Benedikt segir fjölskylduna í dag geta lifað með því að Pétur sé látinn. „Ég verð aldrei sáttur við að hann dó en við höfum lært að lifa með þessu. Pétur lifir í minningum okkar.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Bjútífilterar á samfélagsmiðlum orðnir svo lúmskir – „Þetta er ekki raunveruleikinn“

Bjútífilterar á samfélagsmiðlum orðnir svo lúmskir – „Þetta er ekki raunveruleikinn“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Faðir Olgu var einn þekktasti læknamiðill landsins – „Hann vissi allt“

Faðir Olgu var einn þekktasti læknamiðill landsins – „Hann vissi allt“
Fókus
Fyrir 6 dögum

Andri Már varð fyrir alvarlegri líkamsárás og frelsissviptingu – „Í dag er ég frek­ar þakk­lát­ur fyr­ir þetta því þarna fékk ég nóg“

Andri Már varð fyrir alvarlegri líkamsárás og frelsissviptingu – „Í dag er ég frek­ar þakk­lát­ur fyr­ir þetta því þarna fékk ég nóg“
Fókus
Fyrir 6 dögum

Hera Björk fallin niður í 27. sætið – Litlu má muna að lagið komist í aðalkeppnina

Hera Björk fallin niður í 27. sætið – Litlu má muna að lagið komist í aðalkeppnina