fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fókus

„Ég þori ekki að leyfa krökkunum að vera úti að leika sér ein þegar ég veit að hann er laus“

Daði Freyr var dæmdur í þriggja ára fangelsi – Foreldrar skelfingu lostnir

Ritstjórn DV
Mánudaginn 3. apríl 2017 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Daði Freyr Kristjánsson, 35 ára Reykvíkingur, sem var dæmdur í þriggja ára fangelsi þann 8. maí árið 2014 fyrir að nema tvær sjö ára stúlkur á brott í bíl sínum, keyra með þær á afvikinn stað, þar sem hann kyssti þær og þuklaði á þeim, hefur lokið afplánun og gengur því laus. Foreldrar í Árbæ höfðu samband við DV til þess að kanna hvers vegna íbúar í hverfinu, þar sem Daði Freyr er skráður til húsa og bjó þegar brotin voru framin, hafi ekki fengið að vita að maður með slíkan dóm gangi laus.

„Ég þori ekki að leyfa krökkunum að vera úti að leika sér ein þegar ég veit að hann er laus. Það er bara sorglegur raunveruleiki sem við þurfum að búa við. Það er hins vegar út í hött að við, foreldrar barna í hverfinu, þurfum að komast að því með því að beinlínis rekast á hann. Af hverju liggja þessar upplýsingar ekki fyrir svo hægt sé að taka tillit til þeirra þegar hugsað er um öryggi barnanna okkar. Þau fá ekki að njóta vafans heldur virðist hans réttur til friðhelgi einkalífs verða ofan á öryggi þeirra sem minnst mega sín,“ segir áhyggjufullur faðir sem býr í Árbæ og man vel eftir málinu.

Gaf sig fram við lögreglu þegar hún fékk þessa ljósmynd birta í fjölmiðlum.
Laus í Reykjavík Gaf sig fram við lögreglu þegar hún fékk þessa ljósmynd birta í fjölmiðlum.

Brot Daða Freys áttu sér stað 9. janúar árið 2013 en hann hafði verið, ásamt stúlkunum tveimur, í Krónunni við Rofabæ. Stúlkurnar höfðu verið að hnupla sælgæti í versluninni og Daði sá til þeirra. Þegar út var komið nýtti hann sér það og lagði bifreið sinni við strætóbiðskýli þar sem stúlkurnar stóðu skömmu síðar. Sagðist Daði hafa séð til þeirra og skipaði þeim að setjast upp í bílinn ellegar myndi hann hringja á lögregluna.

Káfaði á þeim þar til þær fóru að gráta

Daði ók með stúlkurnar að Hádegismóum á malarveg sunnan við Morgunblaðshúsið. Þar stöðvaði hann bifreiðina, settist aftur í til þeirra og þuklaði á þeim. Í dómnum segir að hann hafi kysst aðra stúlkuna á kinnina og snert maga og læri þeirra utan klæða. Þegar þær fóru að gráta fór Daði með þær aftur þangað sem hann hafði þvingað þær upp í bílinn og skildi þær eftir. Daði gaf sig síðan sjálfviljugur fram við lögreglu eftir að lögregla lýsti eftir honum.
Daði Freyr fékk þriggja ára fangelsisdóm í héraði sem Hæstiréttur Íslands staðfesti síðan.

DV hafði samband við Persónuvernd til þess að spyrjast fyrir um réttinn til friðhelgi einkalífs og hvort hann geti verið skertur einfaldlega vegna almannahagsmuna.

„Friðhelgi einkalífs einstaklinga er tryggð í 71. gr. stjórnarskrárinnar. Þrátt fyrir það má með sérstakri lagaheimild takmarka á annan hátt friðhelgi einkalífsins ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra. Þetta er mat sem löggjafinn þarf að viðhafa, m.a. með tilliti til persónuverndarlöggjafarinnar. Eins og löggjöfin er í dag virðist ekki vera gert ráð fyrir því að stjórnvöld, eða einstaklingar, skuli – eða megi – birta upplýsingar sem hér um ræðir,“ segir í svari Persónuverndar.

Friðhelgi einkalífs skarast á við almannahagsmuni

Þá segir enn fremur: „Hvað varðar birtingu fjölmiðla á upplýsingum eins og hér um ræðir, þá er það svo að rétturinn til friðhelgi einkalífs getur skarast við önnur stjórnarskrárbundin réttindi, þ. á m. tjáningarfrelsið, og rétturinn til friðhelgi er háður ákveðnum takmörkunum, meðal annars í ljósi almannahagsmuna. Hins vegar hafa fjölmiðlar víðtækari heimildir til birtingar persónuupplýsinga, m.a. í ljósi hlutverks þeirra í lýðræðisríki samanber 5. grein persónuverndarlaga.“

Í umræddri fimmtu grein, sem nefnd er „Tengsl við tjáningarfrelsi“ segir orðrétt: „Að því marki sem það er nauðsynlegt til að samræma sjónarmið um rétt til einkalífs annars vegar og tjáningarfrelsis hins vegar má víkja frá ákvæðum laganna í þágu fjölmiðlunar, lista eða bókmennta.“

Persónuvernd vill þó taka fram að öll umfjöllun fjölmiðla þurfi að vera sanngjörn, málefnaleg og lögmæt eins og kveðið er á um í 7. grein persónuverndarlaganna eða eins og segir í svari til DV: „Þarf fjölmiðill að vega og meta umfjöllun í hvert sinn og getur hún, eftir atvikum, sætt endurskoðun Persónuverndar. Af þeim sökum er erfitt að segja til um hvort fjölmiðli sé óheimilt að birta tiltekna frétt og getur reynt á ýmis sjónarmið í því samhengi eins og að framan greinir.“

Opinber listi yfir kynferðisbrotamenn

DV hefur undanfarna daga reynt að ná tali af Daða Frey en ekki haft erindi sem erfiði. Þá var einnig óskað eftir viðbrögðum frá dómsmálaráðherra vegna málsins og var hann meðal annars spurður hvort það sé eða hafi einhvern tímann verið skoðað að búa til sérstakan lista yfir dæmda kynferðisbrotamenn.

Samkvæmt svörum frá ráðuneytinu hefur ekki verið sérstaklega skoðað að útbúa slíkan lista. Þó sé vinna í gangi sem snúi að því að betrumbæta núverandi löggjöf svo betur megi fylgjast með hættulegum kynferðisbrotamönnum. Málið sé statt hjá refsiréttarnefnd Alþingis.

„Þegar frumvarp til breytinga á hegningarlögum um öryggisgæslu voru ekki samþykktar á Alþingi á árinu 2012 ákvað velferðarráðherra að setja af stað starfshóp sem skoðar stöðu ólíkra brotamanna þegar það kemur að öryggisvistun og öryggisgæslu. Þegar niðurstaða þess starfshóps lá fyrir þá hóf refsiréttarnefnd að skoða frumvarpið aftur með tilliti til þeirrar niðurstöðu og þar er málið statt í dag,“ segir í svari frá ráðuneytinu sem viðurkennir að ekkert eftirlit sé haft með hættulegum kynferðisbrotamönnum eins og staðan er í dag.

Í umræðunni um dæmda kynferðisbrotamenn, og þá sérstaklega þá sem gerast sekir um slík brot gegn börnum, þá hefur þessari hugmynd, sem lögð var undir dómsmálaráðuneytið, verið kastað fram, það er að skrá alla kynferðisbrotamenn og hvar þeir eru til húsa. Þegar rætt er um þessa hugmynd þá eru Bandaríkin oft notuð sem dæmi en þar geta íbúar flett upp í opinberu kerfi og kannað hvort kynferðisbrotamaður búi í hverfinu eða innan ákveðinnar fjarlægðar frá heimili viðkomandi.

Heiða Björg Pálmadóttir segir mikilvægt að Barnaverndarstofa fái auknar heimildir til þess að fylgjast með hættulegum kynferðisbrotamönnum.
Yfirlögfræðingur Barnaverndarstofu Heiða Björg Pálmadóttir segir mikilvægt að Barnaverndarstofa fái auknar heimildir til þess að fylgjast með hættulegum kynferðisbrotamönnum.

Barnaverndarstofa hefur frá árinu 2010 vakið athygli á mikilvægu ákvæði er snýr að auknu eftirliti með dæmdum kynferðisbrotamönnum, ákvæði sem nú er ekki að finna í lögum. Heiða Björg Pálmadóttir, yfirlögfræðingur Barnaverndarstofu, segir stofnunina efins um gagnsemi lista sem væri opinber almenningi með upplýsingar um kynferðisbrotamenn. Hún segir þó ýmsar leiðir færar til þess að bæta úr eftirliti með hættulegum kynferðisbrotamönnum en ekkert slíkt eftirlit fer fram í dag.

„Barnaverndarlögum var breytt árið 2011 en áður en þau voru samþykkt fékk Barnaverndarstofa frumvarpið til umsagnar. Við lögðum þá til nýtt ákvæði í 36. grein barnaverndarlaganna sem við vildum sjá bætast við það sem nú þegar stendur í lögunum. Óbreytt var hún ófullnægjandi að mati Barnaverndarstofu,“ segir Heiða sem vildi auka heimildir Barnaverndarstofu þegar það kemur að dæmdum kynferðisbrotamönnum.

Velferðarráðuneytið dregur lappirnar

Í umsögn Barnaverndarstofu um frumvarp til breytinga á barnaverndarlögum var þess meðal annars óskað að stofnunin fengi heimild til þess að láta framkvæma sérstakt áhættumat á þeim kynferðisbrotamönnum sem veruleg hætta kunni að stafa af. Um áhættumatið segir þetta í umsögn Barnaverndarstofu: „Bendi niðurstöður áhættumats til þess að veruleg hætta sé talin stafa af viðkomandi einstaklingi veitir Fangelsismálastofnun Barnaverndarstofu jafnframt upplýsingar um lok afplánunar, skilyrði sem sett eru fyrir reynslulausn og fyrirhugaðan dvalarstað einstaklings að afplánun lokinni. Í slíkum tilvikum er viðkomandi einstaklingi jafnframt skylt að tilkynna breyttan dvalarstað til Barnaverndarstofu án tafar.“

Þessar tillögur til breytinga voru ekki samþykktar og segir Heiða að Barnaverndarstofa hafi nokkrum sinnum, síðan árið 2010, vakið athygli á þessum viðbótum með það að markmiði að betrumbæta lögin en ekki haft erindi sem erfiði.
„Nei, þetta fór ekki inn í lögin og við fengum engar skýringar á því. Alþingi virkar ekki þannig. Við vöktum síðan athygli á þessu aftur fyrir nokkrum árum þegar verið var að leggja til breytingar á hegningarlögum vegna öryggisgæslu og einnig hefur Velferðarráðuneytinu verið skrifuð minnisblöð vegna málsins en þrátt fyrir það hefur ekkert gerst.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Hvalur sprakk í tætlur

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Eva Ruza fer í skóför Felix

Eva Ruza fer í skóför Felix
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu
Fókus
Fyrir 3 dögum

Samfélagsmiðlastjarna látin aðeins 36 ára – „Ég botna ekki í neinu lengur en við munum fá meiri upplýsingar á næstu dögum“

Samfélagsmiðlastjarna látin aðeins 36 ára – „Ég botna ekki í neinu lengur en við munum fá meiri upplýsingar á næstu dögum“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sonur Elísu og Elíss fæddur

Sonur Elísu og Elíss fæddur
Fókus
Fyrir 4 dögum

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“