fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fókus

Hafþór Júlíus: Ofvirki Skagastrákurinn sem breyttist í vöðvafjall

Ætlar að verða sterkasti maður heims árið 2017 – Hætti í skóla 18 ára – Fer í kynlífsbann fyrir keppni – Mjúkur innan við beinið

Auður Ösp
Þriðjudaginn 11. apríl 2017 09:01

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hafþór Júlíus Björnsson ætlaði að verða lögga þegar hann var lítill strákur en er í dag einn vinsælasti aflraunamaður heims. Hann er enginn smásmíði enda vekur hann eftirtekt hvar sem hann fer, og flestir þekkja hann sem „risastóra gaurinn í Game of Thrones.“ Eftir tiltölulega stutt samtal er þó ljóst að risastóri gaurinn í Game of Thrones er indælis drengur inni við beinið. Rólyndur fjölskyldumaður sem vill koma vel fram við allt og alla. Enda veit hann að hann mun fá það allt til baka. Á dögunum vann hann titilinn Sterkasti maður Evrópu í þriðja sinn. Núna ætlar hann að verða sterkasti maður heims, enda kominn tími til eftir fimm ár á verðlaunapalli.

Óhugnanleg lífsreynsla

Fréttamiðlar greindu frá því í byrjun mánaðarins að Hafþór hefði fengið veirusýkingu sem olli svokallaðri Bells Palsy-andlitslömun. Þetta var aðeins örfáum dögum áður en keppnin um sterkasta mann Evrópu fór fram í Leeds.
Hann er að eigin sögn grjótharður keppnismaður og veigraði sér ekki við því að keppa um titilinn með hálft andlitið óstarfhæft.

„Sem betur hafði þetta engin áhrif á styrkinn hjá mér og restin af líkamanum virkaði þannig að ég sá enga ástæðu til að hætta við að keppa, þó að ég væri lamaður öðrum megin í andlitinu. Ég var nú ekki að taka þátt í fegurðarsamkeppni!“ segir Hafþór glettilega. Hann fer þó ekkert leynt með að þetta hafi verið óhugnanleg lífsreynsla. „Þetta dró mig aðeins niður. Enda hafði ég aldrei heyrt um þetta og vissi ekkert hvað var í gangi. Hélt jafnvel að ég væri að fá heilablóðfall. Eftir að ég sagði frá þessu á Facebook-síðunni minni fékk ég skilaboð frá fólki sem hefur einnig lent í því að fá þennan vírus. Þannig að ég er ekki sá fyrsti í heiminum.“

„Þetta er allt annað en auðvelt, en þetta er það sem maður gerir ef maður vill vera topp íþróttamaður.“
Þrotlausar æfingar „Þetta er allt annað en auðvelt, en þetta er það sem maður gerir ef maður vill vera topp íþróttamaður.“

Hver einasta máltíð skiptir máli

Það er full vinna, og rúmlega það, að vera kraftajötunn. „Ég held að fólk geri sér ekki alltaf grein fyrir því hvað það fer mikill tími í æfingar og mataræði og keppnir og að jafna sig inni á milli. Það er svo margt sem þarf að gera. Hver einasti klukkutími, hver einasta máltíð skiptir máli. Svefn, slökun, þetta telur allt. Það er enginn að fara að sjá mig úti klukkan tólf næstu sex vikur af því að ég er að farinn að sofa á slaginu ellefu. Ef ég stend ekki við þetta þá líður mér illa og finnst ég vera að svíkja sjálfan mig. Þetta er allt annað en auðvelt, en þetta er það sem maður gerir ef maður vill vera topp íþróttamaður.“

Hann bætir því við að það sé mikil hvatning fyrir hann að vera innan um fólk sem er svipað þenkjandi og hann sjálfur. Hann nefnir crossfit-íþróttakonur á borð við Annie Mist sem dæmi. „Ég fæ innblástur þegar ég er ennan um þær, þetta eru allt svo svakalega duglegar og flottar stelpur. Þær hafa svipaðan metnað og ég sjálfur, og gera næstum ekkert annað en að æfa, borða og sofa.“

Hafþór fór með sigur af hólmi í keppninni Sterkasti maður Evrópu í byrjun mánaðarins.
Dregur bíl eins og ekkert sé Hafþór fór með sigur af hólmi í keppninni Sterkasti maður Evrópu í byrjun mánaðarins.

Hafþór er með ákveðna reglu í hvert sinn sem hann keppir, reglu sem hann tekur mjög alvarlega. „Ég vil passa það eins og ég get að losa ekki um spennu rétt fyrir keppni. Þess vegna stunda ég aldrei kynlíf seinustu þrjá dagana fyrir keppni. Það er bara „no sex time.“ Ég vil halda spennunni inni í mér.“

Með endalausa orku

Hafþór er af Skaganum og ólst upp með einni eldri systur og einni yngri. Hann var ellefu ára þegar fjölskyldan flutti í Kópavoginn. Foreldrar hans hafa staðið þétt við bak hans í gegnum árin. „Ég er mjög þakklátur fyrir að eiga foreldra sem eru ennþá saman, enda veit ég að það er ekkert sjálfgefið í dag. Þau voru líka svo ung þegar þau kynntust, pabbi var 18 ára og mamma 21 árs. Mér finnst það mjög fallegt, og bara mjög kúl að þau séu búin að vera saman í öll þessi ár. Ég er mjög stoltur af þeim hvað það varðar.“

 „Ég er mjög þakklátur fyrir að eiga foreldra sem eru ennþá saman, enda veit ég að það er ekkert sjálfgefið í dag.“
Tveggja ára pjakkur „Ég er mjög þakklátur fyrir að eiga foreldra sem eru ennþá saman, enda veit ég að það er ekkert sjálfgefið í dag.“

Hann var að eigin sögn ekki duglegasti námsmaðurinn í Grundaskóla og síðar Hjallaskóla. Það var þó ekki vegna takmarkaðs gáfnafars. Frekar var það metnaðarleysi gagnvart náminu. Hann bjó yfir endalausri orku og þurfti að finna henni farveg.

„Það var engan veginn hægt að fá mig til að sitja kyrr og læra. Það bara gekk ekki. Ég þurfti alltaf að vera að gera eitthvað“

„Í dag mætti kannski kalla þetta athyglisbrest. Það var engan veginn hægt að fá mig til að sitja kyrr og læra. Það einfaldlega gekk ekki. Ég þurfti alltaf að vera að gera eitthvað. Þannig að ég var alltaf á fullu og rosalega athafnasamur, nema þegar ég settist niður til að spila tölvuleiki eins og margir strákar.“

Hann var í áttunda bekk þegar hann byrjaði að æfa körfubolta. Fljótlega átti íþróttin hug hans allan. Hann lék með Breiðabliki og KR og síðan með unglingalandsliðinu og þótti afar efnilegur. Hann gekk til liðs við FSu árið 2007.

„Ég fór „all in“. Ég hafði prófað aðrar íþróttir eins og fótbolta og fimleika en ég fann að ég átti heima í körfunni. Vinir mínir sem byrjuðu með mér enduðu á því að hætta en ég hélt áfram. Og varð fljótlega mjög góður.“

Myndin er tekin árið 2006 þegar Hafþór var 17 ára. Líkt og sjá má hefur hann breyst mikið.
Ótrúleg breyting Myndin er tekin árið 2006 þegar Hafþór var 17 ára. Líkt og sjá má hefur hann breyst mikið.

Hafþór ákvað að hætta í framhaldsskóla 18 ára gamall. „Það komst ekkert annað að en æfingar og að borða. Mér fannst skólinn vera að trufla mig frá æfingum. Álagið var oft mjög mikið á þessum tíma, jafnvel þrjár æfingar á dag. Mamma og pabbi voru ekkert alltof ánægð með þetta til að byrja með og fólk spurði mig hvað ég væri eiginlega að spá, hvað ætlaði ég eiginlega að fara að gera í lífinu? Ég var að vinna við dyravörslu á þessum tíma og vissi svo sem ekkert almennilega hvert ég ætti að stefna. Það að vinna við að vera kraftakarl og leika í auglýsingum var ekki eitthvað sem ég vissi að væri hægt.“

„Ég gerði það sem hjartað sagði mér að gera. Það skilaði mér þeim árangri sem ég hef náð í dag“

Hafþór kveðst vera feginn því að hafa fylgt innsæinu á sínum tíma. „Það var eitthvað inni í mér sem sagði að ég væri að gera rétt. Ég gerði mér ekki grein fyrir því þá hvað það átti eftir að skila mér miklu. Ég gerði það sem hjartað sagði mér að gera. Það skilaði mér þeim árangri sem ég hef náð í dag.“

Hann viðurkennir að hann sjái örlítið eftir að hafa ekki lokið náminu á sínum tíma. Kannski mun hann gera það í framtíðinni. „Ég veit að ég gæti auðveldlega lært ef ég setti mér það markmið. Ég er líka orðinn rólegri í dag. Enda er ég næstum því 200 kíló!“

Fimm sinnum á verðlaunapall

Körfuboltaferli Hafþórs lauk þegar hann var tvítugur og meiddist illa á ökkla. Hann þurfti að kveðja drauminn um spilamennsku í NBA. Í staðinn tók annað við. Hann hitti Magnús Ver Magnússon í líkamsræktarstöð og sagði hann Hafþór vera efni í aflraunamann.

„Þegar ég var í körfunni var ég alltaf á ferðinni enda vildi ég hafa gott þol og vera í góðu formi. Þannig að ég náði ekki að styrkjast eins mikið og stækka. En um leið og ég hætti í körfunni og byrjaði í lyftingum þá stökkbreyttist líkaminn,“ segir Hafþór. „Ég fékk brjálæðislegan áhuga og hef ekki stoppað eftir þetta. Ef ég set mér markmið þá get ég ekki hætt án þess að ná því.“

„Ef ég stend ekki við þetta þá líður mér illa og finnst ég vera að svíkja sjálfan mig.“
Beitir sig miklum aga „Ef ég stend ekki við þetta þá líður mér illa og finnst ég vera að svíkja sjálfan mig.“

Hafþór hefur sex sinnum unnið titilinn Sterkasti maður Íslands og þrisvar sinnum hefur hann unnið keppnina um sterkasta mann Evrópu. Fimm sinnum hefur hann lent á palli í keppninni Sterkasti maður heims, ýmist í öðru eða þriðja sæti. Núna er hann orðinn óþreyjufullur. Í ár verður það fyrsta sæti.

„Það breytir auðvitað öllu að eignast barn“

„Ég er búinn að vera á palli í fimm ár án þess að vinna og núna er kominn tími á það. Ég er búinn að vera alveg nógu oft í öðru og þriðja sæti. Ég myndi gera hvað sem er til að vera sterkasti maður heims, enda ætla ég að vinna í ár. Ég hef aldrei verið í eins góðu formi og núna, og ég hef heldur aldrei verið eins ákveðinn, enda geri ég nákvæmlega ekkert annað þessa dagana en að borða, æfa og sofa. Ég vil koma heim með titilinn og gera mömmu og pabba, dóttur mína, og fjölskylduna stolta af mér.“

Hafþór er staðráðinn í koma heim með titilinn Sterkasti maður heims.
Ætlar að vinna í ár Hafþór er staðráðinn í koma heim með titilinn Sterkasti maður heims.

Erfið fjarvera frá dótturinni

Hafþór varð faðir 21 árs.

„Hún er algjört yndi, hún Theresa mín. Ég varð allt annar maður eftir að ég eignaðist hana. Ég varð miklu betri maður. Það breytir auðvitað öllu að eignast barn. Það breytti samt ekki þeirri stefnu sem ég var á lífinu, og ef eitthvað er þá gerði það mig enn ákveðnari í ná langt. Mig langaði að ná árangri og ná árangri í lífinu – út af henni. Ég vil að hún horfi á pabba sinn og sjái hann sem fyrirmynd. Og sé stolt af mér.“

„Ég varð allt annar maður eftir að ég eignaðist hana.“
Föðurhlutverkið breytti öllu „Ég varð allt annar maður eftir að ég eignaðist hana.“

Theresa er í dag átta ára og býr í Danmörku. Hafþór nýtir hverja einustu stund sem hann fær með dótturinni og kveðst óska að þær væri fleiri. „Það er oft erfitt þegar of langur tími líður á milli. Söknuðurinn verður svo mikill. Helst vildi ég geta hitt hana miklu oftar. Ég reyni að heimsækja hana í Danmörku þegar ég get og þegar hún kemur til Íslands er aldrei dauð stund hjá okkur.“

Vill hitta Jón Pál

Hafþór hefur undanfarin ár farið með hlutverk Gregors „The Mountain“ Clegane í hinum geysivinsælu sjónvarpsþáttum Games of Thrones og mörgum er í fersku minni atriðið þegar persóna hans sprengdi höfuðkúpu Oberyns Martell með handafli. Einn af höfundum þáttanna lýsti því yfir að atriðið væri eitt það besta sem sést hefur í þáttunum frá upphafi.

Fleiri hlutverk hafa boðist, sem og leikur í auglýsingum. Hann kann vel við sig fyrir framan myndavélina. „Ég er náttúrlega ekki lærður leikari en ég reyni eins og ég get að læra af fólkinu í kringum mig. Ég get orðið stressaður þegar kemur að því að læra línur þannig að þetta getur verið krefjandi, en samt svo ótrúlega gaman.

„Ég er auðvitað þakklátur fyrir öll tækifærin sem ég hef fengið og ég veit að ég er að mörgu leyti heppinn en ég hef líka þurft að vinna fyrir þessum líkama.“
Í hlutverki Fjallsins „Ég er auðvitað þakklátur fyrir öll tækifærin sem ég hef fengið og ég veit að ég er að mörgu leyti heppinn en ég hef líka þurft að vinna fyrir þessum líkama.“

Ég er auðvitað þakklátur fyrir öll tækifærin sem ég hef fengið og ég veit að ég er að mörgu leyti heppinn en ég hef líka þurft að vinna fyrir þessum líkama. Ég veit ekki hvort ég væri að fá þessi tækifæri ef ég væri 80 kíló. Það eru ekki margir þarna úti eins og ég, 195 kíló og yfir 200 sentimetrar á hæð. Það þarf einhver að leika alla þessa stóru karla, og það eru ekki svo margir að velja úr.“

Hann veit sjálfur að Hafþór Júlíus er vörumerki. „Þetta er mín ímynd, að vera sterkur og stór. Og ég vil skapa vörumerki sem fólk fílar, það er að segja karakter.“

Hafþór sker sig úr hvert sem hann fer, enda gríðarstór og mikill maður sem gnæfir yfir fjöldann. Það er ekki að ástæðulausu að hann er kallaður Fjallið. Nú er svo komið að bandarískir slúðurmiðlar eru farnir að elta hann á röndum. Hann kippir sér þó sjaldnast upp við athyglina.

„Þetta er orðið þannig í dag að ég er nánast hættur að taka eftir því þegar fólk starir á mig úti á götu. Þeir sem eru í fylgd með mér taka hins vegar eftir því. Ég hef til dæmis verið innan um fólk sem ég er nýbúinn að kynnast og það fer allt í einu að taka eftir að allir í kring eru að horfa í áttina að okkur. Og skilja ekkert í því fyrr en þau að snúa sér við og sjá mig!“

Honum er oft líkt við annan kraftlyftingamann sem sigraði hugi og hjörtu Íslendinga á árum áður, Jón Pál Sigmarsson. „Ég vissi auðvitað hver hann var þegar ég var yngri en ég myndi samt ekki beint segja að hann hafi verið fyrirmyndin mín þá. En í dag myndi ég ekki hafa neitt á móti því að fá að spjalla við hann og fá eitt eða tvö ráð. Hann var auðvitað einstakur maður, og þjóðhetja. Ég myndi samt ekki líkja mér við hann.“

Hafþór hefur fengið tilboð frá Hollywood og sér fyrir að sér að verða leikari eftir að aflraunaferlinum lýkur.
Með Schwarzenegger Hafþór hefur fengið tilboð frá Hollywood og sér fyrir að sér að verða leikari eftir að aflraunaferlinum lýkur.

Fjölskyldumaður

Hann veit að hann verður ekki aflraunamaður það sem eftir er. Það er annað með leiklistina. Hann hefur fengið tilboð frá kvikmyndaverum í Hollywood sem hann hefur þurft að hafna vegna skuldbindingar við Game of Thrones. Í framtíðinni sem er samt allt opið hvað varðar leiklistina.

„Þótt ég sé risastór og sterkur þá kem ég samt mjúklega fram við konur“

„Eins og er þá er ég með mín markmið í aflraununum og ætla að ná þeim. Ég veit samt að ég hef ekki endalausan tíma.“

Hvar heldurðu að þú verðir eftir tíu ár?

„Þá verð ég orðinn 38 ára. Ég get alveg séð það fyrir mér að vera leikari eftir tíu ár. Búinn að koma mér vel fyrir og verð vonandi orðinn kvæntur maður,“ segir Hafþór. Honum finnst ekki leiðinlegt að dekra við konurnar í lífi sínu. „Þótt ég sé risastór og sterkur þá kem ég samt mjúklega fram við konur. Og ég reyni að vera kurteis við alla sem ég hitti.

Mig langar líka að eignast stærri fjölskyldu. Helst að eignast fleiri börn,“ segir Hafþór. „Tilhugsunin um lítinn Hafþór sem vill vera alveg eins og pabbi sinn er ekki afleit.“

Ertu mikill fjölskyldumaður?

„Já, það er engin spurning. Ég hef líka svo gaman af börnum og hef alltaf haft. Mér finnst góð tilhugsun að eiga fjölskyldu og lifa þannig lífi í framtíðinni, enda heillar það mig ekkert að fara niður í bæ að djamma og drekka. Ég vil frekar þetta venjulega líf. Þetta hefðbundna.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 5 dögum

Helsta ráð eftirsóttu karlkyns klámstjörnunnar

Helsta ráð eftirsóttu karlkyns klámstjörnunnar
Fókus
Fyrir 5 dögum

Einkaþjálfari tekinn á teppið fyrir framkomu sína – Birti sjálf myndbandið sem kom upp um hana

Einkaþjálfari tekinn á teppið fyrir framkomu sína – Birti sjálf myndbandið sem kom upp um hana