Buðu ókunnugum manni með í helgarferð: „Ég var sá eini sem var nógu vitlaus til að svara“

Joe McGrath fékk óvænt tilboð í gegnum Facebook

Joe McGrath í hópi ferðafélaga sinna sem hann þekkti ekki neitt.
Óvæntur ferðafélagi Joe McGrath í hópi ferðafélaga sinna sem hann þekkti ekki neitt.

Hinn 21 árs gamli Joe McGrath, frá Manchester, varð frekar undrandi þegar hann fékk skeyti frá ókunnugum manni sem bauð honum í í ókeypis helgarferð til Spánar. Til að byrja með var hann alveg viss um að einhverskonar svindl væri á ferðinni. Eftir nokkra daga ákvað hann að prófa að svara manninum og skömmu síðar voru þeir komnir í hrókasamræður í gegnum síma.

Boðið kom til útaf því að stór vinahópur hafði ákveðið að koma vini sínum á óvart í tilefni stórafmælis og skipuleggja helgarferð til Mallorca. Einn úr hópnum, Joe McGrath – nafni söguhetjunnar, boðaði óvænt forföll og þá voru góð ráð dýr. Flugmiðinn og hótelpöntunin voru á hans nafni og ekki möguleiki að fá endurgreitt. Vinirnir vildu alls ekki láta þetta fara til spillis: „Þau höfðu samband við fimmtán aðra nafna okkar í gegnum Facebook en ég var sá eini sem var nógu vitlaus til að svara, segir Joe í samtali við BBC.

Hann ákvað að skella sér í ferðina með hópnum og upplifa smá ævintýri. Vinahópurinn var frá Bristol og þangað keyrði Joe á laugardagsmorgni og hitti væntanlega ferðafélaga sína. Síðan flugu þau öll saman til Spánar.

„Þetta var frábært fólk og ég skemmti mér konunglega,“ segir Joe. Hann hefur í hyggju að bjóða ferðafélögunum sínum fljótlega til Manchester og þá gæti svo farið að nafni hans yrði með í för. „Við eigum eftir að hittast fyrr en seinna. Það verður töfrandi stund,“ sagði Joe léttur.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.