Allt í sóma sigurvegari

Úrslit liggja fyrir í stóru Lukku-Láka keppninni – Kemur sérfræðingi á óvart

Allt í sóma í Oklahóma er besta Lukku-Láka bókin á íslensku.
Sigraði með yfirburðum Allt í sóma í Oklahóma er besta Lukku-Láka bókin á íslensku.

Úrslit liggja nú fyrir í keppninni um bestu Lukku-Láka bókina sem gefin hefur verið út á íslensku. Eins og greint var frá í DV í síðustu viku stóð Stefán Pálsson, teiknimyndasöguáhugamaður með meiru, fyrir kosningunni á Twitter-síðu sinni. Niðurstaðan varð ótvíræð, bókin Allt í sóma í Oklahóma sigraði með yfirburðum, fékk 72 prósent atkvæða á meðan Rex og pex í Mexíkó hlaut aðeins 28 prósent. 131 greiddi atkvæði.

Sverri Örn Björnsson er líklega hvað fróðastur Íslendinga þegar kemur að Lukku-Láka. Sverrir Örn hefur þannig skrifað nokkuð ítarlegar færslur um allar þær Lukku-Láka bækur sem út hafa komið á íslensku á Wikipediu-alfræðisíðuna og einnig um fjölda annarra bóka í flokknum sem ekki hafa verið þýddar. „Þetta kom svolítið á óvart en ég svo sem kann engar skýringar á velgengni þessarar bókar, aðrar en þá kannski að hún er ein af fyrstu bókunum sem gefin var út á íslensku. Hún var sú þriðja í röðinni og það er kannski þannig að hún hafi fengið stuðning af ákveðinni nostalgíu. Hún hefur nú ekki verið talin í hópi þeirra allra bestu, svona almennt.“

Sverrir Örn segir að sjálfur hafi hann kosið Rex og pex í Mexíkó. Ef hann hefði hins vegar fengið að ráða hefði Apasagjáin staðið uppi sem sigurvegari. „Það er nú svona mín uppáhaldsbók en hún féll bara út í fyrstu atrennu.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.