„Ræturnar eru í Póllandi en hjartað er á Íslandi“

Ætlaði heim eftir viku en ílentist og lærði íslensku – Hjalti og Aneta: Ást við fyrstu sýn – Halda uppi öflugu íslenskunámi fyrir innflytjendur

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Ég kom hingað til að verða barnfóstra hjá íslenskri fjölskyldu – au pair. Þetta var í janúar, það var ofboðslega kalt, allt of mikill vindur, og það var svo dimmt. Mér leist ömurlega á þetta og ætlaði heim eftir viku. En svo ákvað ég að þrauka og klára starfssamninginn við fjölskylduna sem var níu mánuðir,“ segir Aneta Matuszewska, sem kom til Íslands frá Póllandi fyrst árið 2001. Hana óraði ekki fyrir því að 16 árum síðar byggi hún enn á landinu. Eitt leiddi af öðru: Anetu bauðst vinna á leikskóla þar sem hún segir að afar vel hafi verið tekið á móti henni. Hún áttaði sig fljótt á því að hún myndi njóta sín mun betur í leik og starfi ef hún lærði tungu heimamanna og eftir innan við þriggja ára dvöl á Íslandi var hún orðin vel talandi á málinu. Á fimmta ári sínu á Íslandi kynntist Aneta síðan ástinni með óvæntum og vægast sagt afar hröðum hætti en hún og eiginmaður hennar, Hjalti Ómarsson, voru nánast óaðskiljanleg allt frá því þau litu hvort annað fyrst augum.

Aneta er núna skólastjóri hjá Retor fræðslu, fyrirtæki sem hún og Hjalti reka saman. Starfsemin felst í íslenskukennslu fyrir innflytjendur og hefur Retor undanfarið gert samstarfssamninga við mörg fyrirtæki um íslenskukennslu fyrir erlent starfsfólk og innleiðingu íslensku sem leiðandi tungumáls á vinnustöðum þar sem eru margir erlendir starfsmenn.

Aneta er 39 ára gömul en Hjalti 32 ára. Blaðamaður DV átti gott spjall við þau hjón í rúmgóðum og smekklegum húsakynnum Retor fræðslu að Hlíðarsmára 8. Fljótlega eftir að spjallið hófst spurði blaðamaður Anetu út í uppruna hennar og hvort hún hafi snemma orðið góð í tungumálum en hún hefur talað reiprennandi íslensku árum saman: „Ég er frá bænum Leszno sem liggur á milli tveggja borga, Poznan og Wroclaw, og er jafnframt ekki langt frá höfuðborg Þýskalands, Berlín. Ég held ég hafi almennt átt gott með að læra tungumál en mér gekk samt ekki sérlega vel í rússnesku og þýsku í grunnskóla vegna þess að þetta voru skyldufög og þess vegna upplifði ég þau sem kvöð. Þegar ég var komin í framhaldsskóla voru breyttir tímar og mér stóð til boða að læra ensku sem ég greip. Enskan var alltaf í æðum mínum, ég heyrði hana í útvarpinu og sjónvarpinu og mér veittist auðveldara að læra hana en hin málin.“

Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »