fbpx
Þriðjudagur 16.apríl 2024
Fókus

Hafdís gekkst undir fóstureyðingu 14 ára: „Mér finnst mikilvægt að hugsa stundum til þessa krílis“

Fékk enga aðstoð eða eftirfylgni eftir aðgerðina – „Ég hafði ekkert til að gefa þessu barni, sama hversu mikið mig langaði til þess að gefa því heiminn“

Auður Ösp
Föstudaginn 24. mars 2017 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég vaknaði bara og var send heim, í rauninni. Ég fékk engin tæki eða tól til að takast á við þetta áfall, sem þetta er fyrir 14 ára barn.Eftir þetta, þá fannst mér ég vera tóm, mér fannst ég standa ein og mér fannst engin skilja hvað ég var að ganga í gegnum. Ég syrgði barnið mitt,“ segir Hafdís María Árnadóttir sem var aðeins 14 ára gömul þegar hún gekkst undir fóstureyðingu. Þrátt fyrir að vera á fermingaraldri bauðst henni engin eftirfylgni eða sálrænn stuðningur til að takast á við reynslu sína. Hún kveðst hafa fundið fyrir því í gegnum tíðina hversu viðkvæmt málefni fóstureyðingar séu og því veigrað sér við að ræða reynslu sína.

„Það sem ég myndi segja við þær sem eru í þessari stöðu er það sama og ég myndi segja við 14 ára gömlu mig ef ég gæti. Ef þú ákveður að fara í fóstureyðingu, ekki skammast þín. Þú ert ekki morðingi, þú ert ekki ill, þú ert ekkert verri manneskja en þær sem halda börnunum. Ekki láta neinn gera lítið úr þinni ákvörðun og ekki gera lítið úr sjálfri þér fyrir þessa ákvörðun. Ef þú heldur barninu, ekki líta niður á þær sem gerðu það ekki. Þó svo þessi ákvörðun sé tekin reglulega af mörgum konum, þá þýðir ekki að þetta sé auðveld ákvörðun að taka,“ segir Hafdís í samtali við blaðamann.

„Ég hef lesið nokkur innlegg í hópum á Facebook þar sem fólk finnur sig knúið til að setjast í dómarasætið og kasta óyrðum í konur og stelpur sem hafa farið í þessa aðgerð. Dómstóll götunnar er alltaf tilbúin að stökkva til þegar þetta málefni kemur upp, oft án þess að hafa einhver rök til að standa á eða án þess að hafa einhverja persónulega reynslu af því að taka þessa ávörðun. Það er alltaf sorglegt að sjá það gerast.“

Hafði ekkert að gefa barni

Í pistli sem birtist á vefsvæðinu Öskubuska lýsir Hafdís reynslu sinni af því að gangast undir fóstureyðingu. Hún var þá aðeins 14 ára gömul, og skiljanlega voru barneignir ekki á dagskránni.

„Mínar aðstæður voru frekar einfaldar miðað við margt annað. Ég einfaldlega hafði ekkert vit á getnaðarvörnum, var í mínu fyrsta „sambandi“ og varð ólétt. Það var svo sannarlega ekki planað, en það gerðist samt. Ég man eftir því þegar ég sá jákvætt þungunarpróf. Ég man hvað ég varð hrædd. Ég man hvað ég grét. Ég man að það fyrsta sem ég gerði var að hlaupa fram með tárin í augunum og segja mömmu minni að ég væri ólétt. Að standa frammi fyrir þessari ákvörðun, sama á hvað aldri þú ert, er aldrei auðvelt. Sem betur fer stóð ég ekki í henni ein, þar sem ég hafði mömmu mér við hlið.“

Eftir að hafa fengið þungunina staðfesta stóð Hafdís frammi fyrir því að ákveða næsta skref. Binda endi á meðgönguna eða halda henni áfram. Þar sem hún var ekki komin langt á leið gafst örlítill tími til umhugsunar. Að lokum blasti við það sem Hafdís taldi vera réttast í stöðunni á þeim tíma.

„Ég og mamma ræddum þetta alveg niður í merg. Það sem ég man mest eftir (af því að fyrir örfáum árum rifjaði mamma það upp fyrir mér, takk mamma!) var það sem ég sagði sem hjálpaði mér hvað mest að taka þessa ákvörðun.

„Mamma, ég vil ekki eiga þetta barn því það mun bara lenda á ykkur að sjá um það.”

„Ég hafði ekkert til að gefa þessu barni, sama hversu mikið mig langaði til þess að gefa því heiminn. Ég var á barmi þess að byrja í neyslu og lenda í heljarinnar rússíbanaferð í lífinu, það hefði aldrei gert barninu gott. Ég veit, ef þau hefðu endað á að hugsa um það, að þau hefðu gert það og staðið sig vel í því, en það hefði ekki verið sanngjarnt gagnvart þessari litlu manneskju að fá ekki að hafa mömmu sína,“ ritar Hafdís jafnframt um aðdraganda þess að hún tók ákvörðun um að gangast undir fóstureyðingu.

Hún undrast jafnframt á að þó svo að hún hafi verið aðeins 14 ára gömul þá hafi enginn hlúð sérstaklega að andlegri líðan hennar eftir aðgerðina. Engin eftirfylgni var í boði eftir aðgerðina, svosem sálfræðiaðstoð.

„Það skiptir mig engu máli hvað fólk segir „þetta voru bara frumur, þetta var ekki orðið barn.” Það er kannski rétt, en það breytir því ekki að þetta er missir og þetta er sárt. Ég gróf þessar tilfinningar og geymdi þær með sjálfri mér.“

Ljúfsárt að fylgjast með dótturinni

Hafdís eignaðist dóttur sína í febrúar 2014 en á meðgöngunni læddust minningarnar af fóstureyðingunni upp á yfirborðið.

„Ég fór í gegnum allt. Ég skoðaði alla möguleika og aflaði mér allra upplýsinga sem ég mögulega gat aflað mér, til þess að hjálpa mér að komast að ákvörðun um hvort ég ætlaði að halda þessu barni eða ekki. Það hvíldi á mér að ég var hreinlega ekki viss um að ég myndi geta tekist á við það að fara í aðra fóstureyðingu. Ég talaði við allt mitt fólk, fékk álit hjá öllum og hlustaði á allt sem þau höfðu að segja. Svo, stuttu eftir að stelpan mín fæddist þá sagði mamma við mig setningu sem ég gleymi aldrei, sem skiptir mig óendanlega miklu máli enn þann dag í dag.

„Þú varst löngu búin að taka ákvörðun.”

Það var alveg satt. Ég vissi alltaf innst inni að ég myndi aldrei geta farið í gegnum þetta aftur. Ég sá aldrei eftir því að hafa farið í fóstureyðingu því ég vissi að það var rétta ákvörðunin í stöðunni.

Hafdís lýsir því jafnframt á einlægan hátt hvernig reynslan situr í henni og minnir á sig, ekki síst eftir að dóttir hennar kom í heiminn.

„Það er samt ljúfsár augnablik þegar ég er að fylgjast með dóttur minni gera hvað sem hún er að gera og þetta litla barn sem aldrei varð skýtur upp kollinum í hausnum á mér. Það mun alltaf vera partur af hjartanu mínu sem hvarf eftir þetta, en það er ekki slæmur hlutur. Mér finnst mikilvægt að hugsa stundum til þessa krílis, því þetta var jú partur af mér.
Mín skoðun er einfaldlega sú, það veit engin fyrirfram hvaða ákvörðun hann myndi taka, fyrr en þú ert komin í aðstæðurnar. Það er auðvelt að segja „Ég myndi aldrei fara í fóstureyðingu” en það er annað að gera það.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Helsta ráð eftirsóttu karlkyns klámstjörnunnar

Helsta ráð eftirsóttu karlkyns klámstjörnunnar
Fókus
Fyrir 3 dögum

Einkaþjálfari tekinn á teppið fyrir framkomu sína – Birti sjálf myndbandið sem kom upp um hana

Einkaþjálfari tekinn á teppið fyrir framkomu sína – Birti sjálf myndbandið sem kom upp um hana
Fókus
Fyrir 5 dögum

Edda Lovísa um áhrifin sem það hafði á sambandið þegar hún og kærastinn hættu að horfa á klám

Edda Lovísa um áhrifin sem það hafði á sambandið þegar hún og kærastinn hættu að horfa á klám
Fókus
Fyrir 5 dögum

Barkley skaut fast á sólmyrkvaáhorfendur – „Ég ætla ekki að sitja úti eins og hálfviti og bíða eftir myrkrinu“

Barkley skaut fast á sólmyrkvaáhorfendur – „Ég ætla ekki að sitja úti eins og hálfviti og bíða eftir myrkrinu“