Birgir Örn: „Mér er drullu illa við að vera notaður. Aftur.“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Munið þið þegar allur heimurinn horfði á okkur með aðdáunaraugum? Okkur! Litlu risastóru þjóðina með öllum okkar kraftaverkamönnum í teinóttum jakkafötum. Við sýndum heiminum hvernig átti að gera þetta. Hetjurnar okkar átu gullflögur í morgunmat og prumpuðu glimmeri framan í heiminn sem gapti af undrun. Ef hann gapti ekki nóg þá keyptum við hann. Eða sko kraftaverkamennirnir okkar. Munið þið hvað þetta var frábært?“

Þannig hefst pistill sem Birgir Örn Guðjónsson, betur þekktur sem Biggi lögga ritar á Facebook. Þar fjallar Biggi um ris og fall Íslands fyrir síðasta góðæri sem endaði með ósköpum þegar íslenskt fjármálakerfi hrundi til grunna. Uppgangurinn síðustu ár hefur verið gríðarlegur og allt annað landslag í íslensku efnahagslífi. Birgir Örn segir:

„Munið þið þegar allur heimurinn horfði á okkur með ásökunaraugum? Okkur! Pínulitlu þjóðina sem setti heimsmet í hruni miðað við höfðatölu. Við sýndum heiminum sko hvernig á ekki að gera þetta. Munið þið hvernig tilfinning það var að komast að því að töframennirnir voru jafn raunverulegir og jólasveinninn og að það prumpar enginn glimmeri af gullflögum? Munið þið hvernig það var að skammast sín fyrir að vera Íslendingur í útlöndum og hvernig það var að sjá krotað yfir krónuna okkar í útlenskum bönkum? Við sturluðumst að reiði og hentum morgunmat í Alþingi. Munið þið hvað við vorum reið? Munið þið?“

Nýir menn og allir sáttir

Birgir segir Bjarna Benediktsson forsætisráðherra sáttan með nýja kraftaverkamann í íslensku efnahagslífi.

„Mennina sem koma inn með milljarðana vegna þess að þeir hafa svo mikla trú á okkur. Ekki vegna þess að þeir eru aftur búnir að koma augu á eitthvað drasl sem þeir geta notað til að byggja eigin kastala. Ó nei, ekki í þetta sinn. Núna koma þeir BARA vegna þess að við erum búin að sýna þeim og öllum heiminum hvað við erum ótrúlega verðmæt. Við erum svo best. Loksins fattar heimurinn það. Við erum heimsfræg. Aftur.“

Vill ekki þessa töframenn

„Sko, ef ég á að vera hreinskilinn þá er ég ekki svo viss um að ég vilji að svona töframenn sjái þesskonar verðmæti í mér og mínum. Ég hef í raun akkúrat engan áhuga á að vera einhver leiksoppi í plotti manna sem sjá okkur sem lítið hús í Matator spilinu þeirra. Mér er drullu illa við að vera notaður. Aftur.“

Þá segir Birgir enn fremur:

Núna þegar við erum búin að sópa upp öllu ruslinu og glimmerkúknum frá síðasta partýi þá er íslenskur óraunveruleiki loksins orðinn nógu fínn fyrir næsta geim. Diskókúlan er komin í loftið, jakkafötin eru pressuð og við erum komin í klappstöðuna. „Má ég vera með núna..plíís. Já, okkur er sko boðið. Þessi heimur heldur sér ekki uppi sjálfur. Við þurfum að taka þátt með allskonar neyslu og lánum. Það verður stuð maður! Alveg eins og síðast. Munið þið?“

Nýtt partí

Birgir segir að nýtt samkvæmi sé fram undan.

„Fjármálaheimurinn er aftur kominn með flöskuna í hönd og hann segir okkur blíðlega að núna verði allt í góðu þó að hann detti í það. Hann segist hafa lært af reynslunni og að hann muni aldrei aftur lemja okkur. Hann mun aldrei aftur fórna heimilunum landsins. Núna er hann að þessu fyrir okkur, engan annan. Hann er búinn að læra sína lexíu og veit hvað hann er heppinn að hafa okkur. Hann trúir á okkur og elskar okkur út af lífinu. Við fullkomnum hann. Þetta er samband sem mun endast að eilífu. Amen. Party on.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.