Ásdís Rán: „Þetta er ekkert annað en frábært verkfæri“

Mynd: Úr einkasafni

„Eins og flestir vita þá þarf allar týpur í sjónvarp og auglýsingar ekki bara „professional“ leikara eða módel. Þetta gefur fólki tækifæri til þess að sýna sjálft hæfileika sína,“ segir athafnakonan og fyrirsætan Ásdís Rán Gunnarsdóttir en hún hefur nú komið á laggirnar nýrri síðu, talentbook.is og hyggst leiða saman fagfólk og áhugafólk innan auglýsinga-, tísku- og kvikmyndageirans.

Í samtali við DV segir Ásdís að ekki sé beinlínis um hefðbundna umboðsskrifstofu að ræða.

„Þetta er hugmynd sem ég er búin að vera að vinna að og þróa síðustu mánuði. Þetta er ekki almenn umboðsskrifstofa heldur frekar „casting tool“ eða gagnagrunnur af fólki á hinum ýmsu sviðum í auglýsinga-, tísku- og kvikmyndaheiminum. Þarna koma allir saman undir einu þaki og bjóða fram þjónustu sína og hæfileika, hvort sem það eru módel, leikarar, áhugaleikarar, fólk í auglýsingar, krakkar, fitness- og íþróttafólk, ljósmyndarar, förðunar eða hárgreiðslufólk eða skemmtikraftar.

Fyrirtæki, leikstjórar og aðrir geta svo á fljótlegan og auðveldan hátt skráð sig og leitað að réttu andlitunum og öðru hæfileikafólki í sín verkefni, sett inn auglýsingar og leitað eftir fólki eða haft samband við meðlimi,“ segir Ásdís jafnframt en hún rak áður umboðsskrifstofu fyrir fyrirsætur á Íslandi og í Svíþjóð og er því öllum hnútum kunnug innan geirans.

Ljósmynd/Saga Sig.
Ljósmynd/Saga Sig.

Hún segir síðuna ætlaða bæði áhuga- og fagfólki innan bransans og getur hver sem er stofnað þar aðgang.

„Það eru flokkar fyrir áhugaleikara og fólk í auglýsingar sem koma að góðum notum fyrir þá sem eru að byrja og langar í reynslu. Fyrir lengra komna er þetta líka gott „exposure“ þar sem verður mikið af erlendum og innlendum aðilum að leita á síðunni. Á módelskrifstofum þá týnast oft margir í fjöldanum og fá ekki nægja athygli. Þannig að þetta er ekkert annað en frábært verkfæri fyrir alla í þessum iðnaði.“

Mynd: Denis Mutlu

Hún hyggst á næstu mánuðum byggja upp og þróa fyrirtækið og kveðst vonast til að fyrirtæki verði ófeimin við að nýta sér þjónustuna. „Það á eftir að taka sinn tíma þar sem þetta er allt sérhannað frá grunni og flókinn og mikill gagnagrunnur og tölvukerfi sem liggur að baki síðunni. En það á vonandi á eftir að koma að góðum notum fyrir sem flesta.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.