fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fókus

Eva María berst meðvitað við hégómann

Kolbrún Bergþórsdóttir
Mánudaginn 13. febrúar 2017 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eva María Jónsdóttir hafði átt afar farsælan feril sem dagskrárgerðarmaður á RÚV þegar hún ákvað að söðla um og fara í bókmenntanám í Háskóla Íslands sem leiddi hana síðan inn í heim miðalda. Hún lauk meistaraprófi í miðaldafræðum frá Háskóla Íslands fyrir ári og starfar nú sem vef- og kynningarstjóri Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, auk þess sem hún sinnir fræðunum eftir mætti. Kolbrún Bergþórsdóttir hitti Evu Maríu og spurði hana meðal annars um fræðin, íslenskuna, fjölskyldulífið og trúna.

„Ég hætti á RÚV sumarið 2010. Þá var von á fjórðu dótturinni í heiminn og ég var búin að ákveða að fara í nám í miðaldafræðum meðfram barnauppeldi,“ segir Eva María. „Það var ekki erfið ákvörðun að hætta. Ég var komin í nýtt samband og mér fannst ég bera ábyrgð stórri fjölskyldu því á þessum tíma voru fjögur börn að koma nokkurn veginn ný inn í líf mitt; barn okkar Sigurpáls mannsins míns og þrjú börn sem ég þekkti ekki vel sem voru börnin hans og því stjúpbörn mín.

Vinna í sjónvarpi gerir kröfur til þess að maður vinni á alls konar tímum sem eru ekki endilega fjölskylduvænir. Það hentaði mér ekki lengur. Ég var líka búin að fá að gera nokkurn veginn allt sem stofnunin bauð upp á, á þeim tíma. Mig langaði til að vinna eftir langtímaplani og það er ekki gert í sjónvarpi hér, nema helst í leiknu efni sem var ekki mín deild. En menn sjá augljóslega hvað hægt er að ná fram miklum gæðum ef gerð eru plön til margra ára eins og raunin er með Fanga, sem þjóðin sameinaðist yfir undanfarnar vikur. Í almennri dagskrárgerð er hinsvegar yfirleitt unnið frá degi til dags, eða maður er með vikulegan þátt, en mig langaði helst að setja mér langtímamarkmið og vinna eftir því. Langtímamarkmið mitt var því að klára nám. Næsta langtímamarkmið er svo að upplifa að flytja inn í hús íslenskunnar á Melunum.“

Fjölskyldulífið skiptir mig mjög miklu máli enda er það bæði gefandi og krefjandi.
Fjölskyldan Fjölskyldulífið skiptir mig mjög miklu máli enda er það bæði gefandi og krefjandi.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Berst meðvitað við hégómann

Skipti hégómaþátturinn engu máli, ef ég má orða það svo? Þú varst landsþekkt og mjög sýnileg í sjónvarpi.

„Hégómaþátturinn í fjölmiðlum er auðvitað nokkuð sem ekki þýðir að afneita, en hann finnst ekki bara hjá fjölmiðlafólki heldur alls staðar í mannlífinu. Síðan er fólk misjafnlega duglegt að berjast við hégómann og er jafnvel algjörlega ómeðvitað um að þess þurfi. Mér finnst ég hafa meðvitað barist við hégómann. Maður finnur hégómann blossa upp í sér öðru hverju og hvernig ætlar maður að taka á því? Ætlar maður að leyfa honum að stækka og jafnvel taka yfir líf manns eða ætlar maður að viðurkenna kenndina og kveðja hana svo? Ég leyfi hégómabylgjunum að skella á mér og held svo áfram að vinna.“

Meistararitgerð þín í miðaldafræði fjallaði um þrjár gerðir rímna í Grettis sögu. Ertu mjög forn í eðli þínu?

„Sennilega er ég heldur forn í mér. Þegar ég byrjaði í sjónvarpinu varð sérsvið mitt fljótlega að tala við gamalt fólk, það voru mínar ær og kýr. Ég hitti gamla karla sem voru að selja harðfisk í bílskúr og fór á elliheimili og spurði fólk hvort það kynni eitthvert slangur. Það hélt það nú: „Sigló“ og „strætó“. En að fjalla um þrjár gerðir rímna af Gretti er í raun frekar nútímalegt fyrir þann sem er í miðaldafræðum, því yngstu rímurnar, og þær viðamestu, voru ortar á 19. öld.“

*Talandi um gamalt fólk, er það rétt sem ég hef heyrt að þú hafir tíðkað það að heimsækja gamalt fólk í frístundum þínum?

„Já, en það hefur dregið úr því eftir því sem fjölskylda mín stækkaði. Þetta byrjaði þannig að ef ég tók viðtöl við gamalt fólk sem ég náði góðu sambandi við þá fór ég hiklaust í heimsókn seinna og spjallaði við það. Gamalt fólk hefur tíma til að spjalla. Og það er eftirsóknarvert að lenda á spjalli við þann sem hefur reynt margt. Ég eignaðist þannig nokkuð marga góða vini sem urðu mér hjartfólgnir en eru því miður allir dánir. Síðasti aldni vinur minn kvaddi á síðasta ári.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki