Fiskikóngurinn fengið nóg og ætlar í eigin útgerð: „Ég er alger byrjandi“

„Ég er alger byrjandi í útgerð og menn taka kannski tillit til þess er þeir ræða við mig. En ég hef fulla þekkingu á fullvinnslu og sölu á ferskum fiski,“ segir Kristján Berg Ásgeirsson, betur þekktur sem Fiskikóngurinn. Kristján hefur verið viðloðandi fisksölu síðan í lok níunda áratugarins og hefur nú áhuga á að fara af stað í útgerð.

Kristján greinir sjálf frá þessu í auglýsingu sem birtist á facebooksíðu Fiskikóngsins.

„Óska eftir að kaupa bát og kvóta. Línubát helst. Eða óska eftir að kaupa mig inní útgerð á báti. Vantar vana menn til þess að reka og stjórna bátnum, helst úti á landi, en er opinn fyrir öllum hugmyndum,“

ritar Kristján og biður áhugasama um að hafa samband við sig. Hann tekur þó fram að hann sé byrjandi í útgerð og sé því vissara að menn hafi það í huga ef þeir hafa samband við hann.

Kristján, sem opnaði sína fyrstu fiskbúð í JL-húsinu 1989, tekur fram að hann hafi engu að síður fulla þekkingu á fullvinnslu og sölu á ferskum fiski.

Þá kveðst Kristján ætla að taka fyrstu skrefin í útgerð á þessu ári. „Þannig að mínir viðskiptavinir, fái flottann glænýjan og góðan fisk frá mínum bát.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.