fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fókus

Fanney er eiginkona sjómanns: „Það er margar andvökunæturnar sem hugurinn leitar út á úfið hafið“

Sjómannsstarfið hættulegt og krefjandi – „Sjómenn eru líka pabbar, mömmur, ömmur, afar, eiginmenn og konur“

Auður Ösp
Mánudaginn 13. febrúar 2017 17:20

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég held að þeir sem ekki hafa kynnst sjómannstarfinu að eigin raun gera sér ekki fulla grein fyrir því hvað fylgir því að vera sjómaður, hann skreppur ekki heim í hádeginu eða les sögu fyrir svefninn og gefur góða nótt knús á hverju kvöldi, en ég veit að hugurinn er heima,“ segir Fanney Sif Gísladóttir en hún er bæði eiginkona og dóttir sjómanns auk þess sem sonur hennar hefur gert sjónmennskuna að atvinnu sinni.

Tveir mánuðir eru nú liðnir síðan sjónmannaverkfall skall á en samkvæmt formanni Sjómannasambands Íslands er verkfallið nú orðið það lengsta í sögunni ef með eru taldir fjórir verkfallsdagar í nóvember. Fram kom í Morgunblaðinu í dag að aðilar í samtökum innan Sjómannasambandsins myndu hittast upp úr hádegi og þá munu aðrar samninganefndir sjómanna einnig hittast í dag.

Fanney segir að í amstri dagsins séu sennilega ekki margir sem velti því fyrir sér hvað það raunverulega þýði að vera sjómaður.

„Sjómenn þurfa að búa á vinnustað sínum með vinnufélögum sínum, sumir aðeins nokkra daga í senn en aðrir lengur og oftar en ekki deila þeir klefa með misgóðum kojum. Þótt svo að vinnufélaginn angi af svita, táfýlu og hrjóti eins og mulningsvél þá geta þeir ekki fært sig í annað herbergi, einnig eru þeir með vélarhljóðið stanslaust í eyrunum og oft lítið um hvíld og svefn. Skipið er þeirra vinnustaður og heimili, já heimili sem er á stanslausri hreyfingu.

Ímyndið ykkur hvernig það er til dæmis að elda matinn, sitja við tölvuna á skrifstofunni, fylla á hillurnar í búðinni og þurfa að stíga ölduna í leiðnni, hafa kósí og horfa á sjónvarpið og þú ert á stanslausri hreyfingu. Ég hreinlega verð sjóveik við tilhugsunina.“

Þá bendir Fanney á að oft er vinnustaða sjómanna ekki til fyrirmyndar.

„Lítið pláss á dekkinu þar sem allt angar af slori og blóði og kuldinn nístir inn að beini. Saltur sjórinn frussast í andlitið á þeim þar sem þeir standa vaktina á goggnum og reyna að krækja í hvern fiskinn af fætur öðrum, þeir þurfa að hafa augun opin og hafa hverja hreyfingu á hreinu, vinna saman eins og ein vél. Allt þarf að ganga upp svo að ekki skapist hætta. Sjómannstarfið er hættulegt og mjög krefjandi, hætturnar eru margvíslegar um borð á skipum sem sigla um höfin blá.

Oftast er maturinn sem kokkurinn brasaði á hlaupum milli þess að hann vann á dekkinnu borðaður í miklum flýti og sótsvörtu sjóarakaffinu er rennt niður á meðan þeir reyna að kíkja á internetið sem ekki alltaf næst, því oft á tíðum er samband mjög lélegt sem ekkert, það kemur líka fyrir að ekkert er símasambandið. Þá eru það aðeins þeir og sótsvarta þykka myrkrið sem umlykur skipið á köldu vetrar vertíðinni.“

Fanney tekur fram að vissulega séu aðstæður ekki alltaf eins og hún lýsir þeim, en þetta sé hennar upplifun af sjómannsstarfinu í gegnum eiginmanninn. Hún spyr hver myndi vilja vinna við þessar aðstæður.

„Fjarveran frá fjölskyldunni er erfið og oft missa sjómenn af stórum hlutum sem eiga sér stað í lífi fjölskyldna þeirra, til dæmis barnfæðingum, fystu skrefin, fyrsti skóladagurinn, afmæli, svo ekki sé talað um aðra hátíðisdaga. Sjómenn eru líka, pabbar,mömmur, ömmur afar og eiginmenn og konur.“

Fanney fær oft spurninguna um hvort hún verði ekki smeyk þegar veður er slæmt á sjónum- vitandi til þess að eiginmaður hennar og sonur séu á hafi úti.

„Mitt svar er hreinskilið og afdráttarlaust jú! Það er margar andvökunæturnar sem hugurinn leitar út á úfið hafið og bið ég þann sem öllu ræður að passa vel upp á þessar hetjur hafsins,“

segir Fanney sem kveðst vonast til þess að samkomulag náist sem fyrst í kjaradeilunni. Þeir sem hafa sjómannsblóð í æðum verði þá gert kleift að snúa aftur út á haf.

„Það er engin spurning að til langa og geta unnið við þessar aðstæður þurfa laun sjómanna að vera í samræmi við þá miklu vinnu sem þeir inna að hendi í misgóðum aðstæðum. Mér finnst að gæta þurfi sanngirni og skilningur á milli sjómanna og útgerðar.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki