fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024

Ég er kominn heim

Kolbrún Bergþórsdóttir
Sunnudaginn 3. desember 2017 15:50

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Athafnamaðurinn Axel Axelsson fluttist aftur norður á Akureyri fyrir örfáum árum. Föstudaginn 1. desember, mun Axel opna útvarpsstöðina Útvarp Akureyri. Í einlægu viðtali við Indíönu Ásu Hreinsdóttur ræðir Axel um æskuna, áhrif fjarveru föður síns á sig sem föður, veikindi föður síns, hrifninguna á Bandaríkjunum og ástina og litla barnið sem heldur honum ungum.

„Sum ár eru viðburðaríkari en önnur og þótt það sé aldrei nein lognmolla í kringum okkur þá hefur þetta ár toppað allt,“ segir Akureyringurinn og athafnamaðurinn Axel Axelsson sem hefur staðið í stórræðum síðustu mánuði. Axel, sem flutti aftur norður fyrir nokkrum árum og rekur stórt hótel í miðbæ Akureyrar, gekk í það heilaga á árinu, útskrifaði dóttur sína frá Menntaskólanum á Akureyri, varð sjálfur 25 ára stúdent og er nú að leggja lokahönd á opnun útvarpsstöðvarinnar Útvarp Akureyri, að Gránufélagsgötu 4 við hlið Borgarbíós. Hann segir notalegt að vera í húsi beint á móti RÚV. „Það er fínt að geta horft út um gluggann á eitthvað sem maður getur mögulega kallað samkeppnisaðilann,“ segir hann brosandi en eiginkona hans, Bergrún Ósk Ólafsdóttir, er að opna tískuvöruverslun í sama húsnæði.

Greindist með flogaveiki

Axel ólst upp á Brekkunni og hjá móður sinni og eldri systur. „Mamma var kennari og ég fékk alveg að finna fyrir því að vera sonur kennarans, en mamma var hörkugóður kennari. Annars var ég hefðbundið akureyskt barn sem lék sér úti frá morgni til kvölds,“ segir Axel sem greindist ungur með flogaveiki, þá tegund sem eldist af fólki, og þurfti að eiga við hana upp undir unglingsaldur. „Til tólf ára aldurs þurfti ég að taka töflu til að halda köstunum niðri en með tímanum fór ég að þekkja inn á sjúkdóminn og stalst til þess að hætta að taka lyfin. Ég var farinn að læra inn á hvenær von var á kasti og gat þá farið afsíðis. Þetta snerist um svefn og næringu en sem betur fer eltist flogaveikin af mér.“

Póstkort frá pabba

Hann segir að þar sem foreldrar hans hafi ekki verið saman hafi faðir hans lítið verið inni í myndinni. „Þetta voru allt aðrir tímar. Pabbahelgar þekktust ekki en við héldum samt sambandi. Hann var mest fyrir sunnan eða í Bandaríkjunum en sendi mér reglulega póstkort auk þess sem hann mætti stundum, óboðinn, og renndi þá í hlaðið á stórum amerískum kagga. Það var alltaf spennandi að heyra drunurnar í kagganum nálgast,“ segir hann en faðir hans lést rúmu ári eftir að Axel varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri.

Útvarpið ástríðan

Axel er reyndur útvarpsmaður og starfaði meðal annars um tíma á FM957, Hljóðbylgjunni, Létt Bylgjunni, RÚV, Matthildi og Íslensku stöðinni þar sem hann stjórnaði einnig sjónvarpsþætti. Síðasta áratuginn var hann hins vegar í fasteignabransanum en hefur nú snúið sér aftur að áhugamáli sínu og ástríðu, útvarpinu. „Við fluttum ekki norður árið 2014 með það að markmiði að opna útvarpsstöð. Planið var að halda áfram fasteignaviðskiptum en svo keyptum við Hótel Apotek Guesthouse sem ótrúlegur fjöldi túrista hefur sótt heim. Það hafði samt blundað lengi í mér að opna stöð og svo fór að ég sótti um útvarpsleyfi 2015, sama ár og Bergrún varð ófrísk. Við vorum því í þeirri stöðu að vera í útvarpspælingum, á kafi í ferðaþjónustunni, sem er 24/7 bransi og með lítið barn. Forsjónin sagði mér að nú væri ekki rétti tíminn til að ráðast í þetta verkefni – að útvarpsstöð þyrfti lengri fæðingu. Nú er hins vegar komið að þessu og væntanlega munum við setja hótelið í söluferli. Maður getur ekki verið alls staðar.“

Þrír tímar í bíl

Þau Bergrún kynntust árið 2009 en tóku sér tíma til að stilla saman sína strengi. „Hún er níu árum yngri en ég. Við vorum bæði með börn og þótt við yrðum strax ástfangin fluttum við ekki saman fyrr en 2014 hér fyrir norðan. Vinskapur leiddi okkur saman en ég heillaðist af því hversu opin hún er,“ segir hann og bætir við að fjölskyldunni hafi tekist vel að koma undir sig fótunum á Akureyri. „Mér líður eins og ég hafi farið í einn sólarhring. Ég er kominn heim. Akureyri er góður staður fyrir fólk sem vill standa í framkvæmdum. Miðbærinn á þriðjudagsmorgni í febrúar er kannski ekki upp á marga fiska en þá er það spurningin hvað þú ert að gera. Það er það sem skiptir öllu máli. Ég hafði gleymt hversu stuttar vegalengdirnar hér eru. Fyrir sunnan bjó ég lengst af í Mosfellsbæ og var kannski 45 mínútur að koma börnunum á leikskóla og í vinnuna. Maður eyddi allt upp í þremur tímum í bíl á dag.“

Þrífættur köttur og hundur

Axel á tvö uppkomin börn af fyrra sambandi. Frumburðurinn, Jakob Axel, 23 ára, býr hjá ömmu sinni í Mosfellsbæ en dóttirin, Steinunn Halldóra, er nýútskrifuð úr Menntaskólanum á Akureyri. Bergrún á 11 ára skíðastúlku, Eyrúnu Erlu, sem er alsæl með að búa svona stutt frá skíðasvæðinu og svo er það sonur þeirra, Frank Bergur, sem er að verða tveggja ára. Aðspurður segir Axel sameiningu fjölskyldnanna hafa gengið vel. „Það hefur ekkert flækst fyrir okkur. Um tíma vorum við sex í heimili auk þrífætts kattar og eins hunds. Það var líf og fjör en hefur nú róast þótt sá minnsti haldi okkur á tánum.“

Föðurhlutverkið göfugast

Hann viðurkennir að það hafi mótað hann sem föður að vera ekki í daglegum samskiptum við sinn eigin föður. „Ég held að allir strákar, sem alast þannig upp, leiti meðvitað eða ómeðvitað að föðurímynd. Ég var mikið með móðurafa mínum í sveitinni. Einhverra hluta vegna vissi ég alltaf að ég myndi eignast börn ungur, sem stóðst því ég var 22 ára þegar sonur minn fæddist og stelpan kom þremur árum síðar. Vegna reynslu minnar lofaði ég sjálfum mér að skilja aldrei, en ég og mamma þeirra vorum ung og tókum ákvarðanir eftir því. Eftir að við skildum var ég í hlutverki helgarpabba og flutti til Ítalíu í eitt ár en svo veiktist barnsmóðir mín alvarlega og þá komu börnin til mín og ólust upp hjá mér eftir það. Þetta var mjög erfitt tímabil fyrir okkur öll en hún var í dái svo vikum skipti og fór í endurhæfingu í nokkur ár. Það tók auðvitað heilmikið á þau en okkur tókst öllum að komast í gegnum þetta,“ segir hann og bætir við að hann hafi alltaf fundið sig í föðurhlutverkinu. „Að vera faðir er göfugasta hlutverk sem ég hef tekist á við um ævina, það hlutverk sem felur í sér mestar áskoranir en er einnig mest gefandi. Mig hefur alltaf langað að vera til staðar fyrir börn mín ; að vera alltaf og í alvöru til staðar fyrir þau.“

Meiri verndartilfinning

Hann segist hafa fundið mun á því að eignast barn 22 eða 44 ára. „Tilfinningin er alltaf jafn guðdómleg en með auknum þroska áttar maður sig á því að það er ekki sjálfsagt að eignast fullfrískan og hressan strák. Í dag er ég, held ég, ábyrgðarfyllri og pössunarsamari pabbi. Þegar maður er ungur treystir maður meira á lífið, en í dag veit maður að lífið getur verið alls konar. Maður horfir á barnið og hugsar með sér hvernig því eigi eftir að reiða af, það á svo mikið eftir. Ég hef fundið fyrir meiri verndartilfinningu.“

Áfram á hnefanum

Hann segir föðurmissinn hafa haft mikil áhrif á sig. „Ég held að fólki hafi ekki fundist að ég þyrfti að syrgja hann neitt sérstaklega þar sem ég ólst ekki upp hjá honum. Það held ég sé kolröng nálgun. Ef samskiptin hafa ekki verið með þeim hætti sem maður helst vildi getur ástvinamissir verið enn flóknari. Ég fór þetta áfram á hnefanum og án þess að gera upp mínar tilfinningar. Ætli ég verði ekki út ævina að vinna úr þessu. Þetta hefur haft miklu meiri áhrif á líf mitt en ég gerði mér nokkurn tíma grein fyrir.“

Engin umræða um geðsjúkdóma

Hann segir föður sinn hafa verið mjög veikan undir það síðasta. „Ég vissi í hvað stefndi. Pabbi glímdi við margs konar geðsjúkdóma og alkóhólisma sem höfðu gert hann viðkvæman og í raun varnarlausan á ótrúlega stuttum tíma. Það var engin umræða um geðsjúkdóma á þessum tíma. Slíkt var ekkert rætt og það þótti eðlilegt. Hann lést þegar kviknaði í húsi hans út frá gassprengingu en andlát hans var úrskurðað sjálfsvíg. Pabbi hafði alltaf sagt mér að hann myndi fara með hvelli en ég held að hann hafi ekki meint það svona bókstaflega.“

Trump og grunngildin

Eitt af því sem Axel erfði frá föður sínum er hrifning á Bandaríkjunum. „Það er grunnhugmyndin um frelsi einstaklingins, tækifærin og að allir geti náð langt, burtséð frá uppruna, sem heillar mig.“

En hvað með Donald Trump, ert þú einnig hrifinn af honum?
„Ég var sannspár og spáði Trump sigri þótt enginn annar hafi búist við því. Trump er ekki gallalaus maður og ég er enginn sérstakur aðdáandi hans en samt sem áður held ég að það hafi verið nauðsynlegt að fá mann eins og hann til valda – mann sem heldur í grunngildin. Ég vona allavega að hann eigi eftir að koma á óvart en kannski er hann bara sá gallagripur sem margir segja,“ segir hann og viðurkennir að hann gæti vel hugsað sér að búa í Bandaríkjunum. „Kannski endar maður þar. Hins vegar erum við komin til Akureyrar til að vera. Það er ekkert fararsnið á okkur enda tjaldar maður ekki til einnar nætur þegar maður standsetur fjölmiðil.“

Fljótfær og stundum óöruggur

Aðspurður segist hann ekki óttast Gróu á Leiti. „Kjaftasögurnar eru partur af Akureyri en ég læt slíkt ekki bíta á mig. Sögurnar geta orðið svæsnar en þá eru þær bara meira spennandi. Ef ekki eru sagðar um mann sögur er maður ekki að gera neitt sem skiptir máli,“ segir hann brosandi og játar því aðspurður að hann sé mögulega það sem kallast frumkvöðull. „Ég á auðvelt með að hrífa fólk með og vera í því hlutverki að leiða fólk áfram að ákveðinni sýn. Aðgerðaleysi er það versta sem ég veit. Ég verð helst að vera á undan öðrum og jafnvel á undan sjálfum mér. Ég get nefnilega verið fljótfær og er líka stundum óöruggur þótt ég láti ekki bera á því. Það er þessi efi um hvort ég sé að gera rétt. En það er kannski líka kostur – að efast stundum um það sem maður er að gera.“

Lífið býr mann til

Axel er 45 ára og segist nýlega hafa lært að fagna því að fá að eldast. „Einhvern tímann sagðist ég alltaf ætla að vera 18 ára. Þetta vita vinir mínir. Ég er ekki lengur viss um að það sé besti aldur til að velja. Í dag vil ég njóta þess að eldast og hugsa um það sem skref áfram en ekki aftur á bak. Hins vegar ég á unga konu og lítið barn og hvort tveggja heldur mér ungum. Þótt kjarninn sé sá sami er ég ekki lengur sama manneskjan og ég var þegar ég bjó hér síðast. Það er svo margt sem mótar mann. Lífið býr mann til.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Staðfestir að hann sé ekki hættur – Endurkoma á næstunni

Staðfestir að hann sé ekki hættur – Endurkoma á næstunni
Fréttir
Fyrir 4 klukkutímum

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Fær óvænt tækifærið aðeins 34 ára gamall

Fær óvænt tækifærið aðeins 34 ára gamall
Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

Helga Þórisdóttir búin að ná meðmælendum

Helga Þórisdóttir búin að ná meðmælendum
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum
Pétur Einarsson látinn
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Væri enn bestur í deildinni 80 ára gamall

Væri enn bestur í deildinni 80 ára gamall
Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Sendiherra Trump á Íslandi þykist vera kúreki í kosningabaráttu sinni – „Það er ekki hægt að skálda þetta“

Sendiherra Trump á Íslandi þykist vera kúreki í kosningabaráttu sinni – „Það er ekki hægt að skálda þetta“
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Ten Hag hreinskilinn: ,,Hann á skilið fleiri mínútur“

Ten Hag hreinskilinn: ,,Hann á skilið fleiri mínútur“
Eyjan
Fyrir 10 klukkutímum

Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins til liðs við kosningateymi Katrínar

Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins til liðs við kosningateymi Katrínar