fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024

Það besta og versta í samfélaginu árið 2017

Álitsgjafar DV segja frá því sem stóð upp úr á árinu 2017 að þeirra mati

Ari Brynjólfsson
Föstudaginn 29. desember 2017 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

MeToo-byltingin, stöðugt efnahagsástand og gróska í íslensku menningarlífi er það sem álitsgjafar DV nefna þegar þeir eru beðnir um að lýsa því besta í íslensku samfélagi árið 2017. Morð, ákvarðanir kjararáðs um launahækkanir, gróðafíkn og aukin ítök stórfyrirtækja eru meðal þess versta. DV leitaði til nokkurra álitsgjafa og fékk þá til að lýsa því besta og versta sem einkenndi samfélagið á árinu sem er að líða.

Björn Valur Gíslason, fyrrverandi þingmaður

Það besta:

MeToo er þó án vafa það besta sem gerðist á árinu þótt áhrif þess séu langt frá því komin í ljós að fullu. Það má svo nefna að karlalandsliðið í fótbolta komst í fyrsta sinn á HM í fótbolta, Katrín Jakobsdóttir myndaði nýja ríkisstjórn sem nýtur mikils trausts landsmanna og allur almenningur virðist sáttari við hlutskipti sitt en áður.

Það versta:

Fjögur morð það sem af er ári og opinberun á ótrúlegu ofbeldi gegn konum í tengslum við MeToo og hliðarverkanir þess eru án vafa það versta sem kom upp í þjóðfélagsmálunum á árinu 2017. Það bliknar allt annað í samanburði við það. Ris og fall ríkisstjórna, kjólamál ráðherra og kosningabaráttan í haust fyllir síðan í aðrar lægðir ársins sem voru þó óvenju fáar og grunnar miðað við undanfarin ár. Það var fátt sem reis ofar öðru á árinu.

Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri á Útvarpi Sögu

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Það besta:

Það sem var best fyrir samfélagið í heild var að verðbólgan hélst niðri á árinu og stöðugleiki var á skuldastöðu fólks og fyrirtækja. Ferðamönnum heldur áfram að fjölga og krónan hefur ekki verið að veikjast mikið. Þetta eru utanaðkomandi áhrif sem hafa þessi góðu áhrif á efnahagslífið.

Það versta:

Ákvörðun kjararáðs að stórhækka laun alþingismanna, eða um 45%, og æðstu embættismanna landsins var eitt af því versta sem gerðist á árinu. Þessi ákvörðun hleypir óánægju af stað í þjóðfélaginu og margir upplifa þetta sem verulega mismunun á milli þegnanna. Það er til skammar að ríkisstjórnin sjái ekki ástæðu til að bæta kjör þeirra sem verst standa á sama tíma og þetta gerist. Það virðast vera til peningar þegar um „gæluverkefni“ er að ræða og menn hika ekki við að setja inn í fjáraukalög ótrúlegustu kostnaðarliði. Kjarasamningar eru lausir á næstunni og þarna skapast viðmið sem atvinnulífið á erfitt með að standa undir með tilliti til þess að skattaálögur á fyrirtæki eru enn háar og gætu leitt til uppsagna í atvinnulífinu í stórum stíl. Að auki gætu þessar ákvarðanir skapað hættu á aukinni verðbólgu.

Egill Helgason fjölmiðlamaður

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Það besta:

Mér dettur fyrst í hug látlaus gróska í íslensku menningarlífi. Bókmenntum, tónlist, leikhúsi, kvikmyndum. Ég nefni dæmi úr tveimur fyrstu greinunum, ég hef mestan áhuga á þeim. Ég hef haldið því fram að í bókmenntunum séum við að lifa gullöld. Það er ekki síst vegna þess að íslenskir höfundar eru núorðið þýddir á fjölmörg tungumál, einangrunin hefur verið rofin, lesendahópurinn hefur stækkað og um leið hafa höfundarnir okkar orðið djarfari í efnistökum. Sumir af stóru eldri höfundunum gáfu ekki út bækur á þessu ári, en í staðinn fáum við bækur eftir ungt fólk sem margar lofa afar góðu.

Víkingur Heiðar Ólafsson á eina af vinsælustu klassísku plötunum í heiminum á þessu ári, hljóðritanir á verkum Philips Glass, hann er heimspíanisti. Það er haldin íslensk tónlistarhátíð í tengslum við Los Angeles Philharmonic í Disney Hall í LA. Þar er fremstur í flokki tónskáldið Daníel Bjarnason. Verk eftir Önnu Þorvaldsdóttur eru flutt víða um heim. Hljómsveitin Kaleo er heimsfræg og túrar með Rolling Stones. Það er líka mikil gróska í djassinum, hann mætti fá meiri athygli. Músíklífið byggir á gríðarlega góðu starfi sem er unnið í tónlistarskólum landsins.

Það versta:

Það sem mér er efst í huga þegar spurt er hvað sé verst á árinu er síaukin völd stórfyrirtækja í heimi upplýsinga- og nettækni. Áhrif Google, Facebook og Amazon eru fordæmalaus. En það er eins og ekki megi hrófla við þessum fyrirtækjum – þá virkar það eins og maður sé á móti framtíðinni. Við lifum á tíma blindrar tæknihyggju, við látum tæknina stjórna því hvert við förum í stað þess að reyna að stjórna því sjálf hvert tæknin leiðir okkur.

Við erum að færast inn á svið gervigreindar. Mannshöndin verður óþörf við ýmis störf og mannshugurinn líka. Fjöldi fólks tapar vinnunni, verður jafnvel utanveltu í samfélögunum, en gróðinn safnast á sífellt færri hendur án þess að við höfum nokkra hugmynd um hvernig við ætlum að deila honum réttlátlegar eða nokkur áform þar um.

Stóru fyrirtækin safna sífellt meiri upplýsingum um einstaklingana sem veldur því að erfiðara verður að keppa við þau eða hrinda þeim af stallinum. Við sjáum út um allt misnotkun þessara upplýsinga, hún á bara eftir að færast í aukana. Falskar fréttir og markauglýsingar eru bara byrjunin. Á sama tíma mega hefðbundnir fjölmiðlar – sem eru nauðsynlegir fyrir siðuð og heilbrigð samfélög – sín einskis gagnvart netrisunum. Þeir stjórna aðganginum.

Illu heilli er það gróðafíknin ein sem knýr stórfyrirtækin áfram, viljinn til að stækka sífellt og öðlast meiri völd. Það er helst að Evrópusambandið skynji hættuna og reyni að koma böndum á risana, en það virðist því miður vera vonlítið verk. Menn hefðu þurft að vakna fyrir alllöngu og byrja að brjóta upp þessi fyrirtæki, líkt og Roosevelt gerði með auðhringana í upphafi tuttugustu aldar.

Máni Pétursson útvarpsmaður á X-inu 977

Mynd: Þormar Vignir Gunnarsson

Það besta:

Það besta á árinu er klárlega metoo-byltingin. Menn sjá það kannski ekki strax en komandi kynslóðir munu sjá það og upplifa.
Auðvitað er hægt að setja út á eitthvað í þessari byltingu eins og öllum byltingum á undan þessari. En á endanum færir þetta okkur nær einhverju sem getur talist eðlileg samskipti á milli kynja. Þess vegna á ég erfitt með að sjá nokkuð annað en bara góða hluti við þetta. Það er líka gott við þetta ár að Katrín Jakobsdóttir er orðin forsætisráðherra. Þótt ég hefði frekar kosið að hún væri í betri félagsskap þá er ég nokkuð bjartsýnn á að ríkisstjórn undir forystu hennar geti látið gott af sér leiða.

Það versta:

Versta á árinu eru samfélagsmiðlar og sú ógnvænlega þróun sem þar á sér stað. Fólk virðist upptekið af því að skapa sér eitthvað annað sjálf sem oft og tíðum segir ósatt og er óhugnanlegt í nafni einhvers réttlætis. Raunverulegum mannréttindum og góðmennsku verður ekki komið á með því að hliðra til sannleikanum eða heimta ritskoðun á list eða skoðanir fólks. Fólk er alls konar og fólk á að fá að vera alls konar. Þessir sýndar-dyggðar-statusar verða að fara hætta. Það er fátt sem göfgar manninn eins mikið og að gera góðverk. Að þurfa að tilkynna öllu samfélaginu að þú sért að láta gott af þér leiða eða sért með réttu skoðunina á einhverju máli er ekkert annað en rúnk fyrir eigið egó. Það getur vel verið að einhver kaupi þetta kjaftæði en ef það er eitthvað sem mannkynssagan hefur kennt okkur er það að fólkið sem lætur hæst um eigið ágæti er ekkert sérstaklega vandað fólk.

Hilda Jana Gísladóttir, sjónvarpsstjóri á N4.

Það besta:

Sem móðir þriggja stúlkna, ekki síður en sem kona, eiginkona og vinkona, þá tel ég að #metoo-byltingin sé stórkostlegt framlag og geti, ef við veljum það, orðið til aukinna mannréttinda, a.m.k. í hinum vestræna heimi. Ég vona að okkur, bæði körlum og konum samstiga, öðlist að sjá hvað það er sem byltingin er að segja okkur og hvernig við getum bætt samskipti okkar þannig að hún hafi jákvæð áhrif á sem flesta, til lengri tíma litið.

Það versta:

Þegar Donald Trump var vígður í embætti forseta Bandaríkjanna og bætist þar með í vafasaman hóp valdamestu manna heims. Ég skil ekki hvernig hann, Vladimir Pútín, Kim Jong-un, Bashar al-Assad og Xi Jinping, svo einhverjir séu nefndir, séu menn sem við sem mannkyn sættum okkur við að hafi jafn mikil völd og raun ber vitni. Þá er auðvitað staða Róhingja mér ofarlega í huga enda er hún alveg hryllilega sorgleg.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 klukkutímum

Prófaðu þetta næst þegar þú getur ekki sofið vegna fótapirrings

Prófaðu þetta næst þegar þú getur ekki sofið vegna fótapirrings
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Hraunaði yfir eigin leikmann í beinni útsendingu og lét allt flakka: Vinsæll en á ekki skilið mínútur – ,,Brást okkur öllum“

Hraunaði yfir eigin leikmann í beinni útsendingu og lét allt flakka: Vinsæll en á ekki skilið mínútur – ,,Brást okkur öllum“
Fókus
Fyrir 5 klukkutímum

Fékk fyrsta ofsakvíðakastið árið 2021 – „Þetta er versta tilfinning sem ég hef upplifað“

Fékk fyrsta ofsakvíðakastið árið 2021 – „Þetta er versta tilfinning sem ég hef upplifað“
Fókus
Fyrir 6 klukkutímum

Anne Hathaway þurfti að slumma tíu menn – „Þetta hljómaði viðbjóðslega“

Anne Hathaway þurfti að slumma tíu menn – „Þetta hljómaði viðbjóðslega“
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Brim fjárfestir í nýjasta kælibúnaði frá KAPP

Brim fjárfestir í nýjasta kælibúnaði frá KAPP
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Opinberar ástæðuna fyrir banninu: Varð bálreiður – ,,Helvítis svindlari“

Opinberar ástæðuna fyrir banninu: Varð bálreiður – ,,Helvítis svindlari“
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Knattspyrnusambandið íhugar að banna félögum alfarið að gera þetta

Knattspyrnusambandið íhugar að banna félögum alfarið að gera þetta
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Gengi hans á Ítalíu gæti haft áhrif á Manchester United

Gengi hans á Ítalíu gæti haft áhrif á Manchester United