fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024

Svarthöfði verðlaunar þá sem stóðu sig best á árinu

Rifrildi – Hljómsveit – Skilnaður – Ástarævintýri – Vonbrigði

Kristjón Kormákur Guðjónsson
Föstudaginn 29. desember 2017 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árið 2017 fer í sögubækurnar fyrir ýmsar sakir. Ríkisstjórnin sprakk, fólk reifst, konur risu upp á meðan dónakarlar fengu á baukinn. Svarthöfði hefur tekið saman hitt og þetta sem stóð upp úr á árinu 2017 og verðlaunar þá sem stóðu sig best – og verst – á ýmsum sviðum hins daglega lífs á árinu sem er að líða.

Umdeild ummæli ársins:

Mynd: Brynja

Stuðningsmenn Ingu Sæland froðufelldu í kommentakerfi Eyjunnar þegar Þóra Kristín Ásgeirsdóttir lét þessi orð falla um foringja Breiðholtsins:

„Ég skil svolítið kjósendur í Breiðholtinu, úti á landi eða eitthvað svona, sem að hlaupa í fangið á Ingu Sæland. Blind kelling úr Breiðholtinu, sextug, voða hress. Talar um lífeyrisþega … hvaða lífeyrisþegar eru á listum innan flokkanna?“ Inga Sæland var sjálf óhress og sagði: „Þetta er bara dóni, kurteisi kostar ekki neitt. Svo er þetta ekki alveg satt. Ég er sjónskert miðaldra kona í Grafarholti.“

Hljómsveit/Tríó ársins:

Það hlýtur að vera Bjarni Benediktsson, Sigurður Ingi Jóhannsson og Katrín Jakobsdóttir. Það bjóst enginn við að þau myndu stofna sveit saman. Hvort þau ná svo að spila og syngja í takt á tíminn eftir að leiða í ljós. Íslendingar eru alla vega spenntir en 75 prósent hafa trú á að þau muni gera góða hluti.

Ósk ársins:

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir óskaði eftir ólöglegu streymi á bardaga Conors McGregor og Floyds Mayweather. Hún baðst seinna afsökunar á að hafa óskað eftir þessari aðstoð.

Heimskulegustu ummæli ársins:

„Þessi unga kona var í sjónvarpi í kvöld að ræða um kynferðislega áreitni við konur í stjórnmálum. Meðfylgjandi mynd hefur hún notað sem ,,prófílmynd” á FB. Sjálfsagt finnst sumum engu skipta hvernig myndir fólk í stjórnmálum notar til að kynna sig. Dæmi hver fyrir sig.“

Ragnar Önundarson um Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur. Ragnar hélt áfram að grafa eigin gröf þegar hann hrósaði Áslaugu fyrir að skipta um mynd eftir að hann lét ummælin falla. Það var alls ekki rétt. Myndin sem Ragnar lét hin ósmekklegu ummæli falla við var gömul og hafði ekki verið notuð í marga mánuði. Ljóst er að Ragnar hefur lagt á sig að fletta gömlum profile-myndum af Áslaugu og svo hneykslast þegar hann loks fann eina sem var honum ekki að skapi. Ragnar er vel að þessum titli kominn.

Rifrildi ársins

Mynd: Kristinn Magnússon

Tara Margrét Vilhjálmsdóttir og Sindri Sindrason sjónvarpsmaður tókust á í sjónvarpssal þar sem rætt var um fitufordóma í samfélaginu. Sagði Tara að Sindri væri einn af þeim í samfélaginu sem væri í forréttindastöðu. „Veistu hvað ég er í mörgum minnihlutahópum?“ spurði Sindri og bætti við: „Ég er hommi, ég á litað barn, það er ættleitt, ég er fyrsti samkynhneigði maðurinn til að ættleiða á Íslandi, ég er giftur útlendingi – eða hálfum útlendingi – þannig að við skulum ekki fara þangað.“

Fundur ársins:

Björt framtíð stóð fyrir fundi ársins þann 15. september. Stjórn BF hélt rafræna kosningu og ákvað að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu. Björt framtíð ákvað að slíta samstarfinu vegna trúnaðarbrests Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins. Fundurinn hafði gríðarleg áhrif en Björt framtíð þurrkaðist út af þingi og Bjarni myndaði ríkisstjórn með Vinstri grænum og Framsóknarflokknum.

Svik ársins:

Bergi Þór Ingólfssyni leikara tókst hið ótrúlega, að fella heila ríkisstjórn og fékk mikið hrós fyrir. Bergur skilur sjálfsagt lítið í Katrínu Jakobsdóttur sem virtist hafa gleymt af hverju var boðað til kosninga. Liðsmenn Vg suðuðu um atkvæði til að koma íhaldinu frá. Eins og sannir íslenskir pólitíkusar sviku þau það loforð undir eins og ekki leið á löngu þar til íhaldið og Vg voru komin í sleik. Verður fróðlegt að sjá hversu mörg loforð Vg svíkur á kjörtímabilinu.

Ástarævintýri ársins:

Ástarævintýri ársins er án efa samband Bjarna Benediktssonar og Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Fáir bjuggust við því að sambandið yrði að veruleika. Íslendingar vissu ekki að ástarævintýrið var fyrir löngu hafið en Sigrún Sól leikkona sagði í samtali við Vísi að hún hefði heyrt Steingrím J. Sigfússon ræða við ónefndan mann í flugi frá Akureyri um samstarf eftir kosningar. „Steingrímur talaði um mikilvægi þess að hér yrði tveggja flokka stjórn og virtist á honum að þetta væri allt þegar klappað og klárt milli VG og D. […] Þau voru búin að ákveða þetta – fyrir löngu.“

Skilnaður ársins:

Sigmundur Davíð og Sigurður Ingi hættu saman í fyrra eftir hörð átök. Á meðan Sigmundur stýrði þjóðarskútunni lék allt í lyndi á milli parsins. Þegar Sigmundur ákvað að stíga til hliðar í kjölfar umfjöllunar um Panamaskjölin tók Sigurður við. Hann kunni svo vel við sig að hann ákvað að sitja þar áfram. Sigmundur var áfram í sambandinu en var eiginlega aldrei heima og töluðust Sigmundur og Sigurður Ingi ekki við. Hann ákvað svo endanlega að ganga úr sambandinu í haust og ríkir nú einn yfir Miðflokknum.

Afsökun ársins

Magnús Ólafur Garðarsson, fyrrverandi forstjóri United Silicon á Íslandi, á afsökun ársins. Teslu-Magnús var handtekinn á Reykjanesbraut grunaður um að hafa með vítaverðum akstri valdið umferðarslysi. DV hafði samband við Magnús sem þvertók fyrir það að hafa verið handtekinn. „Ég bað lögregluna um far í vinnuna,“ sagði Magnús þegar hann var spurður hvers vegna lögreglan hafi ekið honum af slysstað. Hann kunni þó engar skýringar á því af hverju lögreglan vistaði hann í fangaklefa meðan á frumrannsókn málsins stóð.

Góðverk ársins:

Launahækkun kjararáðs til þingmanna og nú síðast biskups. Biskup fékk í jólagjöf afturvirka hækkun frá kjararáði upp á 3,3 milljónir króna á meðan þúsundir Íslendinga hafa ekki efni á að halda jól í góðærinu sem hamrað er á íslenskri þjóð að ríki hér á landi. Eins og íslensk þjóð veit hafði Agnes óskað eftir leiðréttingu sem er engin furða, enda með aðeins rétt rúma milljón á mánuði. Þá var Agnes enn að jafna sig eftir að hafa aðeins fengið 7,15 prósent hækkun fyrir ári og þá tók virkilega á að neyðast til að vera á dagpeningum í Svíþjóð við ritgerðarsmíð og fá aðeins tæplega milljón fyrir það haustið 2015. Agnes stígur nú út úr áfallinu og getur loks líkt og þingmenn keypt í matinn. Hvort Agnes og þingmenn taki forseta Íslands sér til fyrirmyndar og gefi hækkun eða hluta hennar til þeirra sem eiga ekki til hnífs og skeiðar í góðærinu mikla er önnur saga.

Drama ársins

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Sigrún Sigurpálsdóttir og Sólrún Diego léku aðalhlutverk í stóra ilmkúlumálinu. Sigrún mælti með að nota ilmkúlur við þvott og spritt við þrif. Sólrúnu fannst það ótækt og mælti gegn því ráði enda aðdáandi ediks við þrif. Margrét Sigfúsdóttir, skólastjóri Hússtjórnarskólans, steig svo fram og sagði dramadrottningar ársins á villigötum. „Marg­ar ung­ar stúlk­ur í net­heim­um eru að leiðbeina fólki að nota ed­ik­blandað vatn á allt, og sum­ar nota líka spritt, sem er endem­is þvæla.“

Glataðasta kosningaloforð ársins:

Það gerist ekki tækifærissinnaðra og Framsóknarlegra en „Svissneska leiðin“. Leiðin sjálf er ekkert ömurleg en hún felur í sér að einhverjir fá að eyða einhverjum peningum sem þeir eiga kannski í framtíðinni í dag, hver segir nei við fríum peningum? Enginn. Það glataða við þetta kosningaloforð voru auglýsingarnar þar sem farið var yfir það hversu glatað það er að vera með fullorðin afkvæmi á heimilinu. Það þarf ekki að auglýsa fyrir þeim sem þurfa að búa við slíkt, hvað þá með jóðli í útvarpinu. Sem betur fer hefur ekkert frést af þessu Alparugli eftir að Framsókn settist í ríkisstjórn, fyrir utan örlitla línu í stjórnarsáttmálanum um að það eigi hugsanlega kannski að skoða það.

Óvinir ársins

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Þeir Gunnar Hrafn Jónsson, þá þingmaður Pírata, og Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, voru ágætir mátar þegar þeir fóru saman út að reykja fyrir utan Alþingi en í ágúst slettist allverulega upp á vinskapinn. Gunnar Hrafn krafðist þess að fá að vita um tengsl Brynjars við sáluga strípistaðinn Bóhem og barnaníðinginn Robert Downey. Brynjar sagði á móti að honum þætti Gunnar Hrafn bestur þegar hann talaði um veikindi sín, túlkaði Gunnar Hrafn það sem árás á andlega veikt fólk. Mun Brynjar hafa forðast augnsamband við Píratann í kjölfarið en fór svo á netið og hæddist að Pírötum fyrir að vilja „slefa fyrir framan tölvuna allan daginn á borgaralaunum“.

Vonbrigði ársins:

Mynd: Reuters

Hér er af ýmsu að taka. Íslenskir stjórnmálamenn, margir hverjir að minnsta kosti, ollu mörgum vonbrigðum með gjörðum sínum og orðum. Margir urðu fyrir vonbrigðum í haust þegar ýmislegt benti til þess að eldgos væri að hefjast, en svo gerðist bara ekki neitt. Svo má ekki gleyma því að íslenska handboltalandsliðið olli vonbrigðum á HM í handbolta í janúar síðastliðnum. Tap fyrir Frökkum í 16 liða úrslitunum sendi Ísland heim. Loks verður að nefna árangur kvennalandsliðsins á EM í Hollandi í sumar. Eftir góðan árangur karlalandsliðsins á EM í Frakklandi sumarið 2016 voru margir sem bjuggust við því að stelpurnar myndu einnig koma á óvart. Liðið tapaði öllum leikjum sínum og endaði á botni riðilsins. Húh!

Flík ársins:

Galvan-kjóllinn sem vinkona Bjartar Ólafsdóttur fékk umhverfisráðherrann þáverandi til að klæðast í þingsal hlýtur að vera umtalaðasta flík ársins. Málið byrjaði á Instagram og þróaðist út í hlátrasköll ráðherrans á Facebook á kostnað feðraveldisins. Upp úr því varð flíkin að heimspekilegum vangaveltum um friðhelgi Alþingis og hvar myndavélar mega vera staddar til að afhelga ekki salinn. Málið endaði svo með afsökunarbeiðni Bjartar. Flíkin sjálf hlýtur að enda uppi á vegg á Hard Rock Café eða Hamborgarafabrikkunni.

Hetja ársins:

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Það eru tveir menn sem eiga þessa nafnbót skuldlausa. Annars vegar Bergur Þór Ingólfsson leikari og hins vegar Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn. Bergur Þór var áberandi í umræðunni um uppreista æru og barðist mjög fyrir málefnum þolenda kynferðisbrota. Barðist hann hart gegn þeirri leynd sem ríkti yfir gögnum í máli Roberts Downey. Grímur Grímsson fór fyrir rannsókninni á hvarfi Birnu Brjánsdóttur og var vakinn og sofinn yfir málinu svo vikum skiptir.

Skúrkur ársins:

Íslenski dónakarlinn er skúrkur ársins. Að undanförnu hefur hver sagan á fætur annarri um kynferðislega áreitni karla dunið yfir þjóðinni og ljóst að margir þurfa að líta í eigin barm. Hér er um að ræða leikara, stjórnmálamenn, fjölmiðlamenn, stjórnendur fyrirtækja og svo miklu, miklu fleiri sem hafa gerst sekir um ósæmilega háttsemi í garð kvenna á undanförnum árum. Nú er komið að skuldadögum, strákar.

Klúður ársins:

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Ákvörðun Bjartrar framtíðar um að slíta stjórnarsamstarfinu hlýtur að vera klúður ársins. Trúnaðarbresti og leyndarhyggju var kennt um en sannleikurinn er sá að Björt framtíð taldi að með þessu yrði staða flokksins sterkari þegar loks kæmi að kosningum. Ég meina, hver vill ekki kjósa prinsippfólk á Alþingi? Allur þessi gjörningur snerist upp í andhverfu sína og Björt framtíð þurrkaðist eftirminnilega út af þingi. Það eru ekki ýkja margir sem sakna flokksins.

Par ársins

Um fá pör var rætt meira um á árinu en Benedikt Sveinsson kaupsýslumann og Hjalta Sigurjón Hauksson barnaníðing. Aðeins örfáir vissu að þeir væru par fyrr en hulunni var flett ofan af þeim í sumar. Samband þeirra er vægast sagt dularfullt og hvorugur maðurinn vill segja hvar, hvenær eða hvernig þeir kynntust. Benedikt var mjög umhugað um að Hjalti Sigurjón væri í vinnu og að hann væri ekki einmana þegar hann sat inni á Kvíabryggju.

Dóni ársins:

Íslenski leigusalinn sem bauð Hörpu Lind Pálmarsdóttur, ungri konu í örvæntingarfullri leit að húsnæði, lægra leiguverð gegn því að hann fengi að stunda með henni kynlíf, er dóni ársins. DV fjallaði um málið í haust en maðurinn var afhjúpaður með falinni myndavél blaðamanna DV. Var hann tilbúinn að lækka leiguna um 50 þúsund krónur gegn því að fá að stunda kynlíf með henni. Leigusalinn, sem er tæplega sextugur, kærði umfjöllun DV til siðanefndar Blaðamannafélags Íslands en nefndin úrskurðaði DV í vil.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
433Sport
Fyrir 15 klukkutímum

Garnacho bað Ten Hag afsökunar – „Hann verður að læra mikið og hratt“

Garnacho bað Ten Hag afsökunar – „Hann verður að læra mikið og hratt“
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Segir ráðamönnum að skammast sín – „Hversu aumt getur sálartetur þessa ofurlaunafólks verið?“

Segir ráðamönnum að skammast sín – „Hversu aumt getur sálartetur þessa ofurlaunafólks verið?“
Eyjan
Fyrir 16 klukkutímum

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“
433Sport
Fyrir 16 klukkutímum

Nýr þáttur af Íþróttavikunni kominn út – Axel Óskar er gestur

Nýr þáttur af Íþróttavikunni kominn út – Axel Óskar er gestur