fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024

Hildur og Olga fljúga frá Arizona og vinna sem sjálfboðaliðar um jólin: „Það er ekki hægt að hætta þegar maður byrjar á þessu“

Mæðgurnar Hildur og Olga láta gott af sér leiða – Sjálfboðaliðar sem eyða jólunum í að hjálpa öðrum

Aníta Estíva Harðardóttir
Laugardaginn 23. desember 2017 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Við fljúgum heim núna 22. desember. Ég spurði Olgu hvort hún vildi bara vera heima á aðfangadag og slaka á því það hefur verið svo mikið að gera hjá henni, en hún spurði mig á móti hvers konar spurning þetta væri nú eiginlega. Auðvitað myndum við eyða jólunum með Hjálpræðishernum,“ segir Hildur Þorsteinsdóttir í viðtali við DV.

DV hafði samband við þrjá sjálfboðaliða sem taka þátt í starfi Hjálpræðishersins í ár og munu eyða aðfangadegi í að hjálpa öðrum að eiga gleðileg jól. DV spurði um ástæðuna fyrir því að þau tóku ákvörðun um að verja jólunum sínum á þennan hátt. Hildur og dóttir hennar, Olga Maggý, eru í þeim hópi en þær eru búsettar í Arizona í Bandaríkjunum um þessar mundir en ætla sér að fljúga heim og eyða sínum þriðja aðfangadegi í röð hjá Hjálpræðishernum.

Sorgmædd yfir örlögum annarra

Hildur segir að þær hafi alltaf átt hefðbundin aðfangadag með fjölskyldu sinni en þegar leið að jólunum árið 2015 hafi hún verið svo sorgmædd yfir því að vita til þess að margir myndu eyða jólunum aleinir.

„Ég vissi ekki af Hjálpræðishernum og mig langaði bara að bjóða öllu fólkinu heim til mín. Ég var sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum og þegar ég frétti af Hjálpræðishernum þá spurði ég þá hælisleitendur sem ég hafði verið að hjálpa hvort þeir vildu ekki bara koma með mér þangað. Ég sagði þeim að ég væri trúuð manneskja og svona héldum við jólin og spurði hvort þeir vildu ekki koma, sama hvernig þeir héldu upp á jólin. Þá voru 33 sem skráðu sig á lista og komu með mér.“

Ekki hægt að hætta

Hildur segir að þessi aðfangadagur hafi verið mjög persónulegur og skemmtilegur, þær mæðgur hafi verið að hjálpa til við að skreyta jólatréð, taka á móti fólki og hjálpa til.

„Það er ekki hægt að hætta þegar maður byrjar á þessu“

„Í kjölfarið kynntist ég fólkinu hjá Hjálpræðishernum og nú erum við að mæta þriðja árið í röð, það er ekki hægt að hætta þegar maður byrjar á þessu. Þetta er svo gefandi og yndislegt og gaman að við munum gera svo lengi sem Hjálpræðisherinn vill njóta krafta okkar.“

Allir sjálfboðaliðar eru skráðir á vaktir yfir daginn og eftir vaktina geta þeir farið heim og haldið jólin heima hjá sér ef þeir vilja.

Enginn skilinn útundan

Enginn skilinn útundan

Hjördís Kristinsdóttir og eiginmaður hennar eru bæði foringjar í Hjálpræðishernum sem hefur á hverju ári, í yfir þrjátíu ár, séð um að halda aðfangadag hátíðlegan fyrir þá sem minna mega sín.

„Um miðjan nóvember opnum við fyrir skráningu og sendum skilaboð á félagsþjónustuna, gistiskýlið og fleiri staði sem við vitum að fólk leitar til. Síðan höfum við samband við fyrirtæki og biðjum um styrki,“ segir Hjördís um undirbúning starfsins í viðtali við DV.

Margir sjálfboðaliðar mæta ár hvert og leggja sitt af mörkum til þess að allir geti átt gleðileg jól. Undirbúningurinn fyrir svo stóra veislu er mikill og fer desembermánuður í það að redda hlutum, sækja og stilla upp.

„Það eru fyrirtæki sem styrkja okkur um gjafir fyrir fullorðna og svo er heildsala sem gefur okkur mjög góðan afslátt af gjöfum fyrir börn.“

Hjördís segir að allir sem þurfi á hjálp að halda megi skrá sig á lista hjá þeim fyrir 16. desember ár hvert og enginn sé skilinn útundan.

Allir velkomnir

„Við höfum aldrei valið fólk, fyrir okkur er fólk bara fólk, allir eru velkomnir til okkar við förum aldrei í manngreinarálit.“

Síðustu jól lentu þau í því að nokkuð margt fólk mætti án þess að vera búið að skrá sig á lista svo í ár tóku þau ákvörðun um að vera nokkuð ströng á því að hver sem er geti ekki gengið inn af götunni.

„Auðvitað eru alltaf einhverjir einstaklingar sem einfaldlega búa við þannig aðstæður að þeir hafa ekki getað skráð sig eins og götufólkið okkar, en við þekkjum það fólk. Við gerum hins vegar kröfu um að flestir séu búnir að skrá sig.“

Mikill meirihluti Íslendingar

Hjördís segir að meirihluti þeirra sem mæta í ár sé Íslendingar.

„Allavega 70 prósent þeirra sem skráðir eru, eru Íslendingar og það eru alltaf aðeins fleiri karlar. Í ár eru 20 börn á skrá en það eru færri en hafa verið áður, það eru líka færri hælisleitendur en áður. Þetta eru Íslendingar sem eru kannski utangarðs í samfélaginu og einmana.“

„Á aðfangadag í fyrra mætti ég snemma og þá var fyrrverandi maðurinn minn, sem er lasinn, á spítala. Við Olga enduðum á því að vera til miðnættis og þá fór ég í spítalaheimsókn með pakka og keyrði svo vini mína frá Albaníu heim. Eftir það komum við heim, settumst í sófann með tærnar upp í loft og nutum þess að hafa kerti og borða nammi og hvíla okkur. Auðvitað áttum við ekki að vera svona lengi en það bara endaði þannig.“
Hildur segir að fólkið sem mæti á aðfangadag sé alls konar og komið sé fram við alla af væntumþykju og virðingu.
„Hjálpræðisherinn er gestgjafi og við erum bara að hugsa um að gefa fólki að borða og knúsa það og gefa því pakka – að reyna að gera þennan dag yndislegan fyrir fólkið.“

Hildur segir að mörgum kunningjum þeirra mæðgna finnist skrítið að þær vilji eyða aðfangadegi á þennan hátt en þeim finnist svo yndislegt að fá að taka þátt í þessu að þær geti ekki séð hann fyrir sér á neinn annan hátt.

„Við ætlum því bara að vera áfram eftir vaktina okkar og borða og gleðjast með fólkinu.“

Ástandið slæmt

Kristín Larsdóttir Dahl er búsett í Kaupmannahöfn þar sem hún stundar nám í kvikmyndafræði. Í Kaupmannahöfn tekur Kristín reglulega þátt í sjálfboðavinnu við kvennaathvarf fyrir konur sem hafa leiðst út í vændi en í ár mun hún í fyrsta skiptið taka þátt í sjálfboðastarfi Hjálpræðishersins ásamt móður sinni og bróður.

„Ég veit að ástandið á Íslandi er mjög slæmt, í fyrra komu til dæmis um 300 manns til þeirra. Það er bara fólk þarna sem hefur ekki efni á að halda jól og mér finnst þetta frábært framtak hjá þeim og langar að vera partur af því,“ segir Kristín í viðtali við DV.

Kristín segir að stemningin í kringum aðfangadag hjá Hjálpræðishernum sé virkilega falleg og andrúmsloftið yndislegt.

„Okkur er skipt niður á vaktir en við megum vera eins lengi og við viljum. Ég stakk upp á þessu við fjölskylduna mína og við mamma og bróðir minn erum að fara í þetta saman. Ég og bróðir minn mætum klukkan tólf á aðfangadag og eigum að vera til sex en mamma mætir seinna og á að vera til níu. Við ætlum því bara að vera áfram eftir vaktina okkar og borða og gleðjast með fólkinu.“

Kristín segir að seinna um kvöldið ætli þau svo að njóta þess að fara saman heim að horfa á bíómynd og hafa það huggulegt.

„Fólk er alltaf svo mikið í sínum eigin stressheimi fyrir jólin og sér kannski ekki heildarmyndina á hvernig aðrir hafa jólin eða hvernig aðrir geta ekki haldið jól. Við þurfum að muna að jólaandinn snýst náttúrlega líka um að búa til góða stemningu og að allir hafi það gott.“
Kristín hvetur alla til þess að skoða starf Hjálpræðishersins og taka þátt í því ef þeir geta, hægt sé að styrkja og gerast sjálfboðaliði.

Horfa á raunveruleikann

Ragna Ragnars er móðir Kristínar og starfar sem hjúkrunarfræðingur.

„Ég nefndi þetta reglulega við krakkana þegar þeir voru yngri, en þá var það nú ekkert voðalega algengt að gera eitthvað annað en þetta hefðbundna. Núna kom þetta upp og við vorum öll sammála um að eyða aðfangadegi svona,“ segir Ragna í viðtali við DV.

„Ég starfa sem hjúkrunarfræðingur og ég hef mikinn áhuga á samfélagshjúkrun, það er að segja að mæta fólki þar sem það er statt í lífinu. Við viljum hjálpa og horfa svolítið á raunveruleikann eins og hann er í dag á Íslandi, ég held að það séu þrefalt fleiri í dag en voru fyrir nokkrum árum sem eru að mæta.“

Íslendingar þurfa að opna augun

Ragna segir að Íslendingar þurfi að fara að líta upp og þora að sjá hvernig raunveruleikinn er hjá mörgum.
„Sumir kannski þora ekki að horfa á það, en þetta er alveg frábært framtak hjá Hjálpræðishernum. Þetta er engin smá vinna ég held það séu um 70–80 sjálfboðaliðar sem koma að þessu í ár. Við Íslendingar þurfum að fara að opna augun, við erum mjög góð í því að taka alls konar landsátök. Bara öll Íslandssagan er þannig að við höfum þurft að hjálpast að. Við getum alltaf litið í barminn og hugsað hvort það sé eitthvað sem við getum gert meira til að hjálpa.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 klukkutímum

Kúrekar og jakkafatalakkar Alþingis – „Fólkið í fínu fötunum, með fínu skoðanirnar og fínu brosin“

Kúrekar og jakkafatalakkar Alþingis – „Fólkið í fínu fötunum, með fínu skoðanirnar og fínu brosin“
433Sport
Fyrir 2 klukkutímum

Svona hafa síðustu leikir Stjörnunnar og Vals farið – Hvað gerist í kvöld?

Svona hafa síðustu leikir Stjörnunnar og Vals farið – Hvað gerist í kvöld?
Fókus
Fyrir 4 klukkutímum

Bankarnir í Þýskalandi hata hana – Þetta er ástæðan

Bankarnir í Þýskalandi hata hana – Þetta er ástæðan
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Arteta sagður skoða þessa tvo framherja fyrir sumarið

Arteta sagður skoða þessa tvo framherja fyrir sumarið
Fókus
Fyrir 5 klukkutímum

Bikinímynd Kim Kardashian að athlægi – Sérð þú af hverju?

Bikinímynd Kim Kardashian að athlægi – Sérð þú af hverju?
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Ríkharð segir þetta ástæðu þess að KSÍ hefur ekki ráðið framkvæmarstjóra – „Hún er byrjuð í annarri vinnu og þiggur laun þar“

Ríkharð segir þetta ástæðu þess að KSÍ hefur ekki ráðið framkvæmarstjóra – „Hún er byrjuð í annarri vinnu og þiggur laun þar“
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Guðmundur H. Garðarsson er látinn

Guðmundur H. Garðarsson er látinn
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Leikmaður Arsenal talar ekkert við Arteta

Leikmaður Arsenal talar ekkert við Arteta