fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fókus

Haraldur Gíslason: Hætti að stækka á tímabili – „Mér leið ekki illa út af þessu“

Vann sem tamningamaður – Skortur á leikskólakennurum – Gefur út barnabók

Kristinn H. Guðnason
Þriðjudaginn 28. nóvember 2017 16:13

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Haraldur Gíslason, gjarnan kallaður Halli í Botnleðju eða Rrauði polli, hefur mörgu áorkað í gegnum tíðina. Hann hefur unnið titla í íþróttum, leikið aðalhlutverk í vinsælu leikriti, unnið Músíktilraunir, tekið þátt í Eurovision og verið á hljómleikaferðalagi með einu stærsta bandi heims. Einna þekktastur er hann fyrir störf sín sem formaður Félags leikskólakennara. DV leit inn til hans á skrifstofuna í Kennarahúsinu og ræddi við hann um æskuna, tónlistina, kennarastörfin og nýútkomna barnabók.

Hafnarfjörður er lykilhugtak þegar ævi Haralds Freys Gíslasonar er skoðuð. „Hluti af sjálfsmyndinni er að vera Hafnfirðingur. Hafnarfjörður er „the capital of the universe““ segir hann með mikilli áherslu. Haraldur gaf út plötu með þeim titli en viðurkennir brosandi að hún hafi ekki fengið mikla hlustun.

Haraldur fæddist í Hafnarfirði árið 1974 og er þriðja barn hjónanna Gísla Þrastar Kristjánssonar og Ernu Björnsdóttur. Hann ólst upp í bænum, gekk í Öldutúnsskóla og Flensborg, var í Leikfélagi Hafnarfjarðar og FH. Nánast alla ævi hefur hann búið í bænum sem hann ann.

Haraldur var virkur á æskuárunum, bæði í tómstundum og íþróttum. „Ég hafði allt of mikið að gera og tók þátt í öllu. Ég vildi vera alls staðar.“ Körfubolti, borðtennis, snóker, hestaíþróttir, leiklist og tónlist voru meðal þess sem hann stundaði en framan af átti fótboltinn huga hans allan. Í fimmta flokki spilaði hann með fyrsta karlaliði FH sem varð Íslandsmeistari og sá árangur var jafnaður í fjórða flokki. „Ég var ágætur í fótbolta. Við vorum með mjög sterkan hóp en ég var ekki alltaf í byrjunarliðinu.“ Aldrei kom til greina að spila neins staðar nema í sókninni. „Ég sé engan tilgang með fótbolta nema að skora mörk. Ég skildi ekki þá sem vildu vera einhvers staðar annars staðar á vellinum en þar sem mörkin komu. Það að ég vildi ekki mikið verjast átti sennilega sinn þátt í að ég varð ekki betri.“

„Ég fór í rannsóknir og það kom til tals að gefa mér eitthvert hormónatrukk“

Þegar kom fram á unglingsárin fór Haraldur að dragast aftur úr í íþróttunum af annarri ástæðu. „Ég var mjög lágvaxinn og seinþroska og á tímabili hætti ég að stækka. Ég fór í rannsóknir og það kom til tals að gefa mér eitthvert hormónatrukk. En ég vildi það ekki því ég stóð þokkalega sterkt félagslega og þetta háði mér ekkert allt of mikið. Mér leið ekki illa út af þessu en það fór að halla undan fæti í íþróttunum þegar félagarnir tóku út vöxt og þroska.“

50 sýningar fyrir fullu húsi

Seinþroskinn hamlaði Haraldi í íþróttunum en hjálpaði honum að vissu leyti á sviði leiklistarinnar þegar Leikfélag Hafnarfjarðar auglýsti eftir leikurum til að taka þátt í uppfærslu á Emil í Kattholti árið 1988. „Ég var alveg fullkominn í þetta, ég var þrettán ára og leit út fyrir að vera sjö ára. Auglýst var eftir krökkum til að koma fram í verkinu og það varð algjör sprengja því svo margir vildu taka þátt.“

Hann fékk hlutverkið og sýningin vakti mikla athygli, ekki aðeins í Hafnarfirði heldur um land allt. „Emil í Kattholti gekk fyrir fullu húsi í vel yfir 50 sýningar. Þetta kom aftur fótunum undir leikfélagið og þar var stofnuð unglingadeild.“ Haraldur tók þátt í tveimur uppsetningum til viðbótar með Leikfélagi Hafnarfjarðar, verkunum Þetta er allt vitleysa Snjólfur og Þú ert í blóma lífsins fíflið þitt.

„Ég á það til að vera feiminn, ég er ekki félagslyndur þótt ég hafi verið það sem krakki,“ segir Haraldur. Þetta gæti komið mörgum á óvart enda hefur hann verið nokkuð áberandi síðastliðin 30 ár eða svo. Hann segist ekki vera haldinn eiginlegum sviðsskrekk. „Að koma fram á sviði getur verið erfitt en einhvern veginn blessast þetta nú oftast.“

„Þú verður að bera virðingu fyrir skepnunni sem er miklu öflugri og sterkari en þú“
Tamningamaður „Þú verður að bera virðingu fyrir skepnunni sem er miklu öflugri og sterkari en þú“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Tamningamaður í 15 ár

Annað sem ekki margir vita af er ástríða hans fyrir hestamennsku en það er íþróttagrein sem entist honum mun lengur en aðrar. „Pabbi var alltaf með hesta. Ég er alinn upp í hestamennsku og hef átt fjölda hesta í gegnum tíðina.“ Haraldur keppti í hestamennsku og í um fimmtán ár starfaði hann við tamningar. „Ég byrjaði sem tittur hjá tamningamanni og svo gekk ég í hús. Ég var svona hnakkróni. Þetta var frábært og átti vel við mig. Hestamennska og tamningar snúast um að gera ekki mistök því það getur verið erfitt að leiðrétta þau. Ef hestur þekkir styrkleika sinn þá getur þú ekkert setið á honum. Þú verður að bera virðingu fyrir skepnunni sem er miklu öflugri og sterkari en þú. Þú verður að gera þetta í sátt við hana.“

Haraldur segist hafa dregið sig alfarið út úr hestamennskunni og hann seldi hesta sína árið 2011 þegar hann var kjörinn formaður Félags leikskólakennara. „Þetta er svo mikið starf og ég var líka með tvö ung börn. Hestamennska er mjög tímafrek og öll fjölskyldan verður að vera í þessu ef þetta á að ganga. Ég nenni ekki að vera í hestamennsku bara stundum. Maður verður að sinna henni almennilega. Ég hef ekkert gaman af því að fara bara á hestbak heldur vil ég vera með eitthvert verkefni, eitthvað til að stefna að. Ég starfaði nokkur sumur á hestaleigu við að fara með túrista. Það er nú ekki beint skemmtilegt að vera á feti í nokkra klukkutíma með halarófuna á eftir sér.“

Byrjuðu á vitlausum enda

Heiðar Örn Kristjánsson hefur verið samferðamaður Haralds í tónlist um langt skeið, í hljómsveitunum Botnleðju og Pollapönki. „Heiðar er Hafnfirðingur og við vissum alltaf af hvor öðrum. Við spiluðum stundum borðtennis og breikuðum á pappaspjaldi en við kynntumst almennilega í Flensborg í kringum 1990. Við töluðum mikið um tónlist í frímínútum og heima hjá mér var trommusett sem bróðir minn átti. Við fórum því heim í eyðum til að fikta í hljóðfærunum.“ Fram að þessum tíma hafði Haraldur varla snert á trommukjuðum af neinu viti.

Haraldur var í tveimur hljómsveitum, Dive og Amma rúsína, áður en hann stofnaði Botnleðju undir lok árs 1994 með Heiðari og Ragnari Páli Steinssyni bassaleikara. Hljómsveitin spilaði einfalt en þétt rokk og vann Músíktilraunir Tónabæjar hálfu ári eftir að hún var stofnuð. Haraldur hlær þegar hann er spurður að því hvort þeir hafi verið rokkstjörnur. „Já, í einhverjum skilningi þess orðs. Fólk vildi fá eiginhandaráritanir og við upplifðum okkur sem semi-merkilega á tímabili. Jarðvegurinn var mjög góður fyrir eitthvað eins og þetta. Kannski var einhver ládeyða í gangi á þessum tíma og við voru sennilega réttir menn á réttum tíma.“

Fyrir sigurlaunin tók Botnleðja upp sína fyrstu breiðskífu, Drullumall, og gaf út sama ár. „Við tókum hana upp á einhverjum 24 stúdíótímum sem er ekki einu sinni lag í dag, við keyrðum þetta í gegn. Hún er hrá og barn síns tíma.“ Ári síðar tóku þeir upp sína aðra plötu en þá var rokkstjörnulífið tekið upp á næsta stig því þeir komust í kynni við meðlimi bresku hljómsveitarinnar Blur sem tóku upp breiðskífu hér á landi.

„Við byrjuðum í þessu á algjörlega vitlausum enda“
Rokkari „Við byrjuðum í þessu á algjörlega vitlausum enda“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Við vorum að spila á Tunglinu eitt kvöldið og þeir komu á tónleikana. Þeir urðu svo hrifnir að þeir komu og töluðu við okkur baksviðs og við vorum mjög upp með okkur að hitta slíkar stórstjörnur.“ Haraldur
segist hafa skotið því inn í umræðurnar að Botnleðja myndi hita upp fyrir Blur einhvern daginn og það varð raunin skömmu síðar þegar hljómsveitirnar stigu á svið í Laugardalshöll. Þetta voru þó ekki lokin á þeirra samstarfi því ákveðið var að Botnleðja færi út til Bretlands til að hita upp á tónleikaferðalagi Blur.

„Við byrjuðum í þessu á algjörlega vitlausum enda. Við höfðum aldrei spilað utan Íslands áður en þarna fórum við í túr með einu stærsta bandi Bretlands og það var uppselt á öll gigg. Þetta var absúrd.“ Haraldur segir að heimamenn hafi tekið hljómsveitinni vel. „Fjöldi fólks kom þegar við vorum að spila en það kunni auðvitað engin deili á okkur. Að ráðleggingum Damons Albarn þá breyttum við um nafn og hétum Silt. Ég held að það hafi verið mistök. Við hefðum átt að heita Botnleðja áfram.“

Einn þrálátasti orðrómur íslenskrar tónlistarsögu er sá að Blur hafi stælt Song 2, einn stærsta smellinn, eftir Botnleðju. „Það vilja margir meina það. Þeir voru klárlega undir áhrifum en þetta er ekki stolið. Við vorum undir áhrifum frá þeim þannig að það var gaman að sjá að þeir voru undir áhrifum frá okkur líka. Við vorum stoltir af því.“

Á þessum tíma snerist allt um að landa stórum plötusamningi og „meika’ða“ erlendis. „Allt gerðist mjög hratt hjá okkur, við unnum músíktilraunir og ferðuðumst með Blur. Okkur fannst eðlilegt að næsta skref yrði heimsfrægð. En auðvitað var það ekkert eðlilegt. Við héldum að við værum að fá plötusamning hjá Island Records og það samtal var komið nokkuð langt á veg. En starfsmaðurinn sem vildi fá okkur á samning var rekinn og því varð ekkert úr okkar samningi.“ Síðar gerðu þeir samning við norskt plötufyrirtæki og fóru í hljómleikaferðalag um Noreg. „Við hefðum ábyggilega getað farið með þetta miklu lengra ef við hefðum haft þolinmæðina og skipulagið í það. Við höfðum alltaf gaman af þessu og lögðum mikinn metnað í allt sem við gerðum. Að verða heimsfrægir hætti að vera eitthvert mál fyrir okkur.“

Náði til fjörugra stráka

Botnleðja hefur aldrei hætt en starfsemin hefur verið mismikil í gegnum tíðina. Haraldur segir hljómsveitina hafa verið „í híði“ síðan 2013. Haraldur og Heiðar hafa hins vegar verið þekktir sem rauði polli og blái polli í hljómsveitinni Pollapönk sem hófst sem útskriftarverkefni þeirra í Kennaraháskólanum. Báðir unnu þeir sem leiðbeinendur á leikskóla og fyrir tilviljun hófu þeir nám í leikskólakennarafræðum á sama tíma.

„Það hentaði mér afar vel að vinna í leikskóla. Ég fékk að vera ég sjálfur og nálgaðist hlutina ekki alltaf eins og samkennarar mínir. Ég hafði ólíkan bakgrunn en flestir sem störfuðu með mér. Einhverra hluta vegna náði ég til ákveðins hóps barna, sérstaklega stráka sem létu hafa mikið fyrir sér. Ég átti mjög auðvelt með að eiga við þannig týpur.“ Hann segist þekkja það af eigin raun. „Ég var sjálfur fjörugur sem barn. Mér finnst svona börn skemmtileg þótt þau geti verið krefjandi. Þau eru orkumikil og þurfa ákveðið rými og ramma til að funkera.“ Haraldur hafði lítið spilað á gítar áður en hann byrjaði að vinna á leikskóla og kunni aðeins nokkur grip. „Þarna færðu mikið frelsi og þú ert að skapa. Gítarinn var þarna og ég fór að búa til lög strax og börnin tengdu við það.“ Árið 2001 gaf hann út barnasólóplötu sem hét Hallilúja. „Sú plata er að miklu leyti sýn óþekka stráksins á tilveruna.“

„Einhverra hluta vegna náði ég til ákveðins hóps barna, sérstaklega stráka sem létu hafa mikið fyrir sér“

Haraldur hafði ekki klárað stúdentsprófið í Flensborg en komst inn í Kennaraháskólann vegna aldurs og starfsreynslu. „Ég vissi ekkert hvort ég gæti þetta. Mér gekk vel í námi fram á unglingsár en þá hætti ég að nenna þessu. Ég er þannig að ég get náð árangri í því sem ég hef áhuga á og þetta gekk mjög vel.“ Hann segir takmarkið með útskriftarverkefninu ekki hafa verið að stofna hljómsveit og dregur upp úr skúffu innbundna ritgerð með áföstum geisladisk. „Þetta er ritgerðin. Við skrifuðum um barnamenningu og tengdum lögin við ýmislegt fræðilegt í okkar námi. Platan sjálf var í raun yfirvinna.“

Upp úr riðlinum

Haraldur segir ekki reginmun á því að spila fyrir börn og fullorðna, nema hvað varðar tímasetningarnar því hann er ekki mikill næturhani. „Við höfum reynt að nálgast Pollapönk út frá því að bæði börn og fullorðnir geti tengt við það á sinn hátt. Við setjum okkur ekki í neinar stellingar til að semja lög sérstaklega fyrir börn og textarnir eru oft tvíræðir.“

Pollapönk náði gífurlegum vinsældum og sennilega er einhver plata þeirra til í hverjum einasta skutbíl landsins. Hápunktinum var náð þegar þeir unnu Söngvakeppni sjónvarpsins árið 2014 og héldu til Kaupmannahafnar á Eurovision. Þar náðu þeir 15. sæti og eru síðasta íslenska atriðið til að komast upp úr undanriðlinum.

„Þessi Eurovision-tími var klikkaður, þetta var geggjað stuð. Mig minnir að við höfum unnið. Þegar við komum heim var komið fram við okkur þannig af því að við komumst upp úr riðlinum. Við vissum að við værum ekki að vinna en takmarkið var að komast upp úr riðlinum því það er bara þrautin þyngri. Við lögðum mikið í sölurnar til að reyna að ná því og það tókst, meira að segja vorum við nokkrum sætum frá því að vera í einhverri hættu.“

Líkt og með Botnleðju hefur ekki mikið farið fyrir Pollapönki undanfarin ár. „Við erum ekkert hættir. Við settumst á þennan regnboga þegar við komum heim og flugum hátt á honum. En svo vissum við að við þyrftum að hvíla konseptið í einhvern tíma. Við erum klárir með nýja plötu en erum að bíða eftir tækifærinu til að gefa hana út.“

„Mig minnir að við höfum unnið“
Polli „Mig minnir að við höfum unnið“

Langt frá því að uppfylla lögin

Haraldur hefur nú verið formaður Félags leikskólakennara í sex ár en áður en hann gaf kost á sér hafði hann ekki komið nálægt stjórn félagsins. „Mig langaði til að gera gagn. Félagið lenti í ákveðnum vandræðum í hruninu. Við festumst inni með okkar kjarasamninga, vorum ekki búnir að gera nýja samninga þegar hrunið skall á. Það setti strik í reikninginn hjá okkur og við vorum einum kjarasamningi á eftir öðrum kennarahópum í launum. Ég trúði því og vissi að samfélagið myndi meta þessi störf betur í framtíðinni. Ég vildi ekki vera tuðari á kaffistofunni. Ef þú telur þig hafa eitthvað fram að færa þá er eins gott að reyna að sanna það og ég bauð mig einfaldlega fram.“ Tveir voru í framboði og mjótt var á mununum í atkvæðagreiðslunni.

En hver eru helstu verkefnin sem stéttin stendur frammi fyrir?
„Það vantar 1.300 leikskólakennara og það er ekki nýtt vandamál. Leikskólastigið er búið að þróast á hraða ljóssins. Árið 1994 voru börn almennt ekki með heilsdagspláss í leikskóla en svo hefur kerfið vaxið mjög hratt og við höfum ekki náð að halda í við að búa til leikskólakennara.“ Samkvæmt lögum eiga tveir þriðju hlutar starfsfólks á leikskólum að vera faglærðir kennarar en hlutfallið er nú aðeins 32 prósent.

„Best væri fæðingarorlof til tveggja ára og svo tæki leikskólinn við“
Formaður „Best væri fæðingarorlof til tveggja ára og svo tæki leikskólinn við“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Hann segir þennan vanda alþjóðlegan. Sumir hafa velt því fyrir sér hvort fimm ára nám sé of langt en Haraldur svarar því neitandi. „Fjöldi nema er í löngu háskólanámi sem veitir engin starfsréttindi og verri laun en að vera kennari. Ýmislegt spilar inn í. Til dæmis umræðan um vandamál leikskólanna sem tekur mikið pláss. Það smitast svo út í samfélagið og ungir einstaklingar sem eru að leita sér að framtíðarstarfi og menntun horfa þá síður til kennslustarfanna. Að sjálfsögðu þarf að stíga fleiri skref til að gera laun kennara samkeppnishæf við laun annarra sérfræðinga á markaði.“

Starfsálag er annað sem horfa verði til en samkvæmt nýlegum tölum frá starfsendurhæfingarsjóðnum VIRK er álag á leikskólakennara meira en öðrum í starfsstéttum. „Það þarf að fækka börnum í rými og á hvern starfsmann.“ En hluta af lausninni segir Haraldur fólginn í því að stilla af skólastigin hvað frí varðar. „Sem dæmi, ef við styttum vinnuviku leikskólakennara niður í 35 stundir á viku en þeir vinna áfram 40 stundir, þá eru komnir 28 dagar á ári sem þeir hafa unnið af sér. Það er mikil umræða um styttingu vinnuvikunnar alls staðar í samfélaginu. Sama fyrirkomulagi væri hægt að koma á annars staðar á vinnumarkaði. Fólk hefði þá val um að stytta daginn eða vinna af sér og eignast þá frídaga á móti. Fólk getur þá safnað sér upp þessum dögum til að eiga með börnunum sínum þegar skólarnir eru lokaðir. Þetta yrði stór samfélagsleg breyting.“

Annað vandamál er krafan um að taka sífellt yngri börn inn á leikskólana. „Við þurfum að koma nýliðuninni í gang áður en við færum okkur neðar. Best væri fæðingarorlof til tveggja ára og svo tæki leikskólinn við. Það yrði mjög gott samfélag og ég hugsa að ég myndi skrá mig í það.“

Út fyrir þægindahringinn

Nýlega kom út barnabókin Bieber og Botnrassa sem er frumraun Haralds á sviði bókmennta og hugmyndin kviknaði í eirðarleysi. „Ég er búinn að vera í þessari barnamenningu og hef skrifað texta sem eru örsögur. Mig hefur alltaf langað til að taka þetta lengra og skrifa barnabók. Þetta atvikaðist þannig að konan mín var í tímafreku námi og ég var því eðlilega meira með börnin á meðan hún var að læra. Þegar þau voru farin að sofa var ég einn með sjónvarpsfjarstýringuna. Ég vildi gera eitthvað skynsamlegra við tímann og ákvað að byrja að skrifa, einn kafla á kvöldi. Ég hef mjög mikla þörf fyrir að skapa hluti og hef einnig þörf fyrir að fara aðeins út fyrir þægindahringinn. Mér finnst gott að ögra sjálfum mér og það heldur mér lifandi.“

Bókin fjallar um krakka sem sem ákveða að stofna hljómsveit og taka þátt í tónlistarkeppni, efniviður sem Haraldur þekkir vel af eigin raun. „Mig langaði líka að gera sakamálasögu fyrir börn.“ Því tvinnast sakamál inn í söguna um hljómsveitina Botnrössu.

„Það er undirliggjandi boðskapur í bókinni. Að hlutir sem þú gerir einstaklingi, jafnvel snemma á lífsleiðinni, geta haft áhrif á þann einstakling allt hans líf.“
Fjallar hún þá um einelti?
„Já, en ekki einelti krakkanna. Heldur það sem hinir fullorðnu eru að rogast með úr sinni fortíð.“
Hvenær kemur svo næsta bók?
„Ætli hún komi ekki bara næstu jól?“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Snýst ekki um að taka sviðsljósið frá körlum heldur beina því einnig að konum – „Þetta er mjög karllægur bransi og hefur alltaf verið“

Snýst ekki um að taka sviðsljósið frá körlum heldur beina því einnig að konum – „Þetta er mjög karllægur bransi og hefur alltaf verið“
Pressan
Fyrir 2 dögum

47 ár frá upphafi tveggja tímamótageimferða

47 ár frá upphafi tveggja tímamótageimferða
Fókus
Fyrir 3 dögum

Katrín Myrra keypti miða aðra leið út til Taílands og það breytti lífi hennar

Katrín Myrra keypti miða aðra leið út til Taílands og það breytti lífi hennar
Fókus
Fyrir 4 dögum

Simmi Vill um árshátíðardrama Landsvirkjunar – Segir að önnur stórfyrirtæki megi frekar skammast sín

Simmi Vill um árshátíðardrama Landsvirkjunar – Segir að önnur stórfyrirtæki megi frekar skammast sín
Fókus
Fyrir 5 dögum

Guðbjörgu var útskúfað fyrir að tala um 47 ára aldursmun föður síns og barnsmóður hans – „Ætla ekki að þegja og taka þátt í þessum leik“

Guðbjörgu var útskúfað fyrir að tala um 47 ára aldursmun föður síns og barnsmóður hans – „Ætla ekki að þegja og taka þátt í þessum leik“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Er fyrsta vara lífsstílsmerkis Markle algjört flopp? – Sultukrukkan skilar sér ekki á samfélagsmiðla

Er fyrsta vara lífsstílsmerkis Markle algjört flopp? – Sultukrukkan skilar sér ekki á samfélagsmiðla