Áfengi var mín eina ást

Byrjaði að drekka 12 ára - Fékk heiftarlega áfengiseitrun 2014 - Mikil vanlíðan fylgdi drykkjunni

„Allt sem ég er að gera nú hefði ég ekki getað gert þegar ég var að drekka.“
Nýtt líf „Allt sem ég er að gera nú hefði ég ekki getað gert þegar ég var að drekka.“
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Smári Guðmundsson er 38 ára tónlistar- og fjöllistamaður. Hann er í hljómsveitinni Klassart og var að skrifa sinn fyrsta söngleik, „Mystery Boy“. Smári er einnig alkóhólisti. Hann var einungis tólf ára gamall þegar hann byrjaði að drekka. Nítján ára varð hann háður verkjatöflum.

Í einlægu viðtali við Guðrúnu Ósk Guðjónsdóttur ræðir Smári um alkóhólismann sem náði snemma tökum á lífi hans, baráttuna við þunglyndi og kvíða, vanlíðan sem fylgdi drykkjunni og ferlið sem leiddi til þess að hann varð edrú.

„Ég byrjaði að drekka tólf ára gamall. Ég og skólafélagarnir vorum að fikta við áfengi. Ég fann það strax að áfengi væri eitthvað sem hentaði mér því mér leið svo vel þegar ég drakk. Ég man hvað mér fannst það gaman,“ segir Smári. Smári stundaði íþróttir af kappi. „Íþróttirnar unnu á móti drykkjunni. Þegar ég var unglingur drakk ég stanslaust um helgar en ég var í góðu líkamlegu formi. Þegar keppnistímabilið í fótboltanum stóð yfir þá dró ég úr drykkjunni.“

Þrettán ára drakk Smári um hverja einustu helgi. „Ég mætti þunnur í fermingarfræðsluna. Á kirkjubekknum fyrir framan mig sátu kærasta mín og vinkonur hennar. Ég ældi yfir þær og það varð gríðarlegt uppnám. Ég ældi einnig á stéttina fyrir utan kirkjuna. Þegar presturinn var að kveðja okkur unglingana þá stóð hann í ælunni. Helgina eftir, í næstu fermingarfræðslu, var ekki búið að þrífa upp æluna og lyktin var viðbjóðsleg.

Mamma grátbað mig um að hætta að drekka en mér fannst það ekki koma til greina. Drykkjan var komin til að vera.“

Varð háður verkjatöflum nítján ára

Smári lenti í bílslysi þegar hann var nítján ára. Í kjölfarið fékk hann sterk verkjalyf sem hann varð fljótlega háður. „Ég reyndi að vera í fótboltanum en það var erfitt vegna bakverkja. Ég tók verkjatöflu fyrir allar æfingar og leiki. Síðan byrjaði ég að taka verkjatöflur þegar ég var að drekka.“

Smári kynntist einnig örvandi efnum á þessum tíma. „Í gegnum fótboltann kynntist ég Ripped Fuel. Það kom mér af stað fyrir leiki. Það er efedrín í Ripped Fuel og það er ólöglegt í dag. En það var mjög algengt að knattspyrnumenn fengju sér Ripped Fuel fyrir leiki. Ripped Fuel fór mjög í skapið á mér og það var erfitt fyrir mig að spila fótbolta. Ég byrjaði að kaupa hreint efedrín og varð háður því. Ég gat varla farið á fætur á morgnana án þess að fá mér efedrín. Ef ég fór í skólann án þess að fá mér efedrín var dagurinn ónýtur. Þarna var strax farið að verða ljóst hversu mikill fíkill ég er. Ég misnotaði bæði áfengi og töflur. Ég áttaði mig ekki á því að ég ætti við vandamál að stríða fyrr en ég var 37 ára.“

Lesa má viðtali við Smára í heild sinni í helgarblaði DV

Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.