„Fólk fær ekki nóg af Mamma Mia“

Nostalgíu- og Sing along-sýningar í Bíó Paradís hafa slegið í gegn

„Það er fátt skemmtilegra en að vera í fullum sal af fólki sem elskar sömu myndina og þú.“ Þetta segir Ása Baldursdóttir, dagskrárstjóri Bíó Paradísar, en svokallaðar „nostalgíu- og Sing along-sýningar“ hafa vakið mikla lukku hjá bíógestum síðustu misseri. Hugmyndin kviknaði eftir að Bíó Paradís sýndi Back To The Future-myndirnar árið 2016 á þeim dögum sem mikilvægar dagsetningar, í framtíðinni, komu fyrir í myndunum. Svo mikil eftirspurn var á sýningarnar að Ása ákvað í kjölfarið að setja fleiri „nostalgíumyndir“ í sýningu. Ása leitaði til bíógesta eftir tillögum að kvikmyndum. „Viðbrögðin voru frábær og við eina stöðuuppfærsluna á Facebook eru 800 tillögur. Við reynum að sýna þær kvikmyndir sem flestir vilja sjá. Til dæmis erum við búin að selja upp á nokkrar Sing along-sýningar á Mamma Mia. Það er tryllt. Allir syngjandi og í stuði. Fólk fær ekki nóg af Mamma Mia.“ Í haust verður boðið upp á nokkrar Sing along-sýningar í bland við ódauðlega kvikmyndasmelli á borð við Pretty Woman og Sister Act. Þá er Ása að vinna í því að fá sýningarrétt á Grease. Í desember verða svo Harry Potter-myndirnar teknar til sýningar í bland við klassískar jólamyndir á borð við Home Alone og Love Actually. „Við erum bara rétt að byrja. Veturinn verður að minnsta kosti gríðarlega góður í Bíó Paradís.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.