Þröstur Leó rifjar upp daginn örlagaríka: „Þetta var sekúndu spursmál“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Ég hugsaði með mér: það er kannski best að ég deyi bara hér,“segir Þröstur Leó Gunnarsson leikari um leið og hann rifjar upp örlagaríkan dag í lífi sínu. Þröstur Leó er einn þeirra sem bjargað var þegar fiskibáturinn Jón Hákon frá Bíldudal sökk fyrirvaralaust einn júlímorgun árið 2015. Þröstur Leó komst á kjöl og dró þá Björn Magnússon og Guðmund Rúnar Ævarsson upp úr sjónum áður en björgunin barst en fjórði maðurinn, Magnús Krisján Björnsson lét lífið.

Í viðtali við sjónvarpsþáttinn Mannamál rifjar Þröstur Leó upp atburðarásina þennan morgun en það tók hann margar tilraunir að draga félaga sína tvo upp á kjöl bátsins. Hann lýsir þeim tímapunkti þegar hann vissi að Guðmundur Rúnar væri öruggur þar sem hann gat haldið sér á floti með brúsa sem hann hafði fundið. Þröstur Leó einbeitti sér þá að því að bjarga Birni.

„Ég gat ekki teygt mig í hann. Þegar hann kemur upp er hann fullur af sjó. Lungun og allt fullt. Þannig að þetta var sekúndu spursmál. Ég kasta mér niður og hangi á einhverri nibbu á skrokknum og næ að teygja annan fótinn til hans. Þannig að hann náði að grípa í stígvélið og hékk þar og þá kom smá sjór upp úr honum. Þannig að hann náði pínulitlum andardrætti, bara til að fá súrefni.“

Þremenningarnir máttu bíða á kjöl skipsins í rúma klukkustund. Þröstur Leó lýsir því hvernig hann var orðinn úrkula vonar eftir að hann hafði séð glitta í bátinn Mardísi sem síðan hvarf þeim sjónum. Gerði Þröstur Leó þá ráð fyrir að nú væri hans síðasta stund runnin upp.

„Þá missti ég alveg vonina, hún fjaraði út,“ segir Þröstur Leó en síðar átti Mardís eftir að breyta um stefnu og koma þeim félögum til bjargar. Björgunarafrek Þrastar vakti þjóðarathygli og var hann til að mynda valinn maður ársins 2015 af hlustendum og lesendum Bylgjunnar og Vísis.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.