fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fókus

Þetta myndi Sævar gera ef hann hitti geimveru

Leit að lífi á öðrum hnöttum – Örverur algengari en vitsmunalíf

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 29. október 2017 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sævar Helgi Bragason, sjónvarpsmaður og stjörnuáhugamaður, hefur löngum starað út í himingeiminn og velt því fyrir sér hvort líf sé að finna á öðrum hnöttum. Um miðjan nóvember kemur út bók hans Geimverur: Leitin að lífi í geimnum, þar sem fjallað er um eina stærstu spurningu sem mannkynið stendur frammi fyrir: Erum við ein?

Tölfræðin talar

Sævar segir bókina ekki vera þunga fræðibók. „Þetta er aðgengileg vísindaheimspeki fyrir áhugafólk á öllum aldri. Mig langaði að skrifa bók sem ég sjálfur hefði viljað lesa þegar ég var tíu til tólf ára gamall. En hún er einnig fyrir fullorðið fólk.“ Sævar, sem er þekktur fyrir að fræða börn um geiminn og vísindi, segist hafa haft brennandi áhuga á geimverum síðan hann var fimm ára gamall. Sá áhugi hefur ekkert dofnað. „Mér finnst ekkert jafn áhugavert og leitin að lífi í geimnum.“

Aðspurður segist Sævar sannfærður um að líf sé til staðar á öðrum hnöttum. „Ég hef auðvitað ekki séð það og hef engin sönnunargögn fyrir því, en út frá tölfræðinni hlýtur að vera til líf annars staðar. Þegar við horfum út í geiminn þá sjáum við hráefni lífs alls staðar. Við sjáum reikistjörnur í öðrum sólkerfum nánast hvert sem við lítum, þvílíkan aragrúa að það er nánast ómögulegt að líf þrífist ekki annars staðar en hér. Stóra spurningin er hins vegar sú hvort um sé að ræða vitsmunalíf eða eitthvað mun einfaldara.“

Var líf á Mars og Venus?

En hvar gæti slíkt líf fundist? Sævar segir að staðir þurfi að uppfylla viss skilyrði til að þar þrífist líf. „Við þurfum fljótandi vatn. Sem stendur vitum við einungis um einn stað í okkar sólkerfi sem hefur það á yfirborðinu, Jörðina. Það eru þó tveir aðrir staðir sem fljótandi vatn gæti fundist undir ís, tunglin Evrópa við Júpíter og Encelades við Satúrnus. Lífið þarf einnig orku, annaðhvort jarðhita eða frá sólu og síðast en ekki síst næringarefni. Í okkar sólkerfi eru því þrír staðir sem líf getur þrifist á núna.“

„Upphaflega gætu því hafa verið þrjár lífvænlegar plánetur í okkar sólkerfi.“

Pláneturnar Mars og Venus bera þess báðar merki að hafa verið lífvænlegar á einhverjum tímapunkti. Sævar segir suma velta því fyrir sér hvort líf geti enn þrifist á Mars, undir yfirborðinu. „Við höfum enn sem komið er engar sannanir fyrir því að líf hafi þrifist á Mars en við erum að leita. Við fylgjum vatninu og sjáum ummerki þess að Mars hafi á einhverjum tíma verið rennandi blaut pláneta. En svo breyttist Mars og í dag virðist hún lífssnauð. Mars hefur örþunnan lofthjúp en út frá landslagsfyrirbærunum sjáum við að hann var eitt sinn mun þykkari.“ Þar sem Mars hefur ekkert segulsvið hafa vindar sólarinnar feykt lofthjúpnum smám saman út í geiminn. Landslagsummerki um vatn er einnig að finna á Venus en þar þykknaði lofthjúpurinn og hitastigið hækkaði úr 40–50 gráðum í tæplega 500. „Upphaflega gætu því hafa verið þrjár lífvænlegar plánetur í okkar sólkerfi.“

Nanógeimför til annarra sólkerfa

En ef við finnum ekki líf annars staðar í okkar sólkerfi er nóg af öðrum plánetum í vetrarbrautinni. Vandamálið er hins vegar hinar stórkostlegu vegalengdir. Sævar segir að vitað sé um margar lífvænlegar plánetur í öðrum sólkerfum, eða að þær séu að minnsta kosti í ákjósanlegri fjarlægð frá sinni sól. „Nálægasta lífvænlega plánetan er hér rétt handan við hornið í næsta sólkerfi, Proxima Century B. Uppi eru hugmyndir um að senda þangað einhvers konar nanógeimför sem gætu náð um 20 prósent af ljóshraða. Það myndi stytta ferðatímann úr 70.000 árum niður í um það bil 80 ár.“

„Nálægasta lífvænlega plánetan er hér rétt handan við hornið í næsta sólkerfi, Proxima Century B.“
Leitin mikla „Nálægasta lífvænlega plánetan er hér rétt handan við hornið í næsta sólkerfi, Proxima Century B.“

Sævar segir allar lausnir mögulegar svo lengi sem lögmál eðlisfræðinnar séu ekki brotin. Í kvikmyndum sjáum við geimför stökkva milli sólkerfa og geimfara liggja í frosthylkjum. „Þetta er langt handan við tæknilega getu okkar eins og er og það eru ábyggilega áratugir, hundruð eða jafnvel þúsundir ára þar til við getum tekist á við slík vandamál.“ Ormagöng er önnur leið sem hefur verið nefnd. „Tæknilega séð gætum við búið til gat í tímarúmið til að stytta okkur leið á milli staða. En við vitum ekki enn hvort það sé mögulegt að halda þeim opnum.“

Ekki taka í höndina á geimveru

Þegar geimverur eru nefndar fá flestir mynd í kollinn af grárri eða grænleitri, mjórri veru með stór egglaga augu. Þannig geimveru má sjá á bókarkápu Sævars en hún er einungis arfleifð skáldskapar og þjóðsagna. „Ég held að það séu mestar líkur á því að við getum fundið örverur. Það er einfaldasta lífið sem til er en síðan þarf lífið að halda af stað og þróast. Þá þurfa aðstæður að vera réttar og handahófskenndar breytingar á erfðaefni að gerast til að líf mótist. Ég held að örverulíf sé miklu algengara í alheiminum heldur en vitsmunalíf. En ég vona innilega að það séu til aðrir stjörnufræðingar og önnur forvitin menningarsamfélög þarna úti sem eru þar að auki friðsæl svo við þurfum ekki að óttast innrás.“

Hann segir að þessi sígilda mynd af geimverum hafi orðið til um miðja síðustu öld þegar geimverur fóru að birtast í kvikmyndum. Þar áður ímynduðum við okkur litla græna karla frá Mars. Sjálfur er Sævar mikill áhugamaður um geimverur í kvikmyndum. „Star Wars eru alltaf mjög skemmtilegar og Star Trek sömuleiðis. En uppáhaldsbíómyndin mín um geimverur er Contact sem byggir á bók eftir Carl Sagan. Ástæðan er sú að hún er frekar raunsönn lýsing á því hvernig við myndum bregðast við ef geimverur hefðu samband við okkur. Önnur nýleg mynd sem er einnig frábær er Arrival sem fjallar um það hvernig við gætum átt samskipti við vitibornar verur.“ Hann hefur einnig gaman af E.T. „Hann er svo góður og ég kann að meta góðar geimverur. Ég þoli ekki stríðsóðar geimverur eins og birtast í Independence Day.“

En hvað myndi Sævar gera ef hann stæði einn daginn frammi fyrir vitiborinni geimveru? „Það myndi ábyggilega líða yfir mig. Ég yrði bæði frekar smeykur en einnig forvitinn á sama tíma. Ég myndi til dæmis ekki rétta fram höndina og heilsa henni því hún gæti litið á það sem ógn. Ég myndi þurfa að finna einhverja leið til að eiga samskipti við hana með því að rétta upp höndina eða þvíumlíkt.“ Hann telur þó afar ólíklegt að hann muni nokkurn tímann þurfa að standa frammi fyrir þessu vandamáli.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

8 ára drengur með heilaæxli steig á svið – Sjáðu atriðið sem hreyfði við Simon Cowell

8 ára drengur með heilaæxli steig á svið – Sjáðu atriðið sem hreyfði við Simon Cowell
Fókus
Fyrir 2 dögum

J. Lo loksins laus við slottið – 7 ár í sölu og verðmiðinn lækkaður um milljónir

J. Lo loksins laus við slottið – 7 ár í sölu og verðmiðinn lækkaður um milljónir
Fókus
Fyrir 2 dögum

Grunaði að eiginkonan væri að halda framhjá – „Sannleikurinn var tvöfalt verri“

Grunaði að eiginkonan væri að halda framhjá – „Sannleikurinn var tvöfalt verri“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sviplegt fráfall samfélagsmiðlastjörnu skekur netheima – „Ég skil þetta ekki, ég var með henni á föstudaginn“

Sviplegt fráfall samfélagsmiðlastjörnu skekur netheima – „Ég skil þetta ekki, ég var með henni á föstudaginn“