fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fókus

Ingó Geirdal: Rokkið, töfrarnir og stafur Chaplins

Lærði nördismann af föður sínum – Reyndi sjálfsvíg

Kristinn H. Guðnason
Fimmtudaginn 26. október 2017 22:22

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar stigið er inn fyrir gættina á heimili Ingós Geirdal í Þverholtinu verður manni ljóst að hér býr mikill safnari. Innrammaðar ljósmyndir, plaggöt og teikningar hanga á veggjunum og flestar áritaðar. Mest áberandi eru myndir tengdar rokkhljómsveitinni Alice Cooper, þar á meðal tvær ljósmyndir af Ingó og rokkgoðinu sjálfu. Einnig hanga þar myndir af kvikmyndastjörnunni Charlie Chaplin og einn glerskápur er fullur af munum tengdum honum. „Þetta er nú frekar látlaust núna vegna þess að ég hef flutt oft á undanförnum árum. Áður fyrr var ég með tvo veggi undir Alice Cooper og tvo undir Chaplin.“ Með aldrinum hefur Ingó að mestu leyti hætt að flagga söfnum sínum en hver einasti munur er þó enn til í geymslu. Þrátt fyrir meint látleysi er íbúðin ákaflega tilkomumikil og segir mikla sögu.

Auk þess að vera forfallinn safnari hefur Ingó verið töframaður og gítarleikari í rokkhljómsveitum í meira en þrjá áratugi. Hann lærði tækniteiknun í Iðnskólanum og starfar nú hjá skiltagerðinni Lógóflex. „Ég vinn fulla vinnu og er með töfrasýningar og tónleika um helgar. Það er nóg að gera hjá mér.“

Nánir bræður

Ingólfur Hjálmar Ragnarsson Geirdal er fæddur 9. maí árið 1968 í Reykjavík, elsti sonur Ragnars Geirdals og Jennýjar Sigurðardóttur. Fyrstu fimm árin bjó hann í Bústaðahverfinu en flutti þá í Breiðholtið sem var að byggjast hratt upp. „Ég er einn af upphaflegu Breiðholtsvillingunum. Maður mótast af umhverfinu og aðstæðunum og ég held enn þá góðu sambandi við þá vini sem ég kynntist á þessum tíma.“ Síðan hefur Ingó búið í Reykjavík alla tíð ef frá eru talin þrjú ár í Svíþjóð.

Hann á tvö yngri systkini, Kolbrúnu Svölu og Sigurð (Silla). Ingó og Silli hafa verið samferða í tónlistinni síðan í æsku en fimm ár eru á milli þeirra. „Þessi aldursmunur skipti meira máli þegar ég var unglingur en hann barn en við höfum alltaf verið mjög nánir. Þegar ég fermdist árið 1982 fékk ég í gjöf utanlandsferð til frænku minnar sem bjó þá í Seattle. Ég fór þangað með fermingarpeningana og keypti mér rafmagnsgítar, fimmtíu rokkplötur og bassa handa Silla. Þarna var lagður grunnurinn að okkar samstarfi.“ Þeir bræður eru mjög svipað þenkjandi í tónlistinni en Silli hefur þó breiðari smekk. „Við höfum alltaf átt mjög auðvelt með að semja tónlist saman.“

Ingó segir að móðir þeirra, sem vinnur við heimahjálp, hafi reynst þeim bræðrum mjög góður bakhjarl í tónlistinni. „Hún mætir oft á tónleikana okkar, skutlar okkur og hjálpar á ýmsa vegu.“ Hann segist hins vegar hafa lært „nördismann“ af föður sínum sem er bifvélavirki og gerir upp fornbíla. „Ég hef engan áhuga á bílum og hann engan áhuga á þungarokki. En við gefum okkur alla í það sem við höfum áhuga á. Svo höfum við eitt sameiginlegt áhugamál sem er Chaplin. Hann fór með mig fjögurra ára gamlan í Hafnarbíó til að sjá Nútímann og þar kviknaði neistinn.“

„Hann fór með mig fjögurra ára gamlan í Hafnarbíó til að sjá Nútímann og þar kviknaði neistinn.“

Dýrgripir frá Chaplin

Chaplin-safn Ingós er með nokkrum ólíkindum. Krúnudjásnið er bambusstafur sem Chaplin gaf frá sér eftir tökur á kvikmyndinni Borgarljós árið 1931. Þann staf keypti Ingó á uppboði hjá Christie’s í London og auðvelt er að staðfesta uppruna hans því líkt og fingraför er enginn bambus eins. Stafurinn hangir uppi á vegg við hlið tveggja áritaðra ljósmynda af Chaplin frá árunum 1915 og 1933. „Þær eru báðar frummyndir. Ég fór með þær til Jóhannesar Long ljósmyndara sem hefur unnið við að gera upp myndir. Pappírinn er frá þessum tíma og skemmdirnar í þeim myndu ekki koma fram ef þetta væru afrit. Það sést á yngri myndinni að ljósmyndarinn hefur litað með brúnum blekpenna yfir gráu hárin. Jóhannes var fljótur að sjá þetta.“ Ingó segist hafa borgað töluvert fyrir stafinn og myndirnar en ekkert í líkingu við það sem munir á borð við þessa fara á í dag. Þessir munir voru keyptir í vinsældalægð Chaplins, áður en kvikmynd leikstjórans Richards Attenborough gerði hann aftur vinsælan. Vitaskuld eru gripirnir tryggðir í bak og fyrir.

Charles Chaplin lék í 81 kvikmynd, sem hafa varðveist, og Ingó á þær í öllum útgáfum, átta og sextán millimetra filmum, VHS-spólum, laser-diskum, DVD-diskum og BluRay-diskum. „Ég er alltaf að kaupa eitthvað inn í safnið. Þegar nýtt form kemur eru myndirnar hreinsaðar upp og gæðin verða betri.“ Ingó á einnig ógrynni bóka, ljósmynda, hljómplatna og bréfa sem hann hefur sankað að sér síðastliðin þrjátíu ár. „Þegar ég byrjaði á þessu var ekki komið neitt internet og ég var stanslaust í bréfaskriftum við aðra safnara um allan heim.“

Þá hefur hann einnig verið í sambandi við meðleikara Chaplins og fjölskyldu hans, meðal annarra Claire Bloom sem lék í Sviðsljósi (1952) og tvö börn hans úr síðasta hjónabandinu, Michael og Victoriu. Victoria kom til Íslands á Listahátíð árið 1998 með sýningu sem nefndist Ósýnilegi sirkusinn. „Einn daginn fékk ég símhringingu frá henni því þá var hún búin að frétta að ég ætti stafinn. Hún bauð mér á sýninguna og ég þáði það, en auðvitað var ég búinn að fara á sýninguna áður.“

En af hverju er Ingó svo heltekinn af Chaplin? „Mér finnst hann einn magnaðasti listamaður mannkynssögunnar. Margir líta á hann eingöngu sem gamanleikara en hann var einnig dramatískur og með harðar ádeilur á samtímann. Hann var handritshöfundur, leikstjóri, framleiðandi og lagahöfundur. Hann var einstakur alhliða listamaður og ég held að það muni aldrei koma fram neinn slíkur aftur.“

Töframaður í 40 ár

Ingó fékk snemma áhuga á töfrabrögðum og byrjaði að æfa þau tíu ára gamall. Einn helsti áhrifavaldurinn var Baldur Brjánsson sem var þá eini starfandi töframaðurinn á Íslandi. „Hann kom fram í sjónvarpinu og skar upp fólk með berum höndum.“ Á þessum tíma flykktist fólk, þar á meðal margir Íslendingar, til Filippseyja til að fá lækningu hjá kraftaverkalæknum sem gátu framkvæmt uppskurði án hnífa. „Baldur sagði fólki að þetta væru einungis töfrabrögð og enginn læknaðist í raun og veru. Fólk reiddist honum fyrir þessi ummæli en síðan sýndi hann fram á þetta sjálfur.

Tíu ára gamall hringdi ég í Baldur og sagði honum að við værum kollegar og þyrftum því að hittast og ræða málin. Hann hló að mér fyrst en ég gafst ekki upp. Baldur kenndi mér mikið og við komum fram í sjónvarpsþáttum saman. Við erum enn þá góðir vinir.“ Í gegnum Baldur Brjánsson kynntist Ingó einnig Baldri Georgs, töframanni og búktalara, sem var þá hættur að koma opinberlega fram. „Hann gaf mér stóran hluta af töfrabókasafninu sínu, undirstrikað og með glósum, og það hefur nýst mér vel í gegnum tíðina.“ Konni, dúkkan dónalega sem Baldur varð frægur fyrir að tala fyrir, var þá geymdur í tösku undir rúminu.

„Í þessum heimi er sagt að bestu töframennirnir séu þeir sem kunna að fela mistök sín.“
Töframaður „Í þessum heimi er sagt að bestu töframennirnir séu þeir sem kunna að fela mistök sín.“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Ingó hafði lítinn áhuga á búktali en segist hafa náð töluverðri færni í bæði spilagöldrum og beygingu borðbúnaðar, tækni sem ísraelski sjónhverfingamaðurinn Uri Geller vakti mikla athygli með á sínum tíma. Ingó vílar það ekki fyrir sér að sýna blaðamanni þessa tækni. Hann tekur upp gaffal og nuddar á honum hálsinn, síðan snýr hann upp á gaffalinn og mótar hann eins og gúmmí. Öll náttúrulögmál virðast víkja fyrir mætti töframannsins.

Til að byrja með sýndi Ingó hér á landi en árið 1986 kom hann fram á Nordisk Magi-Kongress í Stokkhólmi, aðeins 18 ára gamall. Hann hefur sýnt töfra víða um heim, meðal annars í Ameríku og Asíu. Á árunum 2007 til 2010 vann hann einvörðungu við að sýna töfrabrögð. „Ég flutti til Gautaborgar með þáverandi kærustu minni sem hafði búið í Svíþjóð í fjögur ár. Við höfðum þekkst sem vinir síðan 2001 en árið 2007 fórum við að vera saman. Í Svíþjóð lifði ég á því að sýna töfrabrögð á skemmtiferðaskipi sem sigldi á milli Gautaborgar og Fredrikshavn í Danmörku.“ Þau slitu þá samvistir en ávöxtur sambandsins var dóttirin Katrín Jenný, fædd 2008. Ingó er mjög stoltur af dóttur sinni og sýnir blaðamanni mynd sem hún teiknaði af Chaplin. Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni.

Aðspurður segist Ingó stundum gera mistök í töfrasýningunum en það séu viðbrögðin sem skipti mestu máli. „Partur af ferlinu er að læra af mistökunum. Ég er búinn að stúdera atriðin mín frá svo mörgum hliðum að ef eitthvað fer úrskeiðis þá get ég tekið það í aðra átt og endirinn verður alltaf farsæll. Áhorfendur vita hins vegar ekki alltaf hvernig atriðið átti að vera. Í þessum heimi er sagt að bestu töframennirnir séu þeir sem kunna að fela mistök sín.“ Það eigi einnig við um aðra listamenn sem komi fram. „Ef maður bregst vel við aðstæðunum geta komið upp atvik sem verða þau eftirminnilegustu fyrir áhorfendurna. Ef við tökum sem dæmi línudansara sem er allt í einu alveg við það að detta, þá verður atriðið fyrst virkilega spennandi.“

Sigur í Músíktilraunum og bann í Kóreu

Ingó segir að það hafi ekki alltaf verið draumur hans að verða gítarleikari en það hafi alltaf verið takmarkið að spila í rokkhljómsveit. Upphaflega langaði hann að spila á trommur en aðstæðurnar leyfðu það ekki. Hann sótti félagsmiðstöðina Fellahelli stíft og þar var ekkert trommusett, en þar var aftur á móti gítar. „Ég hugsaði sem svo að það væri sniðugt að læra á gítar því þá gæti ég einnig æft þá fingrafimi sem ég þarf fyrir töfrana.“

Á þessum tíma var Bíóhöllin í Mjódd nýopnuð og þar var sýnt tónleikamyndband áströlsku rokkhljómsveitarinnar AC/DC, Let There Be Rock (1980). „Þá varð ég fyrir miklum áhrifum frá gítarleikaranum Angus Young. Þegar ég eignaðist sjálfur gítar hóf ég strax að semja lög og texta. Ég hef alltaf þurft að æfa mig mikið til að ná færni á gítarinn en það er mér eðlislægara að semja.“ Ingó hóf þá nám í klassískum gítarleik við Tónlistarskóla Sigursveins. „Það var ekki hægt að læra þungarokks gítarleik heldur einungis klassík eða djass. Það höfðaði ekkert sérstaklega til mín en ég bý alltaf að tónfræðigrunninum.“

Fyrsta hljómsveitin sem Ingó stofnaði hét Paranoid sem varð síðar að Gypsy. „Við tókum þátt í Músíktilraunum árið 1985 og unnum. Það átti enginn von á því að þungarokkhljómsveit gæti unnið. Við sigruðum þarna hljómsveit sem nefndist Special Treatment sem sigraði síðan ári seinna sem Greifarnir.“ Gypsy kom fram á stórum tónleikum í Laugardalshöll en gaf aldrei út plötu og hætti skömmu síðar.

Árið 1991 stofnaði hann hljómsveitina Stripshow með Silla bróður sínum. Þeir náðu nokkrum vinsældum og gáfu út plötu árið 1996. Sú plata náði út fyrir landsteinana og var meðal annars gefin út í Japan og Suður-Kóreu. „Við urðum alræmdir í Kóreu, bæði fyrir nafn hljómsveitarinnar og textana. Það var mikið fjallað um okkur í þarlendum tónlistartímaritum en við fórum aldrei þangað út. Við vorum bannaðir og máttum ekki spila þarna.“

Túraði með Alice Cooper

Undir lok tíunda áratugarins lognaðist Stripshow út af en eins og margir skilnaðir tók það nokkur ár. Þá komst Ingó í kynni við Michael Bruce og Dennis Dunaway, upprunalega meðlimi úr hljómsveit Alice Cooper. „Ég kynntist þeim úti í Bandaríkjunum og við ákváðum að fara saman í tónleikaferðalag. Þetta var algjör draumur. Ég var með plaggöt af þessum mönnum uppi á vegg sem unglingur og var nú allt í einu farinn að spila þessa tónlist með mönnunum sem sömdu hana.“ Þeir spiluðu mest í Bandaríkjunum og ferðuðust um á skutbíl með kerru. Stærsta stundin var sú þegar þeir komu fram á hinum sögufræga klúbb Whiskey-a-Go-Go í Los Angeles, staðnum þar sem Alice Cooper og Led Zeppelin spiluðu saman árið 1969. „Það var einstakt að standa á þessu sviði – þar sem þeir hófu sinn feril.“

Ingó hefur séð Alice Cooper hátt í þrjátíu sinnum á tónleikum yfir ævina og nokkrum sinnum hitt karlinn sjálfan. „Þeir eru að koma saman aftur núna og spila á fimm tónleikum í Bretlandi. Ég er að sjálfsögðu að fara á þá alla. Þessi áhugamál sem ég hef tileinkað mér hafa haft þá tilhneigingu að fara út í öfgar. Maður tekur þetta alla leið.“ Hann hefur haldið reglulegu sambandi við flesta meðlimi Alice Cooper en gítarleikarinn Glen Buxton lést fyrir tuttugu árum.

Á einum veggnum hanga fimm handteiknaðar myndir af meðlimum Alice Cooper eftir Ingó sjálfan. Þessar myndir voru gefnar út með einni plötu hljómsveitarinnar og ein myndin var notuð í bók um hljómsveitina. „Ég á sviðsföt frá karlinum, handskrifaða lagatexta frá 1978 til 2005, alls kyns sviðsmuni og fleira.“ Þegar hljómsveitin gaf út plötusett árið 2011 skaffaði Ingó stóran hluta af demó-upptökum sem þeir sjálfir höfðu glatað. Ein stærsta stundin kom svo árið 2005 þegar Dimma, núverandi hljómsveit Ingós, hitaði upp fyrir rokkgoðið á tónleikum í Kaplakrika í Hafnarfirði.

„Það var einstakt að standa á þessu sviði – þar sem þeir hófu sinn feril.“
Rokkari „Það var einstakt að standa á þessu sviði – þar sem þeir hófu sinn feril.“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Íslenskan einlægari

Dimma var stofnuð árið 2004 og hugmyndin bak við hljómsveitina var alveg skýr frá upphafi. „Ég vildi stofna band sem hafði kraftinn frá Rage Against the Machine, þungann frá Black Sabbath og melódíuna úr því klassíska rokki sem ég og Silli bróðir ólumst upp við að hlusta á.“ Til að byrja með fór frekar lítið fyrir hljómsveitinni en hún gaf þó út tvær plötur og spilaði bæði í Bandaríkjunum og í Rússlandi. Líkt og hjá Stripshow voru allir textarnir á ensku. „Ég var lengi haldinn þeirri ranghugmynd að enskan væri móðurmál rokksins og því sömdum við á ensku.“ Hann segir að áður fyrr hafi allar íslenskar hljómsveitir sem vildu „meika’ða“ sungið á ensku, til dæmis Jet Black Joe sem náði nokkrum vinsældum erlendis.

Það var trommuleikari Dimmu, Birgir Jónsson, sem kom með hugmyndina að því að prófa íslenskuna. „Ég samdi íslenskan og enskan texta við nýtt lag og við gáfum það út á báðum tungumálunum, sem Crucifixion og Þungur kross. Fólk tengdi strax við íslensku útgáfuna og það lag gerði mjög mikið fyrir okkur. Við endum enn þá alla tónleika á því lagi. Eftir þetta var ekki aftur snúið og síðan hafa allar okkar plötur verið á íslensku. Íslenskan gerði það að verkum að fólk tengdi betur við tónlistina og fannst hún einlægari.“ Ingó hlýnar um hjartarætur þegar hann segist hafa hitt aðdáendur með textabrot Dimmu flúruð á líkamann. „Mér finnst þetta æðislegt, að sjá flúraðan texta sem ég hef samið hérna í sófanum.“

Meðlimir Dimmu eru ákaflega ólíkir og með ólíkan bakgrunn en þeir sameinast í tónlistinni. „Biggi, sem starfar sem framkvæmdastjóri, hefur mikla þekkingu á markaðsfræði og sér um öll peningamál hljómsveitarinnar. Silli bróðir hefur mjög gott eyra fyrir tónlist og sér upp upptökurnar. Hann hannaði einnig merki sveitarinnar. Ég kem inn sem afkastamesti laga- og textahöfundurinn en allir semjum við þó eitthvað. Stebbi Jak söngvari og ég náum svo vel saman með sjónræna hlutann.“

Dimma er einmitt orðin mjög þekkt fyrir sviðsframkomuna, skrautlega búninga, ljósin, eldinn og sprengingarnar. „Það hefur lengi loðað við þá tónlistarmenn sem gera eitthvað sjónrænt, eins og til dæmis Kiss, Alice Cooper eða Rammstein, að þeir séu að reyna að bæta upp fyrir vankunnáttu í tónlist. En sagan hefur sýnt að tónlist þeirra stendur fyrir sínu og lifir enn. Fyrir mér hefur þetta alltaf verið rjóminn ofan á kökuna. Það er ekki gaman að horfa á tónleika þar sem allir lúta höfði, þá getur maður alveg eins setið heima og hlustað á diskinn. Það þarf eitthvað til að grípa augað, sérstaklega á þessum tíma þar sem er endalaust framboð á skemmtiefni.“ Ingó segir þá hafa gengið langt í gera tónleikana eftirminnilega fyrir áhorfendur. „Eitt sinn héldum við tónleika í Háskólabíói og við vorum búnir að panta svo mikið af sprengjum að við urðum að borga undir fullmannaðan slökkviliðsbíl sem var til taks fyrir utan. En það var vel þess virði.“

Losnar aldrei við þunglyndið

Ingó og félagar hans í Dimmu hafa talað opinskátt um geðheilbrigðismál og þunglyndi á undanförnum árum. „Þetta stendur okkur nærri. Sjálfur hef ég barist við þunglyndi frá barnæsku.“ Þegar Ingó var sex ára gamall fór hann að finna fyrir sjúkdómnum en hann var ekki sá eini í fjölskyldunni. Faðir hans hefur einnig þurft að glíma við þunglyndi. „Fyrir mér er þetta fötlun. Þetta er geðsjúkdómur sem maður ræður ekkert við. Leið mín út úr honum er tónlistin, töfrarnir og önnur áhugamál mín.“

Baráttan við þunglyndið kemur sterkt fram í textunum sem hann skrifar. Lög eins og Myrkraverk, Illur arfur og Næturdýrð eru dæmi um lög sem bera þess merki. „Ég á aldrei eftir að losna við þetta. Ég er búinn að vera langt niðri undanfarið en svo koma tímabil þar sem ég er mjög góður og í jafnvægi. Þetta er ekkert endilega háð aðstæðum eða umhverfi. Stundum kemur þetta upp hjá manni þegar manni er að ganga allt í haginn. Maður finnur samt enga ánægju eða tilhlökkun, í besta falli doða. Þá gerir maður sér grein fyrir því hversu sjúkt ástand þetta er því það er allt sem segir mér að mér ætti að líða vel. Þetta er magnaður og óhugnanlegur sjúkdómur.“ Ingó hefur aldrei lagst inn á geðdeild en hann hefur leitað til sálfræðinga. „Þegar ég er niðri loka ég mig af félagslega, mér finnst best að takast á við þetta sjálfur.“

„Ég var þá á þunglyndislyfjum og sturtaði úr öllu glasinu ofan í mig.“

Á þessu ári hefur gengið yfir mikil sjálfsvígsbylgja í íslensku þungarokksenunni. Fimm ungir menn hafa svipt sig lífi síðan í apríl en þetta er alls ekki nýtt vandamál. Ingó segir marga af hans æskufélögum hafa valið þá leið að svipta sig lífi og að Silli bróðir hans hafi misst sinn besta vin þegar hann var átján ára gamall. „Ég ætlaði sjálfur að fara þessa leið þegar ég var 32 ára en það mislukkaðist sem betur fer. Ég var þá á þunglyndislyfjum og sturtaði öllu úr glasinu ofan í mig. Það hefði getað farið illa en skammturinn var blessunarlega ekki nógu stór. Ef það hefði gerst þá hefði ég aldrei látið þessa tónlistardrauma mína rætast og ég hefði aldrei eignast dóttur mína. Flest það besta sem ég hef upplifað hefur gerst í seinni tíð.“

Ingó segist hafa lært að berjast gegn þunglyndinu með árunum. „Þetta hamlar mér að mörgu leyti en ég skammast mín hins vegar ekkert fyrir þetta. Maður á ekki að skammast sín fyrir eitthvað sem maður ræður ekki við, ef það skaðar ekki aðra. Þetta er sjúkdómur sem fer ekki í manngreinarálit. Tökum sem dæmi Chris Cornell, rokkstjörnu með heiminn í höndum sér og fjölskyldumann. Sjálfsvíg hans sló alla.“ Ingó segir þunglyndi sjúkdóm sem byggist fyrst og fremst á ranghugmyndum. „Fólk getur ekki sett sig inn í þetta ef það þekkir þetta ekki af eigin raun. Það er mjög erfitt að tala við manneskju sem er á þessum stað. Margir deyfa þetta með lyfjum en aðrir fá útrás í öðru, til dæmis tónlist.“ Það er sú leið sem hann sjálfur hefur farið. „Ég held að ég sé dæmi um að maður á aldrei að gefast upp. Maður verður að passa sig á því að láta þetta ekki ná tökum á manni og ég er sannfærður um að dauðinn er aldrei leiðin því dauðinn er endanleg lausn á tímabundnu vandamáli. Það kemur alltaf dagur eftir þennan dag og maður á að láta drauma sína rætast, alveg sama þótt öðrum finnist þeir fáránlegir.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við
Fókus
Fyrir 3 dögum

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Hver verður næst?“

„Hver verður næst?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“