Í þessu fagi er ekki hægt að vera rola

„Ég er ekki eins upptekinn af sjálfum mér og ég var í gamla daga og hugsa meira til náungans.“
Björgvin í Rokksafninu „Ég er ekki eins upptekinn af sjálfum mér og ég var í gamla daga og hugsa meira til náungans.“
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Í Rokksafni Íslands í Reykjanesbæ stendur yfir sýning um Björgvin Halldórsson. Kolbrún Bergþórsdóttir hitti söngvarann ástsæla í Rokksafninu og ræddi við hann um ferilinn, fjölskylduna, pólitík, trúmál og verkefnin sem eru framundan.

Sýningin í Rokksafninu um Björgvin Halldórsson hefur yfirskriftina Þó líði ár og öld. Ferill Björgvins hefur verið afar farsæll og hann söng með hljómsveitum eins og Bendix, Flowers, Ævintýri, Hljómum, Brimkló, HLH-flokknum og fleirum. Á sýningunni má sjá fjölmarga muni úr eigu hans, þar á meðal glæsilegt gítarsafn, föt sem hann hefur klæðst á tónleikum, myndir, plaköt, plötur, myndbönd, textablöð og fleira. Björn G. Björnsson, samstarfsmaður Björgvins, setti upp sýninguna ásamt honum. Sýningin stendur fram á næsta ár.

„Það er mjög sérstakt að ganga um þessa sýningu. Saga mín er á þessu safni. Ég hugsa til liðins tíma og geri mér um leið grein fyrir því að það sem ég hef afrekað hef ég ekki gert einn. Mér verður hugsað til allra þeirra frábæru samstarfsmanna sem ég hef unnið með í gegnum tíðina og eiga stóran hlut í velgengni minni,“ segir Björgvin. „Ég er enn að halda tónleika þar sem alltaf er fullt hús, er enn að spila og er enn í stúdíóinu. Ég hef aldrei verið í meira stuði. Það er ekki sjálfgefið heldur óskaplega þakkarvert og ég er fullur auðmýktar.“

Þegar þú lítur til baka finnst þér þú hafa breyst mikið sem manneskja? Hvernig var ungi maðurinn og hvernig ertu núna?

„Ungi maðurinn hélt að hann myndi lifa að eilífu. Með árunum þroskast maður, verður pólitískari og skoðanir manns verða mótaðri, einfaldlega vegna þess að maður hefur öðlast lífsreynslu. Ég hef að sjálfsögðu breyst og vonandi til hins betra. Lífsgildin eru önnur og áherslurnar eru aðrar. Ég er ekki eins upptekinn af sjálfum mér og ég var í gamla daga og hugsa meira til náungans. Ég er alltaf að reyna að verða betra eintak af sjálfum mér. Ég reyni að láta gott af mér leiða og hjálpa ef ég get hjálpað.“

Hverjum hjálparðu?

„Þeim sem eiga bágt og þarfnast aðstoðar. Ég gef í safnanir og syng í góðgerðarskyni. Mér finnst það meira en sjálfsagt, það er hluti af lífsskoðunum mínum. Ég elska mannúð og trúi á það að vera sannur sjálfum mér.“

Baráttan við hrekkjusvínin

Það er ekki laust við að töffaraímynd hafi fylgt þér í gegnum tíðina og þú ert þekktur fyrir að vera snöggur að svara fyrir þig. Er töffaraskapurinn brynja eða kannski bara leikur?

„Ef maður er í hljómsveit verður maður að vera smá töffari. Í þessu fagi er ekki hægt að vera rola. Sumum finnst ég vera með nefið upp í loftið og stundum heyri ég sagt að ég sé hrokafullur. Það er ekki rétt, ég er alls ekki hrokafullur. Ég geri hins vegar miklar kröfur til fólks í kringum mig, en það eru alveg sömu kröfur og ég geri til sjálfs mín.

Fyrst þú talar um brynju þá eru allir með brynjur eða grímur. Svo er sálin þarna fyrir innan. Mín brynja held ég að hafi mótast í gamla daga þegar ég var í barnaskóla. Þá var ég lítill vexti og þurfti að standa uppi á kassa á bekkjarmyndinni til að sjást. Þetta truflaði mig ekki mikið því ég átti afskaplega góða vini og góða æsku.

Svo lenti ég í því að stórir strákar lögðu mig í einelti eins og það heitir í dag. Í gamla daga hétu svona guttar hrekkjusvín. Þá var ekki talað um einelti, það var ekki gert fyrr en einhver sálfræðingur í Svíþjóð eða Bandaríkjunum fann upp orðið. Ég varð dálítið fyrir barðinu á hrekkjusvínunum og varð einhvern veginn að bregðast við og þá notaði ég bara kjaftinn. Ég sagði ýmislegt við stóru strákana, stakk upp í þá þannig að þeir göptu og spurðu: Hvað er þessi litli naggur eiginlega að segja? Þetta voru einlínungar, „oneliners“, úr kanasjónvarpinu, þáttum eins og Combat, Bonanza, Gunsmoke og Hollywood Palace. Ég dembdi þeim yfir þá og svo notaði ég bara fæturna, hljóp burt eins og fætur toguðu.“

Viltu lesa meira? Þú getur strax lesið þessa grein og aðrar í heild sinni hér á DV.is með því að ýta á „Sjá meira“ og nýta þér hagstæða áskriftartilboð frá aðeins 928 kr. á mánuði.
Sjá meira »
Gleymt lykilorð?
Auglýsing

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.