Bjarney gagnrýnir Biggest Loser „Þetta er bæði andlegt og líkamlegt ofbeldi, af hverju er þessu leyft að viðgangast?“

„Af hverju eru fyrirtæki tilbúin að leggja nafn sitt við þetta? Í hvert sinn sem opinber persóna verður uppvís að einhvers konar ofbeldi þá missir viðkomandi iðulega ansi marga, ef ekki alla sponsorana sína,“ skrifar Bjarney Bjarnadóttir íþróttafræðingur og kennari í stöðufærslu sinni á Facebook í gær. Bjarney er ein af mörgum sem gagnrýna þættina The Biggest Loser.

Er þessu leyft að viðgangast af því að fólkið er feitt?

Bjarney spyr meðal annars hvort að þessu sé leyft að viðgangast þar sem að fólkið sem keppir í þáttunum er feitt. „Þetta er eini þjóðfélagshópurinn sem fólki finnst í lagi að svona sé komið fram við því í þessum brenglaða heimi sem við búum í þá er jú fátt verra en að vera feitur!“

„Í gegnum tíðina hefur það þótt eðlilegt að fólk láti víra saman á sér kjálkann, setja blöðru í magann á sér (sem hefur nú þegar valdið 5 dauðsföllum) o.s.frv. o.s.frv. Allt til þess að reyna að grennast, þrátt fyrir að manneskjan verði ekkert endilega heilbrigðari fyrir vikið,“ segir Bjarney. „Þetta er ofbeldi og þetta er mannvonska og allar rannsóknir sem gerðar hafa verið sýna að þátttaka veldur miklum og óafturkræfum skaða.“

Þjálfarar fara þvert við það sem þeir hafa lært

Bjarney spyr sig af hverju þjálfarar þáttarins gera þvert við það sem þeir hafa lært og þau ráð sem þeir hafa gefið áður. Hún segir að enginn þjálfari með fagvitund og hagsmuni fólks að leiðarljósi myndi leggja nafn sitt við þættina. „Og við verðum að hafa hátt um þetta, það er siðferðisleg skylda okkar! Við erum að horfa á ofbeldi í beinni og því er leyft að viðgangast.“

„Sem kennari finnst mér þetta sambærilegt því að taka barn sem á erfitt með lestur upp að töflu og láta það lesa undir því yfirskini að barnið sé að æfa sig. En í raun er þetta bara niðurlægjandi fyrir barnið.“

Í lokin bendir Bjarney á tvær erlendar greinar sem fjalla um rannsókn, þar sem fylgst var með 14 fyrri keppendum The Biggest Loser og hvernig þeim farnaðist eftir þátttöku sína. Í öllum tilvikum voru þeir með hægari efnaskipti en aðrir einstaklingar á sama aldri og með svipaða líkamsgerð.

Stefanía Fjóla Elísdóttir, móðir Áka Pálssonar, sem var sendur heim úr Biggest Loser eftir annan þátt, kom í viðtal við DV síðastliðinn laugardag. Þar gagnrýndi hún þættina harðlega.

Í kjölfarið skrifaði Tara Margrét Vilhjálmsdóttir, félagsráðgjafi og formaður Samtaka um líkamsvirðingu, pistil þar sem hún gagnrýndi þættina.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.