fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fókus

„Ég hef ekkert efni á að hætta“

Ladda dreymir um lúxuslíf og myndlistarnámskeið á Spáni, en segir eftirlaunasjóði grínista ekki vera digra

Kristján Guðjónsson
Sunnudaginn 22. janúar 2017 12:05

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þótt Laddi sé fyrst og fremst þekktur sem skemmtikraftur og óumdeilanlega mesti karaktergrínisti landsins, er honum margt annað til lista lagt. Hann hefur markað spor í tónlistarsögu þjóðarinnar með ódauðlegum dægurlögum á borð við Sandalar, Búkolla og Austurstræti. Nú síðast er hann farinn að grufla af alvöru í myndlistinni – en á því sviði er honum fúlasta alvara. Laddi settist niður með Kristjáni Guðjónssyni og ræddi við hann um hvernig það er að eldast, um golfástríðuna, um íslenskt grín fyrr og nú og drauminn um að gerast myndlistarmaður á Spáni. Hér fyrir neðan birtist stutt brot úr viðtalinu.


Það eru nokkrir mánuðir síðan Laddi eignaðist sitt fyrsta barnabarnabarn og er því orðinn langafi. En hvernig finnst manninum að eldast?

„Bara frábært, já, já. En ég fór samt að velta þessu fyrir mér núna í kringum afmælið. Mér fannst svo stutt síðan ég varð sextugur. Þessi áratugur hefur verð svo fljótur að líða! Ég staldraði því aðeins við og fór að hugsa. „Vá, sjötugur, hvað er langt eftir?“ Það er nefnilega ekki svo mikið, kannski 10 eða 20 en varla 30 ár. Ég næ vonandi 10 góðum árum, en svo fer að halla undan fæti.“

Hvernig líður þér með þetta?

„Mestu áhyggjurnar eru að ég missi getuna til að spila golf. En ég sá reyndar nýlega viðtal við 88 ára gamlan mann sem var enn að spila. Hann var með 13 í forgjöf og ég er með 11 núna, þannig að ég er ekki mikið betri en hann! Ég verð rosalega sáttur ef ég verð með 13 í forgjöf á þeim aldri. En golfið heldur manni líka gangandi, heldur manni ungum. Maður labbar gríðarlega mikið, sjö kílómetra á dag, allt sumarið. Það er ástæðan fyrir því að konan mín leyfir mér að vera í golfi alveg eins og ég vil.“

En hefur þú líka farið að líta yfir farinn veg, velt fyrir þér hvort þú sért sáttur við ferilinn eða hvort það sé eitthvað sem þú sérð eftir?

„Ég er ekki beint farinn að hugsa þannig. Þessa stundina sé ég ekki eftir neinu, en kannski fer ég meira að horfa til baka þegar ég verð kominn á níræðisaldurinn. Þá getur vel verið að maður sjái eftir einhverju, en ég vona ekki. Núna horfi ég fram á veginn.“

Ég hef frétt að þú sért farinn að einbeita þér að myndlistinni í auknum mæli, er það ekki rétt?

„Já, reyndar ætlaði ég að verða myndlistarmaður þegar ég var tólf, þrettán ára. Ég og Bjarni Ragnar vinur minn stefndum báðir á það. Hann varð myndlistarmaður en ég er fyrst núna að byrja að einbeita mér að því. Ég ætla að taka myndlistina svolítið alvarlegar heldur en grínið. Það er minn draumur að fara til Spánar og fara á myndlistarnámskeið. Mig langar að gera þetta fljótlega, helst næsta vetur.“

Þannig að planið er að lifa lúxuslífi á ellilífeyrinum á Spáni?

„Ég er kominn á þann aldur að ég á að fá ellilífeyri, en ég fæ bara eiginlega ekki neitt. Maður má ekki þéna meira en einhvern hundrað þúsund kall á mánuði annars er allt tekið af, og þar sem ég hef verið svo lengi sjálfstætt starfandi þá er lífeyrissjóðurinn mjög lélegur hjá mér. Þannig að ég hef ekkert efni á að hætta.“

Þannig að fólk þarf ekki að hafa áhyggjur af því að sjá minna af þér á næstunni?

„Nei, nei. Eða kannski örlítið minna, en ég verð alltaf viðloðandi þetta, að minnsta kosti á meðan fólk vill ennþá heyra í mér og sjá.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki