fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fókus

Laddi um grínverjann: „Mér var sagt að Kínverjar á Íslandi hefðu móðgast yfir þessu“

Laddi segir húmorinn á íslandi hafa breyst mikið í gegnum tíðina

Kristján Guðjónsson
Föstudaginn 20. janúar 2017 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þótt Laddi sé fyrst og fremst þekktur sem skemmtikraftur og óumdeilanlega mesti karaktergrínisti landsins, er honum margt annað til lista lagt. Hann hefur markað spor í tónlistarsögu þjóðarinnar með ódauðlegum dægurlögum á borð við Sandalar, Búkolla og Austurstræti. Nú síðast er hann farinn að grufla af alvöru í myndlistinni – en á því sviði er honum fúlasta alvara. Laddi settist niður með Kristjáni Guðjónssyni og ræddi við hann um hvernig það er að eldast, um golfástríðuna, um íslenskt grín fyrr og nú og drauminn um að gerast myndlistarmaður á Spáni. Hér fyrir neðan birtist stutt brot úr viðtalinu.


„Ég verð að játa að ég fylgist ekki mikið með [íslensku gríni í dag] nema það sem kemur í sjónvarpi. Ég hef ekki mikið verið að fara á uppistandssýningar nema kannski Mið-Ísland til að byrja með. Mér finnst Ari Eldjárn standa upp úr, þó það séu margir mjög fínir. Þetta er orðið svo mikið – það eru allir uppistandarar í dag.“

Nú er sonur þinn, Þórhallur Þórhallsson, einmitt nokkuð áberandi uppistandari. Getur þú eitthvað sagt honum til á þeim vettvangi?

„Ég reyni að gefa honum góðar ábendingar, en sennilega fer hann ekkert eftir þeim. Ég er bara með eitthvert gamalt grín. Þetta er aðeins öðruvísi í dag. Ég er ekki beint uppistandari því ég hef alltaf notað tónlistina með, eða gert sýningar og einhvers konar kabarett. Maður er svolítið fastur í því.“

En hvernig finnst þér íslenskt grín í dag, finnst þér það fyrst og fremst vera formið sem hefur breyst, eða hefur það breyst í grunninn?

„Það er aðallega formið sem hefur breyst en svo eru það líka aðrar áherslur. Hjá þeim sem eru nýbyrjaðir er það oft svolítið mikið klám, typpi og rass. Það er svo auðvelt að fara út í það og mér finnst fólk gera of mikið af því. Ég hef einmitt verið að skamma Þórhall fyrir það! Við Halli náðum að vera alveg lausir við það – fórum aldrei út í slíkt. En kannski er þetta það sem fólkið vill í dag og það er kannski þess vegna sem ég hef ekki meiri áhuga.“

Það er áhugavert að þú segir þetta, því það er oft talað um að í dag séum við sérstaklega viðkvæm og talað um pólitískan rétttrúnað. Kannski eru aðrir hlutir sem virka. Ég velti til dæmis fyrir mé hvort að lag eins og „Hún er allt of feit“ eða karakter eins og Grínverjinn myndu ganga í dag?

„Ég er ekki viss um það. Meira að segja þegar Of feit kom út var þetta umdeilt. Ég var að árita plötur og þá kom ein kona og var alveg brjáluð. Hún sagði að ef við værum í Bandaríkjunum væri búið að kæra mig. Ég benti henni reyndar kurteisislega á að þetta væri bandarískt lag, og ég hefði hálfþýtt textann – lagið heitir „She‘s too fat for me“ – en sá söngvari var ekki settur í fangelsi. Varðandi Grínverjann þá var mér sagt að Kínverjar á Íslandi hefðu móðgast yfir þessu, þannig að ég hætti að koma fram með hann. Þetta var viðkvæmt og hvað þá heldur núna – það myndi aldrei ganga.“

Þannig að þegar grínið er farið að særa þá hættir þú?

„Já, þá stoppar maður. Þá er það ekki alveg að gera sig.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki