fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fókus

Hrund stóð uppi foreldralaus 8 ára gömul: „Ég held að ég hafi ekki einu sinni grátið“

Systkinahópnum dreift á ættingja í kjölfarið – „Svona lagað situr alltaf í manni þótt maður læri að lifa með þessu“

Auður Ösp
Fimmtudaginn 29. september 2016 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Fólk á til að taka fólkinu sínu sem sjálfsögðum hlut. Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Ég gæfi mikið fyrir eitt kvöld með mömmu minni,“ segir Hrund Briem en hún missti báða foreldra sína úr krabbameini þegar hún var barn. Lést faðir hennar þegar hún var fjögurra ára gömul og fjórum árum síðar þurfti móður hennar að lúta í lægra haldi fyrir sjúkdómnum, en hún lést úr leghálskrabbameini aðeins 39 ára gömul. Í kjölfarið þurfti að splundra systkina hópnum og fluttu þau til ættingja en Hrund gagnrýnir að ekkert kerfi hafi verið til staðar til að hjálpa þeim að takast á við breyttan veruleika.

Í viðtali við Akureyri Vikublað segir Hrund að hún eigi litlar minningar um föður sinn Eggert Briem, lækni á Dalvík sem lést þegar hún var fjögurra ára gömul. Móðir hennar hafði glímt við veikindi í töluverðan tíma áður en hún dó, en þá var Hrund sem fyrr segir 8 ára gömul.

„Heima sá maður ýmislegt sem ekkert barn á að sjá. Mamma var illa haldin og oft sótt af sjúkrabíl. Ég man til að mynda eftir því þegar hún nánast ýtti mér út til að fara í skólann. Ég skildi ekki þennan asa enda áttum við heima rétt við skólann. Þegar ég var komin að skólanum var sjúkrabílinn kominn að sækja hana.“

Hún rifjar jafnframt upp kvöldið sem móðir hennar lést. „Ég man kvöldið þegar hún lést. Það gerðist 2. nóvember. Ég man lyktina – allt. Systur mömmu voru að ræða saman inni á baði og ég fann á mér að eitthvað hafði gerst. Svo var ég kölluð inn og tilkynnt að hún væri dáin. Ég sat ofan á klósettsetunni og kyngdi kökknum. Ég held að ég hafi ekki einu sinni grátið. Mamma var búin að segja mér að þetta færi að verða búið og ég yrði að vera sterk. Það var það síðasta sem hún sagði við mig.“

Hrund og Gunnlaugur, eiginmaður hennar, ásamt börnunum, Andra, Anítu, Tuma og Dóru. Mynd/Ingi Torfi.
Hrund og Gunnlaugur, eiginmaður hennar, ásamt börnunum, Andra, Anítu, Tuma og Dóru. Mynd/Ingi Torfi.

Hrund er yngst fjögurra systkina. Í kjölfar þess að móðir Huldu lést voru systkinin send hvert á sinn staðinn, en Hrund var send til Grindavíkur til móðursystir sinnar. Hún kveðst ekki sátt við hvernig tekið var á málunum á sínum tíma. „Okkur var bara dreift á milli ættingja. Af hverju var ekki hægt að leyfa okkur að vera allavega tvö og tvö saman? Ég missti ekki bara mömmu og pabba heldur alla fjölskylduna í einu vettvangi. Við héldum sambandi fyrst um sinn en svo fjaraði það að mestu út. Við vorum öll á slæmum stað,“ segir hún og bætir einnig við að þeim systkinum hafi hvergi verið boðin andleg aðstoð.

Hrund lýsir því jafnframt hvernig það hafði djúpstæð áhrif á hana að missa fjölskyldu sína í æsku; það leiddi til þess að á fullorðnisárum bjó hún sjálf til fjölskylduna sem hún fékk aldrei að tilheyra. Hún á í dag fjögur börn með manni sínum Gunnlaugi Gunnlaugssyni.

„Þegar ég eignaðist barn fann ég loksins tilgang með lífinu – eitthvað til að lifa fyrir. Loksins var komið að einhverju. Ég hef aldrei haft löngun til að mennta mig eitthvað sérstaklega. Vinkonur mínar hafa menntað sig en ég vissi aldrei hvað mig langaði að verða. Mig langaði bara að vera mamma, eins og mamma mín,“ segir hún og bætir við: „Ég bjó mér til fjölskylduna sem ég átti ekki. Ég man ennþá tilfinninguna þegar ég fékk elsta barnið í fangið í fyrsta skiptið enda vildi ég bara fleiri og fleiri börn.“

Hún kveðst jafnframt sakna þess sem hefði getað orðið. „Svona lagað situr alltaf í manni þótt maður læri að lifa með þessu. Það þarf svo lítið til að minna mann á. Ég fann hvað mig vantaði mömmu þegar ég var ófrísk. Mér fannst ég ekki hafa neinn til að segja frá nema vinkonuna. Og það sama var þegar börnin fæddust. Svo finnst mér leiðinlegt til þess að hugsa að börnin mín vanti afa og ömmu mín megin. Ég var svo náin mínum afa og ömmu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt