fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fókus

Samkynhneigði aflraunamaðurinn: Kristján – „Fundið fyrir því að menn séu ekki vanir þessu“

Ætlar að vinna Vestfjarðavíkinginn – Glímdi við offituog þunglyndi

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 24. júlí 2016 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Einn af okkar sterkustu kraftlyftinga- og aflraunamönnum, Kristján Sindri Níelsson, er samkynhneigður og kom út úr skápnum um svipað leyti og hann var að kynnast sportinu. Hann segir íþróttina hafa verið sér sem geðlyf og hafa hjálpað honum að sigrast á þunglyndi sem hann var farinn að finna fyrir á sínum yngri árum. Í dag stefnir Kristján Sindri á að vinna Vestfjarðavíkinginn og halda ótrauður áfram í átt að sterkasta manni heims!

Aflraunir meira kikk

„Þegar ég 17 ára var ég orðinn of feitur og var þá skikkaður í Bootcamp. Þar lærði ég hvað hreyfing gerir fyrir mann og það kom mér aðeins af stað. Síðar reyndi ég að fikra mig áfram sjálfur í lyftingunum en kynntist svo þjálfara í Orkuhúsinu sem kenndi mér undirstöðurnar í hefðbundnum kraftlyftingum. Þá var ekki aftur snúið en þeir sem taka lyftingar alvarlega geta bara ekki hætt. Það er einfaldlega eitthvað við þetta sport sem gerir mann alveg sjúkan í það.“

Geturðu útskýrt muninn á kraftlyftingum og aflraunum fyrir okkur sem þekkjum lítið til?

„Já, þetta eru tvenns konar íþróttir sem eru jafn ólíkar og til dæmis körfubolti og fótbolti þó svo að í báðum greinum sé notast við bolta. Í kraftlyftingum er notast við stöng og lóð ásamt hefðbundnum æfingum líkt og bekkpressu, hnébeygju og réttstöðu. Aflraunir reyna líka á styrk en æfingarnar eru óhefðbundnar og mjög fjölbreyttar eins og að bera grjót, lyfta drumbum og draga trukka. Ég keppti í kraftlyftingum frá árinu 2011 en hætti því í fyrra og sneri mér alfarið að aflraununum því mér finnst fylgja þeim enn meira kikk!“

Kynhneigðin út fyrir kassann

Menn sem keppa í aflraunum endurspegla oft staðalmynd sterkustu manna heims. Þeir eru rosalegir, öskra og virðast stundum ógnvekjandi. Við erum að tala um menn eins og Jón Pál og Magnús Ver. Samkynhneigð er hins vegar ekki það fyrsta sem fólki dettur í hug þegar aflraunamenn eru annars vegar og því eðlilegt að spyrja Kristján Sindra hvort það hafi haft einhver áhrif á hann sem íþróttamann.

„Það er alveg rétt að það er ekki norm að vera samkynhneigður í þessum bransa og ég hef alveg fundið fyrir því. Ég hef fundið fyrir því að menn séu ekki vanir þessu og að kynhneigð mín sé út fyrir kassann í þessu samhengi. En mér finnst það allt í lagi og myndi ekkert endilega vilja hafa þetta öðruvísi. Þegar ég byrjaði að æfa aflraunir í Jakabóli var ég stundum spurður hvernig ég þorði að fara þangað og skynjaði frá hinum sem þarna voru að þetta væri ekki alveg eðlilegt. Ég hef einfaldlega ekki látið það á mig fá og hef hvorki fyrr né síðar lent í neinu alvarlegu varðandi þetta.“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Glímdi við þunglyndi

Á unglingsárunum glímdi Kristján Sindri við þunglyndi sem hann tengir bæði við offitu og það að horfast í augu við kynhneigð sína. Aðspurður hvað íþróttirnar hafa gefið honum fullyrðir hann að þær hafi klárlega útrýmt öllum slíkum einkennum.

„Þetta gefur mér svo miklu meira en bara það að vera sterkur. Lyftingarnar hafa hjálpað mér heilmikið við að líða vel og vera hress og kátur. Ég hef líka fengið mikið hrós fyrir að þora að vera í þessari íþrótt þó að ég sé samkynhneigður og það bæði gleður mig og er mér hvatning á sama tíma. Gott að finna að maður sé fyrirmynd á þessu sviði.“

Kristján Sindri er fullur eldmóðs og í sumar tekur hann þátt í fimm aflraunakeppnum sem spennandi verður að fylgjast með honum í.

„Stærsta markmiðið núna er að vinna Vestfjarðavíkinginn og ég hef tröllatrú á að ég geti það enda búinn að bæta mig mjög mikið á undanförnu ári. Svo stefni ég bara á bæta mig stöðugt og halda áfram í sportinu.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Sonur Elísu og Elíss fæddur

Sonur Elísu og Elíss fæddur
Fókus
Fyrir 2 dögum

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Bjútífilterar á samfélagsmiðlum orðnir svo lúmskir – „Þetta er ekki raunveruleikinn“

Bjútífilterar á samfélagsmiðlum orðnir svo lúmskir – „Þetta er ekki raunveruleikinn“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Faðir Olgu var einn þekktasti læknamiðill landsins – „Hann vissi allt“

Faðir Olgu var einn þekktasti læknamiðill landsins – „Hann vissi allt“